Réttindi barna sem til álita koma

Það skiptir meginmáli að fyrir liggi upplýsingar um það hvaða réttindi barna koma til álita við meðferð tiltekins máls. Barnasáttmálinn er vegvísir á þeirri vegferð en ávallt ber að líta til meginreglna sáttmálans við matið á því sem börnum er fyrir bestu. 

Meginreglur Barnasáttmálans

2. grein. Jafnræði — bann við mismunun

  • Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.

3. grein. Það sem barninu er fyrir bestu

  • Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

6. grein. Réttur til lífs og þroska

  • Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast.

12. grein. Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif

  • Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.

Hér má lesa nánar um Barnasáttmálann og meginreglur hans.

Almennar leiðbeiningar barnaréttarnefndarinnar nr. 14, geta veitt frekari leiðbeiningar, en í liðum nr. 53-79 telur nefndin upp atriði sem mikilvægt er að taka tillit til við mat á því sem barni er fyrir bestu.

Aðrir samningar og sáttmálar

Aðrir alþjóðlegir samningar og sáttmálar geta komið til álita við matið á því sem barni er fyrir bestu eins og t.d. samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Hvaða börn verða fyrir áhrifum?

Ljóst er að öll börn verða ekki fyrir sömu áhrifum af tilteknum ákvörðunum eða ráðstöfunum. Sem dæmi má nefna að tiltekin mál eru til þess fallin að hafa meiri áhrif á yngri börn en þau sem eldri eru. Einnig geta mál verið þess eðlis að hafa meiri áhrif á fötluð börn en önnur börn sem kallar á framkvæmd sérstaks mats á áhrifum á þau.

Gátlisti

  • Hvaða greinar Barnasáttmálans koma til álita?

  • Koma aðrir alþjóðlegir sáttmálar og samningar einnig til álita?

  • Hvaða börn verða fyrir áhrifum? Verða þau fyrir sömu áhrifum og jafnmiklum?


Gagnlegar upplýsingar...


Næsti kafli - Öflun gagna og upplýsinga og könnun á regluverki

Til baka á efnisyfirlit



Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica