Um embætti umboðsmanns barna

Embætti umboðsmanns barna vinnur að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Embættið setur fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins.

Embætti umboðsmanns barna var stofnað 1. janúar 1995. Umboðsmaður barna er í störfun sínum óháður fyrirmælum frá öðrum en forsætisráðuneytið hefur eftirlit með fjárreiðum embættisins og umboðsmaður skilar forsætisráðherra skýrslu árlega um starfsemina. Nánar má lesa um hlutverk umboðsmanns barna í lögum um embættið, nr. 83/1994.

Umboðsmaður barna er opinber talsmaður barna og vinnur að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Öllum er heimilt að leita til umboðsmanns barna og fyrirspurnir frá börnum njóta ávallt forgangs.

Umboðsmaður barna tekur ekki til meðferðar ágreining milli einstaklinga, t.d. milli barna og foreldra eða milli forsjáraðila barna og stofnana. Umboðsmaður barna endurskoðar ekki ákvarðanir stjórnvalda í einstökum málum og er ekki heimilt að hafa afskipti af málefnum einstakra barna sem eru til meðferðar hjá öðrum stjórnvöldum og stofnunum.

Verkefni embættis umboðsmanns barna felast meðal annars í að:

  • Hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna
  • Fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans, veita börnum og fullorðnum fræðslu um sáttmálann og stuðla að því að hann og aðrir alþjóðasamningar sem varða réttindi og velferð barna séu virtir
  • Setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins
  • Afla og miðla gögnum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna
  • Stuðla að þátttöku barna í samfélagslegri umræðu og stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum barna hjá ríki og sveitarfélögum
  • Stuðla að því að kynna fyrir almenningi löggjöf og aðrar réttarreglur sem varða börn og beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á þessu 

Annað hvert ár skal umboðsmaður barna boða til þings um málefni barna, barnaþing , og skulu niðurstöður þess og ályktanir kynntar ríkisstjórn. Á barnaþinginu skal fjalla um málefni barna með þátttöku fjölbreytts hóps barna, alþingismanna, fulltrúum stofnana ríkis og sveitarfélaga, auk fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna. Fyrsta barnaþingið var haldið í nóvember 2019.  

Græn skref

Embættið er þátttakandi í Grænum skrefum.

02grskrefLEAF

Stefnur og áætlanir

Upplýsingastefna embættisins Jafnréttisáætlun 2021 - 2023 Umhverfis- og loftlagsstefna embættisins



Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica