Samtal við sérfræðihópa barna og ungmenna

Umboðsmaður barna leggur mikla áherslu á 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um rétt barna til þess að tjá sig og skylduna til þess að taka tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Börn eru sjálf sérfræðingar í því að vera börn og skiptir því miklu máli að þau fái tækifæri til þess að hafa áhrif á eigið líf sem og samfélagið í heild. Þátttaka barna eflir ekki einungis þroska þeirra sjálfra, heldur er það ennfremur mikilvægt fyrir samfélagið í heild að nýta þá einstöku sýn, reynslu og þekkingu sem börn búa yfir. Það ætti í raun aldrei að taka mikilvægar ákvarðanir sem varða börn án þess að leitað sé eftir sjónarmiðum þeirra sjálfra og tillit sé tekið til þeirra. Umboðsmaður barna hefur það hlutverk að vera opinber talsmaður fyrir öll börn á Íslandi, en til þess að geta sinnt því hlutverki þarf hann að vera í góðu sambandi við börn og hlusta á reynslu þeirra og skoðanir.

Hér höfum við tekið saman efni sem er þýtt og staðfært, í þeim tilgangi að auðvelda öllum þeim sem vinna með börnum og ungu fólki, að ræða við það á lýðræðislegum vettvangi, um málefni sem snúa að þeim. Stuðst er við efni frá umboðsmönnum barna bæði i Svíþjóð og í Noregi.

Markmiðið er að efla þá sem starfa með börnum og ungu fólki að hlusta á skoðanir og reynslu þeirra, án þess að reyna hafa áhrif á þau, beint eða óbeint.

Undirbúningur

Þegar verið er að leita eftir viðhorfum barna um tiltekin málefni þarf að vera búið að afmarka það efni sem á að taka til umfjöllunar og vinna með. Þá er ákaflega mikilvægt að setja upp áætlun um verkefnið.

Sú áætlun gæti litið nokkurn veginn svona út:

 1. Undirbúningur
 2. Upplýsingaöflun og samskipti við börn og ungt fólk
 3. Upplýsingafundur
 4. Skipulagning á fyrsta vinnufundi
 5. Fyrsti vinnufundur

Hér á eftir verður svo hver hluti áætlunarinnar útlistaður sérstaklega.

1. Undirbúningur

 • Hvaða málefni eru það sem óskað er eftir viðhorfum barna á?
 • Hvaða börn eru það sem leitast er eftir að ná til? Á hvaða aldri ættu þau að vera? Hversu mörg ættu þau að vera?
 • Tilgangur - Hvert er markmiðið með fundinum með börnunum? Mikilvægt er að markmiðið sé skýrt þegar haft er samband við börnin, svo að þau átti sig á því hvernig þau geta aðstoðað í verkefninu.
 • Stuðningur - Ef verið er að ræða við börn sem eru í viðkvæmri stöðu er mjög mikilvægt að viðeigandi stuðningur sé til staðar fyrir þau. Þeir aðilar sem gætu veitt slíkan stuðning ættu mögulega að vera aðilar að verkefninu og tilbúnir að bregðast við. Því þarf að vera með þá aðila sem mögulega gætu þurft að koma að verkefninu, tilbúna.
 • Niðurstöður - Hvernig koma niðurstöður verkefnisins til með að vera notaðar? Börnin ganga út frá því að búið sé að hugsa allt ferlið í heild sinni. Þau koma til með að vilja vita hvað verður gert með „þeirra“ hugsanir, hugleiðingar, skoðanir og upplifanir. Hvað verður gert við þeirra framlag og hvernig verður það framsett? Útskýra þarf þetta strax í upphafi þannig að börnin hafi skýra mynd á afrakstrinum/niðurstöðunum.
 • Þjálfun - Er þörf á því að þjálfa þá starfsmenn sem koma til með að vinna að verkefninu? Nauðsynlegt er að allir þeir sem að koma að verkefninu fái þjálfun í þeim aðferðum sem á að notast við og fái tækifæri til þess að efla þá færni sem þarfnast við verkefnið.
 • Tæki - Hvaða tæki og tól á að notast við og hvernig á að skrásetja niðurstöðurnar? Á að taka niður punkta, búa til myndbönd eða hljóðritanir?
 • Hvernig á að koma á upplýsingaflæði milli starfsfólks og þeirra sem taka þátt í verkefninu? Breytingar taka oft langan tíma. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að vera búin að útlista hvernig skuli koma upplýsingum áleiðis til þeirra sem taka þátt í verkefninu. Þátttakendur þurfa að fá upplýsingar um hvernig niðurstöður verkefnisins verða kynntar.

Hafa ber í huga

Mikilvægt er að gefa sér tíma til ígrundunar á meðan á undirbúningstímabilinu stendur þannig að allir sem koma að undirbúningi séu kunnugir þeim aðferðum sem beita skal við verkefnavinnuna. Til þess að þessi hugmyndafræði hafi áhrif þurfa allir þeir sem nýta hana að hafa trú á henni og geta sýnt að þeir séu í raun að hlusta á þátttakendur.

Valið á umfjöllunarefninu og þeim einstaklingum sem munu taka þátt í því, þarf að taka mið af því að börnin séu sérfræðingar í sínu umhverfi og búi yfir þekkingu sem hvergi er hægt að ná fram nema með því að hlusta á þau.

2. Upplýsingar og tengsl við börn og ungmenni

Að vera í samskiptum við börn og ungmenni krefst mikils tímalega séð. Góðar, lýsandi og haldbærar upplýsingar um verkefnið eru nauðsynlegar þegar verið er að ræða við mögulega þátttakendur í verkefninu. Ekki má gleyma því að það getur einnig verið mikilvægt að koma upplýsingum áleiðis til foreldra eða annarra sem sem eru með börn í sinni umsjá.

 • Skoða þarf vel hvaða leiðir skuli nota til að nálgast börnin og ungmennin sem eru sérfróð um það málefni sem kanna skal. Í sumum tilfellum er nóg að nálgast þau í sínu dagsdaglega umhverfi. Stundum er nauðsynlegt að kanna hvar hægt er að nálgast börn og ungmenni sem eru í viðkvæmri stöðu.
 • Þegar búið er að finna þær boðleiðir sem notast á við að nálgast börn og ungmenni, þarf að hugleiða hvernig upplýsingum er komið áleiðis, hvort sem það er gert skriflega eða munnlega. Skriflegar upplýsingar, svo sem tölvupóstur, gera það að verkum að viðtakandinn getur séð upplýsingarnar hvenær sem er og eins oft og hann þarf. Símtöl eru góð til þess að kanna hvort að viðtakandinn hafi skilið allar upplýsingarnar og er kjörið til þess að svara þeim spurningum sem upp kunna að koma.
 • Að kalla saman hóp barna og ungmenna, í þeim tilgangi að fá þeirra skoðanir, hugleiðingar og upplifanir, getur kallað á að þurfa þyki samþykki forsjáraðila. Mikilvægt er að tryggja að tekið sé tillit til aldurs og þroska þátttakenda til að þeir geti gefið upplýst samþykki fyrir þátttöku. Eftir atvikum þarf að meta hvort að leita þurfi eftir samþykki forsjáraðila.
 • Aðlaga þarf allar upplýsingar til þátttakenda eftir aldri og þroska þeirra. Upplýsingar þurfa að vera hnitmiðaðar, stuttar og skýrar. Lýsa þarf hvert markmið verkefnisins er og hvernig eigi sé og hvernig á að nota niðurstöður þess. Í bréfinu ætti að koma fram hvort þátttakendur geti tekið þátt nafnlaust eða ekki.
 • Ganga þarf úr skugga hvort að þátttakendur hafi fengið bréfið. Skýrt þarf að koma fram í bréfinu hvort að viðtakandi þurfi að senda einhverjar upplýsingar tilbaka eða hvort að umsjónarmenn verkefnisins muni hafa samband.

Hafa ber í huga

Í vissum tilvikum er hægt að hafa samband við aðila, félagasamtök og stofnanir til þess að nálgast börn og ungmenni.

Þegar verið er að skipuleggja fyrsta upplýsingafundinn er gott að útbúa gátlista yfir mikilvæga hluti sem þarf að fara yfir með þeim sem bera ábyrgð á barninu eða ungmenninu. Til dæmist þarf að skoða hvort það þurfi túlk eða stuðningsaðila fyrir börn eða ungmenni sem eru með sérþarfir, til þess að þau hafi tök á því að vera virk og taka þátt í fyrsta upplýsingafundinum.

3. Halda fyrsta upplýsingafundinn

Markmiðið með því að halda upplýsingafund í upphafi verkefnis er að veita þeim börnum og ungmennum sem eru að taka þátt innsýn í hvað verkefnið snýst um og til þess að koma á tengslum við þá sem vinna að verkefninu. Jafnvel þó að bréf hafi verið sent út er ekki víst að allir hafi lesið það eða meðtekið þær upplýsingar sem í bréfinu eru. Því mun þessi fundur leggja línurnar fyrir góða samvinnu og jákvæð samskipti. Eins er þessi fundur fyrsta tækifærið fyrir alla að hittast.

 • Gott er að byrja á því að sitja í hring og gefa öllum tækifæri til þess að kynna sig með nafni og uppáhaldslit eða mat.
 • Útskýra þarf hvert markmiðið með verkefninu er og hvers vegna hugleiðingar, skoðanir og upplifanir þeirra barna og ungmenna sem taka þátt í verkefninu eru mikilvægar. Útskýra þarf hver hefur aðgang að þeim upplýsingum og hvort að þátttakendur séu nafnlausir.
 • Upplýsa þarf um vinnufundina, hvar, hvenær, og klukkan hvað.
 • Útskýra þarf hvernig niðurstöðum verkefnisins verði komið til allra þátttakenda og þeirra sem að verkefninu standa.
 • Skapa þarf rými til umræðna og spurninga.
 • Skapa þarf tækifæri fyrir þau börn og ungmenni sem þegar eru búin að taka ákvörðun um sína þátttöku, til að skrá sig. Allir þeir sem þurfa frekar umhugsunartíma geta verið í sambandi fyrir vissa dagsetningu. Mikilvægt er að þátttakendur skilji og viti að þeir geta sagt sig frá verkefninu hvenær sem er.
 • Dreifa skal nafnspjöldum með tengiliðaupplýsingum um hvernig þátttakendur geta haft samband við umsjónaraðila verkefnisins.

Hafa ber í huga

Í sumum tilfellum er betra að hitta börn og ungmenni án þess að það séu aðrir fullorðnir með í för. Þannig skapast oft rými fyrir þátttakendur til þess að taka sínar eigin ákvarðanir varðandi þátttöku sína í verkefninu. Halda skal fundartíma innan tímamarka, hafa fundinn hnitmiðaðan. Takmarka skal umræður og geyma þær fyrir fyrsta vinnufundinn. Mikilvægt er að fara yfir tilkynningarskyldu til barnaverndar með þátttakendum. Þannig fá þau umhugsunarfrest með þátttökuna og vita það fyrirfram að tilkynningarskylda þeirra sem standa að verkefninu geti komið til álita.

4. Skipulagning á fyrsta vinnufundinum

Aðlaga þarf vinnufundinn eftir því hvernig hópurinn er samsettur, eftir þroska og aldri þeirra sem í hópnum eru. Þátttakendur ættu að vinna í litlum hópum og samkvæmt þessari hugmyndafræði eru 6-8 einstaklingar í hóp, kjörin stærð. Gott er að reyna að hafa þá sem eru í hópnum á svipuðum aldri ef hægt er að koma því þannig fyrir.

 • Mikilvægt er að vera búinn að fá þau leyfi sem til þarf frá þátttakendum sjálfum og/eða forsjáraðilum þeirra.
 • Finna þarf hentuga tímasetningu fyrir fundinn sem skarast sem minnst á við skólatíma og frístundir þátttakendanna. Áætla þarf að minnsta kosti 4 tíma fyrir þennan fund.
 • Bóka þarf aðstöðu sem er hlutlaust svæði fyrir þátttakendurna, þannig upplifa þátttakendur sig frjálsari að tjá sínar skoðanir og ræða sínar upplifanir. Ekki er gott að vera með hóp einstaklinga til þess að ræða einelti í skólanum og funda í skólanum. Það yrði hópnum íþyngjandi. Undirbúa þarf mat og drykk og passa að hann sé góður og að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Gott er að bjóða upp á eitthvað sem telst eftirsóknarvert.
 • Huga þarf að ferðatilhögun þátttakendanna á fundinn. Ef borga þarf ferðakostnað þarf að vera með öll skjöl tiltæk og sjá um þær bókanir sem þarf.
 • Vera í sambandi við þátttakendurna og koma öllum upplýsingum sem þeir þurfa að hafa til þeirra fyrir fundinn, þannig að allir séu með allar upplýsingar tiltækar sem notast á við á fundinum.
 • Skoða þarf tryggingarmál ef svo ber undir og hvort að þurfi að bæta við einhverjum tryggingum fyrir hópinn.

Hafa ber í huga

Þessi undirbúningur getur verið mjög tímafrekur. Það þarf að gefa sér góðan tíma til að senda út upplýsingabréf/pósta og fylgja þeim svo eftir með símtölum. Stundum þarf að hringja nokkrum sinnum til þess að fullvissa sig um að allir séu að fá þær upplýsingar sem þarf fyrir fundinn. Vera þarf vakandi fyrir öðrum leiðum til þess að vera í samskiptum við þátttakendur og forsjáraðila þeirra þar sem að það eru ekki allir vanir því að fá upplýsingar í símtali eða í bréfi/pósti. Ef til vill þarf að túlka, þýða eða gefa rýmri tíma til þess að melta upplýsingarnar. Ef að fullorðinn kemur með þátttakenda, á fundinn þarf að vera búið að undirbúa þann fullorðna fyrir fundinn. Sérstaklega í ljósi þess að sá fullorðni getur ekki verið á fundinum sjálfum því hans viðvera getur haft áhrif á hversu opinskátt börnin og ungmennin geti tjáð sig.

Ef fundurinn fer fram á skólatíma þarf að vera búið að fullvissa um að þátttakendur hafi fengið leyfi í skólanum.

5. Fyrsti vinnufundur

Fyrir fyrsta vinnufund þarf að vera búið að skipuleggja öll hagnýt mál, líkt og panta fundarstað, ákveða fundartíma, ferðatilhögun þátttakenda og þeirra sem vinna að verkefninu og að vera búin að fá öll tilskyld leyfi. Vinnuaðferðir þurfa að vera komnar á hreint og dagskráin sömuleiðis. Ekki má gleyma í allri skipulagningu að skapa svigrúm til þess að bregðast við breytingu á dagskrá og tíma til endurspeglunar sömuleiðis. Það er ákaflega mikilvægt að enginn brenni inni með nein málefni


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica