Samráð við börn

Barn á rétt á því að hafa áhrif á eigið líf og að taka þátt í lýðræðislegri mótun samfélagsins. 

Börn eiga rétt á því að hafa áhrif á eigið líf og taka þátt í lýðræðislegri mótun samfélagsins. Þegar taka á ákvörðun sem varðar börn eiga þau rétt á því að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós auk þess sem taka ber réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Hér er um rétt barna að ræða en ekki skyldu. Barn þarf því ekki að tjá sig ef það vill það ekki. Skylda hvílir hins vegar á þeim fullorðnu að tryggja börnum raunveruleg tækifæri til þess að tjá sig og taka þátt í ákvarðanatöku á þeirra eigin forsendum. Stjórnvöld eiga jafnframt að veita sjónarmiðum barna farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Það á að hafa börn með í ráðum við skipulag menntunar og börn eiga að geta haft áhrif á allt sem viðkemur þeirra skólagöngu.

Þegar taka á ákvörðun sem hefur áhrif á barn ber foreldrum þess að ræða við barnið og taka réttmætt tillit til skoðanna þess í samræmi við aldur og þroska barnsins.

Það er mikilvægt að börnum sé gefið tækifæri til þess að tjá sig við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi. Eins og þegar um er að ræða deilur um forsjá eða umgengni. Börn eiga einnig rétt á því að vera höfð með í ráðum eins og kostur er þegar teknar eru ákvarðanir um læknismeðferðir. Frá 12 ára aldri ber alltaf að hafa þau með í ráðum og við 16 ára aldur verða börn sjálfstæðir aðilar að heilbrigðiskerfinu. 

Vissir þú að...

Umboðsmaður barna hefur tekið saman efni í þeim tilgangi að auðvelda öllum þeim sem vinna með börnum og ungu fólki, að ræða við það á lýðræðislegum vettvangi, um málefni sem snúa að þeim. Stuðst er við efni frá umboðsmönnum barna bæði i Svíþjóð og í Noregi.


Vissir þú að...

Umboðsmaður barna fer með utanumhald og rekstur ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Meginmarkmið ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði á meðal ungmenna og innan samfélagsins í heild. Því er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennum er með þessum hætti gefinn vettvangur til að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni.





Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica