Skóli og strava
Má skólinn neyða mig til þess að hlaða niður Strava appinu í símann minn til að taka upp hreyfingu og senda inn upplýsingar í staðinn fyrir að mæta í íþróttir?
Hæ hæ
Það er jákvætt að skólinn er að reyna að leita leiða til þess að koma til móts við nemendur með fjölbreyttari hætti en hefðbundinni íþróttakennslu. Það þarf hins að ganga úr skugga um að það sé gert þannig að það samræmist persónuvernd barna.
Ef það á að nýta app eins og STRAVA í kennslu eða í tengslum við skólann þá þarf að passa vel hvernig unnið er með upplýsingarnar sem appið safnar þannig að persónuvernd barna sé tryggð. Það þarf að bera undir skólastjóra hvort það sé í lagi að nota appið í kennslu og oftast þarf að framkvæma mat á áhrifum á persónuvernd eða fá ráðgjöf hjá persónuverndarfulltrúa hvort að upplýsingarnar sem appið fær um nemendur samræmist persónuvernd barna og persónuverndarlögum.
Kennarar eða íþróttaþjálfarar ættu því ekki að nýta sér app fyrir nemendur án þess að vera vissir um að það sé öruggt og heimildir séu til staðar til að vinna persónuupplýsingar barna í þeim. Foreldrar og börn, eiga líka rétt á fræðslu um þá vinnslu persónuupplýsinga barna sem fer fram með notkun appsins.
Það er í raun ekki hægt að neyða nemendur til að nota öpp sem krefjast þess að nemendur samþykki að deila persónuupplýsingum með forritinu eða skólanum en skiljanlegt er að skólinn þurfi að útfæra leið til að sannreyna að nemendur séu að stunda hreyfingu með einhverjum hætti. Það verður þó að útfæra það með réttum hætti þannig að persónuvernd barna sé tryggð.
Hér má til upplýsinga sjá svör við ýmsum spurningum sem tengjast persónuvernd og börnum á heimasíðu Persónuverndar.
Einnig eru ýmsar upplýsingar hér um netið, samfélagsmiðla, smáforrit og fleira sem umboðsmaður barna, Persónuvernd og Fjölmiðlanefnd gáfu út saman, en þar er fjallað um persónuvernd barna í skóla og frístundastarfi.
Góðar kveðjur frá umboðsmanni barna