Um barnaþing

Barnaþing er reglubundinn vettvangur fyrir börn til þess að láta skoðanir sínar í ljós.

Barnathing_2022-71

Barnaþing gefur stjórnvöldum tækifæri á að fylgja hugmyndum barnaþingmanna eftir og koma tillögum þeirra í framkvæmd. Embættinu ber að boða fjölbreyttan hóp barna til þingsins, alþingismenn, fulltrúa stofnana ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna. Við upphaf þingsins leggur umboðsmaður barna fram skýrslu um stöðu barna á Íslandi, þar sem m.a. er farið yfir þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins. Umboðsmaður barna ákveður önnur verkefni þingsins. Barnaþingi er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau og veita sjónarmiðum þeirra farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu í samræmi við 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Barnaþingi er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu

Í lögum um umboðsmann barna er kveðið á um að haldið verði annað hvert ár þing um málefni barna. Umboðsmaður barna boðar til þingsins og kynnir niðurstöður og ályktanir þess fyrir ríkisstjórn.

barnaþing

Áhersla er lögð á að efla möguleika barna til þess að hafa áhrif á eigin líf og umhverfi. Fyrir hvert þing mun embætti umboðsmanns barna leita eftir því að ná fram sjónarmiðum barna um með hvaða hætti þau upplifa áhrif eða áhrifaleysi í daglegu lífi og hvað þeim finnist mikilvægast að stjórnvöld fjalli um. Umboðsmaður barna mun afhenda ríkisstjórn niðurstöður að hverju þingi loknu og fylgja eftir tillögum og ályktunum þingsins.

barnaþing 2022

Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands var verndari fyrsta barnaþingsins. Í forsetatíð sinni lagði Vigdís áherslu á umhverfismál, ræktun tungumálsins og menningu, þar á meðal barnamenningu.

Raunverulegt samráð við börn

Í 12. gr. Barnasáttmálans er kveðið á um rétt barna til þess að láta skoðanir sínar í ljós í málefnum sem varða þau og jafnframt að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Talsverð fræðileg greining hefur verið gerð á samráði við börn. Laura Lundy hefur greint kjarna 12. gr. sáttmálans í fjóra meginþætti sem allir þurfa að vera til staðar til þess að um raunverulegt samráð við börn sé að ræða. Þessi atriði eru:

  • Vettvangur (e. space) - Skapa þarf vettvang þar sem börn eru örugg og öll börnin taka þátt.
  • Rödd (e. voice) - Börn fái nauðsynlegar upplýsingar til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
  • Áheyrn (e. audience) - Börn njóti áheyrnar og hlustað sé á þeirra sjónarmið.
  • Áhrif (e. influence) - Sjónarmið barna séu tekin alvarlega og hafi áhrif á stefnumótun þar sem við á.

Á barnaþingi mun ávallt vera lögð áhersla á að uppfylla alla þessa þætti.

Þegar börn eru kölluð til samráðs skiptir miklu að búið sé svo um hnútana að þau geti raunverulega sagt það sem þeim finnst, að hlustað sé á skoðanir þeirra og tekið mark á þeim. Einnig er mikilvægt að niðurstöður barnaþings hverju sinni verði nýttar við stefnumótun og ákvarðanir stjórnvalda. Þannig er tryggt að börnin upplifi að á þau hafi verið hlustað og þátttaka þeirra hafi haft sýnileg áhrif.

barnaþing 2022

Fyrri barnaþing

Barnaþing var fyrst haldið 21. og 22. nóvember 2019 í Hörpu. Þingið var haldið með þjóðfundarformi og fengu börnin fullt frelsi til þess að koma sínum áhersluatriðum á framfæri. Hér fyrir neðan má lesa meira um fyrsta barnaþing.

Barnaþing 2022

Barnaþing 2019


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica