Hámarks koffín fyrir börn
Hvar get ég séð lög um orkudrykki og magn af koffíni í drykkjum. Hvað er hámarks mg. af koffini fyrir yngri en 18 ára.
Hæ og takk fyrir spurninguna.
Orkudrykkir flokkast sem almenn matvæli undir reglugerð nr. 327/2010. Á Íslandi gilda þær reglur fyrir orkudrykki sem innihalda 150 mg/l af koffíni eða meira að það þarf að merkja vörurnar með sérstökum varúðarmerkingum.
Hámarksmagn koffíns í orkudrykkjum er 320 mg/l eða 32mg/100ml og nær til heildarmagns koffíns í vörum. Það er bannað að framleiða, markaðssetja eða flytja inn orkudrykki þar sem heildarmagnið er meira en 320 mg/l eða 32 mg/100ml nema með sérstöku leyfi frá matvælastofnun.
Sterka orkudrykki má eingöngu selja til fullorðinna og er bannað að selja þessar vörur einstaklingum undir 18 ára aldri. Landlæknir ráðleggur að orkudrykkir séu ekki gefnir börnum.
Dagleg neysla barna og unglinga á koffíni ætti ekki að vera meiri en 2,5 mg/kg líkamsþyngdar. Þetta samsvarar 60 mg af koffíni hjá t.d. 7 ára barni sem vegur 24 kg. Ath að t.d. í hálfum lítra af kóladrykki eru 65 mg af koffíni. Það fer því eftir líkamsþyngd hvers og eins hvaða neysla hentar hverjum og einum.
Koffín sem er í orkudrykkjum er ávananbindandi efni sem veldur m.a. útvíkkun æða, örari hjartslætti og auknu blóðflæði til allra líffæra. Börn og ungmenni eru almennt viðkvæmari fyrir koffíni en fullorðnir og neysla koffíns því sérstaklega óæskileg fyrir þann hóp.
Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að koffín getur haft mjög neikvæð áhrif á svefn barna. Mikil neysla á orkudrykkjum getur því haft neikvæð áhrif á svefn, heilsu og líðan. Besta ráðið við þreytu er hvíld og góður svefn, frekar en orkudrykkur.
Gangi þér vel.
Góðar kveðjur frá umoðsmanni barna