Foreldrar og símanotkun
Mega foreldrar mínir taka símann af mér?
Spurningin í heild sinni:
Má pabbi minn og stjúp mamma mín fara í gegnum símann minn þegar ég er a 15 ára aldri og mega þau geyma símann minn a meðan ég fer að sofa?
Svar umboðsmanns barna:
Hæ, takk fyrir að hafa samband við umboðsmann barna. Þú átt almennt að ráða sjálfur yfir eigum þínum, en þó er það einnig hlutverk foreldra að setja reglur á heimilum og þeim ber líka að grípa inn í skaðlega hegðun barna sinna. Ef foreldrar þínir telja að eina leiðin til að tryggja velferð þína sé að taka símann af þér tímabundið þá mega þeir það, t.d. ef símanotkun hefur skaðleg áhrif á svefn. Foreldrar ættu almennt ekki að skoða síma barna sinna. Í einhverjum tilvikum getur það þó verið nauðsynlegt til þess að foreldrar geti verndað börnin sín.
Það gæti verið gott að ræða þessi mál við foreldra þína. Kannski getið þið saman sett reglur um þessi mál sem þið eruð öll sátt við.
Bestu kveðjur og gangi þér vel frá umboðsmanni barna