14. febrúar 2022

Upplýsingar um bið eftir þjónustu

Umboðsmaður barna hefur nú birt yfirlit yfir þann fjölda barna sem bíða eftir margvíslegri þjónustu í samvinnu við ýmsa aðila. 

Á síðustu misserum hefur umboðsmaður barna ítrekað bent á það óásættanlega úrræðaleysi að börnum í leit að nauðsynlegri þjónustu sé vísað frá og jafnvel á biðlista.

Umboðsmaður barna starfar samkvæmt lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 og hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi barna. Breytingar á þeim lögum voru samþykktar árið 2018 og fela í sér að ný verkefni embættisins voru lögfest. Þar var umboðsmanni barna meðal annars falið að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila.

Hluti af þeirri vinnu er að gera aðgengilegar á einum stað upplýsingar um fjölda barna sem bíða eftir tiltekinni þjónustu hverju sinni. Upplýsingarnar verða síðan uppfærðar á sex mánaða fresti til að fylgjast með þróuninni. Um fyrstu skref verkefnisins er að ræða en til greina kemur að þróa það frekar, svo sem með því að kallað verði eftir upplýsingum frá fleiri aðilum sem þjónusta börn.

Það er von umboðsmanns barna að birting upplýsinganna muni varpa ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvati til aðgerða og úrbóta. Söfnun og birting upplýsinganna er jafnframt liður í því hlutverki umboðsmanns barna að stuðla að því að Barnasáttmálinn sé virtur og innleiddur að fullu. 

Ítarefni:


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica