Barnasáttmálinn og réttindi barna

Skýrsla umboðsmanns barna lögð fram á barnaþingi 17. nóvember 2023

Inngangur

Samkvæmt lögum um umboðsmann barna, nr. 83/1994, ber umboðsmanni barna að boða til þings um málefni barna annað hvert ár og skulu niðurstöður og ályktanir þingsins kynntar ríkisstjórn. Þá segir enn fremur, í 6. gr. a. laganna, að á þinginu skuli fjalla um málefni barna og við upphaf þess leggi umboðsmaður fram skýrslu um stöðu þeirra. Í skýrslunni skal meðal annars fjallað um stöðu og þróun málefna barna á helstu sviðum samfélagsins, þar á meðal með hliðsjón af Barnasáttmálanum.

Jordan-whitt-FKBg2JNYFFc-unsplash_1699619065904

Á fyrsta barnaþingi, sem fram fór árið 2019, lagði umboðsmaður barna fram skýrslu um rétt barna til þátttöku, sem embættið leggur ríka áherslu á í öllu sínu starfi. Í þeirri skýrslu er fjallað um hvað felist í þátttöku barna og gerð grein fyrir þeim tækifærum sem börn hafa til þátttöku bæði á vegum stjórnvalda og skóla. Á öðru barnaþingi, sem haldið var 2022, eftir að hafa verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins, var lögð fram skýrsla á barnaþingi um réttindi barna á tímum heimsfaraldurs og hlutverk og vægi Barnasáttmálans við þær aðstæður. Heimsfaraldurinn, sem og ákvarðanir stjórnvalda um sóttvarnaraðgerðir, höfðu mikil áhrif á börn og kom þá berlega í ljós mikilvægi þess að innleitt sé með kerfisbundnum hætti mat á áhrifum á börn í allri ákvarðanatöku. Hluti þess mats er að hafa samráð við börn um ákvarðanir sem hafa áhrif á þeirra umhverfi. Reglubundið mat á áhrifum á börn er jafnframt stórt skref við innleiðingu Barnasáttmálans í íslensku samfélagi.

Í þessari skýrslu verður fjallað um stöðu barna út frá þeim verkefnum og greiningum á réttindum barna sem umboðsmaður barna hefur unnið að á síðustu misserum og lúta að innleiðingu Barnasáttmálans og stöðu viðkvæmra hópa barna í íslensku samfélagi.

Kelly-sikkema-Npj_sWuRw68-unsplash_1699619065950

Næsti kafli fjallar um mat á því sem barni er fyrir bestu. Þar er gerð grein fyrir niðurstöðum könnunar sem embættið gerði á síðasta ári um innleiðingu Barnasáttmálans hjá ráðuneytum og opinberum stofnunum og sérstaklega er fjallað um upplýsingagjöf og samráð við börn í því samhengi. Þá hefur embættið þýtt og staðfært leiðbeiningar um mat á áhrifum á börn. Það er von umboðsmanns barna að leiðbeiningarnar nái að festast í sessi og verði gagnlegar við að innleiða mat á áhrifum á börn fyrir alla þá sem vinna að málefnum barna í íslensku samfélagi. Kaflinn þar á eftir fjallar um bið barna eftir þjónustu. Embættið hefur nú í tvö ár birt með reglubundnum hætti upplýsingar um stöðuna á hverjum tíma. Í kafla um kvörtunarleiðir og barnvæna réttarvörslu er gerð grein fyrir réttindagæslu umboðsmanns barna, sem er tímabundið verkefni sem embættið hefur sinnt. Einnig er, í þeim kafla, fjallað um valfrjálsa bókun við Barnasáttmálann um sjálfstæða kæruleið til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og barnvæna réttarvörslu. Í kafla um netið, samfélagsmiðla og börn er fjallað um könnun sem embættið gerði varðandi reglur um símanotkun í grunnskólum og stuttlega gerð grein fyrir leiðbeiningum sem embættið vann ásamt Persónuvernd og Fjölmiðlanefnd um persónuvernd barna. Að lokum er, í kafla um lýðræðislega þátttöku barna, fjallað um þátttöku barna, einkum út frá barnaþingi og ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Við ritun skýrslunnar hafa athugasemdir sem barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna lagði fram við sameinaðar 5. og 6. skýrslur Íslands, og birtar voru í júní 2022, verið hafðar til hliðsjónar, enda kallast þær á við flest þau verkefni sem umboðsmaður barna hefur unnið að á undanförnum árum. Þá er umræða um tiltekin efni tengd við einstakar greinar Barnasáttmálans eins og við á.

Hlutverk umboðsmanns barna

Samkvæmt lögum um umboðsmann barna er hlutverk umboðsmanns barna að vinna að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Að því markmiði vinnur umboðsmaður barna m.a. með því að setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins.

verkefni umboðsmanns barna felast meðal annars í að...

 

  • Hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna
  • Fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans, veita börnum og fullorðnum fræðslu um sáttmálann og stuðla að því að hann og aðrir alþjóðasamningar sem varða réttindi og velferð barna séu virtir
  • Setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins
  • Afla og miðla gögnum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna
  • Stuðla að þátttöku barna í samfélagslegri umræðu og stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum barna hjá ríki og sveitarfélögum
  • Stuðla að því að kynna fyrir almenningi löggjöf og aðrar réttarreglur sem varða börn og beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á því sviði

Árið 2018 setti embættið sér stefnu til 2025 þar sem skilgreindar eru þrjár megináherslur embættisins. Þær eru Barnasáttmálinn, þátttaka barna og framsækni. Áherslurnar voru skilgreindar út frá þeirri framtíðarsýn að réttindi barna njóti víðtækrar virðingar og séu sjálfsagður hluti af allri stefnumótun og ákvörðunum.

Mynd með skýrslu

Barnasáttmálinn

Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á degi mannréttinda barna, þann 20. nóvember árið 1989. Ísland undirritaði sáttmálann árið 1990 og hann var fullgiltur af hálfu Íslands árið 1992. Markaði það mikilvæg tímamót að því leyti að um er að ræða fyrsta alþjóðasamninginn sem varðar eingöngu réttindi barna, og er Barnasáttmálinn sá mannréttindasamningur sem flest ríki heims hafa fullgilt.

Barnasáttmálinn var lögfestur á Íslandi með lögum nr. 19/2013. Með lögfestingu öðlaðist samningurinn stöðu almennra laga og er því stjórnvöldum og dómstólum skylt að taka mið af honum við úrlausnir sem varða börn.

Í Barnasáttmálanum felst alþjóðleg viðurkenning á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi. Barnasáttmálinn hefur að geyma víðtæk réttindi og kveður á um vernd grundvallarmannréttinda barna, svo sem réttinn til lífs, friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis. Jafnframt leggur hann skyldur á aðildarríkin til að grípa til aðgerða til að tryggja þau réttindi. Öll ákvæði Barnasáttmálans eru jafn mikilvæg, en þó fela fjórar greinar sáttmálans, 2., 3., 6. og 12. grein, í sér svokallaðar grundvallarreglur sem leggja ber til grundvallar við túlkun annarra ákvæða hans.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna var sett á stofn til þess að hafa eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans hjá aðildarríkjum hans. Einnig veitir nefndin leiðbeiningar um túlkun og beitingu sáttmálans. Aðildarríkin skila nefndinni reglulega skýrslu um framkvæmd og innleiðingu samningsins. Nefndin fer yfir skýrsluna og aflar frekari upplýsinga um ástand mála í viðkomandi ríki. Upplýsingarnar fær hún einnig frá óháðum félaga- og mannréttindasamtökum og umboðsmanni barna. Ferlinu líkur með því að barnaréttarnefndin gefur út lokaathugasemdir við skýrslu viðkomandi aðildarríkis.

Íslenska ríkið hefur frá árinu 1994 skilað 6 skýrslum til barnaréttarnefndarinnar, nú síðast vorið 2020. 

 

Til baka í efnisyfirlit


Mat á því sem er barni fyrir bestu

3. gr. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.

Samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans ber ávallt að leggja mat á það hvað er barni fyrir bestu við alla ákvarðanatöku eða ráðstafanir sem varða börn. Það ber að gera óháð því hvort áhrifin eru bein eða óbein. Mat á því sem er barni fyrir bestu á ávallt að liggja til grundvallar ákvarðanatöku af hálfu hins opinbera. Slíkt mat ber að framkvæma áður en ráðist er í aðgerðir sem varða börn með einum eða öðrum hætti.

Liana-mikah-t2ODooWyQWI-unsplash_1699619065903

Í lokaathugasemdum barnaréttarnefndarinnar til Íslands vegna sameinaðra 5. og 6. skýrslu Íslands til nefndarinnar kemur fram að þó 3. gr. Barnasáttmálans hafi verið lögfest hafi nefndin áhyggjur af ómarkvissri beitingu þessarar grundvallarreglu við meðferð mála hjá stjórnsýslunni og dómstólum. Þá skortir einnig, að mati nefndarinnar, fullnægjandi þekkingu á reglunni meðal starfsfólks sem vinnur með börnum.

Í stefnu um Barnvænt Ísland, sem samþykkt var á Alþingi árið 2021, kemur fram sérstakt markmið um barnvæna stjórnsýslu sem ætlað er að mæta þessum athugasemdum barnaréttarnefndarinnar. Kveðið er á um barnvæna stjórnsýslu þar sem „aðgengi barna að stjórnvöldum verði tryggt og upplýsingar settar fram á barnvænan hátt.“ Aðgerðir til að stuðla að barnvænni stjórnsýslu eru meðal annars að samráðsgátt stjórnvalda verði gerð barnvæn. Einnig var umboðsmanni barna falið að gera reglulega könnun á innleiðingu Barnasáttmálans hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum.

Af þeirri könnun og einnig ýmsum ábendingum, sem umboðsmanni barna hefur borist, má ráða að stjórnvöld þurfa að gera enn betur í að tryggja aðgengi barna að opinberum stofnunum og stjórnsýslu.

Þá er einnig brýnt að innleiða með kerfisbundnum hætti í íslenska stjórnsýslu sérstakt mat á því sem er barni fyrir bestu þegar taka á ákvörðun eða ráðast á í aðgerðir sem varða börn, með beinum eða óbeinum hætti. Umboðsmaður barna hefur á síðustu árum ítrekað kallað eftir því að stjórnvöld innleiði slíkt mat á áhrifum á börn. Þá hefur embættið í ýmsum bréfum og erindum til Stjórnarráðsins og sveitarfélaga á síðustu árum óskað eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig mat á áhrifum á börn hafi farið fram við tilteknar ákvarðanir.

Í skýrslu embættisins fyrir barnaþing 2022 var farið ítarlega yfir stöðu barna í heimsfaraldri og rakin samskipti embættisins við stjórnvöld á því tímabili. Sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda voru mjög íþyngjandi fyrir börn þar sem skólastarf, tómstundir og félagslíf fór verulega úr skorðum á tímabilinu. Ljóst má vera að hefði mat á áhrifum á börn verið hluti af allri ákvarðanatöku á því tímabili, sem felur meðal annars í sér að haft sé samráð við börn eins og kostur er, hefði það getað dregið úr margvíslegum neikvæðum áhrifum á börn á þessu tímabili.

Könnun til opinberra stofnana um innleiðingu Barnasáttmálans

Í október 2022 sendi umboðsmaður barna bréf til allra ráðuneyta og ríkisstofnana, með beiðni um þátttöku í könnun um innleiðingu Barnasáttmálans. Þetta er í annað sinn sem könnunin er framkvæmd en það var fyrst gert í janúar 2020. Með því að endurtaka könnunina með reglubundnum hætti er hægt að bera saman niðurstöður og leggja mat á þær breytingar sem verða á starfsemi stofnana og ráðuneyta er miða að innleiðingu Barnasáttmálans. Þannig er könnunin einnig liður í því að meta ávinning af lögfestingu Barnasáttmálans.

Meginmarkmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um stöðu innleiðingar Barnasáttmálans í íslenskri stjórnsýslu og fyrirkomulag samráðs stofnana við börn. Markmiðið er jafnframt að fá yfirlit yfir þekkingu og vitund opinberra starfsmanna um sáttmálann og þau réttindi sem þar er kveðið á um. Könnunin var send til 152 stofnana en af þeim voru 89 sem svöruðu könnuninni, eða 58% svarhlutfall. Fleiri svör bárust þegar könnunin var lögð fyrir árið 2020 en þá var hún send til 155 stofnana og bárust 132 svör, eða 85% svarhlutfall.

Af niðurstöðum könnunarinnar má ráða að áhuga er að finna meðal stofnana og ráðuneyta að taka næstu skref í innleiðingu Barnasáttmálans og að ákall er eftir fræðslu og leiðbeiningum sem gera þeim kleift að stíga þau skref. 

Mynd 1.4. áhugi á kynningu

Mynd 1: Er áhugi á að fá frekari kynningu á efni Barnasáttmálans?

Mynd 1.2 Fræðsla og kynning

Mynd 2: Starfsmenn hafa fengið fræðslu eða kynningu á efni Barnasáttmálans


Könnunin virðist hafa vakið starfsfólk margra stofnana til umhugsunar um þá þætti starfseminnar sem snúa beinlínis að börnum eða varða þau með óbeinum hætti og er það afar jákvætt. Í einhverjum tilvikum gáfu svör til kynna að könnunin hafi þegar orðið hvati að umræðum hjá stofnunum um frekari aðgerðir sem miða að innleiðingu Barnasáttmálans og aukinni þátttöku barna.

Niðurstöður könnunarinnar gefa ótvírætt tilefni til að taka sérstaklega til skoðunar tiltekna þætti eins og fræðslu til starfsfólks og forsvarsmanna stofnana um Barnasáttmálans. Þá er einnig brýnt að efla þjálfun starfsfólks í því að vinna með og eiga í samskiptum við börn, sem er einn lykilþáttur í áframhaldandi innleiðingu Barnasáttmálans.

Ljóst er að vinna þarf að innleiðingu Barnasáttmálans með samræmdum og markvissum hætti. Þá þarf að leita frekari leiða til samstarfs og innleiða ferla og verklagsreglur sem tryggja að ávallt fari fram mat á hagsmunum barna þegar við á og að þátttaka barna sé tryggð í málum sem varða þau. Embætti umboðsmanns barna hyggst fylgja þessari skýrslu eftir með áframhaldandi samtali við ríkisstofnanir. Könnunin verður framkvæmd með reglubundnum hætti til þess að hægt sé að fylgjast með innleiðingu Barnasáttmálans og leggja mat á nauðsynlegar aðgerðir.

Barn að leika við kött

Kerfisbundið mat á áhrifum á börn

Með það að markmiði að auka þekkingu innan stjórnsýslunnar á 3. gr. Barnasáttmálans og auðvelda starfsfólki að leggja mat á það sem er barni fyrir bestu hefur embætti umboðsmanns barna gefið út leiðbeiningar um hvernig eigi að framkvæma slíkt mat þegar taka á ákvörðun eða ráðast á í aðgerðir sem varða börn með beinum eða óbeinum hætti. Leiðbeiningarnar eiga einnig að tryggja að börn fái tækifæri til að tjá skoðanir sínar og tekið sé mið af þeim.

Leiðbeiningarnar sem um ræðir voru þýddar og staðfærðar með góðfúslegu leyfi frá umboðsmanni barna í Svíþjóð. Leiðbeiningarnar er einnig hægt að staðfæra yfir á tiltekna starfsemi til þess að samhæfa og auðvelda vinnu við framkvæmd matsins til frambúðar. Matið samanstendur af átta þáttum sem nauðsynlegt er að litið sé til við mat á því sem er barni fyrir bestu. Með útgáfu leiðbeininganna er þannig leitast við að tryggja að skilyrðum 3. gr. Barnasáttmálans sé fullnægt.

Um er að ræða verkfæri sem leiðir þann sem matið framkvæmir í gegnum tiltekin skref í því skyni að meta áhrifin á börn. Við matið er gerður greinarmunur á því hvort aðgerð snertir börn með almennum hætti, t.d. við setningu laga og reglugerða, eða einstök börn eða afmarkaðan hóp barna, t.d. þegar um er að ræða barnaverndarmál, ákvarðanir sem teknar eru í skólum o.s.frv. Umfang matsins ræðst af eðli máls hverju sinni og hversu miklum áhrifum á börn má gera ráð fyrir. Meðal þess sem nauðsynlegt er að leggja sérstakt mat á er hvaða réttindi barna koma til álita og hvernig umrædd ákvörðun eða aðgerð hefur áhrif á þau réttindi. Einnig er vísað til almennra athugasemda barnaréttarnefndarinnar, sem oft á tíðum getur verið nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar við mat á því sem er barni fyrir bestu.

Upplýsingagjöf til barna

Mikilvægur þáttur í innleiðingu Barnasáttmálans er að auka upplýsingagjöf til barna og aðgengi þeirra að stofnunum samfélagsins. Í niðurstöðum áðurnefndrar könnunar um innleiðingu Barnasáttmálans kemur fram að einungis 11% stofnana eru með texta á vefsíðum sínum sem eru á einföldu máli sem börn skilja og einungis 18% stofnana hafa gefið út kynningarefni sem er barnvænt. Við vinnslu og framsetningu kynningar- og fræðsluefnis, sem og efnis á vefsíðum stofnana, þarf að huga að því að gera í það minnsta hluta efnisins aðgengilegt börnum. Það er liður í því að börn geti sjálfstætt og á eigin forsendum leitað sér upplýsinga um eigin réttindi, þjónustu og önnur tiltæk úrræði. Þá ber að líta til þess að upplýsingaefni sem er á einföldu og auðskildu máli nýtist jafnframt öðrum hópum og því getur ávinningurinn af því að setja fram efni með þessum hætti orðið margfaldur.

Í skýrslu sem embætti umboðsmanns barna lét vinna um börn sem eiga foreldra í fangelsum kom berlega í ljós að börn fanga hafa lítil sem engin tök á að leita sér upplýsinga á opinberum vefsíðum um fangavist, aðbúnað, heimsóknartíma o.s.frv. og er fangelsiskerfið þeim afar óaðgengilegt á allan hátt. Betri upplýsingagjöf til barna í þessari stöðu er meðal þess sem embættið telur brýnt að setja í forgang.

Daiga-ellaby-Ny1vyUgidMg-unsplash_1699619065842

Þá hafa ítrekað borist erindi til umboðsmanns þar sem kemur fram að upplýsingagjöf til barna sé ábótavant. Má þar nefna upplýsingar um rétt barna innan réttarvörslukerfisins, um barnavernd og úrræði innan þessara kerfa. Í þessu samhengi má benda á að í leiðbeiningum umboðsmanns barna um mat á því sem er barni fyrir bestu er áhersla lögð á að huga sérstaklega að upplýsingagjöf til barna.

Samráð við börn

Barnaréttarnefndin leggur í athugasemdum sínum áherslu á að stjórnvöld tryggi að börn geti komið skoðunum sínum á framfæri við töku ákvarðana sem hafa áhrif á þau og að tekið sé mið af skoðunum þeirra þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Einnig leggur nefndin áherslu á að börn komi að stefnumótun og ákvörðunum á vettvangi sveitarfélaga og á landsvísu. Þá hvetur nefndin til þátttöku yngri barna.

Umboðsmaður barna hefur ítrekað gert athugasemdir við skort á samráði við börn við ákvarðanatöku sem þau varðar. Má sem dæmi nefna ákvarðanatöku um tilhögun skólastarfs og sameiningu skólastofnana.

Í tillögu til þingsályktunar um barnvænt Ísland er fyrsta markmið ályktunarinnar að „börn taki virkan þátt í ákvarðanatöku og að stjórnvöld eigi markvisst og reglulegt samráð við börn.“ Þá var í ályktuninni gert ráð fyrir að rafrænn þátttökuvettvangur yrði settur á fót til að styrkja samskipti barna og stjórnvalda fyrir árið 2022. Slíkur vettvangur hefur ekki enn orðið að veruleika.

Mikilvægt er að fjölbreyttar leiðir séu viðhafðar til samráðs við börn og einnig er mikilvægt að huga að samsetningu þeirra barna sem taka að jafnaði þátt í samráði, aldri þeirra, búsetu og stöðu. Þá hefur umboðsmaður barna lagt áherslu á að ekki sé blandað saman þátttöku barna og þeirra sem eldri eru og hafa fleiri tækifæri til þess að hafa áhrif m.a. með því að nýta kosningarétt.

Aldur barna í ungmennaráðum

Eitt mikilvægasta samráð stjórnvalda við börn er í gegnum ungmennaráð sveitarfélaga en skv. 11. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007, er sveitarfélögum skylt að hlutast til um að slík ráð séu stofnuð. Langflest sveitarfélög hafa ungmennaráð. Flest þeirra eru mjög virk og hafa haft tök á að hafa raunveruleg áhrif.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að æskulýðslögum kemur fram um 11. gr. að ungmennaráðum sveitarfélaga er einkum ætlað að gefa börnum sem ekki hafa kosningarétt og geta ekki gefið kost á sér til framboðs í sveitarstjórnarkosningum, tækifæri til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku í eigin nærsamfélagi og þar með hafa áhrif á eigið líf, umhverfi og framtíð.

Í rannsókn sem gerð var árið 2020 um ungmennaráð sveitarfélaga, og styrkt var af umboðsmanni barna, kom fram að 44 af 51 ungmennaráði í sveitarfélögum landsins eru skipuð, að hluta til eða jafnvel að öllu leyti, ungu fólki sem orðið er 18 ára. Í bréfi sem umboðsmaður barna sendi sveitarfélögum þann 26. ágúst 2020 af þessu tilefni beindi embættið þeim tilmælum til sveitarfélaga að líta til markmiðs æskulýðslaga um hlutverk og tilgang ungmennaráða og tryggja að í ungmennaráðum eigi eingöngu sæti fulltrúar ungmenna í sveitarfélaginu undir 18 ára aldri. Í bréfinu var tekið fram að mikilvægt væri að ungmenni og ungt fólk eigi með sér samtal og samvinnu á vettvangi félagsstarfs enda ljóst að í mörgum tilvikum fara hagsmunir þeirra saman. Að mati umboðsmanns barna gildir þó öðru máli um ungmennaráð sveitarfélaga enda væri tilgangur þeirra fyrst og fremst að tryggja áhrif ungmenna sem ekki hafa kosningarétt. Þá væri ljóst að í ungmennaráðum með breiðri aldurssamsetningu væri ákveðin hætta á því að hagsmunir yngri hópsins fengju minna vægi enda gæti það reynst börnum erfitt að láta til sín taka í félagsstarfi með fullorðnu fólki þar sem til staðar er augljós aðstöðumunur sem felst í auknum þroska og lífsreynslu þeirra fullorðnu. 

Til baka í efnisyfirlit

Bið barna eftir þjónustu

Eitt af lögbundnum hlutverkum umboðsmanns barna er að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna í samvinnu við ýmsa aðila. Hluti af þeirri vinnu er að gera aðgengilegar á einum stað upplýsingar um þann fjölda barna sem bíður eftir tiltekinni þjónustu hverju sinni. Umboðsmaður barna safnar og birtir upplýsingar um bið barna eftir þjónustu hjá tilteknum aðilum á sex mánaða fresti. Upplýsingunum var fyrst safnað í árslok 2021. Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barna- og fjölskyldustofa, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsumiðstöð barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna- og unglingageðdeild LSH, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Heilsuskóli Barnaspítalans. Það er von umboðsmanns barna að birting upplýsinganna varpi ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvatning til aðgerða og úrbóta. Söfnun og birting upplýsinganna er jafnframt liður í því hlutverki umboðsmanns að stuðla að innleiðingu Barnasáttmálans.

Samkvæmt 24. gr. Barnasáttmálans eiga börn rétt á að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja og ber aðildarríkjum sáttmálans að kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu. Íslenska ríkinu ber jafnframt að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þess að ná eðlilegum þroska, sbr. 6. gr. Barnasáttmálans.

Líkt og áður hefur komið fram er ekkert ákvæði Barnasáttmálans rétthærra en annað og öll þau réttindi sem þar er kveðið á um eru jafn mikilvæg. Barnaréttarnefndin hefur hins vegar skilgreint 2., 3., 6. og 12 grein. sem meginreglur Barnasáttmálans sem leggja þurfi til grundvallar við túlkun annarra ákvæða hans. 

Réttindi barna

2. gr. Barnasáttmálans – Jafnræði og bann við mismunun

Öllum börnum innan lögsögu aðildarríkis skulu tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í Barnasáttmálanum, án mismununar af nokkru tagi. Öll börn eiga rétt á að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja og koma þarf í veg fyrir að börnum sé mismunað þannig að þau njóti ekki þessara réttinda til jafns við önnur börn.

3. gr. Barnasáttmálans – Það sem er barni fyrir bestu

Ávallt skal taka mið af því sem er barni fyrir bestu þegar yfirvöld taka ákvarðanir eða gera ráðstafanir sem varða börn. Þessi meginregla á að vera útgangspunktur allra ákvarðana sem tengjast heilsuvernd barna, hvort sem um er að ræða einstakt barn eða hóp barna.

6. gr. Barnasáttmálans – Réttur til lífs og þroska

Öll börn eiga rétt til lífs og þroska. Túlka ber hugtakið þroski í sinni víðustu merkingu sem heildrænt hugtak. Í því felst að barn á rétt á að ná líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska.

12. gr. Barnasáttmálans – Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif

Tryggja ber barni rétt til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar, og taka skal réttmætt tillit til skoðana barns í samræmi við aldur þess og þroska. Börn eiga þannig alltaf að fá að tjá sig um atriði er tengjast heilsuvernd þeirra, svo sem heilbrigðisþjónustu, hvort umrædd þjónusta nýtist þeim og hvernig hægt sé að bæta hana.

Barn situr við vegg

Geðheilbrigði

Barnaréttarnefndin hefur endurtekið lýst yfir áhyggjum vegna stöðu geðheilbrigðismála hjá börnum á Íslandi. Í lokaathugasemdum barnaréttarnefndarinnar frá 2011, vegna 3. og 4. skýrslu Íslands, lýsti nefndin yfir áhyggjum af löngum biðlistum eftir geðheilbrigðisþjónustu og beindi því til Íslands að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn. Sambærilegar athugasemdir komu fram í lokaathugasemdum nefndarinnar árið 2022 vegna 5. og 6. skýrslu Íslands. Þar kemur fram að nefndin hafi áhyggjur af löngum biðlistum barna sem leita eftir geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi og beindi nefndin því til ríkisins að styrkja geðheilbrigðisþjónustu og áætlanir fyrir börn, þ.á.m. með því að bæta samhæfingu milli sveitarfélaga og viðeigandi ráðuneyta, þ.m.t. félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og mennta- og barnamálaráðuneytisins, í því skyni að veita geðheilbrigðisþjónustu á öllum skólastigum. Þá þurfi jafnframt að tryggja að fjöldi menntaðra heilbrigðisstarfsmanna, þ.m.t. barnasálfræðinga og geðlækna, sé nægur til þess að mæta geðheilbrigðisþörfum barna tímanlega.

Börn og ungmenni hafa sjálf kallað eftir því að úrbætur verði gerðar á geðheilbrigðsþjónustu barna. Á barnaþingi árið 2019 og 2022 lögðu barnaþingmenn m.a. áherslu á að börn eigi að hafa greiðan aðgang að sálfræðingum og mikilvægi þess að börn þurfi ekki að bíða eftir þjónustu þeirra.

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna

Markmið laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er m.a. að skapa aðstæður til þess að hægt sé að bregðast fyrr við þörfum barna fyrir stuðning. Í greinargerð laganna er töluvert fjallað um mikilvægi snemmtæks stuðnings m.a. til þess að hægt sé að fyrirbyggja að vandi barna verði umfangsmeiri. Það er ljóst að ef lög um samþætta þjónustu á að geta náð markmiðum er snúa að snemmtækum stuðningi þarf að koma í veg fyrir að langir biðlistar myndist eftir þjónustu, en það er nú þegar ein helsta fyrirstaða þess að börn fái þann stuðning sem þau þurfa á að halda þegar þörf eftir slíkum stuðningi skapast.

Fjármálaáætlun 2023 – 2027 / 2024 – 2028

Í umfjöllun um stuðning við börn í fjármálaáætlun 2023 – 2027 er vísað til þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé kveðið á um að tryggja þurfi að börn og barnafjölskyldur fái nauðsynlega þjónustu innan tiltekins ásættanlegs biðtíma. Bið barna og fjölskyldna þeirra eftir fullnægjandi þjónustu og úrræðum geti haft veruleg áhrif á farsæld barns og velsæld fjölskyldu. Í áætluninni er sett það viðmið að mesti biðtími 2-6 ára barna eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð verði 16 mánuðir árið 2023 og 12 mánuðir árið 2027. Í fjármálaáætlun 2024 – 2028 er sett það markmið að bið eftir slíkri greiningu verði 17 mánuðir árið 2024 og 12 mánuðir árið 2028. Einnig eru sett viðmið varðandi biðtíma eftir þjónustu Barnahúss. Þar er viðmiðið fjórir mánuðir fyrir árið 2024 og 2 mánuðir fyrir 2028. Í fjármálaáætlun eru ekki sett viðmið fyrir aðra þjónustu sem börn bíða eftir.

Samanburður á bið barna eftir þjónustu milli ára

Heilsuskóli Barnaspítalans

Heilsuskóli Barnaspítalans hefur starfað frá árinu 2011. Heilsuskólinn þjónar öllu landinu og aðstoðar börn sem eru 2,5 staðalfrávikum fyrir ofan meðalkúrfu í BMI og börn sem hafa þyngst mikið á stuttum tíma. Í Heilsuskólanum eru fjölskyldum kenndar aðferðir til að takast á við þyngdarstjórnun og viðhalda breytingum ásamt því að bæta lífsgæði til lengri tíma. Leitast er við að hvetja börnin áfram með styðjandi hætti ásamt því að veita ráðgjöf um mataræði og hreyfingu.

Umboðsmaður barna birti fyrst upplýsingar frá Heilsuskólanum í ágúst 2022. Þá biðu 110 börn eftir þjónustu Heilsuskólans, meðalbiðtími var 17 mánuðir og höfðu 100 börn beðið lengur en 3 mánuði. Í ágúst 2023 biðu 125 börn, meðalbiðtími var 20,54 mánuðir og 108 börn höfðu beðið lengur en 3 mánuði. 

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Umboðsmaður barna birti fyrst upplýsingar um biðtíma barna eftir sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík, Mosfellsbær, Kópavogur, Hafnafjörður, Garðabær og Seltjarnarnes) í ágúst 2022. Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum veita börnum meðferð vegna hegðunar- og tilfinningavanda ásamt því að veita foreldrum þeirra ráðgjöf.

 Mynd með skýrslu

Mynd 3: Meðalbiðtími eftir þjónustu sálfræðinga, í dögum talið 


Í ágúst 2022 biðu 618 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, meðalbiðtími var 168 dagar og 486 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Í febrúar 2023 biðu 547 börn, meðalbiðtími var 206 dagar og höfðu 353 börn beðið lengur en þrjá mánuði. Í ágúst 2023 biðu 386 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, meðalbiðtími var 210 dagar og höfðu 305 börn beðið lengur en 90 daga.

Þeim börnum sem bíða eftir því að komast að hjá sálfræðingi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur fækkað frá því umboðsmaður safnaði fyrst upplýsingum frá heilsugæslunni í ágúst 2022, þá biðu 618 börn en í ágúst 2023 biðu 386 börn eftir að komast að hjá heilsugæslunni.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu

Umboðsmaður barna hefur birt upplýsingar frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu frá því í desember 2021. Annars vegar eru birtar upplýsingar um mál sem stofnað hefur verið til á grundvelli barnalaga eða hjúskaparlaga og bíða meðferðar. Börn eru ekki aðilar þessara mála í skilningi stjórnsýslunnar, en málin varða hagsmuni þeirra. Hér er m.a. um að ræða erindi foreldra um framfærslu barna, umgengni, sambúðarslit, skilnað, skipta búsetu, forsjá, lögheimili eða utanlandsferðir. Við meðferð slíkra mála kann að reyna á sáttameðferð, ráðgjöf og fleiri úrræði samkvæmt barnalögum. Þá eru einnig meðhöndluð mál sem varða hagsmuni barna á grundvelli ættleiðingarlaga og lögræðislaga.

Hins vegar er um að ræða mál þar sem börn bíða eftir þjónustu á grundvelli 33. gr. b, 46. gr. b, eða 73. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 46. gr. b, barnalaga ber sýslumanni að bregðast við ef barn missir foreldri sitt. Ber sýslumanni að kanna tengsl barns við vandamenn, veita barni og forsjáraðila tækifæri til að mæta á fund sýslumanns og veita leiðbeiningar um umgengnisrétt. Ákvæði þetta kom inn í barnalög með l. 50/2019 en ekki fylgdi fjármagn með verkefninu. Í reglugerð nr. 1450/2021, sem tók gildi 1. janúar 2022, voru settar reglur um framkvæmd þjónustunnar. Samkvæmt 74. gr. barnalaga getur sýslumaður óskað eftir því við sérfræðing að taka viðtal við barn og gera um það skýrslu. Það skal tekið fram að hér er um að ræða mál alls landsins. Samkvæmt 33. gr. b barnalaga getur barn óskað þess að sýslumaður bjóði foreldrum samtal um fyrirkomulag forsjár, lögheimilis búsetu og umgengni.

Í desember 2021 biðu 26 mál meðferðar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli barnalaga og hjúskaparlaga. Í september 2022 hafði þessum málum fjölgað töluvert en þá biðu 244 mál, í febrúar 2023 voru málin 175 og í ágúst 2023 voru þau 265. Meðalbiðtími þessara mála hefur lengst, hann var hálfur mánuður í desember 2021 og september 2022 en 3,5 mánuðir í febrúar 2023 og ágúst 2023.

 

Mynd með skýrslu

Mynd 4: Mál sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli barnalaga og hjúskaparlaga

Fjöldi mála þar sem börn eiga í hlut og beðið var sáttameðferðar hjá sýslumönnum á öllu landinu hefur tekið nokkrum breytingum frá því í desember 2021. Þá biðu 96 mál meðferðar, í september 2022 voru málin 6, í febrúar 2023 voru þau 58 og 102 í ágúst 2023.

Sáttameðferð

Mynd 5: Biðtími eftir sáttarmeðferð hjá öllum sýslumönnum

Langur biðtími hefur verið eftir afgreiðslu mála hjá fjölskyldusviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem varða umgengni, forsjá og lögheimili barns. Árið 2018 gerði umboðsmaður barna athugasemd við þennan langa biðtíma. Í erindi umboðsmanns til dómsmálaráðuneytisins kom fram að umboðsmaður hafi fengið fjölda ábendinga frá einstaklingum sem séu aðilar að málum sem bíði úrskurðar sýslumanns og hafi lýst yfir áhyggjum vegna stöðunnar. Í erindi sínu áréttaði umboðsmaður að langur biðtími geti valdið þeim börnum sem í hlut eiga mikilli vanlíðan og kvíða en einnig geti það orðið til þess að ágreiningur milli foreldra vaxi og málin verði þannig erfiðari úrlausnar þegar þau koma loks til meðferðar. Þá sé einnig ljóst að langur biðtími auki álag á starfsfólk sýslumannsembætta sem sinni mikilvægum verkefnum í þágu fjölskyldna í viðkvæmri stöðu. Umboðsmaður barna skoraði á dómsmálaráðherra að grípa til tafarlausra aðgerða í því skyni að stytta þann langa biðtíma sem hafði myndast hjá fjölskyldusviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og setja þannig hagsmuni barna í forgang.

Í lokaathugasemdum barnaréttarnefndarinnar til Íslands vegna 5. og 6. skýrslu Íslands um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 2022 kemur fram að nefndin hafi áhyggjur af því að langir biðlistar séu eftir ýmissi þjónustu sem tefji aðgang að viðhlítandi stuðningi. Nefndin lýsti sérstaklega yfir áhyggjum af löngum biðtíma að því er varðar meðferð skilnaðar- og forsjármála. Í lokaathugasemdunum mælist nefndin til þess að Ísland tryggi að forsjármál og önnur fjölskyldumál fái skjóta meðferð, m.a. með því að auka fjölda starfsmanna sem hafa fengið faglega starfsþjálfun og tryggi að bæði foreldrar og börn fái nægilega ráðgjöf og annan stuðning. 

Geðheilsumiðstöð barna

Geðheilsumiðstöð barna veitir 2. stigs heilbrigðisþjónustu á landsvísu fyrir börn að 18 ára aldri. Miðstöðin sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga.

Þeim börnum sem bíða eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna hefur fjölgað töluvert frá því umboðsmaður barna kallaði fyrst eftir upplýsingum um bið barna eftir þjónustu í desember 2021 en þá biðu 738 börn eftir þjónustu Geðheilsumiðstöðvar. Í ágúst 2023 biðu hins vegar 1662 börn, þar af höfðu 1623 börn beðið lengur en þrjá mánuði. 

6-18 ára sem bíða eftir greiningu

Mynd 6: Fjöldi 6-18 ára barna sem bíða eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna

Ráðgjafar- og greiningarstöð

Hlutverk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar sem leitt geta til fötlunar síðar á ævinni fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra. Í desember 2021 biðu 226 börn eftir þverfaglegri greiningu á sviði yngri barna (0-6 ára) og 100 á sviði eldri barna (6-18 ára). Meðalbiðtími var 19 mánuðir fyrir yngri hópinn og 12 – 14 mánuðir fyrir eldri hópinn. Í ágúst 2023 biðu 322 börn á á sviði yngri barna og meðalbiðtími var 17,6 mánuður, 284 börn höfði beðið lengur en þrjá mánuði. Jafnframt biðu 200 börn á sviði eldri barna og var meðalbiðtími í þeim aldurshópi 16 mánuðir en 150 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Heildarfjöldi barna sem biðu eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð fjölgaði úr 326 börnum í desember 2021 yfir í 522 börn í ágúst 2023.

yngri barna-svið 0-6 ára

Mynd 7: Fjöldi barna sem bíður eftir greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningastöð (yngri barna-svið)

Eldri barna-svið 6-18 ára

Mynd 8: Fjöldi barna sem bíður eftir greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningastöð (eldri barna-svið)

Meðalbiðtími í mánuðum

Mynd 9: Meðalbiðtími í mánuðum eftir greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð  

Barna og unglingageðdeild LSH

Göngudeild barna- og unglingageðdeildar (BUGL) veitir börnum og unglingum að 18 ára aldri þjónustu vegna geð- og þroskaraskana.

Börnum sem bíða eftir þjónustu hjá BUGL hefur fækkað frá því tölum var fyrst safnað af umboðsmanni barna í desember 2021 þá biðu 133 börn en í ágúst 2023 biðu 67 börn. Í ágúst 2023 var meðalbiðtími 5,6 mánuðir og höfðu 42 börn beðið lengur en þrjá mánuði.

Mynd með skýrslu 

Mynd 10: Heildarfjöldi barna á bið eftir þjónustu BUGL

Barna- og fjölskyldustofa (áður Barnaverndarstofa)

MST er meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda. Í september 2023 biðu 46 börn eftir þjónustu MST teymis og meðalbiðtími var 69 dagar. Þá höfðu 8 börn beðið lengur en þrjá mánuði. Töluverð aukning hefur orðið á fjölda þeirra barna sem bíða eftir þjónustu MST frá því upplýsingum var fyrst safnað í desember 2021. Þá biðu 13 börn eftir því að komast að hjá MST en meðalbiðtími var 76 dagar.

Stuðlar eru meðferðarstöð fyrir börn og unglinga frá 12 til 18 ára, Stuðlar skiptast í þrjár deildir, neyðarvistun, meðferðardeild og stuðningsheimilið Fannafold. Í september 2023 biðu 5 börn eftir þjónustu meðferðardeildar Stuðla, meðalbiðtími var 62 dagar. Í desember 2021 biðu 7 börn og meðalbiðtími var 49,25 dagar.

Bjargey er langtímameðferðarheimili á vegum Barna- og fjölskyldustofu sem er ætlað stúlkum og kynsegin. Meginmarkmið meðferðarheimilisins er einkum að veita sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika og vímuefnaneyslu. Í september 2023 biðu tvö börn eftir plássi á Bjargey og meðalbiðtími var 69 dagar.

Styrkt fóstur er þegar þörf er fyrir sérstaka umönnun og þjálfun barns á fósturheimili í takmarkaðan tíma, að hámarki tvö ár. Gjarnan er um að ræða börn sem eiga við íþyngjandi tilfinninga- og hegðunarvanda að etja sem ekki hefur tekist að vinna bug á með öðrum og vægari hætti. Í september 2023 biðu þrjú börn eftir því að komast í styrkt fóstur og meðalbiðtími var 13 dagar. Í desember 2021 biðu sjö börn og meðalbiðtími var 40,63 dagar.

Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Í ágúst 2023 biðu 10 börn eftir meðferð í Barnahúsi. Þau brot sem börnin hafa orðið fyrir eru flokkuð eftir alvarleika í flokka 1 og 2, styttri bið var fyrir börn sem höfðu orðið fyrir broti sem fellur undir flokk 1. Meðalbiðtími í flokki 1 var 113 dagar og 174 dagar í flokki 2. Þá höfðu 5 börn beðið lengur en þrjá mánuði. Í desember 2021 biðu 38 börn eftir meðferð í Barnahúsi, meðalbiðtími var 49 dagar í flokki 1 og 67 dagar í flokki 2. Það voru því 28 færri börn sem biðu eftir meðferð hjá Barnahúsi í ágúst 2023 borið saman við desember 2021, meðalbiðtími hefur hins vegar lengst.

Mynd með skýrslu

Mynd 11: Fjöldi barna sem hafa beðið lengur en í 3 mánuði eftir meðferð í Barnahúsi

Talmeinafræðingar

Löng bið barna eftir þjónustu talmeinafræðinga hefur verið viðvarandi vandamál til margra ára. Að mati umboðsmanns barna er áríðandi að hægt verði að nálgast upplýsingar um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu talmeinafræðinga með reglubundnum hætti. Hingað til hefur það ekki verið hægt þar sem biðlistar og kerfi eru ekki samræmd og hvergi er haldið utan um þessar upplýsingar. Sjúkratryggingar Íslands gerðu úttekt á stöðu barna sem bíða eftir þjónustu talmeinafræðinga í desember 2021 að beiðni heilbrigðisráðuneytisins. Þær upplýsingar voru birtar með gögnum um bið eftir þjónustu í september 2022. Þar kemur fram að 3.701 barn hafi verið skráð á biðlista hjá talmeinafræðingum í desember 2021. Þar af voru 947 börn skráð á fleiri en einum stað. Flest börn á biðlistum höfðu beðið í 0 – 6 mánuði (eða um 30%) en um 11% höfðu beðið lengur en 2 ár. Engar haldbærar upplýsingar liggja fyrir um hvernig þróunin hefur verið frá árinu 2021.

Það er mikilvægt að gera öllum börnum kleift að ná eins góðum málþroska og hægt er án nokkurrar mismununar. Eðlilegur málþroski skiptir grundvallarmáli fyrir framtíð barna og er forsenda þess að börn fái notið margra annarra réttinda sinna, svo sem réttar til menntunar og þátttöku í samfélaginu. Þá hafa rannsóknir ítrekað sýnt fram á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og eru fyrstu árin í æviskeiði barns mikilvægust þegar kemur að talþjálfun en löng bið eftir þjónustu getur haft umfangsmikil áhrif á framtíð barna með tal- og málþroskaröskun.

Priscilla-du-preez-NP3KdAQc6c4-unsplash

Stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir að börn bíði eftir þjónustu talmeinafræðinga. Þar til því markmiði verður náð ber stjórnvöldum að sjá til þess að hægt sé að nálgast upplýsingar með reglubundnum hætti um það hversu mörg börn séu á biðlistum eftir þjónustu talmeinafræðinga. Það er grundvallar forsenda þess að hægt sé að leggja mat á stöðuna hverju sinni og grípa til viðeigandi aðgerða. Barnaréttarnefndin hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að aðildarríki Barnasáttmálans safni tölfræðilegum upplýsingum um börn til þess að hægt sé að leggja mat á stöðu þeirra. Í lokatilmælum barnaréttarnefndarinnar vegna 5. og 6. skýrslu Íslands lýsir nefndin yfir áhyggjum vegna skorts á tiltækum tölfræðilegum upplýsingum og beinir því til Íslands að styrkja söfnun upplýsinga um börn. Það er mikilvægt að stjórnvöld bregðist við þessari gagnrýni.

Umboðsmaður barna hefur ítrekað átt í samskiptum við heilbrigðisráðherra vegna þess hversu löng bið hefur verið eftir þjónustu talmeinafræðinga. Þann 8. febrúar 2019 sendi umboðsmaður barna bréf til heilbrigðisráðherra vegna biðtíma barna eftir þjónustu talmeinafræðinga. Svar frá ráðuneytinu barst þann 6. júní 2019. Í svari ráðuneytisins kom fram að skortur á talmeinafræðingum hafi verið viðvarandi í langan tíma en á síðustu árum hafi verið gripið til aðgerða til að reyna að sporna við þeim vanda. Þá hafi nemum í talmeinafræði fjölgað sem og útskrifuðum talmeinafræðingum. Fjölgun talmeinafræðinga hafi þó ekki haldið í við vaxandi eftirspurn þó staðan hafi batnað. Þá kom fram að ljóst væri að útskrifuðum talmeinafræðingum komi til með að halda áfram að fjölga og með þeim hætti eigi að vera hægt að þjónusta þennan viðkvæma hóp barna betur og stytta biðtíma. Þann 4. febrúar 2021 sendi umboðsmaður barna á ný erindi varðandi langan biðtíma barna eftir talmeinaþjónustu og aðgengi barna að talþjálfun. Þar kom fram að mikill fjöldi barna biði eftir þjónustu. Biðtími eftir talþjónustu barna á stofum var þá að meðaltali sautján mánuðir en gat verið allt að þrjátíu og sex mánuðir. Umboðsmaður óskaði eftir því að fá upplýsingar frá ráðuneytinu um það til hvaða aðgerða yrði gripið í þeim tilgangi að bæta þjónustu við börn sem þurfa á talmeinaþjónustu að halda og tryggja snemmtæka íhlutun með því að stytta biðtíma. Svar frá heilbrigðisráðuneytinu barst 19. febrúar 2021. 

Í svari ráðuneytisins kom fram að skortur væri á talmeinafræðingum og að sá vandi hafi verið viðvarandi. Einnig kom fram að þrátt fyrir að nemum í talmeinafræði og útskrifuðum talmeinafræðingum hafi fjölgað hefði sú fjölgun ekki haldið í við vaxandi þörf barna fyrir þjónustuna. Vísaði ráðuneytið til þess að heilbrigðisráðherra hafi í hyggju að leggja fram þingsályktunartillögu um stofnun þverfaglegs landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu. Með skipan landsráðs standi vonir til þess að hægt verði að finna lausnir á vanda er varðar fjölda talmeinafræðinga. Þá sé ljóst að með aukinni nýtingu á fjarheilbrigðisþjónustu sé mögulegt að veita fleiri börnum þjónustu án tillits til búsetu. Þann 5. mars 2021 sendi umboðsmaður barna enn á ný bréf til heilbrigðisráðherra vegna biðtíma eftir talmeinaþjónustu. Þar áréttaði umboðsmaður að íslenska ríkinu beri skylda til þess að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þess að ná eðlilegum þroska. Þá eigi börn líkt og aðrir notendur heilbrigðisþjónustu rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ sé á sem miðist af ástandi þeirra, horfum og bestu þekkingu sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 74/1997. Í bréfi umboðsmanns kom jafnframt fram að óviðunandi sé að börn þurfi að bíða í allt að þrjátíu og sex mánuði eftir talmeinaþjónustu. Þar sem um viðvarandi vandamál sé að ræða sem taki til viðkvæms hóps barna sé það ámælisvert að ráðuneytið vísi til þess að ráðherra hafi í hyggju að koma fram með þingsályktunartillögu um stofnun landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu sem lausn á þeim bráða vanda sem myndast hafi. 

Í bréfi sínu leggur umboðsmaður áherslu á að þessi staða kalli á tafarlausar aðgerðir ráðuneytisins. Umboðsmaður tók jafnframt fram að það sé óviðunandi að ráðuneytið greini ekki frá neinum aðgerðum öðrum en því að vísa málinu til landsráðs, sem mögulega verði sett á laggirnar. Vandinn sé ljós og aðkallandi. Þann 15. apríl 2021 barst svar við bréfi umboðsmanns frá heilbrigðisráðuneytinu. Ráðuneytið tók þar fram að mikilvægt sé að tryggja börnum talmeinaþjónustu og að málefnið sé brýnt. Jafnframt áréttaði ráðuneytið að heilbrigðisráðherra myndi leggja fyrir þingið þingsályktunartillögu um stofnun þverfaglegs landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu. Ráðuneytið tók undir að þörf væri á aðgerðum og fjármagni í verkefnið, stofnun fyrrgreinds landsráðs sé ein af þeim aðgerðum sem þörf sé á til að koma á samstarfi milli þeirra aðila sem að verkefninu koma. Landsráðið verði kjörinn vettvangur til að fara yfir þessi málefni í heild sinni og leita að heildstæðum lausnum. Að lokum kom fram að um sé að ræða áherslumál innan ráðuneytisins. 

Þingsályktun um stofnun landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu var ekki lögð fyrir Alþingi eins og til stóð samkvæmt þingmálaskrá. Í maí 2021 stofnaði heilbrigðisráðherra hins vegar landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu án aðkomu Alþingis. Þann 31. ágúst 2023 óskaði umboðsmaður barna eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu um það hvort landsráðið hafi fjallað sérstaklega um talþjálfun og þjónustu talmeinafræðinga.

Svar barst þann 21. september 2023. Í svari ráðuneytisins kom fram að heilbrigðisráðherra hafi falið landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu að rýna stöðuna varðandi mönnun talmeinafræðinga og þann skort sem hafi verið á talmeinafræðingum og að landsráðið hafi skilað minnisblaði með tillögum í maí 2022.

Tillögur landsráðs voru eftirfarandi...

  1. Heilbrigðisráðuneytið meti árlega hvort bregðast þurfi við og aðlaga fjölda námsplássa í talmeinafræði að þörf fyrir þjónustu að undan fengum upplýsingum frá Félagi talmeinafræðinga og greiningar á námstöðum á vegum HRN.
  2. Heilbrigðisráðuneytið kalli árlega eftir upplýsingum frá Félagi talmeinafræðinga um fjölda starfandi talmeinafræðinga skipt eftir aldri, m.a. til að varpa ljósi á fjölda sem nálgast eftirlaunaaldur, en matið samkvæmt 1. lið byggist m.a. á þessum upplýsingum.
  3. Ef niðurstaðan samkvæmt 1. lið er sú að það verði að bregðast við fyrirséðum skorti á talmeinafræðingum þá verði það skoðað í samstarfi Landsráðs og ráðuneytis háskóla, iðnaðar og nýsköpunar hvort mögulegt sé að bjóða upp á námið árlega og fjölga þannig nemendum í talmeinafræði.
  4. Ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar og Félag talmeinafræðinga vinni að því að starfsvettvangur talmeinafræðinga verði kynntur sem eftirsóknarverður og að sértækum aðgerðum verði beitt til að kynna námið með það að markmiði að hækka hlutfall karlkyns talmeinafræðinga. Slík kynning verði samstarfsverkefni Félags talmeinafræðinga og Háskóla Íslands og leidd af þeim sem best þekkja til.
  5. Landsráð í samráði við Samband íslenskra sveitafélaga vinni að því að veitendur þjónustunnar verði hvattir til að huga sérstaklega að starfsaðstöðu talmeinafræðinga.
  6. Á vettvangi háskólanna og ráðuneytis háskóla, iðnaðar og nýsköpunar verði skoðaðar leiðir til að auka vægi fjarnáms í talmeinafræði, s.s. til að auka möguleika á að ráða talmeinafræðinga til sveitarfélaga á landsbyggðinni.

 

 

Tillaga skrifstofu innviða heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisráðuneytinu var að ráðherra myndi fallst á tillögur landsráðsins en jafnframt að ráðuneytið beini því til ráðuneytis háskóla, iðnaðar og nýsköpunar að nú þegar verði skoðaður sá möguleiki að fjölga námsstöðum í talmeinafræði annað hvort með því að bjóða upp á námið árlega eða að fjölga um u.þ.b. fimm nemendur í hópnum sem er tekin inn annað hvort ár.

Enn er miðað við að taka 15 nýja nemendur inn í námið annað hvert ár.

Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp í nóvember 2021 sem hafði það verkefni að vinna heildstæðar tillögur um þjónustu talmeinafræðinga við börn og átti starfshópurinn að skila af sér niðurstöðum í lok mars 2022. Samkvæmt heilbrigðisráðherra var lögð áhersla á að hópurinn ynni hratt og ætti að skýrast með tillögum hópsins nákvæmlega hversu löng bið er og hefur verið eftir þjónustu talmeinafræðinga og hvort mögulegt sé að koma upp miðlægum biðlistum ásamt öðrum tillögum. Niðurstöður starfshópsins hafa ekki verið birtar.

Þá skipaði heilbrigðisráðherra annan starfhóp í maí 2023 um þjónustu talmeinafræðinga við börn þar sem áhersla var sett á að setja upp skýran þjónustuferil með áherslu á samþættingu þjónustu og samstarf milli kerfanna tveggja (þ.e. ríkis og sveitarfélaga) sem veita þjónustuna ásamt því að skilgreina grunnþjónustu og veitingu hennar. Starfshópurinn átti að skili niðurstöðum til ráðherra fyrir 1. nóvember 2023. Þær niðurstöður hafa ekki verið birtar.

Til baka í efnisyfirlit

Kvörtunarleiðir og barnvæn réttarvarsla

Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi þau, sem viðurkennd eru í samningi þessum, komi til framkvæmda. Hvað efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi snertir skulu aðildarríki gera slíkar ráðstafanir að því marki sem þau framast hafa bolmagn til, og með alþjóðlegri samvinnu þar sem þörf krefur.       4. gr. 

Í lokaathugasemdum barnaréttarnefndarinnar við sameinaðar 5. og 6. skýrslur Íslands, lýsir nefndin áhyggjum af skorti á barnvænum kvörtunarúrræðum fyrir börn á öllum sviðum sem samningurinn tekur til. Nefndin ítrekaði meðal annars fyrri tilmæli um að Ísland taki upp sjálfstætt úrræði til þess að taka á móti, rannsaka og taka með skilvirkum hætti á kvörtunum frá börnum á barnvænan hátt. Slík kvörtunarleið skuli falla undir eða vera í tengslum við embætti umboðsmann barna.

Þá hefur barnaréttarnefndin gert ítrekað athugasemdir við að Ísland hafi ekki fullgilt þriðju valfrjálsu bókunina sem kveður á um sjálfstæða kæruheimild barna og fulltrúa þeirra til nefndarinnar. Hefur nefndin talið fullgildingu bókunarinnar nauðsynlegan lið í því að styrkja réttindi barna enn frekar og stuðla að því að réttindi þeirra verði raunverulega virk í samræmi við ákvæði 4. gr. Barnasáttmálans.

Í lokaathugasemdunum mælist nefndin enn fremur til þess, í samræmi við almenna athugasemd nefndarinnar nr. 24 frá 2019, að samþykkt verði lög hér á landi sem verndi sérstaklega réttindi barna í réttarkerfinu og styrki ráðstafanir sem miði að barnvænni réttarvörslu.

..börn geta leitað til umboðsmanns barna með erindi sem varða ákvarðanir, málsmeðferð eða háttsemi opinberra starfsmanna og þegið viðeigandi ráðgjöf frá umboðsmanni barna, en lýsir nefndin djúpstæðum áhyggjum af skorti á barnvænum kvörtunarúrræðum fyrir börn á öllum sviðum sem samningurinn tekur til..

Réttindagæsla barna

Réttindagæsla barna er tilraunaverkefni til tveggja ára sem lýtur að því að koma á fót barnvænu kvörtunarúrræði. Kveðið er á um verkefnið í aðgerðaáætlun um innleiðingu Barnasáttmálans, fyrir árin 2021-2024, sem samþykkt var á Alþingi, í júní 2021. Umboðsmaður barna fékk sérstaka fjárveitingu til verkefnisins 2022 og 2023 en sú fjárveiting fellur niður í byrjun árs 2024 og er því framhald verkefnisins í óvissu.

Markmið verkefnisins er að veita börnum og/eða foreldrum þeirra vettvang þar sem þau geti leitað stuðnings og ráðgjafar hjá aðila sem aðstoðar þau við að leita réttar barns hjá stjórnvöldum telji þau brotið gegn réttindum þess.

Við undirbúning verkefnisins var m.a. leitað ráðgjafar hjá umboðsmanni barna í Belgíu og umboðsmanni nemenda í Svíþjóð. Í starfi réttindagæslunnar er lögð rík áhersla á að aðkoma hennar að málum einstakra barna sé í þágu þeirra og eigi sér stað með þeirra vitund, samþykki og þátttöku. Foreldrar eða aðrir talsmenn barns geta þó leitað til réttindagæslunnar fyrir hönd barnsins. Réttindagæslan áskilur sér hins vegar ávallt rétt til að leita með virkum hætti eftir samþykki þess barns sem um ræðir hverju sinni.

Ljóst er að úrræði sem þetta tekur tíma að festa sig í sessi og öðlast viðurkenningu og þekkingu hjá börnum og foreldrum sem kvörtunarleið. Er því vandasamt að leggja raunverulegt mat á árangurinn af tilraunaverkefninu enn sem komið er.

Af þeim málum sem hafa komið inn til réttindagæslunnar er í nokkuð mörgum tilvikum um að ræða erfiðleika innan grunnskóla. Umboðsmaður barna telur að sterkar vísbendingar hafi komið í ljós um að víða sé staða barna sem eru með ADHD og einhverfu alvarleg innan grunnskóla, þar sem bæði sé skortur á stuðningi og úrræðum. Réttindagæsla umboðsmanns barna hefur veitt embættinu aukna innsýn og mikilvægar upplýsingar um raunverulega stöðu barna og hvar þörf er á umbótum.

Þriðja valfrjálsa bókunin við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins

Staða bókunarinnar á Íslandi

Ísland hefur fullgilt tvær af þremur valfrjálsum bókunum við Barnasáttmálann og voru þær festar í lög ásamt sáttmálanum með lögum nr. 19/2013. Um er að ræða annars vegar valfrjálsa bókun um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám, hins vegar valfrjálsa bókun um þátttöku barna í vopnuðum átökum.

Árið 2014 var samþykkt valfrjáls bókun um sjálfstæða kæruleið til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Líkt og fram hefur komið hefur barnaréttarnefndin í lokaathugasemdum sínum við sameinaðar 5. og 6. skýrslu Íslands mælst til þess að ríkið gerist aðili að bókuninni.

Einn liður í þingsályktunartillögu um Barnvænt Ísland er að íslensk stjórnvöld fullgildi þriðju valfrjálsu bókunina og tryggi aðgengi barna að kvörtunarferli barnaréttarnefndarinnar. Dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á þeirri framkvæmd og samkvæmt þingsályktunartillögunni á fullgildingu bókunarinnar að vera lokið fyrir árslok 2023.

Kærur á grundvelli bókunarinnar

Bókunin gerir börnum eða fulltrúum þeirra kleift að kæra brot gegn Barnasáttmálanum til barnaréttarnefndarinnar, sem tekur afstöðu til málsins og kemst að niðurstöðu. Til viðbótar getur nefndin hafið rannsókn vegna alvarlegra eða kerfisbundinna brota ríkis fái hún áreiðanlegar upplýsingar um slík brot.

Hlutverk barnaréttarnefndarinnar í málum á grundvelli bókunarinnar er hvorki að vera áfrýjunaraðili né endurskoða niðurstöður stjórnvalda eða dómstóla aðildarríkis. Hlutverk nefndarinnar felst í því að skoða mál í heild og komast að niðurstöðu um það hvort brotið hafi verið gegn Barnasáttmálanum og/eða valfrjálsum bókunum við hann. Í þeim tilvikum sem nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að um brot hafi verið að ræða veitir hún ríkinu tilmæli sem ríkið á að bregðast við innan sex mánaða.

Á vefsíðu Sameinuðu þjóðanna er að finna niðurstöður barnaréttarnefndarinnar í málum á grundvelli þriðju valfrjálsu bókunarinnar. Nýjustu málin eru frá 5. júní 2023 en þá hafði nefndin lokið skoðun á 112 kærum. Nefndin hafði þá komist að efnislegri niðurstöðu í 36 málum í langfestum þeirra var niðurstaðan sú að ríkið hefði brotið gegn sáttmálanum eða valfrjálsum bókunum. Þá hafði nefndin vísað frá 34 kærum og 42 kærur höfðu verið afturkallaðar eða látnar niður falla. Kærur geta t.d. verið látnar niður falla ef ástæður þess að kæran var lögð fyrir nefndina eiga ekki lengur við.

Algengast er að kæra til nefndarinnar varði umsókn barns um alþjóðlega vernd á einn eða annan hátt, einkum aldursgreiningu fylgdarlausra barna og brottvísun barns eða fjölskyldu. Kærur hafa einnig varðað, án þess að um tæmandi talningu sé að ræða, rétt barns til heilnæms umhverfis, menntunar, verndar gegn ofbeldi, vistun barns á stofnun og bann við mismunun.

Þá hafa flestar kærur beinst gegn Spáni, næstflestar gegn Sviss og síðan Danmörku. Kærur hafa einnig beinst að Finnlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Írlandi, Argentínu, Georgíu, Síle, Kosta Ríka, Brasilíu, Panama, Paragvæ, Tyrklandi, Slóvakíu og Tékklandi.

Kærur til nefndarinnar þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að nefndin meti þær efnislega. Þar má helst nefna þrjú skilyrði sem gætu hindrað börn í að leita réttar síns, að kæra þarf að vera skrifleg og berast nefndinni á annað hvort ensku, spænsku, frönsku eða rússnesku og ekki síst að innlend réttarúrræði þurfa að hafa verið tæmd. Í því felst að kærandi þarf að hafa reynt til hins ítrasta að fá niðurstöðu innlendra aðila í málinu.

Mikilvægur liður í fullgildingu bókunarinnar er að tryggja að börn hafi raunverulega aðgengi að innlendum réttarúrræðum og að börn fái viðeigandi aðstoð eins og þörf er á. Þar á meðal við að útbúa skriflega kæru til nefndarinnar á einu ofangreindra tungumála. Einnig við að tæma innlend réttarúrræði. Aðstoðin þarf að vera börnum gjaldfrjáls, til þess að tryggja jafnt aðgengi að úrræðum í samræmi við 2. gr. Barnasáttmálans. Það er því ekki síst nauðsynlegt að börn og fulltrúar þeirra hafi fullnægjandi aðgengi að upplýsingum um kæruleiðina og þau innlendu úrræði sem eru til staðar. Mikilvægt er að undirbúa vel fullgildingu bókunarinnar og tryggja betur aðgengi barna að innlendum réttarúrræðum.

Barnvæn réttarvarsla (e. Child friendly Justice)

Undanfarna áratugi hefur átt sér stað vaxandi umræða á alþjóðavettvangi um barnvæna réttarvörslu (e. Child Friendly Justice) í kjölfar aukinnar vitundavakningar um viðbrögð réttarvörslukerfisins í málum barna og hversu aðgengilegt réttarkerfið er þeim í raun og veru. Árið 1999 fjallaði Mannréttindadómstóll Evrópu um mál barna sem brotið höfðu af sér og í niðurstöðum dómsins komu fram leiðbeiningar um barnvæna réttarvörslu í fyrsta sinn. Taldi dómurinn mikilvægt að réttarkerfi væru aðlöguð að þörfum barna og að málsmeðferð væri þannig úr garði gerð að hún tæki fullt tillit til aldurs barna og þroska, sem og getu þeirra til að skilja og taka þátt í réttarhöldum. Á þeim grunni hefur hugtakið þróast áfram og öðlast víðtakara gildissvið.

Barnvæn réttarvarsla er lagaleg hugmyndafræði sem hefur það að markmiði að tryggja rétt barna til frumkvæðis og þátttöku í réttarvörslukerfinu og að það sé þeim aðgengilegt á allan hátt. Hugtakið hefur vítt gildissvið og vísar til réttarkerfis og stjórnsýslu sem tryggir að borin sé virðing fyrir öllum réttindum barna og að þeim sé beitt með virkum hætti í framkvæmd. 

Réttarkerfið á að vera aðgengilegt börnum, hæfa aldri þeirra, gæta að málshraða og vandvirkni og vera aðlagað að þörfum og réttindum barna. Hugtakið byggir á alþjóðlegum skuldbindingum og grundvallast á rétti barna til þátttöku skv. 12. gr. Barnasáttmálans.

Árið 2010 voru leiðbeinandi reglur um barnvæna réttarvörslu samþykktar af ráðherranefnd Evrópuráðsins. Reglurnar eiga við um allar þær aðstæður þar sem líklegt er að börn hafi samskipti við stofnanir og embætti sem koma að framkvæmd refsilaga eða á sviði einkaréttar eða stjórnsýslu.

Réttarkerfið getur verið ógnvænlegt í augum barna og ekki síður flókið. Reglurnar taka á fjölbreyttum atriðum sem líta þarf til, t.a.m. klæðnaði dómara og lögmanna, umhverfi og hvernig nota beri barnvænt tungumál við málsmeðferð. Í reglunum er einnig fjallað um sérstakar þarfir barna sem brotaþola og vitna og hvað hafa skuli í huga í samskiptum lögreglu við börn. Lögð er mikil áhersla á þverfaglega og barnvæna nálgun á öllum stigum máls og reglurnar kalla á að ríki leggi heildstætt mat á málaflokkinn og grípi til sérstakra ráðstafana til að tryggja að markmiðum barnvænnar réttarvörslu sé náð.

Í lokaathugasemdum barnaréttarnefndarinnar við sameinaðar 5. og 6. skýrslur Íslands mælist nefndin til þess að samþykkt verði lög sem miði að því að vernda réttindi barna í réttarkerfinu.

Í ljósi þessara skuldbindinga og tilmæla barnaréttarnefndarinnar hefur umboðsmaður á líðandi ári lagt aukna áherslu á barnvæna réttarvörslu og mun embættið halda áfram að greina hvar þörf er á úrbótum hér á landi í því skyni að auka aðgengi barna að réttarkerfinu.

Til baka í efnisyfirlit

Netið, samfélagsmiðlar og börn

Barn á rétt til að láta í ljós skoðanir sínar, og felur það í sér rétt til að leita, taka við og miðla hvers kyns vitneskju og hugmyndum, án tillits til landamæra, annaðhvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista eða eftir hvers kyns öðrum leiðum að vali þess. 13. gr.

 

Eigi má láta barn sæta gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi þess, fjölskyldu, heimili eða bréfum, né ólögmætri árás á sæmd þess eða mannorð. 16. gr.

Almenn athugasemd barnaréttarnefndarinnar nr. 25 frá 2021 fjallar um réttindi barna í stafrænu umhverfi. Þar eru tilgreind þau atriði sem aðildarríki Barnasáttmálans þurfa að gæta að til þess að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt sáttmálanum. Í athugasemdinni áréttar barnaréttarnefndin sérstaklega mikilvægi þess að foreldrar og fagfólk sem vinnur með börnum fái viðeigandi fræðslu og þjálfun. Þeim fyrirmælum er beint til aðildarríkja að vinna að vitundarvakningu um réttindi barna í stafrænu umhverfi, einkum meðal þeirra sem hafa bein eða óbein áhrif á börn með ákvörðunum sínum. Þá kemur einnig fram að leggja þurfi áherslu á að auka stafrænt læsi og færni barna. Jafnframt sé mikilvægt að börn, foreldrar og fagfólk viti hvernig eigi að vernda friðhelgi barna og hvernig eigi að bregðast við ef brotið er gegn réttindum barna á netinu.

Notkun farsíma í skólum

Umboðsmaður barna hefur lagt áherslu á að nemendur taki þátt í því að móta reglur um notkun farsíma í skólum í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Umboðsmanni hafa borist margar fyrirspurnir varðandi notkun farsíma á skólatíma, m.a. hvort kennarar megi banna notkun þeirra og hvort kennurum sé heimilt að taka síma af nemendum.

Æskilegt er að skólar taki afstöðu til þess í skólareglum hvernig nemendur eigi að umgangast farsíma og önnur snjalltæki á skólatíma. Skólar geta ákveðið að banna alfarið slík tæki, ef þeir telja það nemendum fyrir bestu. Hins vegar eru takmörk fyrir því hvernig hægt er að bregðast við ef nemendur virða ekki þær reglur sem settar hafa verið. Viðbrögðin þurfa að vera í samræmi við skólareglur og lög um grunn- og framhaldsskóla. Hvorki í lögum né reglugerðum er að finna heimild fyrir skóla til þess bregðast við agabrotum með því að taka eignir af nemendum. Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs og þau njóta einnig eignaréttar. Það að taka farsíma af nemendum gegn vilja þeirra skerðir óneitanlega eignarétt og ráðstöfunarrétt þeirra. Þá verður að hafa í huga að þessi tæki hafa oft að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar.

Í október 2023 framkvæmdi umboðsmaður barna könnun meðal allra grunnskóla á landinu þar sem spurt var um reglur varðandi farsíma í skólum. Af þeim 129 skólum sem svöruðu könnuninni voru reglur um símanotkun í 126 skólum og nemendur höfðu komið að gerð reglnanna í 72 skólum.

Reglur-um-simanotkun 

Mynd 12.

Nemendur-og-reglur

Mynd 13.


Spurt var að því hvort símar væru leyfðir í skólanum og svöruðu 70 að svo væri. Það er algengara að 8. – 10. bekkur hafi leyfi til þess að nota síma á skólatíma og var það heimilt í 65 skólum fyrir 8. bekk og 66 skólum fyrir 9. og 10. bekk. Í aðeins 22 skólum eru símar leyfðir fyrir nemendur í 1. – 7. bekk.

Árið 2022 framkvæmdi Menntavísindastofnun könnun um börn og netmiðla fyrir Fjölmiðlanefnd í 23 grunnskólum og 23 framhaldsskólum. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eiga næstum öll börn á aldrinum 9 – 18 ára farsíma. Í 4. – 7. bekk svöruðu 95% nemenda að þau ættu farsíma, í 8. – 10. bekk voru það 98% og 100% nemenda í framhaldsskólum. Aðeins 3% af 9‐12 ára börnum (4.‐7. bekk) sögðust ekki eiga eigin farsíma.

Í niðurstöðum rannsóknar sem framkvæmd var af Rannsókn og greiningu árið 2022 meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk kom fram að 58% stelpna og 55% stráka í 10. bekk verji þremur klukkustundum eða meira á samfélagsmiðlum á dag.

Í lok könnunarinnar gafst svarendum kostur á að koma öðrum atriðum á framfæri og nýttu margir þann kost til þess að gera betur grein fyrir þeim reglum sem gilda í viðkomandi skóla um notkun farsíma. Af þeim svörum að marka er algengt að símanotkun sé háð takmörkunum og leyfð á ákveðnum tímum og á skilgreindum svæðum. Almennt er símanotkun ekki leyfð í yngri bekkjum en á því eru undantekningar. Nemendur á unglingastigi hafa almennt rýmri heimildir til þess að nota síma í skólanum. Símabann er í nokkrum skólum og töldu svarendur að almenn ánægja væri með það innan skólans. Þá komu fram dæmi um það að í skólum sé einn dagur í viku símalaus eða jafnvel einn mánuður. Í einu svari kom hins vegar fram að það sé mikilvægt að kenna nemendum að umgangast tæki, boð og bönn virki ekki. Í öðru svari kom fram að markmið með notkun síma í skólanum sé að nemendur fái kennslu um notkun tækjanna og læri að nýta sér tæknina til gagns.

Það virðist vera algengt að nemendum sé heimilt að koma með farsíma í skólann en að hann eigi að vera í tösku nemanda og slökkt á honum á skólatíma. Í nokkrum svörum voru nefndar ástæður þess að nemendum sé heimilt að taka síma með sér í skólann og kom þar m.a. fram að nemendur séu í sumum tilfellum með strætókort og greiðslukort í símunum og þá liggi ákveðin öryggissjónarmið þar að baki fyrir nemendur á leið í og úr skóla.

Nokkur samhljómur var í svörum um mikilvægi þess að reglur um símanotkun á skólatíma séu samdar í samráði við starfsfólk, nemendur og foreldra. Í einu svari kom fram að reglur um símanotkun væru einstaklingsmiðaðar og unnar í samráði við fjölskyldur og nemendur. Dæmi eru um að nemendur í 7. - 10. bekk og foreldrar þeirra skrifi undir símasamning til að fá leyfi til þess að nota símann í skólanum.

Leiðbeiningar um netið, samfélagsmiðla og börn

Umboðsmaður barna, Persónuvernd og Fjölmiðlanefnd gáfu út leiðbeiningar sem varða netið, samfélagsmiðla og börn vorið 2022. Leiðbeiningarnar er að finna á heimasíðu embættisins og eru í þremur þáttum; fyrir foreldra, ábyrgðaraðila og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi.

Netið, samfélagsmiðlar og börn – leiðbeiningar til foreldra

Í leiðbeiningunum er m.a. fjallað um hvað þurfi að hafa í huga þegar foreldrar deila myndum af börnum á samfélagsmiðum. Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs og persónuvernd á sama hátt og fullorðnir og eiga því sjálf að fá að hafa áhrif á hvað aðrir fá að vita um þau. Þó svo að foreldrar eigi rétt á að taka ákvarðanir sem varða hag barna og daglegt líf þeirra þýðir það ekki að foreldrar eigi ótakmarkaðan rétt á því að birta ljósmyndir og aðrar upplsingar um eigin börn á samfélagsmiðlum. Þá er einnig fjallað um netöryggi og greint frá gagnlegum leiðum sem foreldrar geta farið til þess að leiðbeina börnum um hvernig eigi að nota netið á öruggan og uppbyggilegan hátt.

Mynd með skýrslu

Vernd barna í stafrænu umhverfi – leiðbeiningar til ábyrgðaraðila

Í leiðbeiningum til ábyrgðaraðila er m.a. fjallað um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að geta unnið með persónuupplýsingar, þær reglur sem gilda um samþykki fyrir vinnslu persónuupplýsinga, samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018, og hvort börn og unglingar geti veitt samþykki fyrir vinnslu. Einnig er fjallað um þá vernd sem persónuverndarlöggjöfin tryggir einstaklingum, þar á meðal börnum, og rétt til að gleymast. Einstaklingar eiga í vissum tilvikum rétt á því að persónuupplýsingum um þá sé eytt, t.d. ef upplýsingarnar eru ekki lengur nauðsynlegar í þágu þess tilgangs sem þeirra var upphaflega aflað. Þetta á líka við um upplýsingar á netinu. Börn eiga þennan rétt á sama hátt á fullorðnir.

digital

Leiðbeiningar fyrir starfsfólk skóla-, frístunda-, íþrótta- og tómstundastarfs barna

Starfsfólk skóla, frístundaheimila, íþróttafélaga, tónlistarskóla og aðrir sem vinna með börnum þurfa að vera meðvitaðir um og búa yfir þekkingu á réttindum barna, m.a. til persónuverndar, þannig að börn njóti nauðsynlegrar verndar til að geta þroskast í hinu stafræna umhverfi á öruggan hátt. Í leiðbeiningunum er m.a. farið yfir hvenær megi vinna upplýsingar um börn, hvernig grunnskólar megi skrá slíkar upplýsingar um nemendur og um myndbirtingar af börnum. Þá er einnig fjallað um notkun upplýsingatæknikerfa og stafrænna lausna. Skólastjórnendur og kennarar þurfa að vera meðvitaðir um að hin ýmsu smáforrit og kerfi sem nýta má í kennslu, geta safnað persónuupplýsingum um nemendur á meðan á kennslu stendur.

Til baka í efnisyfirlit

Lýðræðisleg þátttaka barna

12. gr. Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.

Í öllu starfi embættis umboðsmanns barna er skýr áhersla lögð á 12. gr. Barnasáttmálans og unnið að því markmiði að við mótun stefnu og ákvarðanatöku sem varðar börn verði ávallt leitað eftir og tekið tillit til sjónarmiða þeirra, enda búa börn yfir einstakri reynslu og þekkingu sem og innsýn í reynsluheim barna. Samkvæmt lögum um umboðsmann barna skal umboðsmaður, í störfum sínum, leitast við að hafa virkt samráð við börn og hafa hóp barna sér til ráðgjafar um þau málefni sem snúa að börnum í íslensku samfélagi. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna var stofnaður árið 2009 og hefur fjöldi barna tekið þátt í starfinu og þannig haft áhrif á réttindi barna í íslensku samfélagi. Þá ber umboðsmanni barna að halda þing um málefni barna annað hvert ár og bjóða þangað fjölbreyttum hópi barna ásamt alþingismönnum og fulltrúum stofnana ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna. Loks hefur umboðsmaður barna umjón með ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samkvæmt samningi við forsætisráðuneytið.

Ofangreindar leiðir til samráðs við börn eru á forsendum barnanna. Þau móta tillögur um þau málefni sem þau telja mikilvægast að stjórnvöld setji í forgang og endurspegla tillögurnar því vel hvað börnum er ofarlega í huga. Bæði niðurstöður barnaþings og tillögur ungmennaráðsins eru sérstaklega kynntar ríkisstjórn Íslands og var skýrsla með niðurstöðum barnaþings 2022 sérstaklega rædd á Alþingi í júní sama ár.

Barnaþing

Barnaþing var fyrst haldið í Hörpu 21. – 22. nóvember 2019. Alls fengu 500 börn boð á barnaþing og af þeim þáðu 153 börn boðið. Meirihluti þátttakenda komu frá höfuðborgarsvæðinu eða 101 þátttakandi, þar af voru flestir frá Reykjavík. Meðalaldur þátttakenda var 12,6 ár en aldurssamsetninguna má sjá á neðangreindri mynd.

Aldursskipting-2019

Mynd 12: Aldurskipting á barnaþingi 2019


Akranesi 4 Ísafirði 1
Akureyri 11 Kópavogi 20
Álftanesi 3 Laugum 1
Bolungarvík 1 Mosfellsbæ 6
Borgarnesi 3 Mývatni 1
Búðardal 1 Neskaupstað 1
Dalvík 1 Patreksfirði 1
Djúpavogi 1 Reykjanesbæ 6
Egilsstöðum 3 Reykjavík 47
Eyrarbakka 1 Sauðárkróki 3
Fáskrúðsfirði 1 Selfossi 2
Garðabæ 14 Seyðisfirði 1
Hafnarfirði 11 Skagaströnd 1
Hellu 2 Vestmannaeyjum 2
Hvolsvelli 1 Þorlákshöfn 2

Mynd 13: Skipting á barnaþingi 2019 eftir búsetu


Aldursskipting-2022

Mynd 14: Aldurskipting á barnaþingi 2022


Akranes 2 Kópavogur 13
Akureyri 5 Mosfellsbær 9
Áftanes 2 Mývatn 1
Borgarnes 2 Reykhólahreppur 1
Egilsstaðir 2 Reykjanesbær 2
Eskifjörður 1 Reykjavik 33
Eyjafjarðarsveit 1 Sandgerði 1
Flóahreppur 1 Selfoss 5
Garðabær 4 Seltjarnarnes 3
Garður 1 Siglufjörður 1
Grindavík 2 Skagaströnd 1
Hafnafjörður 14 Stykkishólmur 1
Húsavík 1 Stykkishólmur (dreifbýli) 1
Hveragerði 1 Vik 1
Ísafjörður 1 Vopnafjörður 1
Kjósarhreppur 1

Mynd 15: Skipting á barnaþingi 2022 eftir búsetu


Á fyrsta barnaþingi 2019 var lagt upp með opna spurningu og börn beðin um að segja frá hvað þeim þætti mikilvægast. Síðan var unnið áfram með tillögurnar og þær flokkaðar eftir áherslum. Fyrir barnaþingið 2022 voru börnin beðin um að kjósa um þrjá málefnaflokka sem yrðu í öndvegi á barnaþingi. Þau kusu mannréttindi, mennta- og skólamál og umhverfismál.

Í stefnu um barnvænt Ísland er kveðið á um að niðurstöður barnaþings verði nýttar markvisst við opinbera stefnumótun hjá stjórnvöldum og að eftirfylgni með niðurstöðunum sé tryggð. Niðurstöðum barnaþings er skilað til ríkisstjórnar í formi áðurnefndrar skýrslu með helstu hugmyndum. 

Ungmennaráð heimsmarkmiðanna

Forsætisráðherra setti á stofn ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna árið 2018. Ungmennaráðið hefur það að markmiði að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði meðal jafningja sem og samfélagsins í heild. Ungmennaráðið samanstendur af tólf fulltrúum, víðs vegar að af landinu, á aldrinum 13-18 ára.

Ráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennum er með þessum hætti gefinn vettvangur til að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni. Umboðsmaður barna og forsætisráðuneytið gerðu samning um mitt ár 2020 þar sem umboðsmanni var falin umsjón með ungmennaráðinu.

Ungmennaráðið er nú valið til tveggja ára í senn. Ungmennaráðið sem tekur til starfa 1. janúar 2024 og starfar til 1. janúar 2026 mun verða fimmta ungmennaráðið í sögunni. Á barnaþingi eru átta fulltrúar af tólf kosnir í ráðið. Þá eru fjórir fulltrúar valdir af valnefnd forsætisráðuneytisins með það markmið að tryggja fjölbreytileika þegar kemur að búsetu, kynvitund og öðrum breytum. 

Ungmennaráðið hélt sinn fyrsta fund 2022 í apríl og var hann haldinn rafrænt. Reynt var eftir bestu getu að funda reglulega í gegn um fjarfundarbúnað en ungmennaráðið hittist sex sinnum á staðfundum á starfsárinu 2023.

Eftirfarandi staðfundir voru haldnir:

Vindáshlíð í maí: Sólarhrings vinnufundur sem lauk á fundi með starfsfólki forsætisráðuneytisins.

Mosfellsdalur í september: Sólarhrings vinnufundur þar sem ungmennin lögðu línurnar fyrir komandi starfsár bæði með markmiðasetningu og hugmyndaöflun. Fundinum lauk á ráðstefnu ENOC (European Network for Ombudspersons for Children) sem haldinn var í Hörpu og einnig heimsókn til Samtakanna ´78 þar sem framkvæmdarstjórinn sagði frá stöðu hinsegin ungs fólks á Íslandi og gaf ráðinu tækifæri á því að spyrja spurninga.

Reykjavík í febrúar: Fundur þar sem Sjálfbærniráðið var formlega kynnt og unnið var að verkefnum því tengdu.

Akureyri í mars: Helgarferð þar sem unnið var að tillögum til ríkisstjórnar Íslands. Ferðin var einnig nýtt til þess að hitta ungmennaráð Akureyrar og funda með þeim. Á Akureyri var einnig haft samband við önnur félagssamtök sem var liður í því að inngilda raddir jaðarsettra ungmenna í skýrsluna.

Mosfellsdalur og Reykjavík í apríl. Vinnukvöld þar sem kynning ráðsins fyrir ríkisstjórn var skipulögð. Morguninn eftir voru tillögurnar kynntar í Safnahúsinu að viðstaddri ríkisstjórn Íslands. Tillögurnar voru í þremur flokkum: Umhverfis- og loftlagsmál, skóla- og menntunarmál og jafnréttis- og mannréttindamál. Tillögurnar voru að öllu leyti unnar af meðlimum ráðsins í hugmynda- og hópavinnu á fundum ráðsins. Fundurinn í Safnahúsi var sóttur af nánast öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem áttu samtal við ráðið að lokinni kynningu á tillögum þeirra. Að mati ungmennaráðsins var fundurinn vel heppnaður en meira rými hefði mátt vera fyrir samtal um tillögurnar. Fram kom mikil velvild í garð ráðsins og sýndu ráðherrar mikinn áhuga að áframhaldandi samtali. 

Reykjavík í júní. Hópurinn hittist til að fagna þeirri vinnu sem lögð var í landrýniskýrslu Íslands um stöðu heimsmarkmiðanna á Íslandi.

Ungmennarad-hs

Hafa börnin áhrif?

Samkvæmt þátttökumódelinu sem kennt er við Lauru Lundy byggir 12. grein Barnasáttmálans á fjórum þáttum; að skapað sé öruggt rými fyrir börn til að tjá skoðanir sínar, að börnum séu veittar upplýsingar við hæfi og tryggt sé að börn geti tjáð skoðanir sínar, að skoðunum barna sé miðlað til þeirra aðila sem bera ábyrgð á því að taka tillit til þeirra, og loks að tryggt sé að tekið sé tillit til skoðana barna og brugðist við þeim þar sem við á.

Með barnaþingi, ráðgjafarhóp umboðsmanns, ungmennaráði heimsmarkmiðanna og margvíslegum öðrum leiðum sem börn hafa til lýðræðislegrar þátttöku er fyrstu þremur skilyrðum 12. gr. Barnasáttmálans í flestum tilvikum fullnægt. Börn fá vettvang, rödd og áheyrn. Vandasamara er aftur á móti að meta hvort þessar leiðir gefi þeim tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif á ákvarðanatöku, hvort og þá hvernig unnið hafi verið með niðurstöður þeirra og tillögur í sveitarfélögum eða á vettvangi Stjórnarráðsins.

Áhrif samráðs við börn geta ýmist verið formleg eða óformleg. Í einhverjum tilvikum er augljóst að samráð við börn hefur haft ákveðin áhrif en stundum er það óljóst. Oft getur samráð, eða skortur á samráði, einnig vakið upp umræðu í samfélaginu, á Alþingi eða í fjölmiðlum og þannig eflt vitund á ákveðnum málum, sem leiðir til óformlegra áhrifa til lengri tíma litið.

Fjölmargar og fjölbreyttar tillögur hafa komið frá börnum á liðnum árum og verið kynntar fyrir ríkisstjórn Íslands. Hér má nálgast niðurstöður barnaþings 2019 og niðurstöður barnaþings 2022.

Mikilvægur þáttur þess að hafa samráð við börn er að veita þeim endurgjöf um hvaða hugmyndir hafi hlotið brautargengi eða hvernig unnið hafi verið með tillögur þeirra.

Mál frá barnaþingi

Hér á eftir er listi yfir nokkur þeirra mála sem hafa komið fram á barnaþingi og í tillögum ungmennaráðs heimsmarkmiðanna. Gjarnan hefur verið samhljómur í áherslumálum.

  • Sálfræðiþjónusta í alla skóla
  • Auka fræðslu um andlega heilsu og leiðir til að takast á við lífið
  • Auka aðgengi barna af erlendum uppruna að tækifærum og félagsstarfi
  • Auka áherslu á að nemendur hafi áhrif á námsskrá, kennsluhætti og skólastarf
  • Efla kynfræðslu og hinsegin fræðslu
  • Auka tækifæri fatlaðra nemenda og kennslu í táknmáli
  • Draga úr matarsóun
  • Auka umhverfisfræðslu í skólum
  • Samræmd sorpflokkun um allt land
  • Bæta vistvænar samgöngur
  • Draga úr plastnotkun
  • Frítt í strætó fyrir öll börn
  • Auka aðgengi að íþróttum og tómstundastarfi
  • Minna heimanám

Nemendaráð

Nemendafélög í grunnskólum eru mikilvægur þátttökuvettvangur fyrir börn. Fjallað er um nemendafélög í 10. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 og er hverjum skóla skylt að starfrækja slíkt félag sem skólastjóri skal setja á fót og styðja eftir þörfum. Nemendafélög vinna m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Áður fyrr var notast við heitið nemendaráð í lögum en með setningu grunnskólalaga árið 2008 var horfið frá því og nú er eingöngu fjallað um nemendafélög þó enn sé hugtakið nemendaráð algengt samkvæmt almennri málvenju.

Ekki eru sérstakar reglur um skipan fulltrúa í nemendafélög en eðlilegt er að fulltrúar allra árganga geti tekið þátt í starfi félagsins. Hlutverk nemendafélags er skilgreint nokkuð vítt í lögum. Býður það upp á svigrúm fyrir hvert félag til þess að móta sínar áherslur og getur því verið breytilegt hversu víðtækt starf nemendafélaga er í hverjum skóla.

Embættið sendi út spurningakönnun til allra grunnskóla sem lögð var fyrir nemendur í 5. og 10. bekk. Um 945 svör bárust og var svarhlutfall nokkuð jafnt eftir bekkjum. 

Hlutfall-bekkja

Flestir eða 72% sögðu að nemendaráð væri í sínum skóla en um 22% vissu ekki hvort slíkt ráð væri til. 

Er-nemendarad-i-skolanum

Um þriðjungur, eða 34% nemenda, gat lýst hlutverki nemendaráða og hvað nemendaráð gerir. Þá var spurt hvort þau hefði reynslu af því að sitja í nemendaráði og svaraði fjórðungur nemenda þeirri spurningu játandi. 

Hefur-thu-setid-i-nemendaradi

Þá gátu 41% útskýrt hvernig valið er í nemendaráð en mikilvægt er að sem flestir nemendur hafi tök á setu í nemendaráði eða að minnsta kosti komi að því að velja fulltrúa í ráðið. 

Einnig var spurt um hvort að svaranda finnist að skólastjórnendur og kennarar taki mark á tillögum nemendaráðs. Við þeirri spurningu var svarhlutfallið nokkuð jafnt, 52% fannst að mark væri tekið á tillögum nemendaráðs á móti 48% sem sögðu nei. 

Taka-stjornendur-mark

Af þessu má ráða að þó að vitneskja um tilvist nemendaráðs sé almennt góð þá vantar nokkuð upp á það að nemendur viti eðli nemendaráða og hvert hlutverk þeirra er.

Getur þú lýst hvað nemendaráð gerir...

Dæmi um svör nemenda um hlutverk nemendaráða

  • Það skipuleggur viðburði í skólanum og sér um að öllum liði vel. Við komum einnig nýjum hugmyndum á framfæri.
  • Þau koma saman og tala um hvernig er hægt að bæta skólann
  • Það reynir að gera skólan að betri umhverfi fyrir nemendur og gefur nemendum tækifæri að tjá sína rödd
  • Nemendaráðið kemur saman einu sinni í viku og ræður um ýmis málefni. Þau koma fram skoðanir annarra nemenda og koma þeim á framfæri. Þau undirbúa einnig skemmtilega uppbrotsdaga og margt fleira.
  • Nemandaráðið er tenging nemenda við stjórnendur og kennara. Ráðið skipuleggur atburði og meðlimir eru jákvæðir leiðtogar.


Þátttaka barna í menningarlífi

Í 31. gr. Barnasáttmálans er fjallað um rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess og til frjálsrar þátttöku í menningu og listum. Þar kemur einnig fram að aðildarríki skulu virða þann rétt og stuðla að því að öll börn fái jöfn tækifæri til að stunda menningarlíf, listir og tómstundir.

Í almennri athugasemd barnaréttarnefndarinnar, nr. 17 frá 2013, kemur fram að 31. gr. Barnasáttmálans eigi að vera skilin heildstætt, í samhengi við önnur ákvæði hans. Þannig er leikur og afþreying mikilvæg fyrir heilsu og velferð barna, auk þess að ýta undir sköpunargáfu, efla ímyndunarafl og stuðla að sterkari sjálfsmynd sem og andlegum, félagslegum, tilfinningalegum og hugrænum hæfileikum og styrki. Þá eru hvíld og tómstundir jafn mikilvæg fyrir þroska barns og hinar hefðbundnu þarfir eins og umönnun, húsaskjól, heilsugæsla og menntun.

Hjá Alþingi liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024 – 2028. Í tillögunni kemur fram að markmið aðgerðaáætlunarinnar sé „í fyrsta lagi að auka samhæfingu og efla stefnumótun á sviði barnamenningar, í öðru lagi að auka framboð lista, menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni og í þriðja lagi að festa í sessi starfsemi barnamenningarverkefnisins List fyrir alla og Barnamenningarsjóðs Íslands.“

Barnamenningarsjóður, í núverandi mynd, var stofnaður sem átaksverkefni til fimm ára frá 2019 – 2023 og naut 100 milljóna króna árlegs framlags af fjárlögum. Hlutverk sjóðsins er að styrkja verkefni og starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, list og virka þátttöku barna í menningarlífi. Þá hafa verkefni, sem stuðla einnig að lýðræðislegri virkni barna í samfélaginu eða taka að öðru leyti mið af inntaki Barnasáttmálans, fengið sérstakt vægi. Á þeim fimm árum sem sjóðurinn hefur verið starfræktur hafa 190 barnamenningarverkefni verið styrkt.

List fyrir alla er verkefni á forræði menningar- og viðskiptaráðuneytisins, sem hefur m.a. það markmið að jafna aðgengi barna og ungmenna á grunnskólaaldri um allt land að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Í samræmi við það markmið er áhersla lögð á að verkefni séu unnin af fagfólki þar sem gæði og fagmennska eru höfð að leiðarljósi. Árlega má gera ráð fyrir að um fimm þúsund börn og ungmenni njóti fjölbreyttra lista- og menningarviðburða sem fara fram á vegum eða með tilstuðlan Listar fyrir alla. Á vefsíðu verkefnisins má finna allar upplýsingar um listviðburði verkefnisins.

Til baka í efnisyfirlit


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica