Verkefni í frímínútum
Má láta börn sitja í frímínútum og klára verkefnið sem þau voru að gera í tímanum?
Takk fyrir þessa góðu spurningu. Það eru til lög um grunnskóla og í þeim lögum kemur fram að það eigi að gæta þess að daglegur tími sé samfelldur með hléum eða frímínútum á milli. Frímínútur eru til þess að nemendur fái hlé frá því að einbeita sér í skólanum og fái tækifæri til að leika sér á milli því leikur er nauðsynlegur fyrir börn. Í Barnasáttmálanum segir til dæmis að öll börn eigi rétt á hvíld og tómstundum og það eru því sjálfsögð réttindi barna að þau fái tækifæri til að leika sér frjálst í skólahléum eða frímínútum. Sumar rannsóknir hafa líka sýnt fram á að frímínútur geta haft jákvæð áhrif á börn og geta stuðlað að því að börn eru virkari eftir að skóladegi lýkur.
Kennarar eiga að taka tillit til nemenda og leyfa þeim að fá sinn hvíldar- og leiktíma í sínum frímínútum. Ef einhver verkefni eru ókláruð þá er auðvitað í lagi að bjóða nemendum að klára þau í frímínútum ef þau vilja það sjálf. Það er hins vegar ekki gott að neyða nemendur til að klára þau verkefni á þeirra hvíldartíma en ókláruð verkefni geta þá í staðinn bæst við heimanámið. Einhverjir skólar bjóða líka upp á að nemendur geri þau verkefni sem eru ókláruð í lok skóladags og það er í lagi.
Þannig að svarið er nei, það má ekki neyða börn til að gera ókláruð verkefni í frímínútum en það er í lagi að bjóða þeim að klára þau á þeim tíma.
Góðar kveðjur frá umboðsmanni barna