Ég gjörsamlega hata lífið
stelpa
13
Ég.. gjörsamlega hata lífið.. ég á bara eitt sem ég elska og það er vinur minn.. Ég get ekki sagt vini mínum hvað er að.. mér líður þokkalega illa útaf esus!! :S
Komdu sæl
Það er greinilegt að þú þarft á hjálp að halda og það strax. Þú verður að fá aðstoð við að hugsa fram á veginn og sjá björtu hliðarnar á tilverunni, því þó þér líði hræðilega illa í dag og finnist allt vonlaust, þá verður lífið ekki alltaf svona.
Það sem þú þarft að byrja á að gera er að segja einhverjum frá því hvernig þér líður. Best er að tala við einhvern sem þú treystir vel eins og t.d. foreldra þína, eldri systkin, ömmu eða afa.
Ef þér finnst enginn í kring um þig vilja eða hafa tíma til að hlusta á þig, vill ég benda þér á nokkra aðila sem þú getur leitað til. Í fyrsta lagi getur þú setist niður og spjallað við námsráðgjafann í skólanum þínum en hann/hún á að aðstoða ungt fólk að takast á við persónulega erfiðleika, jafnt sem námstengda erfiðleika. Einnig átt þú að geta rætt við umsjónarkennarann þinn og hjúkrunarfræðinginn í skólanum eða starfsmann barnaverndar (oftast á skrifstofu félagsþjónustunnar) í sveitarfélaginu þínu. Þú átt að geta rætt við þessa aðila í trúnaði, a.m.k. til að byrja með, en ef þeir taka ákvarðanir um að þörf sé úrræða, þá munu þeir væntanlega kalla foreldra þína til og ræða við þá um framhaldið.
Svo má nefna presta, en mörgum finnst mjög gott að fara til prestsins síns og ræða við þá um erfiðleika sína. Jafnvel þótt þú þekkir sóknarprestinn þinn ekki neitt, þá átt þú samt að geta komið til hans eða hennar með vandamál þín og hugleiðingar. Rauði krossinn er með hjálparsímann 1717 sem er ókeypis og opinn allan sólarhringinn. Þú getur alltaf hringt þangað þegar þér líður illa og rætt við starfsfólk hjálparsímans í trúnaði.
Hafðu endilega samband aftur. Ef þú segja okkur meira frá aðstæðum þínum og fá persónulegt svar (í trúnaði) þá er best að senda tölvupóst á ub@barn.is.
Gangi þér vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna