Family link í símanum
Mega foreldrar nota family link sem lokar símanum?
Spurning til umboðsmanns barna:
Ég er 14 ára. mamma notar family link og lokar símanum mínum á kvöldin rosa snemma klukkan sjö. má hún það bara?
Svar umboðsmanns barna:
Hæ, takk fyrir að hafa samband við umboðsmann barna. Þetta er mjög góð spurning hjá þér.
Stutta svarið er að mamma þín má nota Family Link til að loka símanum þínum eftir kl. sjö á kvöldin. Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna og mega setja reglur sem þeir telja vera barninu fyrir bestu.
Margir foreldrar nota Family Link til að passa að börn sjái ekki efni á netinu sem er ekki ætlað þeim og einnig til að setja mörk um skjátíma. Foreldrar eiga að gæta að öryggi barna sinna og að þau fái nægan svefn og hafi tíma til að lesa, leika sér og gera aðra hluti en að vera í símanum. Til dæmis getur það haft neikvæð áhrif á svefn að vera lengi í símanum á kvöldin og það gæti verið ein ástæðan fyrir því að mamma þín hefur sett þessar reglur.
Þú átt rétt á því að segja þína skoðun og foreldrar þínir eiga að hlusta á þig og taka tillit til skoðana þinna. Það þýðir samt ekki að reglurnar verði alveg eins og þú vilt, en oft er hægt að ræða málin og reyna að komast að samkomulagi.
Það er líka mikilvægt að börn viti af hverju foreldrar setja reglur. Ef þú skilur ástæðuna fyrir reglunum getur verið auðveldara að sætta sig við þær. Það gæti hjálpað að tala við mömmu þína í rólegheitum, útskýra hvernig þér líður og af hverju þú ert ósátt við reglurnar eins og þær eru núna. Kannski getið þið fundið milliveg, til dæmis að þú fáir lengri tíma um helgar eða þegar þú ert búin/búinn að sinna heimanámi og öðrum skyldum.