Logo Umboðsmanns barna

Header Barnathing

Markmið

Hvernig eru börn valin

Dagskrá barnaþings

Raunverulegt samráð við börn

Þátttaka barna

Áhersla stjórnvalda á samráð við börn

Verndari barnaþingsins

Fjölmiðlaumfjöllun

Teikningar frá barnaþingi 2019

 

Í lögum um umboðsmann barna er kveðið á um að haldið verði annað hvert ár þing um málefni barna.

Umboðsmaður barna boðar til þings um málefni barna annað hvert ár og skulu niðurstöðu og ályktanir þingsins kynntar ríkisstjórn.

Á þinginu skal fjalla um málefni barna og við upphaf þess leggur umboðsmaður fram skýrslu um stöðu barna. Í skýrslunni skal m.a. fjalla um stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins, þar á meðal um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Önnur verkefni þingsins ákveður umboðsmaður barna.

Þingið er öllum opið en umboðsmaður barna skal boða fjölbreyttan hóp barna til þingsins, alþingismenn, fulltrúa stofnana ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna.

Seta á þinginu er ólaunuð. 

Markmið

Barnaþingi er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau og veita sjónarmiðum þeirra farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Áhersla verður lögð á möguleika barna á að hafa áhrif á eigin líf og umhverfi. Leitað verður sjónarmiða barna um með hvaða hætti þau upplifa áhrif eða áhrifaleysi í daglegu lífi og hvað þeim finnist mikilvægast að stjórnvöld fjalli um. Tillögur barnaþingsins munu hafa bein áhrif á aðgerðaráætlun sem nú er í undirbúningi um aukna þátttöku barna í stefnumótun sem byggð er á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í mars 2019.

Niðurstöður barnaþingsins verða afhentar ríkisstjórn að þingi loknu og mun embætti umboðsmanns barna fylgja eftir tillögum og ályktunum þingsins fram að næsta barnaþingi að tveimur árum liðnum. Með því móti skapast reglubundinn vettvangur fyrir börn til að láta skoðanir sínar í ljós og möguleikar á að fylgja eftir þeim hugmyndum og tillögum sem þar koma fram. Þá er barnaþingi ætlað að styðja við lýðræðislega þátttöku í grunnskólum og valdefla börn, ekki aðeins þau sem fá boð um þátttöku á þinginu heldur öll börn í landinu.

Til baka. 

Hvernig eru börn valin

Barnaþingið er fyrsta þing sinnar tegundar hér á landi þar sem fjölbreyttum hópi barna er boðið til þátttöku frá öllu landinu og til að endurspegla þann fjölbreytileika voru börn valin með slembival úr þjóðskrá.  Á þingið kemur hvert barna á eigin forsendum með sínar skoðanir og reynslu en eru ekki fulltrúar félagsamtaka, skóla eða sveitarfélaga. 

Dagskrá barnaþings

Setning barnaþings og hátíðardagskrá 21. nóvember 2019

Barnaþing 2019 var sett við hátíðlega dagskrá í Norðurljósasal Hörpu í Reykjavík þann 21. nóvember klukkan 15:00. Boðið var upp á lifandi dagskrá með virkri þátttöku barna og fullorðinna.

Hátíðardagskrá og setning í Norðurljósum

12:30 – 13:00   Mæting barna í Hörpu

13.00 – 15.00    Samhristingur, lokaundurbúningur og skoðunarferð um Hörpu

15.00 – 16.30    Opnunarhátíð

Til baka. 

Þjóðfundur barna 22. nóvember 2019

Þann 22. nóvember fóru fram umræður með þjóðfundarfyrirkomulagi í Silfurbergi í Hörpu. Börnin mættu klukkan 8:30 og hófu umræðuna um morguninn á vinnuborðum en strax eftir hádegi mættu fullorðnir boðsgestir til að taka þátt í áframhaldandi umræðu um þau umfjöllunarefni sem börnin hafa valið. Í lok þeirra umræðu var gerð grein fyrir niðurstöðum borða og þær afhentar fulltrúum ríkisstjórnarinnar. 

Þing barna í Silfurbergi

08:30 – 09:00   Mæting barna í Hörpu og skráning

09.00 – 11.50    Hópavinna barna

11.50 – 12.50    Hádegismatur

12.50 – 13.40    Hópavinna barna

13.40 – 14.10    Hressingarhlé

14.10 – 16.10    Umræður barna og fullorðinna gesta

16.10 – 16.30    Lokahátíð

Til baka. 

Raunverulegt samráð við börn

Í 12. gr. Barnasáttmálans er kveðið á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós í málefnum sem varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska. Greinin hljóðar svo:

Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. 
2. Vegna þessa skal barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð. 

Þegar börn eru kölluð til samráðs skiptir miklu að búið sé svo um hnútana að börnin geti raunverulega sagt það sem þeim finnst, að hlustað sé á skoðanir þeirra og tekið mark á þeim. Miklu skiptir því að niðurstöður barnaþingsins verði nýttar við stefnumótun og ákvarðanir stjórnvalda. Þannig er tyggt að börnin upplifi að á þau hafi verið hlustað og þátttaka þeirra hafi haft sýnileg áhrif.

Til baka. 

Þátttaka barna

Talsverð fræðileg greining hefur verið gerð á samráði við börn. Laura Lundy hefur greint kjarnann í 12. gr. Barnasáttmálans í fjóra meginþætti sem allir verði að vera til staðar fyrir raunverulegt samráð við börn. Þessi atriði eru:

  • Vettvangur (e. space) - Skapa þarf vettvang þar sem börn eru örugg og öll börnin taka þátt
  • Rödd (e. voice) - Börn fái nauðsynlegar upplýsingar til að koma sjónarmiðum á framfæri
  • Áheyrn (e. audience) - Börn njóti áheyrnar og hlustað sé á þeirra sjónarmið.
  • Áhrif (e. influence) - Sjónarmið barnanna eru tekin alvarlega og hafa áhrif á stefnumótun þar sem við á.

Á barnaþingi er leitast við að uppfylla alla þessa þætti með því að skapa vettvang þar sem börn geta örugg og frjáls látið skoðanir sínar í ljós með margvíslegum hætti. Lögð verður áhersla á að á fundinum ræði þau skoðanir sínar við fullorðna sem munu hlusta og taka tillit til þeirra. Þá munu niðurstöður þingsins hafa áhrif á stefnumótun og aðgerðaráætlun í málefnum barna. Á næsta barnaþingi verður sérstaklega gerð grein fyrir með hvaða hætti sjónarmið barnanna höfðu áhrif á stefnumótun.

Til baka. 

Áhersla stjórnvalda á samráð við börn

Lög um umboðsmann barna voru endurskoðuð í lok árs 2018 og var þá samþykkt að lögfesta þing um málefni barna annað hvert ár – barnaþing. Mikil samstaða var um þessar breytingar á Alþingi. Í meðförum þingsins leitaði þingnefndin sérstaklega eftir sjónarmiðum ráðgjafarhóps umboðsmanns barna og komu fulltrúar hans á fund nefndarinnar.

Núverandi ríkisstjórn samþykkti yfirlýsingu um aukna þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun 1. mars 2019. Í framhaldi hennar var umboðsmanni barna falið að vinna aðgerðaráætlun um áhrif barna á stefnumótun og verður barnaþing mikilvægur hluti af því verkefni. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar sagði:

Í vinnunni hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þess að gera breytingar til að fá fram skoðanir barna og ungmenna með ýmsum hætti en innan Stjórnarráðsins er greinilegur vilji til þess að börn og ungmenni fái tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri, að þáttaka þeirra verði aukin og að sú þátttaka verði markviss, regluleg og raunveruleg. Þessi tillaga er jafnframt fyrsta tillagan sem samþykkt er í ríkisstjórn sem unnin hefur verið í samstarfi allra ráðuneyta sem aðild eiga að stýrihóp stjórnarráðsins í málefnum barna.

Á barnaþinginu verður sérstaklega leitað eftir sjónarmiðum barna inn í aðgerðaráætlunina frá börnum á þinginu.

Til baka. 

Verndari barnaþingsins

Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands. Í forsetatíð sinni lagði Vigdís áherslu á umhverfismál, ræktun tungumálsins og menningu, þar á meðal barnamenningu. Á hátíðardagskránni sem haldin var 21. nóvember fengu þessi hugðarefni gott rými.

Til baka. 

Fjölmiðlaumfjöllun um barnaþing

Töluverð fjölmiðlaumfjöllun var um barnaþing 2019, sjá lista hér fyrir neðan. 

Viðtal við Salvöru Nordal í Fréttablaðinu 21. nóvember

Vel heppnað barnaþing í Hörpu

150 börn sátu barnaþing 

Fréttabörn segja að vel hafi tekist til 

Þá kannski heyrir Guðni forseti

Katrín: „Börn og ungmenni hafa oft aðra sýn á samfélagið en eldri kynslóðir“

Ætlaði að verða handboltakappi en endaði sem forseti

Glæsilegt tveggja daga barnaþing sett í Hörpu

Barnaþing skrifar nýjan kafla í réttindamálum barna

"Grimm framtíð" viðtöl við þátttakendur barnaþings

 Víglínan - viðtal við Salvöru Nordal og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur

Raunveruleg og sýnileg áhrif - viðtal við Salvöru Nordal

Börn taki meiri þátt í stefnumótun

 

Til baka. 

Teikningar frá barnaþingi 2019

Barnathing

Elín Elísabet teiknari fangaði augnablik barnaþings 2019 með sínum stórkostlegu teikningum. Teikningarnar er hægt að skoða í heild sinni hér. Nánari upplýsingar um Elínu Elísabetu er að finna á vefsíðu hennar hér

Til baka. 

 

Logo Barnathing 2019 02