Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Um embættið

Teiknuð mynd, fugl með tösku

Hlutverk

Hlutverk umboðsmanns barna er skilgreint í lögum um embættið nr. 83/1994. Meginhlutverk umboðsmanns barna er að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Með börnum er átt við einstaklinga undir 18 ára aldri. 

Umboðsmanni barna er ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum barna almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem og hjá einkaaðilum. Honum ber að vinna að því að tekið sé tillit til hagsmuna barna við lagasetningu, ákvarðanatöku og skipulagningu í þjóðfélaginu.

Öllum er heimilt að leita til embættisins með erindi sín og umboðsmaður barna á að leiðbeina þeim er til embættisins leita um leiðir sem færar eru innan stjórnsýslu og hjá dómstólum. Frá upphafi hefur verið kappkostað við að veita börnum greiðan aðgang að embættinu.

Nánar um hlutverk umboðsmanns barna hér.

Helstu verkefni

Með hliðsjón af hlutverki umboðsmanns barna má segja að helstu verkefni hans séu:

  • Leiðbeiningar, ráðgjöf og aðstoð við þá sem leita til embættisins, t.d. um það hver er réttur barns og hvernig er hægt að ná honum fram í viðkomandi máli.
  • Kynning og fræðsla um réttindi barna fyrir börn og fullorðna, t.d. með því að heimsækja skóla og frístundaheimili.
  • Samskipti við börn um það sem þeim þykir mikilvægt, t.d. í heimsóknum eða á fundum ráðgjafarhóps umboðsmanns.
  • Samskipti við fagfólk og félagasamtök sem vinna að málefnum barna á ýmsum sviðum.
  • Samskipti við stjórnvöld, t.d. tillögur, álit, ábendingar og beiðni um upplýsingar til ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga.
  • Samskipti við Alþingi, t.d. umsagnir um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur og fundir með nefndum Alþingis.
  • Samskipti við fjölmiðla um málefni barna á almennum grundvelli.

Nánar um verkefni umboðsmanns barna hér.