Má tannlæknir segja frá "vape"
Mega tannlæknar segja frá ef barn eða unglingur er að nota vape (rafrettu)?
Hæ og takk fyrir póstinn.
Stutta svarið er já, tannlæknir má segja foreldrum frá því að barn eða unglingur sé að nota rafrettur eða vape eins og það er oft kallað.
Í lögum um réttindi sjúklinga segir að foreldrar og forsjáraðilar eigi rétt á upplýsingum um m.a. heilsufar barna sem eru yngri en 16 ára. Börn eiga hins vegar rétt á því að tala við heilbrigðisstarfsmenn í trúnaði og þegar barn óskar eftir trúnaði um einkamál sín ber að virða það eins og kostur er. Börn eiga þannig að geta leitað sér ráðgjafar um ýmis málefni, eins og til dæmis heilsufar og fengið upplýsingar frá heilbrigðisstarfsmanni eins og tannlækni án þess að hann segi foreldrum eða forsjáraðilum frá því. Ef heilbrigðisstarfsmaður fær hins vegar upplýsingar um að barn sé að gera hluti sem gætu skaðað það þá verður hann að láta foreldra vita til þess að foreldrar geti aðstoðað barnið.
Foreldrar eiga að vernda börn sín og leiðbeina þeim ef þau eru t.d. að sýna áhættuhegðun eða eiga erfitt með að sýna ábyrgð. Þegar einhver sem er 15 ára er t.d. að nota rafrettur þá eru það aðstæður sem foreldrar eiga að skipta sér af. Börn og unglingar sem eru undir 18 ára aldri mega ekki nota nikotínvörur og ekki rafrettur eða vape. Í lögum nr. 87/2018 kemur fram að það má ekki selja eða afhenda þeim sem eru undir 18 ára aldri rafrettur og ekki heldur áfyllingu fyrir þær.“
Og svo í lokin þá viljum við benda á að góð tannheilsa er nauðsynleg og því mikilvægt að fara reglulega til tannlæknis.
Með góðri kveðju frá umboðsmanni barna