Sundtímar
Síðan hvenær er skylda að mæta í sundtíma?
Síðan hvenær er skylda að [mæta í] sundtíma? Hvaða ríkisstjórn/stjórnmálamaður kom sundkennslu inn í skólanámið? Hvar get ég séð reglur, lög um sundnám?
Hæ og takk fyrir spurninguna sem er mjög áhugaverð.
Það eru lög í landinu sem bera heitið Íþróttalög og voru fyrst sett árið 1940 þar var mælt fyrir um að öll börn á landinu skuli læra sund nema þau væru talin ófær til þess að mati læknis og er það á þann veg enn þann dag í dag sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 64/1998. Var það gert vegna mikilvægi þess að geta bjargað sér á sundi ef nauðsyn bæri til.
Í aðalnámskrá grunnskóla er fjallað um heilbrigði og velferð sem einn af grunnþáttum í skólastarfi og þar kemur sundkennslan fyrir sbr. kafli 23. Sundfærnin á að styrkja sjálfsmynd og auka sjálfsöryggi einstaklingsins o.s.f.r.v. Sundið telst líka vera öryggisþáttur, því að teljast syndur er lykilatriði fyrir alla íbúa eylands þar sem fiskveiðar í sjó, ám eða vötnum eru mikið stundaðar og var Ísland meðal fyrstu þjóða í heiminum sem tóku upp sundskyldu í skólum. Grunnskólar hafa þó svigrúm innan aðalnámskrár til að útfæra kennsluna í samræmi við hæfniviðmið aðalnámskrár grunnskóla í einstökum námssviðum og grunnþáttum menntunar, þetta á m.a. við um skólasund.
Íþróttir- líkams- og heilsurækt greinist í tvo hluta, annars vegar skólaíþróttir og hin vegar skólasund. Samkvæmt gildandi stundaskrá er skylt að veita hverjum nemanda að lágmarki þrjár kennslustundir í íþróttum í hverri viku skólaársins. Það er síðan val stjórnenda skólanna hvort þeir nýti sér þann möguleika að bæta við kennslustundum í íþróttum. Hlutverk íþróttakennslu í skólum er að stuðla að því að grunnskóli nái þeim markmiðum sem sett eru fram og vísa til líkams- og heilsuræktar sem er að finna í gildandi lögum um grunnskóla.
Varðandi hvaða ríkisstjórn/stjórnmálamaður hafi komið sundkennslunni inn í skólanámið þá á sundkennslan sér afar langar rætur að rekja en ef litið er aftur til áranna 1939-1940 þá var Hermann Jónassson, foræstisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra en hann var í Framsóknarflokknum.
Með góðri kveðju frá umboðsmanni barna