Feimin en langar að kynnast stelpu
stelpa
11
Ég er 11 ára stelpa og á fáa vini og er rosalega feimin. Mér langar rosalega til að kynnast einni stelpu sem er 1 ári yngri en ég. Ég hef aldrei talað við hana en veit að hún sé skemmtileg....
Hvernig á ég að byrja að tala við hana?????
Komdu sæl.
Takk kærlega fyrir póstinn. Það er mjög gott hjá þér að leita þér aðstoðar. Þú segir í póstinum að þú eigir fáa vini og sért feimin. Þú segir einnig frá því að þið langi til að kynnast einni stelpu en vitir ekki hvernig þú átt að byrja á því að kynnast henni.
Ein besta leiðin til að kynnast fólki er að byrja að tala við það. Þú gætir byrjað á því að ræða um eitthvað áhugamál sem þú veist að þið eigið sameiginlegt eða eitthvað sem stendur ykkur báðum nærri, t.d. í skólanum. Þú gætir líka talað um eitthvað sem hefur til dæmis verið í sjónvarpinu, tónlist, eða annað sem þér dettur í hug. Eitt sem virkar yfirleitt vel á fólk er hrós og svo finnst flestum gaman þegar aðrir sýna áhugamálum manns áhuga. Þú gætir því kannski spurt hana hvað hún geri í frístundum sínum.
Þú skalt líka hafa í huga að það eru til ýmsar leiðir til að eignast nýja vini og vinkonur. Þá skiptir miklu máli að reyna að vera jákvæð, jafnvel þó að þetta gangi ekki upp eins og þú ætlaðir í upphafi. Oft er auðveldara að kynnast fólki á öðrum vettvangi en í skólanum. Athugaðu hvað er í gangi í þínu bæjarfélagi eða hverfi. Námsráðgjafinn í skólanum þínum getur örugglega hjálpað þér með að finna leiðir sem henta þér.
Það er mjög eðlilegt að vera feimin og margir sem upplifa feimni og eiga erfitt með að kynnast fólki vegna þess. Það er hægt að gera ýmislegt til að yfirstíga feimni. Þú getur byrjað á því að æfa þig dálítið í að eiga samskipti við aðra, t.d. í fjölskylduveislum gætir þú prófað að tala við einhvern ættingja um eitthvað sem þér finnst áhugavert, áhugamál eða eitthvað þvíumlíkt. Sumir sem hafa verið feimnir ögra sér stundum og láta sig hafa það að gera það sem þeir myndu í raun heldur vilja sleppa við, eins og t.d. að flytja ræður við ýmisleg tækifæri. Þannig ná þeir smátt og smátt að öðlast sjálfstraust og á endanum finnst þeim ekkert mál að tala upphátt opinberlega. Aðalmálið er hins vegar að þú vinnir dálítið í því að efla sjálfstraustið, helst á hverjum degi, og segir við sjálfa þig að þú getir þetta alveg, þú ert klár stelpa.
Umboðsmaður mælir með því að þú ræðir við foreldra þína um það sem þú hefur áhyggjur af en yfirleitt gera foreldrar alltaf sitt besta til að hjálpa börnum sínum þegar eitthvað bjátar á. Þess vegna skaltu endilega treysta þeim til að styðja þig eins og hentar þér best. Þú getur einnig leitað til ýmissa annarra aðila eins og t.d. umsjónarkennara, námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðings eða einhvers annars fullorðinn sem þú treystir.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna