Barnasáttmálinn og réttindi barna á tímum heimsfaraldurs

Skýrsla umboðsmanns barna lögð fram á barnaþingi 3. - 4. mars 2022

  • stúlka fyrir framan töflu

"Þegar Covid kom til Íslands hélt ég að allt myndi vera eins. Svo kom í ljós að það var ekkert eins. En ég get ekki logið og sagt að neitt af þessu hafi verið létt". 

 Inngangur

Samkvæmt lögum um umboðsmann barna, nr. 83/1994, ber umboðsmanni barna að boða til þings um málefni barna annað hvert ár og skulu niðurstöður og ályktanir þingsins kynntar ríkisstjórn. Þá segir enn fremur í 6. gr. a. laganna, að á þinginu skal fjalla um málefni barna , og við upphaf þess leggur umboðsmaður fram skýrslu um stöðu þeirra. Í skýrslunni skal m.a. fjallað um stöðu og þróun málefna barna á helstu sviðum samfélagsins, þar á meðal með hliðsjón af Barnasáttmálanum.

Á fyrsta barnaþingi sem fram fór árið 2019, lagði umboðsmaður barna fram skýrslu , um rétt barna til þátttöku, sem embættið hefur lagt ríka áherslu á í öllu sínu starfi. Í þetta sinn er lögð fram skýrsla á barnaþingi sem fjallar um réttindi barna á tímum heimsfaraldurs og hlutverk og vægi Barnasáttmálans í þeim aðstæðum. Á síðustu tveimur árum hafa íslensk börn tekið virkan þátt í baráttunni gegn veirunni og hafa lagt mikið af mörkum til þess að tryggja lýðheilsu sem og aðra samfélagslega hagsmuni. Það er því brýnt að greina hvernig tekist hefur að tryggja hagsmuni og réttindi barna, þannig að unnt sé að draga af því lærdóm, og grípa til aðgerða sem miða að því að réttindi barna séu ávallt virt að fullu, óháð þeim samfélagslegu aðstæðum sem uppi eru hverju sinni.

barnaþing 2019

Í skýrslunni er m.a. fjallað um þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til, í því skyni að hefta útbreiðslu faraldursins, og hvort og þá að hvaða marki, þær aðgerðir hafa verið í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans. Ljóst er að á tímum heimsfaraldurs hefur oft verið nauðsynlegt að taka ákvarðanir með skömmum fyrirvara og ekki hægt að fara að ítrustu kröfum um vandaðan undirbúning ákvarðana. Hins vegar hafa ákvarðanir verið teknar, um afar íþyngjandi ráðstafanir sem varða börn með beinum hætti, án þess að mat hafi verið lagt á áhrif þeirra á börn, sem felur í sér að ekki er unnt að grípa til mótvægisaðgerða, til þess að draga úr neikvæðum áhrifum á börn.

Ýmsar ákvarðanir hafa á tímum Covid-19 verið teknar sem varða börn og daglegt líf þeirra, án aðkomu þeirra að þeirri ákvarðanatöku og einnig hefur verið misbrestur á því að börn hafi fengið nauðsynlegar upplýsingar. Það sýnir fram á nauðsyn þess að íslensk stjórnvöld stígi næstu skref í innleiðingu Barnasáttmálans, enda er það ekki síst þegar vá steðjar að, sem hvað mikilvægast er að virða, vernda og tryggja réttindi barna, enda þekkt að í slíkum aðstæðum er heilsu og velferð barna hætta búin. Þannig hafa ýmsar aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í baráttunni gegn Covid-19, sýnt fram á mikilvægi þess að mat á hagsmunum barna verði hluti af ákvörðunartöku, til að uppfylla skyldur aðildarríkja samkvæmt ákvæðum Barnasáttmálans, og stuðla að vandaðri ákvarðanatöku og aðgerðum. Í stefnu um barnvænt Ísland, framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var á Alþingi þann 10. júní 2021, kemur m.a. fram að hagsmunamat út frá réttindum barna, eigi að verða hluti af skyldubundnu ferli við undirbúning lagafrumvarpa, stefnumótandi ákvarðana og ákvarðana um réttindi einstakra barna. Brýnt er að sú aðgerð komi til framkvæmda hið allra fyrsta, enda má leiða að því líkur, að ferlar og verklag sem tryggja upplýsingagjöf til barna, þátttöku þeirra í ákvarðanatöku og mat á áhrifum á þau, hefðu nýst til að fyrirbyggja ýmis neikvæð áhrif sem sóttvarnaaðgerðir hafa haft á börn í íslensku samfélagi.

barnaþing 2019Með hliðsjón af því er brýnt að tekið sé til skoðunar hvort þörf er á að breyta framkvæmd eða verklagi, hvort setja þurfi nýja verkferla eða hvort endurskoða þurfi upplýsingagjöf til barna og tryggja að þau fái virk og raunveruleg tækifæri til þátttöku í allri ákvarðanatöku sem þau varðar, sama hvaða aðstæður eru uppi í samfélaginu. Þá ber íslenska ríkinu sem aðildarríki Barnasáttmálans að tryggja, að allar ákvarðanir sem varða börn, séu teknar út frá því sem þeim er fyrir bestu. Innleiðing Barnasáttmálans er og verður viðvarandi verkefni sem kallar á stöðuga rýni á það hvort og þá hvernig íslenska ríkið virðir skuldbindingar sínar samkvæmt Barnasáttmálanum. Í þessari skýrslu verða settar fram tillögur til úrbóta, sem miða að því að réttindi barna séu ávallt tryggð, líka á tímum heimsfaraldurs og neyðarástands. Á þessum tímapunkti er mikilvægt að staldra við og greina þau tilvik þar sem Barnasáttmálinn og þar með réttindi barna hafa ekki verið virt á fullnægjandi hátt, til þess að draga af því lærdóm.

Ýmsar upplýsingar liggja nú þegar fyrir um áhrif heimsfaraldursins og opinberra sóttvarnaðgerða á börn en það er hins vegar margt sem ekki er vitað. Það er því brýnt að stjórnvöld afli og miðli upplýsingum um stöðu og líðan barna í íslensku samfélagi, enda hafa þau gengið í gegnum mikla erfiðleika og þurft að þola miklar skerðingar á daglegu lífi og lífsgæðum. Þá er jafnframt mikilvægt að aflað sé upplýsinga um stöðu tiltekinna hópa barna, eins og barna af erlendum uppruna og fatlaðra barna. Þá er brýnt að ítarlega sé fylgst með þróun í heilsu og líðan barna á næstu árum og jafnvel lengur þar sem fyrirsjáanlegt er að ýmis áhrif munu ekki koma í ljós fyrr en að einhverjum tíma liðnum.

Mynd af barni

Í starfi umboðsmanns barna er skýr áhersla lögð á 12. gr. Barnasáttmálans, og unnið að því markmiði að við mótun stefnu og töku ákvarðana sem varða börn verði ávallt leitað eftir og tekið tillit til sjónarmiða þeirra, enda búa börn yfir einstakri reynslu og þekkingu sem og innsýn í málefni og reynsluheim barna. Á tímum Covid-19 hefur embættið ítrekað safnað frásögnum barna af því að upplifa heimsfaraldur og skerðingar á daglegu lífi þeirra, með það að markmiði, að annars vegar safna mikilvægum samtímaheimildum um aðstæður barna í samtímanum við áður óþekktar aðstæður og hins vegar að koma sjónarmiðum barna á framfæri og í opinbera umræðu. Í þessari skýrslu má víða finna tilvitnanir í frásagnir barnanna, þar sem þau með eigin orðum lýsa hugsunum sínum, líðan, áhyggjum og gleðiefnum á tímum Covid-19. Börnunum færum við bestu þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag til opinberrar umræðu um málefni barna.

Ég snýst í hringi,
reyni að finna fótfestu.
Þeir segja að það sé,
Mér fyrir bestu.
Að halda ró, þeir segja: 
,,taktu bara upp bók og lestu"
En það eru engar bækur eftir. 


Um umboðsmann barna

4. gr. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi þau, sem viðurkennd eru í samningi þessum, komi til framkvæmda.

Embætti umboðsmanns barna var stofnað 1. janúar 1995 til að stuðla að aukinni vernd réttinda barna í íslensku samfélagi. Samkvæmt lögum nr. 83/1994, er hlutverk umboðsmanns barna að vinna að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Að því markmiði vinnur umboðsmaður barna m.a. með því að setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins.

Barn í rólu

Verkefni embættis umboðsmanns barna felast meðal annars í að:

  • Hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna
  • Fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans, veita börnum og fullorðnum fræðslu um sáttmálann og stuðla að því að hann og aðrir alþjóðasamningar sem varða réttindi og velferð barna séu virtir
  • Setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins
  • Afla og miðla gögnum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna
  • Stuðla að þátttöku barna í samfélagslegri umræðu og stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum barna hjá ríki og sveitarfélögum
  • Stuðla að því að kynna fyrir almenningi löggjöf og aðrar réttarreglur sem varða börn og beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á því sviði 

Barnasáttmálinn

42. gr. Aðildarríki skuldbinda sig til að kynna meginreglur og ákvæði samnings þessa víða með viðeigandi og virkum hætti, jafnt börnum og fullorðnum. 

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálinn, var samþykktur þann 20. nóvember 1989. Barnasáttmálinn var undirritaður af Íslands hálfu þann 26. janúar 1990 og fullgiltur 28. október 1992. Samningurinn öðlaðist gildi á Íslandi 27. nóvember 1992. Barnasáttmálinn var svo loks lögfestur á Alþingi þann 20. febrúar 2013, með samþykkt laga nr.19/2013

Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu fullgildir einstaklingar og rétthafar, með sjálfstæð réttindi, óháð réttindum fullorðinna. Barnasáttmálinn kveður á um vernd grundvallarmannréttinda barna, eins og réttinn til lífs og þroska, friðhelgi fjölskyldu og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis. Þá leggur sáttmálinn þær skyldur á aðildarríki að grípa til virkra og raunverulegra aðgerða til að vernda, virða og tryggja þau réttindi. 

Barnasáttmálinn

Réttindi

Grundvallarreglur Barnasáttmálans

Tiltekin ákvæði Barnasáttmálans hafa verið skilgreind sem grundvallarreglur hans, sem líta ber til við beitingu og túlkun annarra ákvæða sáttmálans.

  • 2. grein - 1) Aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án mismununar af nokkru tagi, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar, ætternis eða annarra aðstæðna þess eða foreldris þess eða lögráðamanns. 2) Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.

  • 3. grein - 1) Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. 2) Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu. 3) Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón.
  • 6. grein - 1) Aðildarríki viðurkenna að sérhvert barn hefur meðfæddan rétt til lífs. 2) Aðildarríki skulu eftir fremsta megni tryggja að börn megi lifa og þroskast.
  • 12. grein - 1) Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. 2) Vegna þessa skal barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð.Hvaða kynþætti þau tilheyra eða hvernig þau eru á litinn.

Leiðbeiningar barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um Covid-19 og börn

43. gr. Til þess að kanna hvernig aðildarríkjum miðar við að koma í framkvæmd þeim skuldbindingum sem þau taka á sig með samningi þessum skal setja á stofn nefnd um réttindi barnsins

Það skal ég segja þér að það var ROOOOOOOOSA leiðinlegt að vera inni í hálfan mánuð bara að leika mér með hundinum eða spila tölvuleiki.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur tvíþætt hlutverk, annars vegar að hafa eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans hjá aðildarríkjum hans, og hins vegar að veita leiðbeiningar um túlkun og beitingu hans.

Yfirlýsing barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna

Þann 8. apríl 2020 gaf barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna út yfirlýsingu vegna umfangsmikilla áhrifa Covid-19 heimsfaraldursins á líkamlega og andlega líðan barna. Þar lýsir barnaréttarnefndin yfir áhyggjum af stöðu barna, sér í lagi þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu, vegna áhrifa faraldursins. Nefndin áréttar að þetta eigi sérstaklega við um þau lönd þar sem lýst hefur verið yfir neyðarástandi og sett á útgöngubann. Barnaréttarnefndin leggur áherslu á það að ríki verndi réttindi barna þegar ákvarðanir eru teknar um ráðstafanir til þess að bregðast við faraldrinum. Í yfirlýsingunni kallar barnaréttarnefndin eftir því að ríki:

  1. Taki mið af áhrifum faraldursins á réttindi barna m. a. hvað varðar heilsu, menntun og félagslega þætti. Þegar neyðarástand ríkir getur þurft að takmarka ákveðin mannréttindi í þeim tilgangi að vernda almannaheill. Það sé hins vegar mikilvægt að slíkar takmarkanir séu aðeins settar þegar brýna nauðsyn ber til og gætt sé meðalhófs við val á úrræðum og beitingu þeirra.
  2. Skoði mismunandi leiðir til þess að tryggja að börn fái notið réttinda sinna til hvíldar, tómstunda og menningarlífs. Mikilvægt er að tryggja að börn geti farið út að minnsta kosti einu sinni á dag og að þau hafi aðgang að barnvænu menningarefni í sjónvarpinu, útvarpinu eða á netinu.
  3. Tryggi að fjarkennsla auki ekki mismunun barna eða komi í stað samskipta nemenda við kennara sína. Fjarkennsla getur verið krefjandi fyrir nemendur sem hafa takmarkaðan aðgang að tölvum eða öðrum tæknibúnaði og nemendur sem af ýmsum ástæðum fá ekki notið stuðnings og aðstoðar foreldra sinna. Aðrar lausnir en fjarkennsla á netinu ættu að vera í boði fyrir þessi börn í þeim tilgangi að tryggja að þau njóti leiðsagnar og stuðnings kennara.
  4. Komi á aðgerðum til þess að tryggja að börn fái næringarríka fæðu á meðan útgöngubann, lokanir og neyðarástand ríkja, enda fá mörg börn sína einu heitu máltíð í mötuneytum skóla.
  5. Viðhaldi grundvallarþjónustu við börn eins og t.d. heilbrigðisþjónustu. Það er mikilvægt að börn hafði aðgang að heilbrigðiskerfinu vegna veikinda er tengjast Covid-19 sem og vegna annarra veikinda, andlegra eða líkamlegra.
  6. Skilgreini barnaverndarstofnanir sem nauðsynlega þjónustu og tryggi að þær geti starfað áfram og séu aðgengilegar. Einangrun getur orðið til þess að andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum innan heimilisins eykst. Þá getur verið krefjandi fyrir fötluð börn og þau sem eru með hegðunarvanda að vera lokuð innan heimilisins, það reynir jafnframt mikið á fjölskyldur þeirra. Ríki eigi því að styrkja tilkynningarþjónustu um aðstæður barna og vekja þurfi athygli á slíkri þjónustu og auka meðvitund almennings um heimilisofbeldi og tilkynningarskyldu. Einnig verða ráðstafanir sem miða að því að draga úr efnahagslegum og félagslegum áhrifum faraldursins, að innihalda sérstakar ráðstafanir til verndar börnum, sér í lagi þau sem eru í viðkvæmri stöðu, til að mynda þau sem búa við fátækt.
  7. Vernda þau börn sem eru í enn viðkvæmari stöðu en áður vegna áhrifa heimsfaraldursins, þar með talið fötluð börn, börn sem búa við fátækt, tilheyra minnihlutahópum, eru á flótta eða með undirliggjandi sjúkdóma. Ríkjum ber að virða jafnrétti barna þegar ráðstafanir eru gerðar vegna faraldursins og ber jafnframt að grípa til sértækra aðgerða sem miða að því að vernda börn sem eru í viðkvæmri stöðu.
  8. Veiti frelsissviptum börnum frelsi þegar því verður við komið, en ef það er ekki gerlegt, ber að veita þeim börnum tækifæri og möguleika á því að vera í samskiptum við fjölskyldur sínar. Mörg ríki hafa takmarkað heimsóknir á stofnanir þar sem börn eru vistuð. Þessar ráðstafanir geta virst nauðsynlegar til skamms tíma litið en þær geta orðið verulega íþyngjandi til lengri tíma og geta haft neikvæð áhrif á börn. Börn ættu alltaf að geta viðhaldið sambandi við fjölskyldu sína, ef ekki í persónu, þá með rafrænum hætti eða símleiðis.
  9. Fyrirbyggi frelsissviptingu barna vegna brota á lögum eða reglum um sóttvarnir.
  10. Miðli réttum og viðeigandi upplýsingum um Covid-19 og leiðir til að fyrirbyggja smit á mismunandi tungumálum og með barnvænni framsetningu, þannig að þær séu aðgengilegar öllum börnum, þ.m.t. fötluðum börnum, börnum með annað móðurmál en íslensku og börnum sem hafa takmarkað aðgengi að tölvum og netinu.
  11. Tryggi að börnum gefist tækifæri til að láta í ljós skoðanir sínar og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra í ákvarðanatöku vegna faraldursins. Börn eiga að geta gert sér grein fyrir stöðunni hverju sinni og upplifa að þau eigi aðild að ákvarðanatöku um viðbrögð við faraldrinum þar sem við á.

Í leiðbeiningum sínum brýnir barnaréttarnefndin fyrir aðildarríkjum barnasáttmálans, að grípa til allra nauðsynlegra og viðeigandi aðgerða, til að tryggja að réttindi barna séu vernduð og virt við töku ákvarðana og innleiðingu neyðaraðgerða vegna heimsfaraldursins. Flestar þjóðir standa nú frammi fyrir þeim raunveruleika að sóttvarnaaðgerðir hafa bitnað mjög á börnum og í einhverjum tilvikum haft afar neikvæðar afleiðingar á þau, en brýnt er að fram fari greining á því hverjar afleiðingarnar eru fyrir börn, og að gripið sé til ráðstafana til að veita börnum þann stuðning sem þau þurfa á að halda í kjölfarið.

Notum grímur, hlýðið þessum sóttvarnarlögum, þetta er ekki flókið meiri hlutinn á Íslandi ólst upp með lambhúshettu.


Það sem er börnum fyrir bestu

3. gr. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.

Ég gat ekki gert neitt. Ég missti af miklu og þurfti að sleppa mörgu. 

Ein meginregla Barnasáttmálans, nánar tiltekið grein 3.1, kveður á um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar gerðar eru ráðstafanir sem varða börn. Niðurstaðan um það hvað barni eða börnum er fyrir bestu hverju sinni er yfirleitt hvorki einföld né augljós og því þarf að fara fram sérstakt mat þar sem áhersla er lögð á að meta fyrir fram áhrif ákvarðana eða ráðstafana á það barn eða þau börn sem um ræðir.

Á árinu 2022 mun Ísland sitja fyrir svörum hjá barnaréttarnefndinni um innleiðingu Barnasáttmálans á Íslandi en í nóvember 2020 birti nefndin svokallaðan list of issues þar sem nefndin setur fram spurningar og óskar eftir upplýsingum um tiltekin atriði sem líkur eru á að nefndin muni að lokum gefa íslenska ríkinu tilmæli um. Meðal þess sem er á lista nefndarinnar er beiðni um upplýsingar um þær ráðstafanir sem íslenska ríkið hefur gripið til og sem miða að því að tryggja réttindi barna á tímum Covid-19. Þá hefur nefndin óskað eftir upplýsingum um þær mótvægisaðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að draga úr neikvæðum áhrif sóttvarnaaðgerða á börn. Barnaréttarnefndin hefur óskað eftir svörum íslenska ríkisins fyrir janúar 2022.

Þrjár víddir þess sem er barni fyrir bestu

Rettur-barna

Opinberir aðilar sem taka ákvörðun sem varðar börn bera skyldu samkvæmt ákvæðum Barnasáttmálans til að leggja mat á og setja í forgang, það sem þeim er fyrir bestu. 

Meginreglan um það sem barni er fyrir bestu endurspeglast víða í íslenskri löggjöf um málefni barna, eins og t.d. í barnalögum,nr. 76/2003, barnaverndarlögum, nr. 80/2002, lögum um þjónustu við fatlað fólkmeð miklar stuðningsþarfir, nr. 38/2018, og lögum um fullnustu refsinga, nr.15/2016. Þrátt fyrir það leiddi könnun umboðsmanns barna í ljós árið 2020, að aðeins 48% ríkisstofnana hafa lagt sérstaklega mat á áhrif eigin tillagna eða aðgerða á börn í íslensku samfélagi.

Í leiðbeiningum sínum um framkvæmd meginreglunnar um það sem barni er fyrir bestu, áréttar barnaréttarnefndin, að það sem barni er fyrir bestu, er bæði réttur einstakra barna sem og barna sem þjóðfélagshóps. Þá hefur nefndin staðfest að þó svo að allar ráðstafanir opinberra aðila hafi áhrif á börn á einn eða annan hátt, þýðir það ekki að í öllum tilvikum þurfi að fara fram ítarlegt og formlegt mat á því sem börnum er fyrir bestu. Ef ljóst er að ákvörðun eða önnur ráðstöfun muni hafa veruleg áhrif á barn eða eftir atvikum börn, ber hins vegar ávallt að framkvæma slíkt mat. Ef fleiri en einn valkostur kemur til greina, skal velja þann sem best tryggir hagsmuni barna.

Við undirbúning ákvarðana sem varða börn ber að leggja til grundvallar það sem barni er fyrir bestu, en það kallar á framkvæmd mats á áhrifum ákvörðunarinnar á börn hverju sinni. Sá sem tekur ákvörðun þarf að rökstyðja niðurstöðu um það sem barni er fyrir bestu, hvernig það mat var framkvæmt, og hvaða vægi bestu hagsmunir barna höfðu í samanburði við aðra hagsmuni. Ef byggja á ákvörðun á öðru en því sem barni er fyrir bestu, er mikilvægt að gripið sé til viðeigandi mótvægisaðgerða, til að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum á börn. Þetta sjónarmið á ekki síst við um töku ákvarðana á tímum heimsfaraldurs og neyðarástands, þar sem ljóst er að ekki er gerlegt að hlífa börnum alfarið við neikvæðum áhrifum ýmissa takmarkana.

Samkvæmt leiðbeiningum barnaréttarnefndarinnar þarf að festa í sessi mat á því sem börnum er fyrir bestu, þannig að það sé fastur liður í reglubundinni starfsemi allra opinberra stofnana til að tryggja að það sem barni er fyrir bestu sé í forgangi við allar ráðstafanir sem varða börn og að ákvæði Barnasáttmálans séu virt að fullu í öllum málum. Það kallar á fyrirbyggjandi aðgerðir eins og mat á áhrifum frumvarpa, fjárlaga og annarra tillagna, sem leiðir þá í ljós hvaða áhrif tiltekin tillaga mun hafa á börn, verði henni hrint í framkvæmd. Einnig þarf að framkvæma mat á raunverulegum áhrifum á börn, eftir að tillögu hefur verið hrint í framkvæmd, til að komast að því hver reynsla barnanna var og hvort þau hafi fengið þá vernd og þann stuðning sem þau þurftu á að halda. Ef matið leiðir í ljós að ákvörðunin hafi ekki verið til þess fallin að vernda rétt barnsins, ber að grípa til mótvægisaðgerða. Barnaréttarnefndin hefur áréttað mikilvægi þess að settir séu ferlar sem tryggja framkvæmd þessa mats á öllum stigum stjórnsýslunnar og að það fari ávallt fram á fyrstu stigum ákvarðanatöku og við undirbúning aðgerða.

Forsendur fyrir vönduðu mati stofnana á því sem barni er fyrir bestu

Eins og framangreind umfjöllun ber með sér er nauðsynlegt að formfesta framkvæmd mats á því sem barni er fyrir bestu og tryggja að matið uppfylli þær kröfur sem Barnasáttmálinn gerir til aðildarríkja. Það felur m.a. í sér að:

  • Formleg ákvörðun um innleiðingu mats á því sem barni er fyrir bestu þarf að liggja fyrir og tryggja þarf að framkvæmd matsins uppfylli kröfur þar um
  • Ferlar verða að vera til staðar sem tryggja að starfsemi stofnunarinnar sé í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans og að meginreglan um það sem barni er fyrir bestu sé virt í öllum tilvikum
  • Starfsfólk þarf að búa yfir nauðsynlegri þekkingu til að framkvæma mat á því sem barni er fyrir bestu
  • Mat á því sem barni er fyrir bestu verður að vera hluti af formlegum vinnuferlum og verklagi stofnunarinnar

Eins og fram hefur komið leggur barnaréttarnefndin ríka áherslu á að ávallt fari fram mat á því sem börnum er fyrir bestu, bæði í málum einstakra barna sem og í málum sem varða börn sem þjóðfélagshóp. Þá er ljóst að aðildarríki Barnasáttmálans eru skuldbundin til að tryggja að mat á því sem börnum er fyrir bestu fari ávallt fram, en frá þeirri meginreglu eru engar undantekningar heimilar.

Barni-fyrir-bestu_1645633772097

Ég sakna þess að fá ekki að fara til annara landa og ég sakna líka þess að knúsa ömmu og afa.

Áhrif takmarkana á börn

Þann 17. apríl 2020, sendi umboðsmaður barna bréf til forsætisráðherra , um eftirfylgni og samræmingu aðgerða í þágu barna og fjölskyldna í kjölfar Covid-19 faraldursins. Í bréfi sínu vísar umboðsmaður til þess að ýmsar takmarkanir hafi haft mikil áhrif á líðan og hagi barna og ungmenna, eins og skerðing skólastarfs, verulegar takmarkanir á íþrótta- og tómstundastarfi, takmarkanir á samneyti barna við vini og skólafélaga, og skert aðgengi þeirra að ýmissi þjónustu. Því benti umboðsmaður á að brýnt sé að leggja mat á umræddar takmarkanir á börn og ungmenni, til lengri og skemmri tíma.

Loks benti umboðsmaður á að málefni barna tilheyri málefnasviðum nokkurra ráðuneyta og því hvatti umboðsmaður barna forsætisráðuneytið til þess að taka forystu í þessum efnum til að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og fjölskyldna.

Umboðsmaður barna ítrekaði þessi sjónarmið í bréfi til forsætisráðherra, þann 22. október 2020. Þar er áréttað mikilvægi þess að aðeins sé gripið til ráðstafana sem takmarka réttindi barna í þágu almannaheilla þegar brýna nauðsyn ber til. Þá sé jafnframt mikilvægt að reglur séu skýrar og gætt sé meðalhófs, bæði við val á úrræðum og beitingu þeirra. Þá þurfi stjórnvöld að kappkosta við að hafa öll fyrirmæli er taka til barna skýr og forgangsraða þannig að daglegt líf þeirra geti verið með sem eðlilegustum hætti. Þá ber ríkjum að virða jafnrétti barna þegar ráðstafanir eru gerðar vegna faraldursins og grípa til sértækra aðgerða sem miða að því að vernda börn sem eru í viðkvæmri stöðu.

Í bréfinu bendir umboðsmaður á mikilvægi þess að upplýsinga sé aflað um aðstæður, heilsu og líðan barna í íslensku samfélagi, þannig að unnt sé að bregðast tímanlega við og tryggja þannig rétt barna til viðunandi þjónustu og góðra uppeldisaðstæðna. Af þessari ástæðu áréttar umboðsmaður mikilvægi þess að rannsóknir á tímum Covid-19 taki til barna. Það er mikilvægt að safna upplýsingum um líðan og lífsgæði barna og ungmenna, sem hafa sætt umtalsverðum takmörkunum og orðið fyrir mikilli röskun á högum og daglegu lífi.

Þá vísar umboðsmaður í bréfinu á þau tilmæli barnaréttarnefndarinnar um að aðildarríki Barnasáttmálans eigi að ná fram sjónarmiðum barna og taka tillit til þeirra þegar ákvarðanir eru teknar um ráðstafanir er tengjast heimsfaraldrinum. Börn eigi jafnframt að skilja hvað sé að gerast og upplifa að þau eigi aðkomu að þeim ákvörðunum sem teknar eru. Þá sé mikilvægt að tekið sé mið af stöðu og líðan barna við stefnumótun og forgangsröðun verkefna en til þess að það sé hægt þurfa upplýsingar um það að vera til staðar.


Breytingar á löggjöf sem hafa áhrif á börn

Þann 20. apríl 2021, lagði heilbrigðisráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga, þar sem lagt var til að ráðherra yrði heimilað, með reglugerð, að skylda ferðamenn sem koma frá eða hafa dvalið á áhættusvæði, að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi.

Þann sama dag var umboðsmaður barna boðaður á fund velferðarnefndar Alþingis, þar sem frumvarpið var til umfjöllunar. Benti umboðsmaður nefndarmönnum á að frumvarpið fari gegn ákvæðum Barnasáttmálans, þar sem ekki hafi farið fram mat á áhrifum þess á börn, enda væri í engu gerður greinarmunur á börnum og fullorðnum, þrátt fyrir að um verulega íþyngjandi aðgerðir væri að ræða, sem gæti haft neikvæð áhrif á börn. Þá áréttaði umboðsmaður barna nauðsyn þess að leiði mat á áhrifum í ljós neikvæð áhrif á börn, beri stjórnvöldum skylda til þess að leita allra leiða til þess að fyrirbyggja slík áhrif og grípa til mótvægisaðgerða í þeim tilvikum þar sem það er ekki gerlegt.

Frumvarpið varð að lögum þann 21. apríl 2021, án þess að breytingar væru gerðar í því skyni að tryggja réttindi barna eins og umboðsmaður barna kallaði eftir. Í nefndaráliti velferðarnefndar kemur fram að við umfjöllun nefndarinnar um málið hafi verið bent á að í frumvarpinu og í greinargerð væri ekki lagt mat á stöðu barna sem kunna að sæta dvöl í sóttvarnahúsi eða verði óheimilt að koma til landsins á grundvelli reglugerðar ráðherra. Ljóst sé að skylda til dvalar í sóttvarnahúsi, eða bann við komu til landsins, feli í sér skerðingu á frelsi einstaklinga, þar á meðal barna. Því hafi fyrsti minnihluti nefndarinnar talið nauðsynlegt, að við undirbúning og framkvæmd þeirra reglna sem lagðar eru til í frumvarpinu, verði hugað að meginreglum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þá sérstaklega ákvæði sáttmálans um aðgengi barna að upplýsingum, samráð við börn í málum sem þau varðar og að ávallt sé litið til þess sem barni er fyrir bestu við ráðstafanir sem þau varðar.

Með vísan í samþykkt frumvarpsins, sendi umboðsmaður barna bréf til forsætisráðherra þann 23. apríl 2021, þar sem fram kom að ákvæði Barnasáttmálans hafi ekki verið virt við ákvarðanatöku um sóttvarnir. Til að mynda hafi fjölmargar breytingar verið gerðar sem varðar börn, án þess að þau hafi fengið upplýsingar við hæfi. Einnig hafi ákvarðanir sem hafa áhrif á börn verið teknar án nokkurs samráðs við þau, samtök eða félög þeirra, eða þá aðila sem eiga að gæta hagsmuna barna, eins og t.d. embætti umboðsmanns barna.

Þá áréttaði umboðsmaður skyldu stjórnvalda aðildarríkja Barnasáttmálans, til að gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi þau sem viðurkennd eru í sáttmálanum komi til framkvæmda. Meðal þess sem Barnasáttmálinn gerir kröfu um, er að allar ákvarðanir sem varða börn séu teknar út frá því sem þeim er fyrir bestu, að börn fái að taka þátt í ákvarðanatöku sem varðar þau, og að mat sé lagt á allar tillögur og breytingar sem geta haft áhrif á börn, út frá hagsmunum þeirra, réttindum og þörfum.

Áform um frumvarp til sóttvarnalaga

Í nóvember 2021 kynnti heilbrigðisráðuneytið til samráðs áform um heildarendurskoðun á núgildandi sóttvarnarlögum í samráðsgátt stjórnvalda. Í upplýsingum ráðuneytisins kom fram að áformað væri að gera breytingar á því hvernig opinberar sóttvarnaráðstafanir eru ákvarðaðar. Þá kom þar einnig fram að frumvarpinu sé ætlað að tryggja réttindi sem varin eru af stjórnarskrá sem og Mannréttindasáttmála Evrópu. Ráðuneytið tók jafnframt fram að nýjum sóttvarnalögum sé ætlað að kveða á um það til hvaða ráðstafana megi grípa til að skerða þessi réttindi, í hvaða tilvikum og hvernig meðalhófs skuli gætt. Einnig tilgreindi ráðuneytið að til standi að skýra ákvæði laga um opinberar sóttvarnaráðstafanir á grundvelli fenginnar reynslu af heimsfaraldrinum.

Í umsögn umboðsmanns barna um áformin var sérstaklega áréttað að fengin reynsla hafi sýnt að heimsfaraldurinn og ekki síst opinberar sóttvarnaráðstafanir, hafi haft veigamikil og alvarleg áhrif á líðan, stöðu og réttindi barna í íslensku samfélagi. Því taldi umboðsmaður það miður, að í áformum heilbrigðisráðuneytisins um fyrirhugaða lagasetningu, væri ekki minnst einu orði á börn né Barnasáttmálann sem ætti að koma til álita á sama hátt og Mannréttindasáttmáli Evrópu. Í umsögn sinni áréttaði umboðsmaður að Íslandi hafi undirritað, fullgilt og lögfest Barnasáttmálann og hafi því skuldbundið sig til þess að grípa til allra viðeigandi ráðstafana til að tryggja að réttindi þau sem þar er kveðið á um nái fram að ganga. Þá brýndi umboðsmaður fyrir ráðuneytinu að frumvarp til laga, þar sem verið er að leggja til verulega íþyngjandi aðgerðir sem varða börn, hagsmuni þeirra og réttindi, án þess að gerður sé nokkur greinarmunur á börnum og fullorðnum, brjóri í bága við Barnasáttmálann. Því benti umboðsmaður ráðuneytinu á nauðsyn þess að við gerð frumvarpsins verði fjallað um og hugað að meginreglum Barnasáttmálans sem og ákvæðum sáttmálans um rétt barna til upplýsinga, þátttöku og áhrifa, framkvæmd mats á áhrifum á börn og að ávallt skuli taka ákvarðanir sem varða börn út frá því sem þeim er fyrir bestu.

Frumvarp til sóttvarnalaga

Þann 31. janúar 2022 kynnti heilbrigðisráðuneytið til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda, nýtt frumvarp til sóttvarnalaga. Þar er vísað í umsögn umboðsmanns barna og tekið fram að um mikilvæga umsögn hafi verið að ræða og talið rétt að umboðsmaður barna gefi ítarlegri umsögn við frumvarpið sjálft. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki sé talið ráðlegt að sérákvæði gildi um börn að því er varðar opinberar sóttvarnaraðgerðir, en á grundvelli umsagnarinnar hafi verið talið rétt að gera breytingu á tiltekinni grein frumvarpsins og vísa sérstaklega til hagsmuna barna í ákvæðinu.

Í umsögn umboðsmanns barna um frumvarpið kom fram að það sé grundvallarsjónarmið Barnasáttmálans að taka eigi sérstakt tillit til barna sem viðkvæms hóps sem samningurinn tryggir ýmis grundvallarréttindi sem eru jafnvel óháð réttindum fullorðinna. Þá áréttaði umboðsmaður að tilkoma Barnasáttmálans hafi fyrst og fremst byggst á því sjónarmiði að aðrir mannréttindasamningar og sáttmálar hafi ekki gengið nógu langt í því að viðurkenna sérstöðu barna og tryggja þeim ýmis grundvallarréttindi með hliðsjón af viðkvæmri stöðu þeirra. Þá setti umboðsmaður fram það mat sitt að frumvarp til laga um sóttvarnir, sem veitir heimild til íþyngjandi ráðstafana, sem ljóst er að geta haft veigamikil áhrif á börn, en sem þrátt fyrir það, gerir engan greinarmun á börnum og fullorðnum og þar sem Barnasáttmálinn, réttindi barna, þarfir þeirra og hagsmunir fá enga umfjöllun, brjóti augljóslega í bága við ákvæði sáttmálans. Með hliðsjón af því benti umboðsmaður barna á að auk tilvísunar til hagsmuna barna, sé einnig nauðsynlegt að taka sérstaklega fram, að ákvarðanir og aðgerðir sem frumvarpið gerir ráð fyrir og sem varða börn, eigi að byggja á því sem þeim er fyrir bestu. Þá er að mati umboðsmanns barna einnig nauðsynlegt, að kveðið sé á um það í frumvarpinu, að áður en ráðist er í sóttvarnaaðgerðir sem fyrirsjáanlegt er að hafi áhrif á börn, eigi að framkvæma sérstakt mat á áhrifum þeirra á börn, en það á ekki síst við um takmarkanir á skóla- og frístundastarfi.

Einnig áréttaði umboðsmaður barna að í kafla frumvarpsins þar sem fjallað er um samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar eru ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar sem og mannréttindasáttmála Evrópu talin upp. Í þeirri umfjöllun er hins vegar ekki minnst einu orði á Barnasáttmálann, en að mati umboðsmanns barna er brýnt að bætt sé úr því, með viðbót við þann kafla, með umfjöllun um þau ákvæði Barnasáttmálans sem fyrirsjáanlegt er að reyni á við opinberar sóttvarnaráðstafanir.

Einnig gerði umboðsmaður athugasemdir við 18. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um upplýsingaskyldu stjórnvalda og ber sóttvarnayfirvöldum samkvæmt ákvæðinu að standa fyrir eða stuðla að eins greinargóðri upplýsingagjöf til almennings og unnt er. Tók umboðsmaður barna fram að barnaréttarnefndin hafi lagt ríka áherslu á að heilsufarslegar upplýsingar og fræðsla um heilsutengd atriði séu aðgengilegar börnum og settar fram á barnvænu máli þannig að börn á mismunandi aldurs- og þroskaskeiði skilji inntak þeirra. Umboðsmaður áréttaði því nauðsyn þess að kveðið verði sérstaklega á um rétt barna til upplýsinga við hæfi, um sóttvarnaaðgerðir sem snerta þau, í 18. gr. frumvarpsins og nefndi sem dæmi um slíka upplýsingagjöf til barna má nefna samstarf sóttvarnalæknis og umboðsmanns barna um vinnslu og framsetningu upplýsinga til barna um bólusetningar gegn Covid-19.

Einnig gerði umboðsmaður barna athugasemdir við 16. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um jafnræði og meðalhóf, en þar er sérstaklega áréttað að ekki skuli stöðva atvinnurekstur nema að því marki sem starfsemin felur í sér hættu á útbreiðslu farsóttar, en umboðsmaður setti fram það mat sitt að fullt tilefni sé til að árétta sérstaklega í sömu grein, mikilvægi skóla- og tómstundastarfs fyrir öryggi og velferð barna og að það starf skuli ekki sæta takmörkunum nema brýna ástæðu beri til.

Umboðsmaður benti einnig á mikilvægi þess, að í frumvarpinu verði það tekið fram, að við töku ákvarðana um opinberar sóttvarnaráðstafanir sem fyrirsjáanlegt er að hafi áhrif á börn, eigi að hafa samráð við fulltrúa barna og þá aðila sem vinna að hagsmunum þeirra, eins og t.d. embætti umboðsmanns barna en umboðsmaður lýsti sig jafnframt reiðubúinn til samstarfs og samráðs við frekari vinnslu frumvarpsins.


Réttur barna til þátttöku

12. gr. Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.

Mér líður samt ekkert sérlega vel á þessum tíma, ég græt mikið stundum útaf ástæðu og stundum veit ég ekki af hverju. Mér finnst erfitt að hafa svona lítið að gera á daginn og verð frekar pirruð og tilfinningarnar eru miklar.

Í 12. gr. Barnasáttmálans er að finna eina af fjórum meginreglum hans, en þar er kveðið á um að aðildarríki skuli tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.

Rík tengsl eru á milli réttar barna til þátttöku og meginreglu Barnasáttmálans um að allar ákvarðanir sem varða barn, skulu teknar út frá því sem er barni fyrir bestu, en barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur áréttað, að ekki sé hægt að komast að niðurstöðu um það sem er barni fyrir bestu, nema fyrst sé leitað eftir sjónarmiðum og reynslu barnsins.

Með ákvæðum 12. gr. er því rík skylda lögð á aðildarríki Barnasáttmálans um að tryggja, með öllum tiltækum ráðstöfunum, að börn fái aðild að ákvarðanatöku í öllum málum sem þau varðar, því þannig eru meiri líkur á því að sá sem tekur ákvörðun hverju sinni, líti til óska barns og þarfa, og byggi ákvörðun á því sem barni er fyrir bestu.

Réttur barna til þátttöku á við um öll börn, óháð aldri eða öðrum einstaklingsbundnum aðstæðum, og rétturinn á jafnt við um einstök börn, hópa barna, eða jafnvel öll börn ef við á.

Mér leið betur þegar allt var venjulegt maður vaknar bara á hverjum degi og það er alltaf allir dagar alveg eins og þú ert ekkert að bíða eftir neinu skemmtilegu eins og útlandaferð á næstunni og svoleiðis.

Réttur barna til upplýsinga

13. gr. Barn á rétt til að láta í ljós skoðanir sínar, og felur það í sér rétt til að leita, taka við og miðla hvers kyns vitneskju og hugmyndum.

Þannig maður þarf bara að fylgja reglunum núna og sjá bara hvað mun vera breytt og hvað mun ekki breytast.

Ein helsta forsenda þess að börn geti tjáð sig um mál eða látið þau til sín taka á annan hátt, er að þau fái nauðsynlegar og viðeigandi upplýsingar, með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Þá hefur barnaréttarnefndin lagt áherslu á að heilsufarslegar upplýsingar og fræðsla um heilsutengd atriði séu aðgengilegar börnum og settar fram á barnvænu máli þannig að börn á mismunandi aldurs- og þroskaskeiði skilji inntak þeirra.

Í upphafi faraldursins eða í febrúar 2020 voru settar fram upplýsingar á vefsíðu embættis landlæknis fyrir börn og ungmenni um Covid-19 en þær upplýsingar eru takmarkaðar og hafa ekki verið uppfærðar af ráði síðan þá. Þá setti embættið sömuleiðis fram myndskreyttar leiðbeiningar á einföldu og auðskildu máli fyrir börn á leikskólaaldri.

Reglulega hafa verið haldnir blaðamannafundir til að upplýsa fjölmiðla og almenning um stöðu mála í baráttunni gegn Covid-19, en tveir slíkir fundir voru sérstaklega fyrir börn. Þá hafa Krakkafréttir Ríkissjónvarpsins lagt mikið af mörkum í því verkefni að upplýsa börn með reglulegri umfjöllun um Covid-19  auk sérstaks upplýsingaþáttar í Ríkissjónvarpinu fyrir börn, sem unninn var í samvinnu við umboðsmann barna. Þar gafst börnum tækifæri á því að koma á framfæri eigin spurningum um faraldurinn og sóttvarnaráðstafanir og fá við þeim svör. Strax í upphafi faraldursins lagði umboðsmaður barna áherslu á að upplýsabörn um faraldurinn, en á heimasíðu embættisins voru birtar upplýsingar fyrir börn um veiruna á einföldu og auðskildu máli, börn gátu sent spurningar um faraldurinn og fengið við þeim svör, sem einnig voru birt á síðunni. Einnig birti umboðsmaður barna leiðbeiningar fyrirforeldra um hvernig ræða á við börn um faraldurinn og veita þeim nauðsynlegar upplýsingar, án þess að valda þeim óþarflega miklum áhyggjum og kvíða.

Virk þátttaka barna

Barnaréttarnefndin hefur lagt áherslu á að aðildarríki leiti allra leiða til að fyrirbyggja að þátttaka barna sé handahófskennd og atviksbundin, með því að móta og innleiða ferla til að tryggja að þátttaka barna eigi sér stað í öllum tilvikum þar sem við á, með virkum og samræmdum hætti. Einn liður í því að uppfylla ákvæði 12. gr. er að tryggja börnum endurgjöf, enda ljóst að börn sem taka þátt, eiga rétt á því að vera upplýst um það með hvaða hætti tekið var tillit til þeirra sjónarmiða og óska, af þeim aðila er tekur endanlega ákvörðun.

Önnur forsenda þess að þátttaka barna sé virk og raunveruleg, er að þau börn sem taka þátt hverju sinni, fái upplýsingar um framkvæmd þátttökunnar, umfang hennar og tilgang og í hvað farveg umrætt mál fer og hvaða áhrif þátttaka barna geti haft á niðurstöðu þess. Samkvæmt niðurstöðum könnunar umboðsmanns barna frá 2019 hafa aðeins 33% ríkisstofnana átt samráð við börn og því er lítið um virkt og raunverulegt samstarf og samráð við börn.

Umboðsmaður barna hefur ítrekað bent á að meginregla Barnasáttmálans um rétt barna til upplýsinga og þátttöku hafi ekki verið virt við undirbúning og töku ákvarðana um sóttvarnir og þær skerðingar á daglegu lífi barna sem þær hafa falið í sér. Í leiðbeiningum barnaréttarnefndarinnar um túlkun og beitingu 12. gr. Barnasáttmálans segir með skýrum hætti að réttur barna til þátttöku sem 12. gr. kveður á um, falli ekki niður þrátt fyrir að neyðarástandi ríki. Þvert á móti áréttar nefndin nauðsyn þess, að börn á tímum neyðarástands, fái tækifæri sem og hvatningu, til að taka þátt vinnunni við að greina stöðu mála og framtíðarlausnir. Í leiðbeiningum sínum hvetur barnaréttarnefndin aðildarríki Barnasáttmálans til að tryggja að til staðar séu ferlar, sem gera börnum kleift, og þá sérstaklega stálpuðum börnum, að taka virkan þátt í uppbyggingaraðgerðum, sem gripið er til við lok neyðarástands. Þá sé mikilvægt að sjónarmið barna séu hluti af mati á þörf fyrir aðgerðir, sem og skipulagi, framkvæmd og eftirfylgni þeirra.

Í þessu samhengi má nefna að niðurstöður könnunar sem umboðsmaður barna framkvæmdi meðal opinberra stofnana árið 2019, sýndu fram á að einungis 11% þeirra eru með texta á vefsíðum sínum sem eru á einföldu máli sem börn skilja. Þá sýndu sömu niðurstöður fram á að einungis 18% stofnana hafa gefið út fræðsluefni sem er barnvænt. Það er því mikið verk óunnið í því að tryggja börnum aðgang að vönduðum og aðgengilegum upplýsingum um þeirra eigin málefni.Á því tímabili sem sóttvarnaráðstafanir stjórnvalda og ýmsar takmarkanir hafa verið í gildi, hafa börn orðið fyrir miklum áhrifum í sínu daglega lífi og má sem dæmi nefna þær fjölmörgu og ítrekuðu breytingar sem gerðar voru á starfsemi skóla og fyrirkomulagi íþrótta- og tómstundastarfs. Ljóst er að þörf barna fyrir upplýsingar um stöðu mála og útfærslu ýmissa takmarkana hefur verið rík, en stjórnvöld hafa ekki virt þá skyldu sína samkvæmt ákvæðum Barnasáttmálans, að tryggja reglubundna upplýsingagjöf til barna, um þær ráðstafanir sem snúa beint að þeim.

Þátttaka barna í ákvarðanatöku um sóttvarnir

Þann 11. nóvember 2020, fundaði umboðsmaður barna með heilbrigðisráðherra, landlækni, sóttvarnalækni ogyfirlögregluþjóni almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Meðal þess sem rætt var á fundinum var mikilvægi þess að börn fái upplýsingar við hæfi um sóttvarnaráðstafanir sem hafa áhrif á þau og að allar upplýsingar sem varða börn séu skýrar og settar fram á auðskildu máli. Á fundinum var einnig rætt um fjölbreyttar leiðir til þess að fá fram sjónarmið og reynslu barna af því að vera barn á tímum Covid-19 og hvernig tryggja má að þau sjónarmið verði hluti af ákvarðanatöku í sóttvörnum. Að lokum var rætt um þá stöðu barna að vera í óvissu um hvað tæki við á nýju ári og hvort starfsemi skóla yrði áfram skert, ekki síst framhaldsskóla, en umboðsmaður barna kallaði eftir meiri fyrirsjáanleika í sóttvarnaaðgerðum sem varða börn, til að koma í veg fyrir langvarandi óvissu, streitu og óöryggi meðal þeirra.

Þegar ég frétti að ég þyrfti að vera með grímu í skólanum þá varð ég spenntur að hafa grímu að því ég hafði aldrei notað grímur. En þegar ég var búinn að vera með venjulega grímu í einn dag þá var ég að gefast upp í alvörunni. Ég var að drepast en þá keypti ég mér margnota grímur, þær voru miklu þægilegri og betra að vera með þær.

Tillögur ráðgjafarhóps umboðsmanns barna um aðgerðir vegna Covid-19

Í starfi umboðsmanns barna er rík áhersla lögð á samstarf og samráð við börn. Liður í því er starfsemi ráðgjafarhóps umboðsmanns barna, sem skipaður er börnum á aldrinum 12-17 ára. Fjallað er um hlutverk hópsins í lögum um umboðsmann barna, nánar tiltekið í 2. mgr. 3. gr., en þar segir að umboðsmaður barna skal í störfum sínum leitast við að hafa virkt samráð við börn og hafa hóp barna sér til ráðgjafar um þau málefni sem snúa að börnum í íslensku samfélagi.

Ráðgjafarhópurinn hefur tekið virkan þátt í starfi ENYA (European Network of Young Advisors) sem eru regnhlífarsamtök ungmennaráða sem vinna með evrópskum samtökum umboðsmönnum barna en í ár vann ENYA að verkefni þar sem fjallað var um réttindi barna á tímum Covid-19 undir yfirskriftinni “Let's Talk Young, Let's Talk about the impact of Covid-19 on children's rights”. Markmið verkefnisins var að fá fram sjónarmið og reynslu barna um alla Evrópu, af því að vera börn á tímum heimsfaraldurs, en einnig var markmið verkefnisins að fá tillögur barna um atriði sem vert er fyrir stjórnvöld að huga að og sem varða réttindi og aðstæður barna í heimsfaraldri. Í sinni vinnu lagði ráðgjafarhópurinn áherslu á menntun og heilsu og þá sérstaklega aukna jaðarsetningu tiltekinna hópa barna á tímum Covid-19, en það taldi hópurinn eiga sérstaklega við um börn með fötlun og börn sem eiga foreldra af erlendum uppruna. Þá ræddi ráðgjafarhópurinn einnig þátttöku barna og þá upplifun þeirra að eftir því sem leið á faraldurinn og staðan versnaði, þeim mun ólíklegri voru fullorðnir til þess að hlusta á börn eða að veita þeim hlutdeild í umræðu eða ákvarðanatöku.

  • Tryggja þarf jafnt aðgengi allra að þjónustu.
  • Rannsaka þarf frekar hvaða áhrif það hefur á börn að annars vegar smitast af Covid-19 og hins vegar fá bólusetningu gegn veirunni.
  • Auka þarf aðgengi barna að sálfræðiþjónustu.
  • Efla þarf upplýsingagjöf til barna og tryggja að hún sé á einföldu og auðskildu máli og sé aðgengileg á vettvangi sem þau eiga greiðan aðgang að.
  • Tryggja þarf aðgengi allra að gjaldfrjálsum andlitsgrímum og handspritti.
  • Kanna þarf sérstaklega hvort unnt sé að beita öðrum aðferðum við töku sýna af börnum vegna gruns um Covid-19 smit sem eru minna ógnvekjandi.
  • Tryggja þarf aðskilnað þeirra sem grunur leikur á að séu með Covid-19 og einstaklinga í áhættuhópum á heilbrigðisstofnunum.
  • Úrræði stjórnvalda sem miða að því að búa til hvata fyrir almenning til að nýta sér það sem aðilar í ferðaþjónustu hafa upp á að bjóða, eins og ferðagjöfin svokallaða, verði í boði fyrir börn, á sama hátt og fullorðna.
  • Leggja þarf áherslu á möguleikana frekar en takmarkanir eins og mikilvægi þess að fara úr húsi á hverjum degi, þó ekki sé nema í stutta stund, t.d. í stutta gönguferð.
  • Hvetja þarf alla til að setja sér markmið, stór eða lítil, eftir því hvað hentar hverjum og einum.

Skólar

  • Efla þarf eftirlit með skólastarfi á tímum neyðarástands þannig að skólar séu að uppfylla kröfur aðalnámsskrár.
  • Tryggja þarf sérstakan stuðning fyrir þau börn sem á þurfa að halda.
  • Styðja þarf betur við kennara á tímum fjarnáms, t.d. með því að bjóða þeim sem á þurfa að halda, kennslu í notkun snjalltækja og forrita.
  • Skólar þurfa að hafa aðgang að upplýsingaefni um Covid-19 til að nýta í kennslu og til að fræða nemendur.
  • Áður en ákvarðanir eru teknar um fjarnám verður að ganga úr skugga um að allir nemendur hafi aðgang að tölvu eða öðrum snjalltækjum.
  • Skólamáltíðir verða að vera í boði óháð samfélagslegum aðstæðum, svo að börn fái næringarríka máltíð alla virka daga.
  • Skólar verða að sjá börnum fyrir andlitsgrímum og handspritti.

Réttur barna til besta mögulega heilsufars

24. gr. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja.

Ég náði að gera díl við mömmu og pabba um að hlaupa 15 kílómetra á viku í tvo mánuði þá má ég fá tölvu. Þannig allt í allt hefur covid verið dáltið gott.

Réttur barna til góðrar líkamlegrar heilsu

Samkvæmt leiðbeiningum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna , eiga allar ráðstafanir sem varða heilsu barna, að byggja á heildstæðri og réttindamiðaðri nálgun, sem tryggir rétt barna til besta mögulega heilsufars, lífs og þroska. Rannsóknir hafa sýnt að íslensk börn, og þá sérstaklega börn á unglingsaldri, fá ekki næga hreyfingu, samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum þar um. Má sem dæmi nefna rannsóknina Heilsa og lífskjör skólanema, sem sýndi árið 2018 að hlutfall barna á aldrinum 12, 14 og 16 ára sem stunda líkamlega hreyfingu samanlagt í 60 mínútur eða meira á dag var u.þ.b. 20,6%. Þá hafa niðurstöður rannsóknahóps sem í áratug hefur fylgst með heilsu, svefni og andlegri líðan stórs hóps ungmenna hér á landi sýnt, að einungis fimmtungur 15 ára unglinga nær átta tíma viðmiðunarsvefni að meðaltali. Niðurstöðurnar sýndu enn fremur að dregið hefur úr hreyfingu ungmenna en einnig að mikið dregur úr þátttöku ungmenna í formlegu íþróttastarfi og heilsurækt á eigin vegum milli 15 og 17 ára aldurs.

Covid-19 hefur haft mikil áhrif á líðan barna og mikið hefur verið fjallað um áhrifin á andlega heilsu barna, en öllu minna hefur farið fyrir umræðu um áhrifin á líkamlega heilsu barna. Takmarkanir á skólahaldi voru með ýmsum hætti og höfðu margvísleg áhrif, en börn höfðu í einhverjum tilvikum takmarkaðri aðgang að mötuneytum skóla auk þess sem minna framboð var af hollum mat, elduðum frá grunni. Mikil heimavera barna hafði í sumum tilvikum slæm áhrif á matarræði þeirra og þar með heilsu og líðan. Þá hafði mikil heimavera einnig neikvæð áhrif á stoðkerfi barna í einhverjum tilvikum, sérstaklega þeirra sem ekki búa svo vel að hafa góða vinnuaðstöðu til að stunda nám sitt heima. Takmarkanir á íþróttakennslu í skólum sem og takmarkanir á skipulögðu íþróttastarfi höfðu sömuleiðis neikvæð áhrif á heilsu barna, með auknu hreyfingarleysi og kyrrsetu, auk þess sem börn urðu af jákvæðum áhrifum hreyfingar á andlega og líkamlega heilsu.,

Líðan mín breyttist ekki út af Covid hefur alltaf bara verið shitty.

Réttur barna til góðrar andlegrar heilsu

Andleg vanlíðan hjá börnum hefur aukist á seinustu árum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar Ungt fólk sem lögð var fyrir 8., 9. og 10. bekk grunnskóla í febrúar 2020 hefur hlutfall þeirra nemenda sem telja andlega heilsu sína vera slæma aukist samanborið við niðurstöður fyrri ára.

Ítrekað hafa niðurstöður kannana bent til þess að íslensk börn og ungmenni glími í miklum mæli við andlega erfiðleika eins og kvíða. Margoft hafa fulltrúar barna bent á mikilvægi aukins aðgengis að geðheilbrigðisþjónustu þar á meðal sálfræðiþjónustu. Hafa börn sérstaklega óskað eftir því að sú þjónusta sé í boði sem hluti af stuðningsþjónustu skóla. Á barnaþingi sem haldið var árið 2019 kom fram ákall frá barnaþingmönnum um að gætt yrði sérstaklega að geðheilbrigði barna og börnum og að unglingum með kvíða eða þunglyndi yrði veitt aukin hjálp.

Mér er búið að líða skringilega. Ég er hrædd um að öðrum löndum líði illa. Ég er hrædd um að Kóvit endi aldrei.

Áhrif Covid-19 á líðan barna

Margt bendir til að faraldurinn hafi aukið enn frekar á andlega vanlíðan barna. Niðurstöður rannsókna hafa leitt í ljós að með hverri bylgju faraldursins upplifðu börn meiri kvíða, aukið álag á heimilum sínum og verri samskipti við foreldra.

Könnun meðal ungmenna sem voru að ljúka grunnskólanámi og hefja nám í framhaldsskóla á tímum faraldursins leiddi í ljós að áhyggjur, einmanaleiki, eirðarleysi, kvíði og óhamingja hafa aukist, sérstaklega meðal stúlkna. Þá hefur sömuleiðis orðið töluverð aukning í þunglyndiseinkennum hjásama hópi. Í nýlegri umfjöllun Læknablaðsins kemur fram að börn og unglingar glími við meiri tilfinningavanda en áður og tölur bendi til þess að tíðni sjálfsvíga barna og ungmenna í aldurshópnum 15-19 ára sé há hér á landi, sem sé afleiðing fjárskorts og úrræðaleysis í kerfinu. Þá séu sterkar vísbendingar um að geðheilsu barna og unglinga á Íslandi hraki, með aukningu í einkennum þunglyndis og kvíða, en vegna viðvarandi álags á geðheilbrigðisþjónustuna til lengri tíma hafi hún ekki verið til þess bær að mæta því aukna álagi sem fylgdi faraldrinum.

Ég er með meiri kvíða í skólanum og stressuð, ég er búin að missa margar vinkonur og vini og er mjög mikið ein. Mér líður illa á þessu covid ves og langar að þetta verður búið fljótlega og allt verður eðlilegt aftur.

Biðtími eftir þjónustu

Langur biðtími eftir greiningu og sérhæfðri þjónustu í heilbrigðiskerfinu hefur verið viðvarandi vandamál, ekki síst í geðheilbrigðisþjónustu. Samkvæmt þingsályktun um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi í apríl 2016, átti að efla þjónustu á göngudeild barna- og unglingageðdeildar (BUGL) með það að markmiði að í lok árs 2019 yrðu ekki biðlistar eftir þjónustu þar,

Því markmiði hefur ekki verið náð og hefur ástandið frekar versnað ef eitthvað er. Í upphafi faraldursins var biðtíminn á BUGL rúmlega sjö mánuðir, en í september 2021 var hann orðinn um níu mánuðir. Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi um úrræði fyrir börn með geðheilbrigðisvanda, kom fram að Covid-19 hafi haft áhrif á starfsemi BUGL, til að mynda hafi ekki verið tekin inn ný mál af biðlista á legudeildinni á meðan fyrsta bylgja faraldursins gekk yfir og á göngudeild hafi verið leitast við að veita þjónustu með fjarfundalausnum en þó hafi ýmis hópúrræði fallið niður. Eftir að ströngustu hömlum var aflétt, hafi þjónusta BUGL fljótlega farið í eðlilegt horf.

Í áfangaskýrslu stýrihóps sem vaktar óbein áhrif Covid-19 á geðheilsu, um áhrif faraldursins á börn og ungt fólk kom fram að stjórnvöld hafi byggt á þeirri nálgun, að hlífa börnum í eins miklum mæli og hægt var, við samfélagstakmörkunum, til að standa vörð um geðheilbrigði þeirra. Ljóst er að það markmið hefur ekki náðst, þar sem bráðakomum á BUGL fjölgaði um 34% á árinu 2021 miðað við árið á undan en einnig var um 49% aukning á innlögnum á legudeildina. Þá fjölgaði tilvísunum vegna átröskunarvanda barna um 70% á milli áranna 2019 og 2020. Í umfjöllun Ríkissjónvarpsins í október 2021 kom fram í viðtali við yfirlækni á BUGL að geðheilbrigðismál barna og ungmenna hafi verið í ólestri í áratugi og því ljóst að ekki er um nýjan vanda að ræða sem eingöngu er hægt að rekja til heimsfaraldursins. Í skýrslunni kom sömuleiðis fram að biðtími hafi almennt lengst hjá öllum þeim aðilum sem veita geðheilbrigðisþjónustu, hvort sem um opinbera eða einkaaðila er að ræða.

Í október 2021, birtist blaðagrein eftir umboðsmann barna með áskorun til nýrrar ríkisstjórnar, þar sem fram kom að það sé óásættanlegt úrræðaleysi að börnum í leit að þjónustu sé vísað frá og sem veldur því að vandi þeirra vex og verður þannig erfiðari úrlausnar, þegar þau loks fái aðgang að þjónustu. Í greininni brýndi umboðsmaður fyrir nýrri ríkisstjórn að gera geðheilbrigðismálum barna hátt undir höfði í nýjum stjórnarsáttmála, þar sem tími sé kominn til aðgerða.

Í febrúar 2022 tilkynnti umboðsmaður barna um nýtt verkefni , þar sem gerðar eru aðgengilegar á einum stað, upplýsingar um þann fjölda barna sem bíður eftir tiltekinni þjónustu á hverjum tíma. Upplýsingarnar verða svo uppfærðar tvisvar á ári til að fylgjast með þróuninni en til greina kemur að þróa það frekar. Það er von umboðsmanns að birting upplýsinganna muni varpa ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvati til aðgerða og úrbóta.

Mér hefur liðið ágætlega en gæti liðið betur. Ég er byrjuð að fá oftar smá kvíða upp úr þurru eða þegar ég held að einhver sé að dæma mig. Fyrir utan það líður mér oftast ágætlega.

Börn með átröskun

Það er sérstakt áhyggjuefni að verulega hefur fjölgað í hópi þeirra barna sem vísað er á BUGL vegna átröskunar, en gríðarleg aukning hefur verið í þeim hópi á tímum Covid-19. Bið eftir þeirri þjónustu getur jafnvel verið lífshættuleg, en fram hefur komið að mörg barnanna sem þurfa á þjónustu BUGL að halda vegna átröskunar, eru það líkamlega veik, að þau þurfa að leggjast inn á sjúkrahús áður en unnt er að hefja meðferð þeirra á geðdeild. Þá hefur komið fram að í einhverjum tilvikum sé um að ræða börn sem stunda íþróttir, en þar getur átröskunin verið birtingarmynd þess að þau hafi ekki fengið að stunda sína íþrótt, heldur gert æfingar heima og misst tökin.

Ég meina maður getur dáið með því að kaupa í matinn.

Ákall barna eftir stuðningi

Embætti umboðsmanns barna stóð fyrir þremur samráðsverkefnum með börnum haustið 2020. Alls tóku 1.020 börn þátt í samráðinu. Fyrsta samráðið var um þátttöku barna og áhrif þeirra á ákvarðanatöku. Var þar sérstaklega horft til hinsegin barna og leitað var til Samtakanna 78 til að fá fram raddir barna sem skilgreina sig hinsegin. Geðheilbrigði barna var ofarlega í hugum barna sem tóku þátt í samráðinu. Þau höfðu áhyggjur af andlegri heilsu barna í samfélaginu þar sem álagið sé mikið og börn upplifi að miklar kröfur séu gerðar til þeirra. Þá var rætt um mikilvægi þess að fræðsla um geðheilbrigði yrði aukin, og að fjárfest yrði í frekari úrræðum, en fram komu áhyggjur barna af löngum biðlistum eftir sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu.

Aðilar sem bjóða börnum og ungmennum stuðning og ráðgjöf hafa orðið þess varir að börn leita þangað í auknum mæli. Til umboðsmanns barna hafa mun fleiri börn leitað frá því að heimsfaraldurinn skall á, en fyrirspurnir barna snúa m.a. að erfiðleikum í samskiptum við foreldra og ágreinings sem m.a. má rekja til aukinnar heimaveru og aukins skjátíma barna en einnig eru vísbendingar um að fjölskyldur finni fyrir meiri streitu og álagi á heimilum. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands, benda niðurstöður lífskjararannsóknar stofunnar til þess að hátt hlutfall foreldra upplifi að álagið hafi aukist á heimilið á tímum Covid-19, og því brýnt að fylgjast með því hvernig barnafjölskyldum reiðir af eftir lok faraldursins.

Þá hefur Rauði krossinn greint frá auknum fjölda barna og ungmenna sem hefur hringt í hjálparsíma Rauða krossins vegna kvíða og einmanaleika. Af þeim 20.120 símtölum sem bárust í hjálparsíma Rauða krossins 1717 á tímabilinu 1. janúar til 10. nóvember 2020 voru 972 frá börnum, 156 af þessum símtölum voru vegna sjálfsvígshugsana og 381 vegna kvíða. Er hér um töluverða aukningu að ræða en á sama tímabili árið 2019 bárust 774 símtöl frá börnum, þar af voru 103 vegna sjálfsvígshugsana og 270 vegna kvíða. Þessar tölur bregða upp alvarlegri mynd af stöðu barna.

Bólusetningar barna

Barnasáttmálinn kveður á um að börn eigi rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á og að taka eigi allar ákvarðanir sem varða heilsu barna út frá heildarmati á því sem þeim er fyrir bestu. Þá er mikilvægt að börn fái að taka þátt í ákvarðanatöku sem varðar heilsu þeirra og að mat sé lagt á allar tillögur og breytingar á því sviði sem geta haft áhrif á börn, út frá hagsmunum þeirra, réttindum og þörfum. Þannig gerir Barnasáttmálinn kröfu um að áhrif ákvarðana á börn liggi fyrir áður en þær koma til framkvæmda, þannig að unnt sé að fyrirbyggja möguleg neikvæð áhrif og grípa til mótvægisaðgerða í þeim tilvikum þar sem ekki er unnt að komast hjá slíkum áhrifum.

Allt er orðið verra frá fótboltanum í bragðlauka sko ég skil ekki! Það sem ég hef lært af þessu ástandi er bara be careful sko.

Við upphaf bólusetninga við Covid-19 var litið svo á að ekki væri ástæða til þess að bólusetja börn yngri en 16 ára, meðal annars vegna þess að hlutfallslega fá smit af Covid-19 greindust hjá börnum á leik- og grunnskólaaldri, flest börn fengu væg einkenni og þá bentu fyrirliggjandi upplýsingar til að börn smituðu sjaldan aðra. Með tilkomu nýrra afbrigða af Covid-19 fjölgaði smitum meðal barna. Þrátt fyrir það biðu flest lönd, þar með talin hin Norðurlöndin, átekta varðandi almennar bólusetningar barna annarra en barna í sérstökum áhættuhópum.

Þann 12. ágúst 2021, var tilkynnt að heilbrigðisráðherra hafi fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að bjóða börnum á aldrinum 12 til 15 ára bólusetningu við Covid-19, en þær fóru fram dagana 23. og 24. ágúst. Á þeim tíma hafði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin enn ekki mælt með almennum bólusetningum barna í þessum aldurshópi og vísaði þar að lútandi til rannsókna sem þá stóðu yfir varðandi bólusetningar barna.

Frá því að ákvörðun var tekin um að hefja bólusetningar barna og þar til þær fóru fram liðu aðeins 11 dagar, en á þeim tíma átti sér stað mikil umræða um bólusetningar barna og mikið var um misvísandi upplýsingar. Það er mat umboðsmanns barna að leggja hefði átt áherslu á að tryggja að börn og forsjáraðilar þeirra geti tekið upplýsta ákvörðun um bólusetningar með því að tryggja þeim aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum um fyrirhugaðar bólusetningar. Í opinberri umræðu lagði embættið áherslu á að foreldrar ræði við börn sín um bólusetningar og að börnum væri gefið ráðrúm við framkvæmd bólusetninga og tækifæri til að eiga samtal við heilbrigðisstarfsmann ef þau væru óviss eða upplifðu ótta og óöryggi.

Í október 2021 birtust fréttir af því að alþjóðlegir lyfjaframleiðendur hefðu óskað eftir leyfi fyrir því að nota bóluefni gegn Covid-19 fyrir bólusetningar barna á aldrinum fimm til ellefu ára. Í kjölfarið hófu sóttvarnayfirvöld undirbúning að bólusetningu barna en bólusetning barna í yngri aldurshópum gerir enn ríkari kröfur til stjórnvalda, um framsetningu, miðlun og birtingu upplýsinga, fyrir börn, um áhættu og ávinning bólusetninga og framkvæmd þeirra. Þá er ekki síður mikilvægt að börn fái upplýsingar um hvert þau geti leitað, til að fá svör við spurningum sínum um Covid-19 og bólusetningar.

Í janúar 2022 var tilkynnt að unnið væri að því að skipuleggja bólusetningar 5-11 ára barna og að stefnt væri að því að bjóða forsjáraðilum barnanna að taka afstöðu til bólusetninga barna þeirra. Við undirbúning bólusetninga fundaði umboðsmaður barna með sóttvarnalækni og greindi þar frá mikilvægi þess að foreldrum og börnum standi til boða greinargóðar upplýsingar, að skýrt sé að bólusetningin sé valkvæð og þá þurfi að huga sérstaklega að þörfum þessa hóps, enda um ung börn að ræða sem kallar á vandaða framkvæmd sem tekur tillit til sérþarfa þeirra. Einnig áréttaði umboðsmaður að það hvort barn þiggi eða hafni bólusetningu séu viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni, sem eðlilegt sé að leynt fari. Í kjölfarið var tilkynnt um þá fyrirætlun að bólusetningar á höfuðborgarsvæðinu myndu fara fram í grunnskólum , en umboðsmaður barna lagði til við heilbrigðisyfirvöld, að breyta þeim áætlunum og taka til skoðunar að bólusetningin fari fram á heilsugæslustöðvum. Taldi umboðsmaður að þannig yrði meiri sátt um bólusetningar, enda séu mjög skiptar skoðanir meðal foreldra sem og almennings um bólusetningar barna, en auk þess sé vandséð hvernig hægt sé að tryggja trúnað um bólusetningar, sem fram eigi að fara í skólum.

Síðar hurfu heilbrigðisyfirvöld frá þeim áætlunum, daginn áður en hefja átti bólusetningar í skólum, og í staðinn fóru bólusetningar barna á höfuðborgarsvæðinu fram í Laugardalshöll.

Þegar Covid byrjaði hélt ég að allir í heiminum myndu fá þetta og allt yrði alveg crazy, við þyrftum að vera alveg í einangrun frá öllum og fá mat heimsendan. Þetta var ekki alveg svona slæmt.

Upplýsingar til barna um bólusetningar

Þegar bólusetningar barna á aldrinum 12-15 ára hófust mátti finna upplýsingar fyrir börn á heimasíðu landlæknis þar sem fjallað var um áhættu og ávinning af bólusetningum gegn Covid-19, mögulegar aukaverkanir og framkvæmdina. Að mati umboðsmanns barna var það jákvætt skref að börn úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna fengu fyrstu drög að upplýsingum til barna um Covid-19 bólusetningu til umsagnar og athugasemda frá embætti sóttvarnalæknis. Er endanleg útgáfa af upplýsingaefninu var birt hafði efnið tekið miklum breytingum til samræmis við athugasemdir barnanna sem er jákvætt. Þó skal tekið fram að börnunum var gefinn afar skammur tími fyrir birtingu upplýsinganna til þess að koma að athugasemdum sínum, en brýnt er að samráð við börn sé ávallt virkt og raunverulegt, sem felur í sér að tryggja þarf tíma, svigrúm og aðstæður fyrir börn til að kynna sér það sem til umfjöllunar er hverju sinni, til að móta sér skoðanir, fá að koma þeim á framfæri og fá tillit tekið til þeirra.

Í samskiptum við sóttvarnalækni um fyrirhugaða bólusetningu lagði umboðsmaður m.a. áherslu á að börnum væri veittar greinargóðar upplýsingar um tilgang bólusetninga, framkvæmd þeirra, ávinning og áhættu. Sóttvarnalæknir óskaði í kjölfarið eftir liðsinni umboðsmanns barna við framsetningu upplýsinganna , en í því samráði tók ráðgjafarhópur umboðsmanns barna einnig þátt. Niðurstaða þess samráðs eru góðar og vandaðar leiðbeiningar til barna og um leið foreldra þeirra, sem auk þess voru birtar myndrænt og á fjölda tungumála, en það er til eftirbreytni.


Réttur fatlaðra og langveikra barna til fullrar samfélagslegrar þátttöku 

23. gr. Aðildarríki viðurkenna að andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu.

 

Það er erfitt að læra sumt sem ég er ekki góð í því ég hef oft margar spurningar og það gerir það erfitt að læra heima.

 

Jafn réttur allra barna er ein af grunnstoðum Barnasáttmálans og hefur barnaréttarnefndin sérstaklega ávarpað þá staðreynd að fötluð börn standa frammi fyrir margs konar hindrunum sem koma í veg fyrir að þau fái notið réttinda sinna samkvæmt Barnasáttmálanum. Barnaréttarnefndin hefur einnig áréttað þá skyldu stjórnvalda að ryðja úr vegi hindrunum sem verða á vegi fatlaðra barna til að tryggja að þau fái notið réttinda sinna til jafns á við önnur börn, en það kallar á innleiðingu heildstæðrar stefnu um stuðning við fötluð börn og foreldra þeirra þannig að þau fái notið viðeigandi og sértækrar þjónustu. Fötluð og langveik börn hafa staðið sérstaklega höllum fæti við útfærslu á skóla- og frístundastarfi á tímum Covid-19 og stuðningur við þau verið takmarkaður í mörgum tilvikum.

Fjarkennsla og fötluð börn

Börn sem eru með tilteknar fatlanir glíma við þann raunveruleika að nám í gegnum tölvubúnað hentar þeirra þörfum illa. Þá þurfa mörg börn á sértækum kennsluaðferðum og tækjabúnaði að halda til að sinna námi sínu sem ekki er endilega til staðar á heimilum þeirra. Öryrkjabandalag Íslands hefur bent á að það muni taka langan tíma fyrir mörg börn í slíkri stöðu að ná upp fyrri færni vegna þeirrar gríðarlegu þjónustuskerðingar sem þau hafa þurft að sæta á tímum Covid-19.

Margir nemendur með fatlanir eða skerðingar hafa því dregist aftar úr námi en samnemendur þeirra þar sem fötluð börn eiga í mörgum tilfellum afar erfitt með uppbrot á daglegu skipulagi. Í hópi þeirra sem eiga erfitt með fjarnám eru til að mynda einhverf börn og börn með ADHD sem mörg hver þola illa að mæta stopult í skólann. Skólar verða því að vera meðvitaðir um þarfir einstakra barna og gera ráðstafanir til að koma til móts við þær með öllum tiltækum leiðum þar sem fjarkennsla gagnast einungis hluta hópsins.

Nýleg rannsókn meðal barna með ADHD og foreldra þeirra einblíndi á þær aðstæður þar sem daglegt skipulag riðlaðist af völdum Covid-19. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að tilfinningavandi barnanna jókst mikið og á sama tíma fundu foreldrarnir fyrir meiri kvíða, streitu og þunglyndi.

Niðurstöðurnar hafa því sýnt fram á að samkomubannið hafi haft mikil og neikvæð áhrif á líðan ADHD barna og fjölskyldna þeirra og leiða má að því líkur að það sama eigi við um önnur börn með sérþarfir og fjölskyldur þeirra.

Verndarsóttkví

Embætti landlæknis hvatti foreldra langveikra og fatlaðra barna til að halda börnunum heima í verndarsóttkví og ráðlagði foreldrum sérstaklega að setja ekki börn með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma í skóla eða dagvistun á ákveðnu tímabili. Margir foreldrar héldu því fötluðum eða langveikum börnum sínum heima í þeim tilgangi að fara eftir tilmælum um verndarsóttkví. Í niðurstöðum athugunar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um áhrif Covid-19 á þjónustu við fatlað fólk, kemur fram að áhyggjur hafi verið af fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra, sem hafi margar afþakkað þjónustu af ótta við smit, en án þjónustu sé enn meira álag á þeim fjölskyldum. Þá kemur fram í sömu niðurstöðum að töluverð aðsókn hafi verið í vottorð Ráðgjafar- og greiningarstöðvarinnar, vegna foreldra fatlaðra barna sem voru með börn sín heima í varnarsóttkví.

Systkini fatlaðra eða langveikra barna þurftu í einhverjum tilvikum að sæta verndarsóttkví til að varna því að smit bærist inn á heimili þeirra. Þannig höfðu þau börn því einnig skertan aðgang að kennslu sem fór fram í skólanum þeirra og gátu í vissum tilfellum ekki tekið þátt í kennslustundum gegnum fjarfundabúnað og oft var aðstæðum þeirra sýndur lítill skilningur. Margir foreldrar þurftu alfarið að axla ábyrgð á kennslu fyrir börn í verndarsóttkví, jafnvel án aðstoðar skóla, ekki síst þegar bæði fatlað eða langveikt barn og systkini þess voru í verndarsóttkví. Það skapar hættu á því að þau dragist sömuleiðis aftur úr í námi og að mati umboðsmanns barna hefur þessi hópur ekki fengið nægilega mikla umfjöllun. Foreldrar eru misfærir um að taka að sér kennslu, hvað þá ef þeir þurfa samhliða að sinna vinnuskyldu sinni heima fyrir, á meðan á verndarsóttkví stendur. Öryrkjabandalagið hefur lýst yfir miklum áhyggjum af stöðu fatlaðra og langveikra barna í kjölfar faraldursins þar sem mikil þjónustuskerðing hefur átt sér stað og afkomuáhyggjur og umönnunarþreyta foreldra og annarra aðstandenda barna geti haft mikil áhrif á börnin í framtíðinni.

Fram hefur komið gagnrýni á það fyrirkomulag að foreldrar í verndarsóttkví féllu ekki undir reglugerð sem tryggði launagreiðslur til þeirra sem fóru í sóttkví í kjölfar utanlandsferða eða þeirra sem höfðu umgengist smitaðan einstakling. Ljóst er að það fyrirkomulag er til þess fallið að auka enn frekar á álag á fjölskyldum en í kjölfar framkominnar gagnrýni gerði félagsmálaráðuneytið breytingar á reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, til að heimila greiðslur til foreldra langveikra barna sem voru heima með barn í verndarsóttkví. Um var að ræða eingreiðslu fyrir ákveðið tímabil sem nam 25% af fullum umönnunargreiðslum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Það var þó gagnrýnt, m.a. af Umhyggju, félagi langveikra barna , þar sem ljóst væri að upphæðin sem um ræddi dugi skammt í ástandi þar sem foreldrar eru útsettir fyrir tekjumissi vikum og jafnvel mánuðum saman. Ljóst er að margir foreldrar í þessari stöðu nýttu orlofsdaga og þurftu að leita ýmissa leiða til að reyna að ná endum saman. Þá eru einnig dæmi um að foreldrar hafi þurft að taka ólaunað frí frá vinnu á meðan verndarsóttkví stóð og því ljóst að eingreiðslan var ekki fullnægjandi úrræði fyrir þennan hóp.

Að lokum ber að nefna að megininntak 23. gr. Barnasáttmálans er að fötluð börn eigi rétt á þátttöku á öllum sviðum samfélagsins á sambærilegan hátt og önnur börn. Það er því á ábyrgð stjórnvalda að tryggja að skólar útfæri kennslu á þann hátt að allir geti notið hennar og taka verður mið af einstaklingsbundnum aðstæðum og þörfum sérhvers nemanda. Barnaréttarnefndin hefur lagt áherslu á að stuðningur við fötluð og langveik börn verði að miða að því að þau verði ekki af tækifærum til náms, félagslegra samskipta og þátttöku.


Réttur barna til menntunar

28. gr. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til menntunar

Skólinn er bara í þrjá klukkutíma ( 08:30 til 11:30)  og við vorum alltaf með grímur í skólanum og við máttum ekki fara út í frímínútur en núna þurfum við ekki að vera með grímur og megum fara út í frímínútur núna fáum við líka  alltaf mat í bökkum upp í stofu en megum ekki fara í matsalinn.

Þátttaka barna í ákvarðanatöku um tilhögun skólastarfs

Þann 15. apríl 2020 sendi umboðsmaður barna bréf til mennta- og menningarmálaráðherra, um þátttöku barna í ákvarðanatöku um tilhögun skólastarfs og rétt þeirra til upplýsinga. Í bréfinu kom fram að skólar og skólayfirvöld muni þurfa að grípa til ýmissa ráðstafana til þess að tryggja rétt barna til menntunar undir þeim sérstöku kringumstæðum sem þá voru uppi, og áréttaði umboðsmaður mikilvægi þess að nemendur séu þátttakendur í þeirri ákvörðunartöku, fái nauðsynlegar upplýsingar um þá valkosti sem til greina koma, og fái að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, áður en endanleg ákvörðun er tekin. Loks hvatti umboðsmaður barna ráðherra til þess að beina þeim tilmælum til stjórnenda skóla, að við töku ákvarðana um tilhögun skólastarfs vegna Covid-19, verði hugað sérstaklega að rétti barna til upplýsinga og þátttöku samkvæmt ákvæðum Barnasáttmálans.

Þegar skólanum var breytt og haft bara 1 klukkutíma á dag fannst mér allt verða miklu léttara og mér gekk betur að ná einbeitingu af verkefnunum heima og skildi allt miklu betur.

Þann 7. janúar 2022 sendi umboðsmaður barna bréf til mennta- og barnamálaráðuneytis um menntun barna á tímum faraldursins. Þar kom fram að umboðsmanni hafi borist mikið af ábendingum og fyrirspurnum um rétt barna sem sæta sóttkví eða einangrun til menntunar. Í bréfinu er sett fram það mat umboðsmanns að hætta sé í einhverjum tilvikum á að börn dragist aftur úr í námi, sérstaklega ef þau þurfa að sæta endurtekinni sóttkví eða einangrun. Þá benti umboðsmaður ráðuneytinu á að viðbrögð skólanna séu afar mismunandi, en að brýnt sé að veita skólum leiðbeiningar, tryggja samhæfð viðbrögð og virða rétt barna til menntunar, líkt og kveðið er á um í um í 13. gr. laga, nr. 91/2008, um grunnskóla og 28. gr. laga, nr. 13/2019, um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Áhrif aukinnar rafrænnar kennslu

Skólar lögðu í mörgum tilvikum aukna áherslu á rafræna kennslu, til að halda skólastarfi gangandi, þrátt fyrir gildandi takmarkanir hverju sinni. Vissulega var jákvætt að leitað hafi verið alla leiða til að takmarka áhrif á nám og skólagöngu barna, en með skyndilegri aukningu í rafrænni kennslu koma þó upp ný álitaefni sem kalla á umræðu og lausnir, en mikilvægt er að læra af nýfenginni reynslu skólasamfélagsins af rafrænum kennsluháttum.

Ein meginregla Barnasáttmálans kveður á um að allar ráðstafanir sem varða börn ber að taka á þann hátt sem hvorki mismunar einstökum börnum eða hópum barna. Þó svo að kannanir sýni fram á að Ísland sé í fararbroddi á heimsvísu í netvæðingu heimila, eru þó enn heimili þar sem þráðlausar nettengingar, spjaldtölvur eða önnur snjalltæki er ekki að finna. Leiða má að því líkur að það séu helst heimili barna sem búa við fátækt og eru því á margan hátt þegar í viðkvæmri stöðu. Þegar kennslan færist að miklu leyti eða jafnvel alfarið á netið, er það því þessi hópur barna, sem helst er í hættu á að dragast aftur úr námi. Það er því mikilvægt að stjórnendur skóla gangi úr skugga um að öll börn búi við þannig aðstæður að þau geti stundað nám með rafrænum hætti, áður en kennslan er færð yfir á stafrænan vettvang. Styðja þarf við þann hóp barna sem ekki hefur slíkan aðgang heima við til að tryggja jafnan aðgang þeirra til náms, hvort sem það feli í sér að þeim sé veittur aðgangur að t.d. tölvubúnaði skólans eða með öðrum hætti.

Ljóst er að stafræn kennsla hefur verið mikil áskorun fyrir kennara, sem í mörgum tilvikum höfðu ekki fengið kennslu eða þjálfun í notkun stafrænna kennsluforrita fyrir fjarkennslu. Brýnt er að bæta úr því og efla þjálfun kennara í rafrænum kennsluháttum til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á nám barna og störf kennara.

Þó svo að stafræn kennsla hafi að einhverju leyti komið í stað hefðbundinnar kennslu er ljóst að erfitt er að halda úti stafrænni kennslu í ákveðnum námsgreinum. Þar ber helst að nefna íþrótta- og sundkennslu auk list- og verkgreina. Sama má segja um fjölda valgreina. Þannig hafa börn í einhverjum tilvikum haft takmarkaða möguleika á því að stunda nám í þeim námsgreinum sem þau hafa hvað mestan áhuga á og hafa haft minni möguleika á því að hafa áhrif á eigin stundatöflu með valgreinum.

Skráning fjarvista

Skólar höguðu fjarvistaskráningum vegna sóttkvíar á grundvelli Covid-19 með afar mismunandi hætti. Í einhverjum tilfellum fengu nemendur skólagögn heim og var fjarvera þeirra sérstaklega skráð sem fjarvera tengd faraldrinum. Aðrir skólar skráðu fjarveru barnanna sem almenn veikindi og einnig eru dæmi um að börn hafi verið skráð í leyfi vegna þessa. Að mati umboðsmanns barna er bagalegt að skráning á fjarveru barna vegna Covid-19 í skólum hafi ekki verið samræmd þar sem erfitt er að fá upplýsingar um hversu mörg börn misstu úr skóla vegna þessa en um er að ræða mikilvægar upplýsingar um þann hóp barna sem mun þurfa á auknum stuðningi við nám sitt að halda. Það að mæta ekki í skólann í lengri tíma getur einnig haft í för með sér félagslega einangrun barna sem þurfa jafnframt á annars konar stuðningi að halda, auk stuðnings við nám. Rétt skráning fjarvista er því afar mikilvægt verkfæri sem nýtist skólum og stuðningsþjónustu sveitarfélaga í því verkefni að fylgjast með velferð barna og líðan þeirra. Umboðsmaður barna hefur ítrekað áréttað mikilvægi þess að gripið verði til markvissra aðgerða til þess að bregðast við skólaforðun, en samkvæmt könnun sem framkvæmd var meðal skólastjórnenda árið 2019, má áætla að um 2,2% grunnskólanema glími við skólaforðun. Samræmd og markviss skráning á skólavist og skólasókn barna er lykilatriði í því að stjórnvöld geti staðið við skuldbindingar sínar um að tryggja rétt barna til menntunar.

Nemendur af erlendum uppruna

Niðurstöður rannsókna gefa vísbendingar um að börn sem voru í viðkvæmri félagslegri stöðu fyrir faraldurinn, séu nú í verri stöðu og hafi jafnvel einangrast og dregist mikið aftur úr í námi. Það á ekki síst við um nemendur af erlendum uppruna, en mörg þeirra hafa átt erfitt með að sinna námi sínu frá heimilum sínum, þar sem oft er ekki að finna nauðsynlegan tölvubúnað eða nettengingu, auk þess sem mörg þeirra eiga foreldra sem vinna langa vinnudaga og hafa því lítið svigrúm til þess að aðstoða börn við heimanám sitt. Þá hafa tungumálaörðugleikar foreldra og í einhverjum tilvikum barnanna, gert að verkum að fjölskyldur átt erfiðara með að taka til sín upplýsingar frá skólunum um fyrirkomulag fjarnáms og takmarkanir á skólahaldi.

Nemendur í framhaldsskóla

Eftir breytingar á fyrirkomulagi náms í framhaldsskólum er gert ráð fyrir því að nemendur ljúki námi sínu á þremur árum í stað fjögurra eins og áður. Á eins og hálfs árs tímabili höfðu sóttvarnaráðstafanir mikil áhrif á nám framhaldsskólanemenda, sem þýðir að stór hópur framhaldsskólanema sætti takmörkunum á sínu námi og tilheyrandi félagslífi, á um helmingi námstímans. Stór hluti náms þeirra fór þannig fram í fjarnámi en í skólunum höfðu gildandi sóttvarnareglur hverju sinni einnig mikil áhrif á skipulagningu náms, en þar ber helst að nefna fjöldatakmarkanir og grímuskyldu. Starfsemi framhaldsskóla er mismunandi og skipulag þeirra og nemendafjöldi sömuleiðis og því voru áhrifin mismunandi og mismikil eftir skólum. Einnig höfðu einstaklingsbundnir þættir mikil áhrif, en aukið fjarnám krefst þess að nemendur ástundi sjálfstæð vinnubrögð, en í slíkum aðstæðum hallar augljóslega á nemendur sem eiga við námsörðugleika að stríða, njóta takmarkaðs stuðnings forsjáraðila við nám sitt, eða hafa ekki aðgang að nauðsynlegum tækjabúnaði heimavið. Vísbendingar eru um að þessar aðstæður hafi aukið félagslegt ójafnræði nemenda en brýnt er að brugðist sé við þeirri stöðu, og nemendum framhaldsskóla sem á þurfa að halda, sé tryggður stuðningur við hæfi, sem geri þeim kleift að ljúka námi sínu.

Félagslíf í framhaldsskólum

Takmarkanir á félagslífi í framhaldsskólum vegna sóttvarnaráðstafana hafa haft neikvæð áhrif á líðan nemenda, enda er félagslíf framhaldsskóla oft mikið tilhlökkunarefni nemenda sem eru að hefja nám í framhaldsskóla og fyrirkomulag félagslífs er meðal þeirra atriða sem nemendur líta til við val á skóla. Framhaldsskólaárin eru mikilvægur mótunartími, þar sem félagsleg samskipti skipta miklu máli, og mikilvægt er að tryggja framhaldsskólanemum tækifæri til þess að mynda tengsl við jafnaldra og skólafélaga og viðhalda þeim.

Hvað varðar þá nemendur sem luku grunnskólanámi sínu vorið 2021, þá eru vísbendingar um að þau hafi í einhverjum tilvikum ekki fengið nægilegan undirbúning fyrir nám í framhaldsskóla í sínum grunnskólum, sem þýðir að þau koma ekki nægilega vel undirbúin fyrir nám á nýju skólastigi, sem getur aukið álag og streitu og haft áhrif á námsárangur þeirra og líðan.

Í upphafi faraldursins voru uppi miklar áhyggjur af nemendum framhaldsskóla í brotthvarfshættu en enn sem komið er sýna tölur ekki fram á að brotthvarf hafi aukist á tímum Covid-19. Má leiða að því líkur að sveigjanlegra skólastarf og aukið fjarnám henti ákveðnum hópi nemenda, en vísbendingar eru um að breyttir kennsluhættir, aukið frjálsræði nemenda um tilhögun eigin náms og aukin innleiðing nýrrar tækni, geti nýst sem verkfæri í baráttunni gegn brotthvarfi.

Þann 12. febrúar 2022 tilkynnti heilbrigðisráðuneytið að takmörkunum á skólastarfi vegna Covid-19 yrði aflétt með gildistöku nýrrar reglugerðar. Þær breytingar fólu í sér rýmkun á sóttvarnareglum og fjöldatakmörkunum auk þeirrar mikilvægu breytingar að heimilt varð að halda skemmtanir í grunn- og framhaldsskólum án takmarkana.

Mér hefur gengið miklu betur í skólanum á þessum tímum vegna þess að við höfum fengið að ráða hvaða fögum við lærum í og þá finnst ber ég ná að halda betur um allt.


Réttur barna til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi

31. gr. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.

Covid hefur haft áhrif á andlegu heilsuna mína, ég er meira stressuð og leið og ég fæ ekki að fara á æfingar sem lætur líkamlegu heilsu mína vera verri

Þann 22. október 2020, sendi umboðsmaður barna bréf til forsætisráðherra, um takmarkanir á réttindum barna vegna Covid-19, þar sem efni fyrra bréfs frá apríl mánuði, var áréttað. Í bréfinu vísaði umboðsmaður barna til þess að óviðunandi óvissa hafi ríkt um íþróttastarf barna og lagði áherslu á mikilvægi þess að aðeins sé gripið til ráðstafana sem takmarka réttindi barna í þágu almennaheilla þegar brýna nauðsyn ber til.

Í sumar var skemmtilegt því þetta rusl hætti í smá stund og þá gat maður farið í ræktina og tekið æfingar og fara í sund

Þátttaka barna og upplýsingar um fyrirkomulag tómstundastarfs

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að þátttaka barna í skipulögðu tómstundastarfi er meðal þeirra lykilþátta sem hvað mest hafa áhrif á velferð barna og þá er forvarnagildi tómstundaiðkunar barna óumdeilt. Sóttvarnaaðgerðir höfðu í för með sér mismiklar takmarkanir á tómstundaiðkun barna, en dæmi voru um að fyrirmæli varðandi þær væru óskýr, sem olli óvissu og mikilli óánægju barna og þeirra sem skipuleggja og bjóða upp á tómstundastarf fyrir börn. Þá voru í engum tilvikum settar fram upplýsingar um takmarkanir á tómstundastarfi fyrir börn til að gera þeim kleift að skilja hvaða takmarkanir um ræddi hverju sinni og af hverju þær voru settar á. Umboðsmaður barna hefur lagt ríka áherslu á að börn séu ávallt upplýst um allar ráðstafanir sem snúa að þeim, fái hlutdeild í ákvarðanatöku um þær, og fái upplýsingar um framkvæmdina, framsettar á viðeigandi hátt. Eins og áður hefur komið fram hefur misbrestur orðið á því að börn séu upplýst um þær ákvarðanir og ráðstafanir um sóttvarnir sem snúa beint að þeim, en það á ekki síst við um íþrótta- og tómstundastarf. Þá hafa fulltrúar íþróttahreyfingarinnar einnig líst því yfir að óvissa hafi ríkt um framkvæmd íþróttastarfs, m.a. vegna þess að tilmæli og reglur voru ekki skýrar, sem skapar hættu á því að foreldrar dragi úr skráningu og þátttöku barna sinna í skipulögðu tómstundastarfi. Á næstu árum er því mikilvægt að tekið verði sérstaklega til skoðunar hvort dregið hafi úr þátttöku barna í íþróttastarfi og hvers kyns tómstundastarfi.

Í umræðunni um tómstundastarf barna hefur íþróttastarf verið mjög áberandi, en minna hefur farið fyrir umræðu um mikilvægi annars tómstunda- og æskulýðsstarfs, starfsemi ungmennaráða auk umræðu um aðra samfélagslega þátttöku barna. Það er mikilvægt að jafnræði ríki milli barna þannig að þau fái sambærileg tækifæri til að sinna sínum áhugamálum, óháð því hver þau áhugamál eru eða á hvaða vettvangi þau fara fram.

Svo lengi sem ég get stundað íþróttir og talað við vini mína þá er þetta ekki svo slæmt fyrir mig


Réttur barna til verndar hvers kyns ofbeldis

19. gr. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun.

Þessi blessaði faraldur er búinn að gera alla dapra

Í bréfi umboðsmanns barna til forsætisráðherra frá apríl 2020 kom fram að vísbendingar væru um að faraldurinn hafi aukið álag og streitu hjá fjölskyldum sem muni hafa neikvæðar afleiðingar. Í bréfinu kom einnig fram að það muni skýrast frekar þegar opinber þjónusta komist aftur í eðlilegt horf. Benti umboðsmaður jafnframt á mikilvægi þess að fylgst sé náið með því hvort aukin ásókn verði í tiltekna þjónustu fyrir börn og fjölskyldur með tilheyrandi álagi á þær stofnanir og starfsfólk þeirra. Í bréfinu setti umboðsmaður fram það mat að fylgjast þurfi með því hvort fjöldi og þungi mála aukist í einhverjum tilvikum, en ef svo reynist vera, þurfi að mæta því aukna álagi með aðgerðum, til þess að tryggja að unnt sé að mæta uppsafnaðri þjónustuþörf til að fyrirbyggja neikvæð áhrif til lengri tíma.

Í bréfi umboðsmanns barna til forsætisráðherra frá október 2020, ítrekaði umboðsmaður barna áhyggjur sínar af vísbendingum um neikvæðar afleiðingar aukins álags og streitu hjá fjölskyldum. Þá vísaði umboðsmaður barna einnig til þess að talsverð aukning hafi orðið á fyrirspurnum frá börnum og foreldrum til umboðsmanns barna eftir upphaf faraldursins, en mikið af þeim fyrirspurnum vörðuðu erfið samskipti barna og foreldra, sem töluvert hefur reynt á með aukinni inniveru og þvingaðri samveru fjölskyldunnar vegna sóttvarnaaðgerða.

Á fyrstu stigum faraldursins varaði Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) sérstaklega við því að aukin vera barna á heimilum sínum með tilheyrandi einangrun hefði í för með sér aukna hættu á að börn verði fyrir ofbeldi á heimilum sínum. Það sé m.a. vegna þess að börn eigi erfiðara með að leita eftir stuðningi og fái á tímum Covid-19 færri tækifæri til að vera utan heimilis. Að mati WHO hefur takmörkuð skólasókn einnig áhrif, þar sem það þýði að börn séu í mörgum tilvikum án stuðnings og eftirlits fagaðila. Þá hefur WHO einnig bent á aukna áhættu á því að börn verði fyrir stafrænu ofbeldi, með auknum skjátíma.

Vissir þú að...

WHO hefur jafnframt gefið út að tilteknir hópar séu í sérstakri hættu á því að verða fyrir ofbeldi eins og t.d.:

  • Börn sem þegar bjuggu við ofbeldi á heimilum sínum, fyrir Covid-19. 

  • Börn með fötlun eða geðrænan vanda, ekki síst vegna minna aðgengis að stuðningsúrræðum

  • Börn sem tilheyra minnihlutahópum eins og t.d. börn með innflytjendabakgrunn, hinsegin börn, börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd og börn sem búa við fátækt.

dimm ský


Ég eyði miklu meiri tíma með fjölskyldunni núna eftir að þetta covid byrjaði. Við mamma, pabbi, litla systir mín og ég förum mikið í heita pottinn saman, bíltúra og mikið fleira

Fjölgun tilkynninga um einelti í grunnskólum

Fram kom í fjölmiðlum í nóvember 2021, að könnun Skólapúlsins hefði leitt í ljós að tilkynningum um einelti í grunnskólum hafi fjölgað um 1,1% eftir að Covid-19 skall á. Fram kom að skólaárið 2015 til 2016 sögðust 11,4 prósent grunnskólanemenda hafa orðið fyrir einelti á síðustu 30 dögum en sambærilegar tölur fyrir skólarið 2019 til 2020 voru 12,5%. Skólaárið 2020 til 2021 svöruðu hins vegar 13,6 prósent því að þau hefðu verið lögð í einelti síðasta mánuðinn, sem nemur 1,1 prósent hækkun. Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvað veldur, en þörf er á að fylgja þessum niðurstöðum eftir.

Fjölgun tilkynninga til barnaverndarnefnda

Í febrúar 2021 stóðu stjórnvöld fyrir vitundarvakningu um öryggi og velferð barna, á 112-deginum svokallaða. Ástæða þess að dagurinn var í þetta sinn tileinkaður börnum, var gríðarleg fjölgun tilkynninga til barnaverndarnefnda. Markmið verkefnisins var að vekja almenning til meðvitundar um hvað teljist vera ofbeldi gegn börnum, tilkynningarskyldu almennings og að upplýsa um tiltæk úrræði á þessu sviði.

Á heimasíðu Barnaverndarstofu er að finna greiningu á tilkynningum til barnaverndarnefnda um áhyggjur af högum og aðstæðum barna á árinu 2020, auk upplýsinga um fjölda umsókna í úrræði á vegum Barnaverndarstofu. Meðal þess sem þar kemur fram er að tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 15,8% á árinu 2020, ef miðað er við árið á undan. Alls bárust barnaverndarnefndum 13.142 tilkynningar um 10.400 börn, en fram kemur að tilkynningum hafi fjölgað í öllum landshlutum, en þó mest á landsbyggðinni, eða sem nemur 17,9%.

Flestar tilkynningar á árinu 2020 voru vegna vanrækslu á börnum, eða um 43,1% allra tilkynninga, en einnig bárust 3.765 tilkynningar vegna ofbeldis gegn börnum, en hlutfall þeirra var stærri hluti af heildarfjölda tilkynninga en á síðustu tveimur árum, eða 28,6%.

Nánari greining á tilkynningum um vanrækslu sýnir að 16,1% tilkynninga um vanrækslu á börnum vörðuðu foreldra í áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu, sem er hærra hlutfall en árin á undan. Þá hafi tilkynningum fjölgað um allar tegundir ofbeldis, flestar tilkynningarnar hafi verið um tilfinningalegt ofbeldi, eða 18,6% af heildarfjölda tilkynninga. Einnig kemur fram að mikil fjölgun hafi orðið á tilkynningum frá nágrönnum, eða alls 37,2% fleiri en á árinu 2019. Má leiða að því líkur að umrædd fjölgun tengist að einhverju leyti aukinni veru fólks á heimilum sínum sem eykur meðvitund þeirra um það sem gerist í nærumhverfi þeirra, en fjölgunin er vonandi einnig til marks um aukna meðvitund almennings um tilkynningarskyldu samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Á heimasíðu Barnaverndarstofu má einnig finna nánari greiningu á fjölgun tilkynninga til barnaverndarnefnda á fyrstu þremur mánuðum 2021, en alls fjölgaði tilkynningum um 17,5% í samanburði við sama tímabil á árinu á undan. Þá kemur þar einnig fram að eins og á árinu 2020 hafi flestar tilkynningar verið vegna vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit með börnum. Greining Barnaverndarstofu á tilkynningum til barnaverndarnefnda fyrstu níu mánuði ársins 2021 leiddi í ljós að þær voru 2,3% fleiri en á sama tímabili árinu á undan. Flestar tilkynningar á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 voru vegna vanrækslu, líkt og fyrri ár eða um 43% allra tilkynninga. Næst flestar tilkynningar bárust vegna áhættuhegðunar barna, 28,4% allra tilkynninga og tilkynningar vegna ofbeldis, voru 27,6% allra tilkynninga. Þá vekur það athygli að tilkynningum vegna vanrækslu á námi barna fjölgar á milli ára, sem væntanlega má rekja til aukins heimanáms og ýmissa ráðstafana vegna Covid-19. Kemur fram að aukning tilkynninga vegna vanrækslu á námi barns hafi verið um 2,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 í samanburði við árið 2020, en ef þær tölur eru bornar saman við tölur ársins 2019 er um að ræða fjölgun tilkynninga um 40,8%.

Kynferðisofbeldi gegn börnum

Tilkynningum til barnaverndarnefnda vegna kynferðisofbeldis gegn börnum hefur fjölgað verulega sem er gríðarlegt áhyggjuefni. Í áðurnefndri greiningu Barnaverndarstofu er einnig fjallað um Barnahús og þá miklu aukningu sem orðið hefur þar í skýrslutökum af börnum, sem fjölgaði um 30% á árinu 2020 miðað við árið á undan. Alls voru teknar 334 skýrslur af börnum í Barnahúsi á árinu 2020, en einnig fjölgaði greiningar- og meðferðarviðtölum við börn, en alls var um að ræða 133 börn á árinu 2020. Tilkynningum vegna kynferðislegs ofbeldis gegn börnum fjölgaði áfram á árinu 2021, en samkvæmt upplýsingum Barnaverndarstofu bárust 515 tilkynningar vegna kynferðislegs ofbeldis á fyrstu níu mánuðum ársins, eða 34,8% fleiri tilkynningar en á sama tímabili árið 2020. Samanburður við tilkynningar á árinu 2019 leiðir í ljós fjölgun tilkynninga sem nemur 58,5%.

Á alþjóðavettvangi má sjá sömu þróun og á Íslandi, þ.e. að kynferðisofbeldi gegn börnum á sér stað í meira mæli á stafrænum vettvangi. Bæði hafa orðið miklar framfarir í tækni og þróun snjalltækja og samfélagsmiðla og aðgengi þeirra aukist mikið meðal barna, en einnig hefur heimsfaraldurinn haft mikil áhrif. Börn eru mun meira heima en áður og eru meira á netinu sem skapar aukin tækifæri fyrir gerendur stafræns kynferðisofbeldis. Það hefur því aldrei verið brýnna en nú að fræða og upplýsa börn um eðli og birtingarmyndir ofbeldis, rétt þeirra til verndar gegn því, netöryggi og stuðningsúrræði.


Réttur barna til fjárhagslegs öryggis

27. gr. Aðildarríki viðurkenna rétt hvers barns til lífsafkomu sem nægir því til að ná líkamlegum, sálrænum, andlegum, siðferðilegum og félagslegum þroska.

Covid var svaka svaka scary ég hefði átt að fjárfesta í sprittfyrirtækjum árans bévítans.

Meðal fyrstu afleiðinga faraldursins var skyndileg aukning atvinnuleysis sem hafði áhrif á mörg börn, en leiða má að því líkum, að áhrifin séu ekki hvað síst alvarleg hjá börnum sem fyrir faraldurinn bjuggu við fátækt, og eiga því á hættu frekari skerðingu lífsgæða og tækifæra. Í bréfi til forsætisráðherra dags. 17. apríl 2020, benti umboðsmaður barna á mikilvægi þess að hlúð sé sérstaklega að þessum hópi barna, og að efling þjónustu við börn á tímum eins og þessum sé brýnt samfélagslegt hagsmunamál sem muni koma í veg fyrir að vandi barna vaxi og fylgi þeim fram á fullorðinsár. Þá benti umboðsmaður á þann lærdóm sem draga megi af fjármálakreppunni og því sem fram hafi komið í könnunum og rannsóknum um áhrif hennar á ólíka hópa barna. Einnig sé hægt að líta til reynslu nágrannaríkjanna en rannsóknir frá Finnlandi hafa t.a.m. sýnt að börn sem alast upp á tímum mikilla efnahagsþrenginga eru í aukinni hættu á að þróa með sér geðrænan vanda.

Verið viss að þetta var ekki það sem litla ég hafði ímyndað sér. En þar sem að ég hef alltaf verið mjög jákvæð og litið á það besta í hlutum þá hef ég notað þessar aðstæður mér í hag og held fast í vonina að einn daginn. Já einn daginn verði þetta búið.

Barnvæn fjármálastjórn

Samkvæmt 4. gr. Barnasáttmálans, skulu aðildarríki gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi þau sem viðurkennd eru í sáttmálanum, komi til framkvæmda. Meðal þess sem barnaréttarnefndin lítur til við mat á því hvort aðildarríki Barnasáttmálans hafi raunverulega gert allar viðeigandi ráðstafanir, er hvort ríkin séu að veita nægu fjármagni til málefna barna.

Í leiðbeiningum barnaréttarnefndarinnar um opinbera fjármálagerð sem miðar að því að uppfylla réttindi barna samkvæmt 4. gr., er m.a. fjallað um fjárveitingar og fjármálaáætlanagerð á tímum neyðar eða efnahagsþrenginga. Þar leggur nefndin ríka áherslu á að í allri fjármálaáætlunargerð aðildarríkja sem hefur áhrif á málefni barna, sé fyrst og fremst litið til þess sem börnum er fyrir bestu. Veita á fjármagni til þjónustu eða stuðnings við börn þannig að virðið sé hámarkað og með hliðsjón af skyldu aðildarríkis um að virða, vernda og innleiða réttindi barna.

Skylda aðildarríkja um að tryggja að fullu efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi barna, felur í sér að ríkjum er óheimilt að grípa til aðgerða sem takmarka þau réttindi, nema brýna nauðsyn beri til. Á tímum efnahagsþrenginga má eingöngu beita niðurskurði í fjárveitingum og þjónustu eftir að mat hefur verið lagt á aðra valkosti og tryggt hefur verið að börnin séu þau síðustu til að verða fyrir áhrifum, sérstaklega börn í viðkvæmri stöðu. Þá eiga slíkar aðgerðir ekki að koma til álita, nema þær séu nauðsynlegar og viðeigandi, tímabundnar og feli ekki í sér mismunun tiltekinna hópa barna. Þá er brýnt að börn og þeir sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu á aðstæðum barna, taki þátt í ákvarðanatöku um fjárhagslegar aðgerðir sem snúa að börnum. Í leiðbeiningum barnaréttarnefndarinnar til aðildarríkja Barnasáttmálans um aðgerðir gegn Covid-19, kemur fram að ráðstafanir sem miða að því að draga úr efnahagslegum og félagslegum áhrifum faraldursins, verði að innihalda sérstakar ráðstafanir til verndar börnum, sér í lagi þau sem eru í viðkvæmri stöðu, til að mynda þau sem búa við fátækt.

Efnahagslegar aðgerðir stjórnvalda sem hafa áhrif á börn

Íslensk stjórnvöld stóðu frammi fyrir miklum áskorunum í kjölfar þess að Covid-19 skall á og gripið var til fjölda efnahagsúrræða sem beindust að bæði heimilum og fyrirtækjum. Til viðbótar við þær mótvægisaðgerðir stjórnvalda sem höfðu óneitanlega jákvæð og afleidd áhrif á börn, var hluta aðgerðanna sérstaklega beint að börnum og/eða fjölskyldum þeirra. Þá ber sérstaklega að nefna ferðagjöfina svokölluðu, en allir einstaklingar með lögheimili á Íslandi, 18 ára og eldri fengu í tvígang ferðagjöf að andvirði 5000 kr., sem var liður í því verkefni stjórnvalda að styðja við íslenska ferðaþjónustu í kjölfar faraldursins. Börn fengu þó ekki slíka ferðagjöf og hefur ráðgjafarhópur umboðsmanns barna t.d. gagnrýnt það fyrirkomulag, enda eru börn skattgreiðendur frá 16 ára aldri, eru virkir neytendur og þátttakendur í samfélaginu, og því ættu stuðningsaðgerðir af þessum toga einnig að taka til þeirra.

Í bréfi til forsætisráðuneytisins, dags. 20. október 2020, benti umboðsmaður barna á mikilvægi þess, að upplýsinga sé aflað um aðstæður, heilsu og líðan barna í íslensku samfélagi, þannig að unnt sé að bregðast tímanlega við og tryggja þannig rétt barna til viðunandi þjónustu og góðra uppeldisaðstæðna. Þá áréttaði umboðsmaður að taka eigi mið af stöðu og líðan barna við stefnumótun og forgangsröðun verkefna en til þess að það sé hægt þurfi þær upplýsingar að vera til staðar. Í bréfinu bendir umboðsmaður á þá staðreynd að málefni barna tilheyri málefnasviðum nokkurra ráðuneyta og því var forsætisráðuneytið hvatt til að taka forystu í þessum efnum og stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og fjölskyldna í kjölfar faraldursins. Í kjölfarið sendi forsætisráðuneytið bréf til allra ráðuneyta sem eru með málefni barna að einhverju leyti á sínu málefnasviði og óskaði eftir upplýsingum um aðgerðir ráðuneytanna sem miðuðu að því að styðja við börn og fjölskyldur þeirra.

Forsætisráðuneytinu barst svar frá félagsmálaráðuneytinu í janúar 2021. Þar tekur félagsmálaráðuneytið undir þau sjónarmið sem fram koma í bréfi umboðsmanns barna, um mikilvægi þess að hlúa að og fylgjast með líðan og velferð barna með hliðsjón af Covid-19 faraldrinum. Í bréfinu greinir ráðuneytið frá því að upplýsingum hafi verið safnað frá upphafi faraldursins um viðkvæma hópa barna gegnum viðbragðs- og uppbyggingarteymi en auk þess hafi verið gripið til fjölmargra aðgerða sem mótvægi við þau áhrif sem takmarkanir í samfélaginu höfðu haft á líðan barna. Í bréfi ráðuneytisins er auk þess grein frá ýmsum aðgerðum í fjórum flokkum, aðgerðir gegn ofbeldi, félagslegar aðgerðir fyrir börn í viðkvæmri stöðu, beinn fjárstuðningur við börn og fjölskyldur þeirra auk stuðnings við frjáls félagasamtök. Þó svo að engin svör hafi borist frá öðrum ráðuneytum, hefur opinberlega verið greint frá fjölda aðgerða sem gripið hefur verið til, eins og t.d. ýmsar aðgerðir sem miða að því að efla geðheilbrigðisþjónustu. Hvergi er þó að finna heildaryfirlit yfir fjárveitingar til málefna barna eða upplýsingar um hlutfall aukafjárveitinga vegna afleiðinga faraldursins sem veitt var til málefna barna. Þá er heldur ekki að finna umfjöllun um þá greiningarvinnu sem unnin var fyrir ákvörðunartöku um val á stuðningsaðgerðum fyrir börn, og ekki er heldur ljóst hvort til stendur að greina sérstaklega hvort umræddar aðgerðir hafi skilað tilætluðum árangri, eða hvort þörf er á frekari stuðningsaðgerðum. Með hliðsjón af því, er ekki hægt að greina með fullnægjandi hætti hvort virði fjárveitinga til barna vegna afleiðinga Covid-19 hafi verið hámarkað eins og Barnasáttmálinn gerir kröfu um, hvort fjárveitingunum hafi raunverulega verið veitt þangað sem þörfin er mest, eða hvort umræddar aukafjárveitingar hafi stuðlað að því að draga úr mismunun barna og styðja sérstaklega við viðkvæma og jaðarsetta hópa barna, til að stuðla að velferð þeirra og verndun hagsmuna þeirra og réttinda.

Í áðurnefndum leiðbeiningum barnaréttarnefndarinnar kemur fram, að 4. gr. Barnasáttmálans geri þá kröfu til aðildarríkja, að þau afli, greini og miðli upplýsingum, um þann hluta fjárveitinga úr ríkissjóði, sem er veitt til málefna barna, með beinum eða óbeinum hætti. Telur barnaréttarnefndin það vera forsendu þess að nefndin, og þar með Sameinuðu þjóðirnar, geti haft eftirlit með því, að það sem börnum er fyrir bestu , sé í forgrunni við allar efnahagslegar og félagslegar aðgerðir ríkisins sem varða börn, og að börnum, og þá sérstaklega börnum í viðkvæmum hópum, sé hlíft við neikvæðum áhrifum efnahagsstefnu ríkisins. Ljóst er að áframhaldandi innleiðing Barnasáttmálans kallar á aukið gagnsæi og frekari miðlun upplýsinga um fjárveitingar úr ríkissjóði og hlutdeild barna í þeim, til þess að markmið Barnasáttmálans nái fram að ganga, og að innlendir og alþjóðlegir eftirlitsaðilar með innleiðingu og framkvæmd Barnasáttmálans og réttindum barna geti sinnt sínu hlutverki sínu og þrýst á úrbætur þar sem þörf er á.

„Okay byrjum bara hvar þessi veira byrjaði hún byrjaði 2019 í kína á svarta makaðnum og þá ég held að það var maður eða kona sen var bitin af snáki og birjaði veruna og fleira og fleira fólk fengu veruna í kína og allt var lokað og byrjaði að breiða út til alls konar landa og líka til íslands þetta var hættulegt fyrir gamalt fólk, krakka og fullorðna með sjúkdóma. Fólk mátti ekki hittast og sá sem fengu veiruna þurftu að vera innilokuð.

Frásagnir barna af því að vera barn á tímum heimsfaraldurs

Embætti umboðsmanns barna hefur þrisvar sent bréf til allra grunnskóla þar sem óskað var eftir frásögnum barna og ungmenna af því hvernig það væri að vera barn á tímum Covid-19 og hvaða áhrif faraldurinn hefði haft á daglegt líf þeirra. Einnig var auglýst eftir frásögnum frá börnum á samfélagsmiðlum. Ekki voru gerðar sérstakar kröfur um form frásagna og voru börn hvött til þess að senda myndir, skriflegar færslur eða myndskeið. Beiðni embættisins um frásagnir hefur líklega ekki náð til allra hópa barna í samfélaginu og þátttaka barna í verkefninu og móttekin svör voru því að einhverju leyti háð áhuga tiltekinna skóla eða kennara. Því er ekki um þversnið að ræða eða úrtaksrannsókn en frásagnir barnanna bregða eftir sem áður upp mikilvægri mynd af hugarheimi og líðan barna á þessum tíma.

Áberandi munur var á svörum barnanna í fyrstu frásögnunum og þeim frásögnum sem safnað var í annað sinn. Í þeim svörum sem safnað var frá byrjun mars til loka skólaársins 2020 var algengt að börnin tækju fram að þeim hafi liðið vel. Það hafi verið minni streita á morgnana og þau hafi náð betri svefni. Umboðsmaður barna óskaði í annað sinn eftir frásögnum barna í nóvember 2020 en þá hafði þriðja bylgja faraldursins haft stórtæk áhrif á samfélagið með umfangsmiklum takmörkunum sem höfðu töluverð áhrif á daglegt líf barna m.a. á skólahald í grunn- og framhaldsskólum sem og allt tómstundastarf barna. Áberandi munur var á svörum barnanna frá þessum tíma og greindu mörg börn frá því að hafa fundið fyrir vanlíðan, streitu, kvíða, þunglyndi og einmanaleika. Töluverður munur var frá því sem fram kom í frásögnum barna sem safnað var vorið 2020. Jafnframt var áberandi að börn finndu fyrir þreytu gagnvart faraldrinum og sóttvarnaaðgerðum.

Á vordögum 2021 sendi umboðsmaður barna öllum grunnskólum bréf í þriðja sinn og óskaði eftir frásögnum barna með áherslu á framtíðarsýn þeirra. Af svörum barnanna að dæma hafði heimsfaraldurinn reynst mörgum þeirra krefjandi tímabil og sum þeirra höfðu upplifað einmanaleika og depurð. Þó mátti greina bjartsýni í svörum þátttakenda gagnvart framtíðinni.

Í þessu covid ástandi, þá var ekki mikið hægt að gera en að vera tillitsöm/samur

Frásagnir frá vori 2020

Af svörum barnanna frá vormánuðum 2020 má merkja að Covid-19 hafði umfangsmikil áhrif á daglegt líf barna. Mörgum fannst lífið vera skrýtið og sumir upplifðu að heimurinn væri öðruvísi. Algengt var að börnin tækju fram að þeim hefði liðið vel á þessum tíma. Það hafi verið minna stress á morgnana og þau hafi náð að sofa lengur. Einnig var algengt að börnin tækju fram að samverustundir fjölskyldunnar hafi verið fleiri sem væri jákvætt og þau hafi orðið nánari foreldrum sínum. Þá tóku nokkur börn fram að þau væru þakklát fyrir að eiga góða fjölskyldu. Það hafi samt verið skrýtið að vera svona mikið heima með foreldrum sínum. Þó almennt hafi komið fram að börnunum liðið vel voru einnig börn sem greindu frá að þeim hafi liðið illa, þau áttu erfitt með allar þessar breytingar á samfélaginu og óttuðust að nákomnir ættingjar myndu smitast. Þau voru einnig meðvituð um að ástandið væri sérstaklega erfitt í ákveðnum löndum og að margir væru að deyja af völdum Covid-19 í heiminum.

Í mörgum frásögnum var fjallað um þær breytingar sem gerðar voru á skólahaldi. Fram kom að skólatími væri mun styttri en vanalega en heimanámið hafi hins vegar aukist til muna. Mörgum börnum leið eins og þau væru í sumarfríi og fannst notalegt að vera í náttfötunum að læra. Skiptar skoðanir voru á fjarkennslu og fannst mörgum erfitt að læra heima á meðan aðrir voru ánægðir með hvernig hefði tekist til og tóku fram að verkefnin hefðu verið fjölbreytt. Sumum fannst þægilegt að vinna heima á meðan aðrir áttu erfitt með það. Nokkur börn tóku fram að þau hafi ekki getað fengið hjálp við heimanámið, m. a. þar sem foreldrar þeirra voru mikið á fundum. Þá hafi einnig verið erfitt að læra heima út af öllum þeim truflunum sem þar væru, bæði vegna láta en einnig hafi verið erfitt að hafa netið, YouTube og tölvuleiki við hendina og að kennarinn gæti ekki fylgst með hvað nemendur væru að gera. Töluvert var rætt um sóttvarnaraðgerðir einkum handþvott og tveggja metra regluna. Börn höfðu skilning á því að sóttvarnaaðgerðir hefðu það markmið að koma í vega fyrir að veiran myndi dreifa sér í samfélaginu og að um tímabundið ástand væri að ræða.

Ég hafði verið að teikna síðan ég var lítil og faðir minn setti flest allar myndirnar mínar up á vegin inni í bílskúrnum sínum alltaf þegar ég labba þarna inn þá minnir það mig á að maður þarf að gera eitthvað aftur og aftur og aftur þángað til að maður er orðin góður í að gera það. Það er eina sem er gott sem kom út úr Covid.

Frásagnir frá vetri 2020

Þriðja bylgja faraldursins hafði stórtæk áhrif og grípa þurfti til umfangsmikilla takmarkana til þess að hefta útbreiðslu veirunnar. Þær takmarkanir höfðu töluverð áhrif á skólahald í grunn- og framhaldsskólum sem og tómstundastarf barna auk þess sem börnum var gert að bera grímur en slík krafa var ekki gerð þegar fyrri bylgjur faraldursins gengu yfir. Í frásögnum barna frá vetrarmánuðum 2020 kom fram að sum barnanna hafi ekki tekið þessu alvarlega í fyrstu þar sem þau hafi staðið í þeirri trú að faraldurinn myndi ekki hafa mikil áhrif á líf þeirra en raunin hafi orðið önnur. Þá voru börn sem greindu frá því að þau hafi fundið fyrir hræðslu þegar veiran greindist hér á landi fyrst og óttast að allt færi á versta veg. Einnig kom fram að börnum hafi fundist það spennandi í fyrstu að þurfa ekki að mæta í skólann en þau hafi ekki áttað sig á því hvað faraldurinn ætti eftir að hafa mikil áhrif á samfélagið. Yfir árið hafi öllum liðið eins þetta væri alveg að verða búið, kannski hafi það verið mikilvægt fyrir andlega heilsu, þar sem það hefði verið þungbært að vita í upphafi að þetta ástand myndi vara út árið. Sum börn óttuðust að þetta ástand tæki aldrei enda. Sóttvarnaaðgerðir höfðu mikil áhrif á veislur og hátíðahöld. Algengt var að fresta þyrfti fermingum til langs tíma og þegar þær voru haldnar voru þær oftar en ekki smærri í sniðum en vanalega. Fram kom að ekki hafi verið eins gaman að eiga afmæli og áður. Þá hafi ekki verið hægt að fara í utanlandsferðir og mörg börn komust ekki í ferðir með fjölskyldum sínum né skipulagðar æfinga- og keppnisferðir og voru mörg börn verulega vonsvikin yfir því.

Töluvert var fjallað um takmarkanir á skólahaldi og fjarnám. Skiptar skoðanir voru um ágæti fjarnáms og hvort vel hefði tekist til við útfærslu þess. Þau börn sem voru ósátt við fjarnámið fannst það illa skipulagt og erfitt að taka ábyrgð á náminu þar sem minna aðhald hafi verið frá kennaranum. Þá hafi foreldrar ekki alltaf þá þekkingu sem þurfi til þess að aðstoða börn við námið og börn hafi þurft að aðstoða systkin sín. Einnig kom fram að það sé ekki alltaf næði á heimilum til þess að sinna námi sérstaklega þegar foreldrar eru líka að vinna heima og fleiri börn eru á heimilinu. Það voru mörg börn sem tóku fram að þeim liði vel í skólanum og jafnvel betur en áður, það væri þægilegt að hafa skóladaginn styttri en vanalega. Það væri auðveldara að læra þar sem færri nemendur væru í skólanum og því meiri vinnufriður.

Það var algengt að börn í 10. bekk tækju fram að þau væru óánægð með að síðasta árið þeirra í grunnskóla væri ekki með hefðbundnum hætti. Snéri óánægja þeirra einkum að tveimur þáttum, annars vegar því að þau hafi farið á mis við allt það skemmtilega sem krakkar í 10. bekk fái almennt að gera og hins vegar höfðu þau áhyggjur af því að þau væru ekki nógu vel undirbúin undir nám í framhaldsskóla þar sem þau hafi misst töluvert úr náminu.

Það var áberandi hversu mörg börn höfðu orð á því að þau söknuðu þess að geta umgengist ömmu og afa. Það er ljóst að sóttvarnaaðgerðir hafa haft mikil áhrif á börn að þessu leyti en þetta var einnig algengt umfjöllunarefni hjá börnum í frásögnum þeirra sem var safnað á vormánuðum 2020.

Fram kom að það væri tilgangslaust að skipta bekkjum upp í hópa þar sem nemendur hittist hvort sem er eftir að skóladegi líkur. Þau börn sem fóru eftir settum reglum nefndu að það hafi haft mikil áhrif á félagslíf þeirra þegar íþróttaæfingar voru felldar niður því þau eigi vini sem þau hitti aðeins á æfingum. Það hafði einnig mikil áhrif á krakka sem búa í dreifbýli þegar skólinn var lokaður þar sem þau hitta vini sína nánast aðeins í skólanum í sumum tilfellum.

Töluvert var rætt um sóttvarnaaðgerðir og mikilvægi þess að fylgja reglum og gera sitt besta því þannig ljúki þessu fyrr. Nokkur tilhlökkun var gagnvart því að bólusetningar myndu hefjast en börn voru einnig efins um það að bólusetningar næðu að vinna bug á veirunni og þau voru hrædd um að veiran kæmi til með að blossa upp aftur eftir nokkur ár eða þá að það komi annar sambærilegur faraldur.

Fram kom að handspritt geri hendurnar þurrar og þá sé leiðinlegt að vera með andlitsgrímur og flókið sé að halda tveggja metra reglunni en það sé gott að allir séu duglegir að þvo sér um hendur. Börn tóku fram að það væri leiðinlegt og óþægilegt að fara í sýnatöku. Þá væri erfitt að vera í sóttkví en einnig kom fram að börn hafi upplifað góðan tíma í sóttkví, þau hafi m.a. spilað, bakað og horft á sjónvarp.

Framtíðarsýn barna vor 2021

Á vordögum 2021 sendi umboðsmaður barna öllum grunnskólum bréf í þriðja sinn og óskaði eftir frásögnum barna með áherslu á framtíðarsýn þeirra eftir lok faraldursins hvað varðar samfélagið, skólastarf, þátttöku í tómstundum og aðstæðum þeirra heima fyrir. Þegar svör bárust frá börnum á vordögum 2021 var bólusetning vegna veirunnar vel á veg komin og slakað hafði verið á samkomu- og fjöldatakmörkunum. Af svörum barnanna að dæma mátti sjá að heimsfaraldurinn hafði reynst mörgum þeirra krefjandi og erfitt tímabil þar sem þau gátu ekki hitt vini sína líkt og áður, mætt í skólann eða gert eitt og annað sem til stóð, eins og að halda fermingarveislu eða ferðast til útlanda. Sumir virtust hafa upplifað einmanaleika og depurð. Greina mátti þó bjartsýni í svörum þátttakenda gagnvart framtíðinni þar sem að með bólusetningum væri útlit fyrir að lífið myndi á ný geta haft sinn vanagang og allt yrði betra.

Mér hefur gengið miklu betur í skólanum á þessum tímum vegna þess að við höfum fengið að ráða hvaða fögum við lærum í og þá finnst ber ég ná að halda betur um allt.

Mun skólinn taka breytingum?

Meirihluti svarenda hafði þá trú að skólastarf myndi ekki taka breytingum í kjölfar Covid-19 faraldursins. Flestir töldu líklegt að skólinn myndi komast í eðlilegt horf og verða líkt og hann var fyrir heimsfaraldurinn. Þó var þetta viðhorf ekki einhliða og svaraði hluti þátttakenda því til að skólinn myndi taka breytingum. Dæmi um breytingar voru að það allir ættu framvegis eftir að gæta sín meira og sprittbrúsar yrðu áfram víða. Fram komu sjónarmið um að þrátt fyrir að skólinn færi í sama horf og fyrir heimsfaraldurinn tæki það tíma að venjast því á ný. Almennt töldu flestir að samskipti yrðu framvegis betri en undanfarna mánuði og yrðu að endingu með svipuðu móti og fyrir faraldurinn. Allt myndi fara í sama farið og fólk gæti farið að hittast á ný, faðmast og heilsast með handabandi. Nokkrir svarenda töldu jafnvel að samskipti myndu aukast vegna þess sem á undan er gengið þar sem margir hefðu beðið með óþreyju eftir því að fá að hitta fleiri. Varðandi breytingar á samskiptum sem svarendur vísuðu í kom t.d. fram að allir myndu gæta sín betur en áður, enn yrðu sprittbrúsar út um allt auk þess sem fólk myndi tala við vini og fjölskyldu í gegnum netið í meira mæli en áður. Líkt og í tilviki skólans tæki ef til vill smá tíma að venjast breyttu ástandi, til dæmis því að mæta í veislur, án þess að þurfa að bera grímu.

Verða tómstundir öðruvísi?

Hugmyndir svarenda varðandi framtíðina og eigin þátttöku í tómstundum voru flestar á þá leið að fyrirkomulagið yrði svipað og það var áður en faraldurinn skall á. Í kjölfar bólusetninga og þess að fólk væri komið með mótefni fyrir veirunni myndu samkomubönn og grímuskylda heyra sögunni til. Að nýju yrði hægt að fara á mót og leiki auk þess sem hægt yrði að æfa í hópum og fara í keppnisferðir erlendis. Nokkrir þátttakendur svöruðu því til að þeir vissu einfaldlega ekki hvort tómstundir myndu taka einhverjum breytingum.

Verður allt eins og það var áður?

Nokkuð jafnt hlutfall var á milli tveggja eftirfarandi sjónarmiða varðandi það hvort allt yrði eins og það var áður en heimsfaraldurinn skall á í byrjun árs 2020. Annars vegar var um að ræða það sjónarmið að allt yrði eins og það var og hins vegar að svo yrði ekki. Flestir svöruðu þessari spurningu annað hvort neitandi eða játandi án þess að gefa frekari skýringar á því hvað myndi mögulega breytast í samfélaginu. Þó kom fram að jafnvel þó að allt yrði eðlilegt aftur þyrfti fólk að venjast því. Fram komu hugmyndir um að veiran myndi ekki endanlega hverfa heldur halda áfram að þróast og því yrði aldrei allt alveg eins og það var áður. Einnig voru börn sem í svörum sínum sögðust halda, að þær jákvæðu breytingar myndu eiga sér stað í kjölfar faraldursins, að fólk myndi framvegis vera þakklátari fyrir það sem það hefði. 

Ég held það verði ekki nákvæmlega eins og var eftir faraldurinn en frekar líkt. Mér fannst þetta fyrst allt í lagi en svo byrjaði það að hafa áhrif á andlegu heilsuna mína.

Tillögur

Tillögur umboðsmanns barna

Hér eru tillögur umboðsmanns barna á barnaþingi 2022. 

  • Viðbragðsáætlanir á sviði almannavarna og öryggismála, verða að fjalla um og taka sérstakt mið af hagsmunum, réttindum og þörfum barna.

  • Allar ákvarðanir sem varða börn eiga að grundvallast áþví sem þeim er fyrir bestu, hvort sem um er að ræða einstakt barn, hóp barna eða öll börn í samfélaginu.

  • Innleiða þarf formlega mat á áhrifum á börn, þannig að fyrir liggi hverju sinni, hvaða áhrif ákvarðanir hafa á börn, hvort unnt sé að fyrirbyggja möguleg neikvæð áhrif, eða hvort þörf sé á mótvægisaðgerðum.

  • Ákvarðanir sem varða börn kalla á þekkingu á aðstæðum, hagsmunum og þörfum þeirra. Virða þarf rétt barna til þátttöku í skipulagningu, framkvæmd og mati á þeim aðgerðum sem grípa á til hverju sinni.

  • Efla þarf upplýsingagjöf til barna og tryggja að hún sé á einföldu og auðskildu máli og aðgengileg á vettvangi sem þau eiga greiðan aðgang að.

  • Veita þarf börnum tækifæri til þess að láta mál sem þau varðar til sín taka með því að veita þeim nauðsynlegar upplýsingar sem eru við hæfi þeirra, með hliðsjón af aldri þeirra og þroska.

  • Stjórnvöld verða að móta og innleiða ferla til að tryggja að þátttaka barna eigi sér stað í öllum tilvikum þar sem við á, með virkum og samræmdum hætti.

  • Efla þarf fræðslu til barna og ungmenna um mikilvægi hreyfingar, svefns og matarræðis fyrir andlega og líkamlega heilsu.

  • Bæta þarf aðgengi barna að heilbrigðisþjónustu með fjölgun stöðugilda og eflingu rafrænna lausna sem henta þörfum barna.

  • Byggja þarf upp þolgott og sveigjanlegt kerfi í geðheilbrigðisþjónustu við börn sem er betur í stakk búið til þess að takast á við aukna ásókn í þjónustu, vegna t.d. heimsfaraldurs eða annarra ófyrirsjáanlegra aðstæðna.

  • Réttur barna til þátttöku felur í sér að við framsetningu efnis og upplýsinga fyrir þau er brýnt að leitað sé liðsinnis barna, til að tryggja að börn fái ávallt vandaðar upplýsingar, settar fram þannig að þau skilji innihald þeirra og þýðingu.

  • Þörf er á setningu leiðbeininga fyrir skóla, til að tryggja að við töku ákvarðana um tilhögun skólastarfs, fari fram mat á því sem börnum er fyrir bestu, og leitað sé með virkum hætti eftir sjónarmiðum og reynslu barna.

  • Grípa þarf til sérstakra ráðstafana til að tryggja rétt fatlaðra barna til þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, sérstaklega rétt þeirra til menntunar og nauðsynlegrar þjónustu.

  • Áður en kennsla er færð yfir á stafrænan vettvang verða skólastjórnendur að ganga úr skugga um að allir nemendur búi við þannig aðstæður að þau geti tekið fullan þátt í fjarkennslu.

  • Við mat á aðgerðum í skólum vegna Covid-19 sem hafa haft áhrif á börn, verður að leita eftir sjónarmiðum barna og taka mið af reynslu þeirra af því hvernig tekist hefur til í því verkefni að mæta einstaklingsbundnum þörfum barna í skólum, fyrir þjónustu og stuðning.

  • Tryggja þarf samræmda skráningu fjarvista nemenda í grunnskólum til að tryggja að fylgst sé með námi, velferð og líðan barna þannig að þau fái notið nauðsynlegs stuðnings.

  • Efla þarf stoðþjónustu skóla í þeim aðstæðum þegar staða barna í viðkvæmum hópum versnar, með áherslu á samvinnu skóla, heilsugæslu og annarra aðila sem vinna með börnum.

  • Skólaheilsugæsla þarf að vera til staðar í framhaldsskólum á sama hátt og í grunnskólum til að tryggja nemendum nauðsynlegt aðgengi að ráðgjöf og þjónustu.

  • Tryggja þarf að starfsfólk skóla fylgist með því hvernig nemendum gengur í námi sínu á tímum fjarnáms og takmarkana og tryggja þarf nemendum sem á þurfa að halda viðeigandi stuðning.

  • Nemendur þurfa að fá tækifæri til hafa áhrif á þær kennsluaðferðir sem verða fyrir valinu. 

  • Leita þarf allra leiða til að gera kennsluna hagnýta og fjölbreytta. 

  • Kennarar þurfa að fá þjálfun í stafrænni kennslu.

  • Brýnt er að fram fari rannsókn á því hvernig aðgengi barna að tómstundastarfi hefur verið háttað á tímum Covid-19 og áhrifum takmarkana á því starfi á andlega og líkamlega heilsu barna. 

  • Leita þarf til barna við framkvæmd slíkrar rannsóknar þannig að þau fái tækifæri til að koma á framfæri eigin reynslu og sjónarmiðum.

  • Einnig þarf að fylgjast með því hvort dregur úr þátttöku barna í íþróttum og öðru tómstundastarfi og bregðast við ef svo reynist vera.

  • Grípa þarf til aðgerða í kjölfar faraldursins, til þess að tryggja að unnt sé að mæta uppsafnaðri þjónustuþörf og þannig fyrirbyggja neikvæð áhrif a börn til lengri tíma. 

  • Efla þarf þjónustu barnaverndar og tryggja að hún standi undir þjónustuþörfinni hverju sinni.

  • Bæta þarf upplýsingagjöf til barna um rétt þeirra til viðunandi uppeldisaðstæðna og aðstoðar og stuðnings barnaverndar.

  • Upplýsingagjöf til foreldra, fagfólks og almennings um eðli ofbeldis gegn börnum og um tilkynningaskyldu til barnaverndar er viðvarandi verkefni sem sinna þarf með fjölbreyttum hætti. 

  • Veita á fjármagni til málefna barna þannig að virðið sé hámarkað og með hliðsjón af skyldu stjórnvalda um að virða, vernda og innleiða réttindi barna á öllum sviðum.

  • Stjórnvöld verða að afla, greina og miðla upplýsingum um þann hluta fjárveitinga úr ríkissjóði sem veitt er til málefna barna. 

  • Þannig er hægt að greina hvort það sem börnum er fyrir bestu er raunverulega í forgrunni við allar efnahagslegar aðgerðir sem snúa að börnum eins og Barnasáttmálinn gerir kröfu um.

  • Frásagnir barna um leiðir þeirra til að takast á við heimsfaraldur og áður óþekktar aðstæður eru mikilvægar samtímaheimildir sem mikilvægt er að nýta í stefnumótun í málefnum barna, enda búa börn yfir einstakri reynslu og þekkingu sem og innsýn í eigin málefni og reynsluheim.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica