Upplýsingar til þátttakenda

Hér má finna svör við helstu spurningum barna vegna þátttöku þeirra á barnaþing.

Þarf ég að undirbúa mig eitthvað fyrir þingið?

 • Þú þarft ekkert að undirbúa þig sérstaklega fyrir þingið. Við viljum að þú mætir á Barnaþingið nákvæmlega eins og þú ert.
 • Fyrir þá sem vilja verður þó í boði að taka þátt í undirbúningsfundum og verkefnum í gegnum internetið. Öll undirbúningsvinna er létt, skemmtileg og valfrjáls.

Kostar eitthvað að taka þátt í þinginu?

 • Nei, það kostar ekkert að taka þátt í þinginu.

Fæ ég borgað fyrir að taka þátt í þinginu?

 • Nei, allir þátttakendur þingsins eru gestir en fá ekki greitt fyrir þátttöku. Allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal fyrir þátttöku sína á þinginu.

Er skyldumæting?

 • Nei, það er ekki skyldumæting á þingið en það væri afskaplega gaman að fá þig.

Mega foreldrar mínir koma með mér á þingið?

 • Nei, foreldrum er ekki boðið með á þingið. Börn sem þurfa auka stuðning fá hann í samráði við foreldra. 

Má ég taka vin með á þingið?

 • Nei, því miður er þingið bara fyrir þá sem fengu boð um að mæta.

Hvar er þingið haldið?

 • Barnaþingið 2021 er haldið Hörpu í Reykjavík.

Hvernig kemst ég á staðinn?

 • Það er auðvelt að komast á einkabíl í Hörpu. Einnig er hægt að taka strætó og stoppar strætó nr. 3 beint fyrir utan. Frekari upplýsingar eru að finna á strætó.is

 • Í boði er ferðastyrkur fyrir þau börn sem koma lengst að og verður opnað fyrir umsóknir þegar nær dregur barnaþingi.

Fæ ég eitthvað að borða á þinginu?

 • Á fimmtudeginum er stuttur dagur en boðið er upp á brauðmeti og ávexti þegar þú mætir á svæðið. 

 • Á föstudeginum er mælt með að þú fáir þér morgunmat áður en þú mætir á þingið en boðið verður upp á hádegismat og millimál á meðan á þinginu stendur. Ekki er ástæða til að koma með nesti með sér en ef þú vilt getur þú haft með þér vatnsbrúsa.

Hvernig fötum á ég að mæta í?

 • Mikilvægt er að þú mætir í fötum sem þér líður vel í. Gott er að hafa í huga að klæða sig snyrtilega.

Hvernig er aðgengi fyrir hreyfihamlaða?

 • Aðgengi er almennt mjög gott í Hörpu. Hægt er að lesa sér til um það á heimasíðunni https://harpa.is/harpa/adkoma.

 • Gott væri ef tilkynnt væri til skrifstofu umboðsmanns barna um sérstök atriði svo hægt sé að tryggja aðgengi allra.

Ég er með fæðuofnæmi, hvernig læt ég vita af því?

 • Allir þátttakendur á þinginu þurfa að skrá sig á þingið í gegnum heimasíðuna https://barn.felog.is, þar óskum við eftir öllum upplýsingum varðandi ofnæmi, óþol og slíkt. Einnig er hægt að senda okkur tölvupóst á barnathing@barn.is eða hringja á skrifstofu umboðsmanns barna í síma 552-8999.

Á hvaða tungumáli fer þingið fram?

 • Þingið fer fram á íslensku.

 • Boðið verður uppá táknmálstúlkun eftir þörfum.

Hvað er þingið lengi?

 • Dagskráin á fimmtudeginum hefst klukkan 13:00 og lýkur klukkan 16:00.

 • Mæting er klukkan 8:30 á föstudeginum en dagskrá hefst klukkan 09:00 og lýkur klukkan 16:00. 

 • Nánari dagskrá verður auglýst þegar nær dregur.

Fæ ég frí í skólanum til að koma á barnaþing?

 • Í samráði við forsjáraðila og skóla verður leitast eftir því að börn fái frí til þess að taka þátt í þinginu.

Verða skemmtiatriði?

 • Já það verða skemmtiatriði sem þátttakendur þingsins taka þátt í að velja.

Get ég hætt við að koma ef ég skrái mig?

 • Já þú getur hætt við. Ef barn hættir við eða forfallast þarf að tilkynna það með því að senda tölvupóst á barnathing@barn.is, hringja á skrifstofu umboðsmanns barna í síma 552-8999 eða breyta skráningunni á netinu, https://barn.felog.is.

Af hverju er mér boðið á barnaþing?

 • Þátttakendur á barnaþing eru valdir af tilviljun. Umboðsmaður barna fékk aðstoð frá þjóðskrá til að draga út einstaklinga á aldrinum 11-15 ára sem boðið er á barnaþing.


Ef þú eða foreldrar/forsjáraðilar þínir eruð með einhverjar spurningar eða vangaveltur varðandi þingið þá endilega hafið samband símleiðis á skrifstofu umboðsmanns barna í síma 552-8999 eða með því að senda tölvupóst á barnathing@barn.is.

barnaþing memes

Upplýsingar eru birtar með fyrirvara um breytingar. 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica