Brjóstastærð og vöxtur
Stúlka
13
Umboðsmaður barna fékk eftirfarandi erindi í gegnum þessa síðu. Ekkert netfang fylgdi og því er svarið við þessu erindi birt hér.
Hæ, ég er búin að vera lesa hér inná þessari síðu um brjóst. Það eru margar stelpur sem eru jafn gamlar og ég sem hafa áhyggjur eins og ég og ég er miklu rólegri núna því ég hélt að ég væri ein sem hefði áhyggjur en ég er 13 ára. Ég fann fyrir kúlum í júní eða maí og fann fyrir miklum meiðslum þegar ég kom við geirvörturnar en núna í júlí næstum við ágúst er allt farið engar kúlur hvað á ég að gera?
Hæ.
Það er gott að það hjálpaði þér að lesa svörin á heimasíðunni okkar en það eru margar stelpur sem senda okkur póst og eru að hafa áhyggjur af því sama og þú.
Það er mjög misjafnt hvenær brjóst byrja að stækka og hvenær þau hætta að stækka. Þau gera verið allt að 5 ár að þroskast þannig að það getur margt gerst á næstu árum eða jafnvel mánuðum. Svo er líka mjög mismunandi hvenær stelpur verða kynþroska, sumar verða snemma kynþroska en aðrar seinna og það er alveg eðlilegt. Þú getur lesið meira um kynþroska stúlkna hér á vefsíðunni Heilsuvera.
Þú spyrð hvað hægt sé að gera og til að svara því þá er mikilvægast að vera heilbrigður og reyna að vera sátt við líkamann eins og hann er. Það er ekkert hægt að gera til að flýta fyrir þessu ferli.
Við viljum einnig benda þér á nokkrar síður sem gæti verið gagnlegt fyrir þig að kíkja á.
- Á vefsíðunni Heilsuvera er heilmikill fróðleikur um heilsu með sérkafla um kynheilbrigði og þar undir er kafli um kynþroska þar sem má lesa ýmislegt um kynþroska hjá stelpum. Neðst á síðunni er netspjall þar sem hægt er að fá samband við hjúkrunarfræðing.
- Á vefsíðu Áttavitans er bæði hægt að senda inn fyrirspurnir um allt sem helst brennir á ungu fólki og lesa svör við spurningum sem þar hafa borist.
- Svo er hér hægt að sjá fræðslumyndina „Alls kyns um kynþroskann“ sem er aðgengileg á vefsíðu Menntamálastofnunar.
Vonandi svarar þetta þér einhverju en ef þú hefur miklar áhyggjur þá gæti verið gagnlegt fyrir þig að ræða um það við einhvern fullorðinn sem þú treystir. Það gætu t.d. verið foreldrar þínir, hjúkrunarfræðingur í skólanum eða heilsugæslunni eða aðrir fullorðnir sem þú treystir vel.
Gangi þér vel.