Skólinn og sími
Má skóli taka símann, geyma hann inn á skrifstofu og neita að afhenda símann í lok dags?
Spurningin í heild sinni:
Hæhæ ég er 15 ára stelpa í grunnskóla, það er símabann í skólanum. Reglurnar eru að ef það er sími annaðhvort í vasa eða hönd þá má kennarinn taka síman og geyma hann inn á skrifstofu þangað til enda dags. En í dag þá var ég í símanum og það var tekið síman og í lok dags þá spurði ég um síman til baka og konan sem vinnur á skrifstofunni sagði að ef það er tekið síman af manni eitthvað mörgum sinnum þá er hringt i foreldra að koma að sækja hann og ég sagði að þau myndu örugglega ekki koma út af því að þau eru augljóslega að vinna og þá segir konan að þá er síminn geymdur upp í skóla.
Ég gæti haft rangt fyrir mér en ég held að þau mega ekki hafa síman þegar ég er ekki á ábyrgð þeirra, varðandi það líka þá er ég viss um að ef ég ætla heim í pásu þá þurfa þau að gefa mér símann til baka er það ekki? Ég skil símabann en stundum fer það yfir strikið og ég vil vita mín réttindi svo ég fer ekki að segja eitthvað rangt við kennarana
Kv,
Svar umboðsmanns barna:
Hæ og takk fyrir að hafa samband við umboðsmann barna.
Ef skólinn hefur tekið af þér símann þinn vegna brota á símareglum er eðlilegt að honum sé skilað til þín við lok skóladags. Að mati umboðsmanns barna hefur skólinn ekki heimild til að halda síma nemanda eftir að skólatíma lýkur og fram á næsta dag, enda er nemandinn þá ekki lengur á ábyrgð skólans.
Það getur verið mismunandi milli skóla hvernig símareglurnar eru og mikilvægt er að nemendur viti nákvæmlega hvaða reglur gilda, sem og hvaða afleiðingar brot á þeim hafa. Æskilegt er einnig að nemendur fái tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri þegar reglurnar eru búnar til.
Í þessu tilviki gæti verið gott að eiga samtal við kennara eða skólastjórnanda um málið, jafnvel ásamt foreldrum þínum, til að fara yfir reglurnar, fá skýringar á framkvæmd þeirra og ræða hvort hugsanlega hafi orðið misskilningur. Þá getur þú einnig fengið að koma þínum sjónarmiðum á framfæri um reglurnar. Vonandi er hægt að finna sanngjarna lausn á málinu og koma í veg fyrir frekari misskilning síðar meir.
Gangi þér vel og bestu kveðjur frá umboðsmanni barna.