Réttindagæsla barna

Réttindagæsla barna er tilraunaverkefni til tveggja ára, en um er að ræða aðgerð sem kveðið er á um í aðgerðaáætlun um innleiðingu Barnasáttmálans, fyrir árin 2021-2024, sem samþykkt var á Alþingi, í júní 2021. 

Börn (yngri en 18 ára)...

Ef þú ert barn og vilt fá upplýsingar um réttindi þín, þá er þér velkomið að hafa samband við umboðsmann barna með því að:

  • Senda okkur skilaboð á vefspjallinu með því að ýta á rauða hringinn neðst hægra megin á síðunni og spjalla við okkur eða skilja eftir skilaboð
  • Hringja í okkur í barnasímann, s. 800-5999 sem kostar ekkert á milli kl. 9 – 15 alla virka daga og frá 9 – 12 á föstudögum
  • Senda okkur tölvupóst á ub@barn.is
  • Senda okkur skilaboð hér í gegnum vefsíðuna okkar

Börn eru í forgangi hjá umboðsmanni barna og við munum svara eins fljótt og við getum.

Réttindagæslumaður hjá umboðsmanni barna getur meðal annars hjálpað börnum með því að tala við fullorðna sem tengjast málinu til að gæta þess að réttindi barna séu virt.


Senda erindi...

Óskir þú eftir aðkomu réttindagæslunnar að máli barna, þá getur þú sent erindi með því að smella á hnappinn hér að neðan

Senda erindi 

Um réttindagæsluna

Í aðgerðaáætluninni kemur fram að markmið verkefnisins sé að börn og/eða foreldrar þeirra geti leitað stuðnings og ráðgjafar hjá aðila sem aðstoði þau við að leita réttar barns hjá stjórnvöldum telji þau brotið gegn réttindum þess. Tilgangurinn er enn fremur að efla hlutverk embættisins í að taka á móti erindum frá börnum, veita þeim stuðning, ráðgjöf og aðstoð við að leita réttar síns gagnvart stjórnvöldum. Í öllu starfi umboðsmanns barna er skýr áhersla á 12. gr. Barnasáttmálans, og unnið að því markmiði að við mótun stefnu og töku ákvarðana sem varða börn verði ávallt leitað eftir og tekið tillit til sjónarmiða þeirra.

Eins og önnur verkefni embættisins, mun starf réttindagæslunnar byggja á ákvæðum laga um umboðsmann barna, nr. 83/1994. Þar kemur fram að hlutverk umboðsmanns barna sé að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Þá skal umboðsmaður barna vinna að því að stjórnvöld, einstaklingar, félög og önnur samtök einstaklinga og fyrirsvarsmenn lögpersóna taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Í starfi sínu skal umboðsmaður barna setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins.

Hlutverk réttindagæslunnar

Í 4. gr. laga um umboðsmann barna er kveðið á um rétt barna sem og annarra til að leita til umboðsmanns barna með erindi sín, en áhersla er lögð á að tryggja greiðan aðgang barna að embættinu. Þá kemur fram í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um umboðsmann barna, að eigi barn hlut að máli, er umboðsmanni barna heimilt að aðstoða barnið við að koma athugasemdum sínum á framfæri eða ná fram rétti sínum.

Réttindagæslan mun ávallt hafa hagsmuni og réttindi barna að leiðarljósi í allri sinni starfsemi.

Meðferð mála hjá réttindagæslunni

Meðferð mála sem réttindagæslan tekur til skoðunar mun byggja á heimildum umboðsmanns barna, samkvæmt lögum um umboðsmann barna. Þeir sem óska eftir aðkomu réttindagæslunnar eru beðnir um að fylla út þar til gert eyðublað, eftir að hafa kynnt sér þær upplýsingar sem fram koma hér að neðan, um starfsemi, hlutverk og markmið réttindagæslunnar.

Ef beiðni um aðkomu réttindagæslunnar varðar ákvörðun sem skjóta má til æðra setts stjórnvalds eða dómstóls, verður það mál ekki tekið fyrir hjá réttindagæslunni, til að tryggja skilvirkni og rétta málsmeðferð.

Forgangsröðun og tímamörk mála

Samkvæmt 4. gr. laga um umboðsmann barna tekur umboðsmaður mál til meðferðar í kjölfar ábendinga eða erinda eða að eigin frumkvæði. Hann ákveður sjálfur hvort ábending eða erindi gefi tilefni til meðferðar af hans hálfu og er sú ákvörðun endanleg. Er umboðsmanni barna þannig ætlað að forgangsraða og taka fyrir mál sem hann telur nauðsynlegt að beita sér fyrir þar sem þau varði brýna hagsmuni og réttindi barna. Sú meginregla mun einnig eiga við um starf réttindagæslunnar, en beiðnum til réttindagæslunnar verður forgangsraðað, í þágu mála þar sem líkur eru á að aðkoma réttindagæslunnar geti raunverulega bætt stöðu og tryggt rétt barns. Forgangsröðun mun einnig taka mið af eðli og alvarleika mála. Til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með tilkomu réttindagæslunnar, verður jafnframt miðað við þau tímamörk, að ekki séu liðnir meira en 12 mánuðir frá upphafi þess máls sem óskað er eftir að réttindagæslan taki til skoðunar.

Persónuleg ágreiningsmál

Lög um umboðsmann barna gera ráð fyrir að umboðsmaður barna taki ekki til meðferðar eða sinni persónulegum ágreiningsmálum milli einstaklinga. Má í því samhengi nefna deilur milli barns og foreldra og milli foreldra innbyrðis, en þar má helst nefna forsjár- og umgengnisdeilur. Réttindagæslan mun samkvæmt því ekki taka slík mál til meðferðar, né önnur persónuleg ágreiningsmál foreldra eða forsjáraðila barns. Embættið mun eftir sem áður veita þeim sem til embættisins leita með slík mál, upplýsingar um réttindi barna og tiltækar leiðir innan stjórnsýslu eða hjá dómstólum.

Hverjir geta leitað til réttindagæslunnar

Í starfi réttindagæslunnar er lögð rík áhersla á að aðkoma hennar að málum einstakra barna sé í þágu þeirra og eigi sér stað með þeirra vitund, samþykki og þátttöku. Foreldrar eða aðrir talsmenn barns geta þó leitað til réttindagæslunnar fyrir hönd barnsins, en réttindagæslan áskilur sér þó rétt til að leita með virkum hætti eftir samþykki þess barns sem um ræðir hverju sinni.

Öflun upplýsinga og könnun á aðbúnaði

Meðferð máls hjá réttindagæslunni getur m.a. falist í öflun upplýsinga frá þeim aðila sem hefur mál barnsins til meðferðar og/eða öðrum tengdu málinu. Samkvæmt 5. gr. laga um umboðsmann barna er stjórnvöldum skylt, þrátt fyrir þagnarskyldu, að veita umboðsmanni allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. Með sama hætti er einstaklingum, félögum og samtökum skylt að veita umboðsmanni upplýsingar.

Aðkoma réttindagæslunnar að máli getur falist í skoðun á aðbúnaði barna á stofnunum sem vista þau eða veita þeim þjónustu, en samkvæmt 5. gr. laga um umboðsmann barna skal umboðsmaður hafa óheftan aðgang að öllum stofnunum sem hafa afskipti af börnum í starfsemi sinni, hvort sem þær eru reknar af opinberum aðilum eða einstaklingum, félögum eða samtökum einstaklinga.

Framsetning ábendinga

Skoðun réttindagæslunnar á tilteknu máli getur gefið tilefni til ábendinga um tiltekin atriði er varða réttindi barna, svo sem um rétt þeirra til nauðsynlegrar og viðeigandi þjónustu, rétt þeirra til þátttöku í öllum málum sem þau varðar og rétt barna til upplýsinga við hæfi. Einnig getur verið tilefni til að árétta sérstaklega skyldu þeirra sem taka ákvarðanir sem varða börn, um að taka beri slíkar ákvarðanir út frá því sem börnum er fyrir bestu, að teknu tilliti til sjónarmiða þeirra og óska.

Vert er að árétta að umboðsmaður barna getur ekki gefið stjórnvöldum eða einkaaðilum bindandi fyrirmæli um meðferð eða lyktir máls. Þá getur umboðsmaður barna ekki endurskoðað ákvarðanir stjórnvalda og tilkoma réttindagæslunnar mun engin áhrif hafa á tiltækar kæru- og áfrýjunarleiðir, en nánari upplýsingar um þær má finna hér.

Lyktir máls

Eftir að beiðni hefur borist til réttindagæslunnar, verður tekin afstaða til hennar innan 14 daga. Beiðni sem ekki er tekin til skoðunar hjá réttindagæslunni getur þrátt fyrir það verið tekin til skoðunar hjá embætti umboðsmanns barna á almennum grundvelli sem ábending en umboðsmaður barna metur það hverju sinni.

Samkvæmt lögum um umboðsmann barna ákveður umboðsmaður sjálfur hvort ábending eða erindi gefi tilefni til meðferðar af hans hálfu, en í því felst jafnframt að umboðsmaður barna ákveður hvort beiðni til réttindagæslunnar verði tekin til meðferðar og þá með hvaða hætti. Það er jafnframt á hendi umboðsmanns að taka ákvörðun um að aðkomu réttindagæslunnar að máli ljúki á tilteknum tímapunkti, t.d. ef fyrirsjáanlegt er að ekki náist frekari árangur og er sú ákvörðun endanleg. 


Senda erindi


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica