Leit á börnum í skóla
Mega kennarar fara í gegnum úlpuna þína án leyfis?
"Mega kennarar fara í gegnum úpluna þína án leyfis því þau halda að þau halda að ég sé með nicotine vörur á mér?"
Hæ,
Í stuttu máli þá er svarið nei. Börn njóta friðhelgi einkalífs eins og fullorðnir og það þýðir að það má yfirleitt ekki leita á börnum, í töskum eða úlpum þeirra, án samþykkis. Það er bara lögregla sem hefur heimild til þess að leita á fólki að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og þá bara ef það er grunur um að það hafi framið afbrot, t.d. stolið einhverju. Þar sem foreldrar fara með forsjá yfir börnum sínum geta þeir líka stundum haft heimildir til þess að leita í dóti barna sinna, en þá bara ef þeir hafa góða ástæðu til að halda að það sé nauðsynlegt til þess að vernda þau.
Starfsfólk skóla hafa ekki heimildir til þess að leita á börnum eða í töskum þeirra, án samþykkis. Eina undantekning á þessu er ef það er sterkur grunur á því að barn sé að stefna sjálfu sér eða öðrum í hættu. Nemendur verða þó að sjálfsögðu að fylgja skólareglum. Ef það kemur í ljós að barn er með eitthvað með sér sem er bannað, til dæmis vape, nikótínpúða o.fl. getur starfsfólk brugðist við því í samræmi við þær reglur sem gilda. Hér er hægt að lesa svar við svipaðri spurningu.
Gangi þér vel.
Góða kveðjur frá umboðsmanni barna