Barnaþing

Í lögum um umboðsmann barna er kveðið á um að haldið verði annað hvert ár þing um málefni barna. Umboðsmaður barna boðar til þingsins og kynnir niðurstöður og ályktanir þess fyrir ríkisstjórn.

Barnaþing skapar reglubundinn vettvang fyrir börn til þess að láta skoðanir sínar í ljós og gefur stjórnvöldum tækifæri á að fylgja hugmyndum þeirra eftir og koma tillögum þeirra í framkvæmd. Þingið er opið öllum en embættinu ber að boða fjölbreyttan hóp barna til þingsins, alþingismenn, fulltrúa stofnana ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna. Við upphaf þingsins ber umboðsmanni barna að leggja fram skýrslu um stöðu barna á Íslandi, þar sem m.a. er farið yfir þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins. Umboðsmaður barna ákveður önnur verkefni þingsins. Barnaþingi er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau og veita sjónarmiðum þeirra farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu í samræmi við 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Áhersla er lögð á að efla möguleika barna til þess að hafa áhrif á eigin líf og umhverfi. Fyrir hvert þing mun embætti umboðsmanns barna leita eftir því að ná fram sjónarmiðum barna um með hvaða hætti þau upplifa áhrif eða áhrifaleysi í daglegu lífi og hvað þeim finnist mikilvægast að stjórnvöld fjalli um. Umboðsmaður barna mun afhenda ríkisstjórn niðurstöður að hverju þingi loknu og fylgja eftir tillögum og ályktunum þingsins.

Frá barnaþingi 2019

Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands var verndari fyrsta barnaþingsins. Í forsetatíð sinni lagði Vigdís áherslu á umhverfismál, ræktun tungumálsins og menningu, þar á meðal barnamenningu.

Raunverulegt samráð við börn

Í 12. gr. Barnasáttmálans er kveðið á um rétt barna til þess að láta skoðanir sínar í ljós í málefnum sem varða þau og jafnframt að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Talsverð fræðileg greining hefur verið gerð á samráði við börn. Laura Lundy hefur greint kjarna 12. gr. Barnasáttmálans í fjóra meginþætti sem allir þurfa að vera til staðar til þess að um raunverulegt samráð við börn sé að ræða. Þessi atriði eru: 

  • Vettvangur (e. space) - Skapa þarf vettvang þar sem börn eru örugg og öll börnin taka þátt.
  • Rödd (e. voice) - Börn fái nauðsynlegar upplýsingar til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
  • Áheyrn (e. audience) - Börn njóti áheyrnar og hlustað sé á þeirra sjónarmið.
  • Áhrif (e. influence) - Sjónarmið barna séu tekin alvarlega og hafi áhrif á stefnumótun þar sem við á.

Á barnaþingi mun ávallt vera lögð áhersla á að uppfylla alla þessa þætti.


Þegar börn eru kölluð til samráðs skiptir miklu að búið sé svo um hnútana að þau geti raunverulega sagt það sem þeim finnst, að hlustað sé á skoðanir þeirra og tekið mark á þeim. Einnig er mikilvægt að niðurstöður barnaþings hverju sinni verði nýttar við stefnumótun og ákvarðanir stjórnvalda. Þannig er tyggt að börnin upplifi að á þau hafi verið hlustað og þátttaka þeirra hafi haft sýnileg áhrif.

Áhersla stjórnvalda á samráð við börn

Lög um umboðsmann barna voru endurskoðuð árið 2019 og var þá samþykkt að lögfesta þing um málefni barna sem haldið yrði annað hvert ár. Mikil samstaða var um þessar breytingar á Alþingi. Í meðförum þingsins leitaði þingnefndin sérstaklega eftir sjónarmiðum ráðgjafarhóps umboðsmanns barna og komu fulltrúar hans á fund nefndarinnar.

Núverandi ríkisstjórn samþykkti yfirlýsingu um aukna þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun 1. mars 2019. Í framhaldi hennar var umboðsmanni barna falið að vinna skýrslu um áhrif barna á stefnumótun og var barnaþing mikilvægur hluti af því verkefni. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar sagði:

Í vinnunni hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þess að gera breytingar til að fá fram skoðanir barna og ungmenna með ýmsum hætti en innan Stjórnarráðsins er greinilegur vilji til þess að börn og ungmenni fái tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri, að þáttaka þeirra verði aukin og að sú þátttaka verði markviss, regluleg og raunveruleg. Þessi tillaga er jafnframt fyrsta tillagan sem samþykkt er í ríkisstjórn sem unnin hefur verið í samstarfi allra ráðuneyta sem aðild eiga að stýrihóp stjórnarráðsins í málefnum barna.

Barnaþing lógó

Barnaþing 2019

Fyrsta barnaþingið var haldið í Hörpu 21. og 22. nóvember árið 2019. Þingið var haldið með þjóðfundarformi og fengu börnin fullt frelsi til þess að koma sínum áhersluatriðum á framfæri. Send voru boðsbréf til 500 barna á Íslandi en samtals mættu 139 börn á þingið. Ákveðið var að velja börn á þingið með slembivali úr Þjóðskrá til þess að fá til þátttöku fjölbreyttan hóp barna frá öllu landinu. Auk þeirra var börnum sem tilheyra ákveðnum minnihlutahópum sérstaklega boðið að taka þátt. Með þessari aðferð fékkst hópur barna sem endurspeglar margbreytileika barna í landinu.

Fyrir barnaþingið óskaði umboðsmaður eftir borðstjórum á aldrinum 18 - 30 ára. Ríkar kröfur voru gerðar til umsækjenda um reynslu af starfi með börnum og ungu fólki. Haldnir voru tveir fræðslufundir fyrir barnaþingið með borðstjórum þar sem þeir fengu þjálfun og upplýsingar um sitt hlutverk.

Undirbúningur barnaþingmanna fór fram á netinu í gegnum vefkerfið Basecamp. Þar gátu þau nálgast fræðslu um helstu áhersluatriði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og skipulag þingsins. Auk þess sem þau gátu kynnst hvert öðru. Fjórir undirbúningsfundir voru haldnir fyrir barnaþingið en auk þeirra voru átta verkefni lögð fyrir börnin. Þátttaka í verkefnum og á fundum var valfrjáls.

Á næsta barnaþingi sem haldið verður árið 2021 mun sérstaklega vera gerð grein fyrir því með hvaða hætti sjónarmið barnaþingmanna, frá barnaþingi 2019, hafa haft áhrif á stefnumótun stjórnvalda.

Hér má nálgast dagskrá barnaþings 2019 í Hörpu. 

Fjölmiðlaumfjöllun um barnaþing

Töluverð fjölmiðlaumfjöllun var um barnaþingið 2019, sjá lista hér fyrir neðan.


Teikningar frá barnaþingi 2019

 Teikning barnaþing 2019

Elín Elísabet teiknari fangaði augnablik barnaþings 2019 með sínum stórkostlegu teikningum. Teikningarnar er hægt að skoða í heild sinni hér. Nánari upplýsingar um Elínu Elísabetu er að finna á vefsíðu hennar hér.

Myndband frá barnaþingi


Niðurstöður barnaþings

Niðurstöður barnaþings voru afhentar ráðherrum þann 8. maí 2020.

Skýrsla með niðurstöðum barnaþings.


Myndband frá afhendingunni

https://youtu.be/KjRC4WWGgOQHafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica