Jafnréttisáætlun 2021 -2023

Jafnréttisáætlun embættis umboðsmanns barna er unnin af jafnréttisfulltrúa embættisins í samstarfi við umboðsmann barna. Áætlunin verður endurskoðuð reglulega og á a.m.k. þriggja ára fresti. 

Jafnréttisáætlun þessi tekur til embættis umboðsmanns barna, sbr. II. kafla, Réttindi og skyldur, í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (jafnréttislaga), nr. 150/2020, og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki embættisins þau réttindi sem kveðið er á um í jafnréttislögum.

Leiðarljós

Embætti umboðsmanns barna skal vera eftirsóknarverður vinnustaður þar sem jafnrétti og jafnræði kynjanna er virt í hvívetna. Allt starfsfólk skal eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína í starfi og á ekki að sæta mismun. Í anda mannauðsstefnu embættisins skal starfsfólk umboðsmanns barna sýna hvert öðru virðingu.

I. Launajafnrétti,

Við ákvörðun launa er þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Öllum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og hvers konar frekari þóknana, beinna og óbeinna, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti. Einnig skulu allir njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár, sbr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Að karlar og konur njóti sömu kjara fyrir sambærileg og jafn­verðmæt störf.

Mikilvægt er að við­mið um ákvörðun launa séu gegnsæ.

Árleg greining launa- og kjarajafnréttis ásamt tölfræðilegri samantekt.

Umboðsmaður barna Lokið í febrúar ár hvert.

II. Laus störf og framgangur í starfi, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun

Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns. Jafnréttissjónarmið verði metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem litið er til við stöðuveitingar. Stefnt er að því að halda sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í störfum innan ráðuneytanna. Sérstök áhersla er lögð á að jafna stöðu kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Laus störf skulu standa öllum opin. Þegar ráðið er í störf skal unnið að því að jafna hlut kynjanna eins og kostur er. Ábyrgðaraðili ráðninga Alltaf
Starfshópar og nefndir skulu vera aðgengilegar öllum kynjum. Greina árlega samsetningu á starfshópum og nefndum með hlutfall kynja í huga. Ef um ójafna samsetningu er að ræða, skal bæta úr því, að því gefnu að einstaklingar mæti hæfniskröfum. Umboðsmaður barna Endurskoðað við skipan eða tilnefningu í nýja nefnd eða starfshóp.
Árlega skal kanna viðhorf starfsfólks til þess hvernig framgangi þess í starfi sé háttað. Komi í ljós að starfsfólki finnist halla á konur eða karla eða ef kynin hafa ólík viðhorf til stöðunnar ber að gera frekari greiningar og grípa til ráðstafana ef þörf krefur. Umboðsmaður barna Lokið í desember ár hvert
Jafn aðgangur að endurmenntun Árlega skal kanna hvort starfsfólk hafi fengið hvatningu og tækifæri til að sækja sér sí- og endurmenntun. Komi í ljós að starfsfólki finnist halla á konur eða karla eða ef kynin hafa ólík viðhorf til stöðunnar ber að gera frekari greiningar og grípa til ráðstafana. Umboðsmaður barna Lokið í desember ár hvert

III. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu óháð kyni. Tilhögun vinnutíma og sveigjanleiki í starfi skal gagnast starfsfólki til að njóta frítíma síns. Óheimilt er að láta fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir um framgang í starfi, endurmenntun, uppsögn, vinnuaðstæður og fleiri slíka þætti. Þá skal leitast við að halda yfirvinnu starfsfólks innan eðlilegra marka.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Öll kyn eru hvött til þess að samræma einkalíf, fjölskyldu­líf og starf. Starfsfólki skal kynnt viðverustefna embættisins auk þeirra úrræða sem í boði eru til að auðvelda samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, s.s. jafnan rétt til fæðingarorlofs, fjarveru vegna veikinda barna, sveigjanlegan vinnutíma, fjarvinnu og aðrar einstaklingsbundnar lausnir. Umboðsmaður barna í samstarfi við jafnréttisfulltrúa Lokið í desember ár hvert
Árlega skal kanna viðhorf og reynslu starfsfólks af samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Komi í ljós að fyrirkomulag betri vinnutíma hafi ekki náð markmiðum sínum eða að reynsla kynjanna sé ólík skal gera frekari greiningar og grípa til ráðstafana. Umboðsmaður barna Lokið í desember ár hvert

IV. Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni

Allt starfsfólk á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það sæti ekki áreitni eða ofbeldi af kynbundnum eða kynferðislegum toga.

Unnið skal markvisst að því að skapa menningu innan embættisins sem einkennist af virðingu í samræmi við mannauðsstefnu umboðsmanns barna. Það skal gert með því að innleiða áætlun um meðferð mála sem byggja á lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, og kynna þær starfsfólki.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðis­leg áreitni er ekki liðin. Unnið samkvæmt vinnureglum þegar slíkt kemur upp Umboðsmaður barna, jafnréttisfulltrúi Þegar tilvik koma upp.
Einelti og fordómar ekki liðnir. Unnið samkvæmt vinnureglum þegar slíkt kemur upp Umboðsmaður barna, jafnréttisfulltrúi Þegar tilvik koma upp.

Gildistími og endurskoðun

Jafnréttisáætlun þessi gildir í þrjú ár frá samþykki. Jafnréttisfulltrúi skal hafa forgöngu um endurskoðun jafnréttisáætlunar embættisins á a.m.k. þriggja ára fresti.

Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica