Réttindi barna og Barnasáttmálinn

Skýrsla um stöðu barna lögð fram á barnaþingi 21. nóvember 2025

  • Ray-hennessy-6-JIDCnZG2E-unsplash

Inngangur

Samkvæmt lögum um umboðsmann barna, nr. 83/1994, ber embættinu að boða til þings um málefni barna annað hvert ár og skulu niðurstöður og ályktanir þingsins kynntar ríkisstjórn. Í 6. gr. a laganna er jafnframt kveðið á um að á þinginu skuli fjalla um stöðu og málefni barna og að umboðsmaður barna leggi fram skýrslu við upphaf þess. Í skýrslunni skal m.a. gerð grein fyrir stöðu og þróun málefna barna á helstu sviðum samfélagsins, meðal annars með hliðsjón af ákvæðum Barnasáttmálans. Hlutverk umboðsmanns barna er að vinna að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Að því markmiði vinnur umboðsmaður barna m.a. með því að setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins. Í því skyni skal umboðsmaður m.a. afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila og skulu þau gögn lögð til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar.

Barnaþing umboðsmanns barna var síðast haldið árið 2023. Frá þeim tíma hafa ýmsir atburðir orðið til þess að staða ákveðinna hópa barna hefur versnað umtalsvert. Eldsumbrot á Reykjanesskaga leiddu til þess að rýma þurfti Grindavíkurbæ þann 10. nóvember 2023, og hafa áhrif þeirra atburða á líf grindvískra barna verið mikil. Ljóst er að hamfarirnar höfðu í för með sér mikla óvissu, sálrænt álag og rótleysi fyrir grindvísk börn og fjölskyldur þeirra. Þá hefur staðan í barnaverndarmálum einnig verið alvarleg undanfarin misseri og neyðarástand ríkt í málefnum barna með alvarlegan hegðunar- og fíknivanda. Þá hefur embættið einnig lagt áherslu á réttindi barna innan réttarkerfisins, þar á meðal í samskiptum við refsivörslukerfið og dómstóla. Af þeim sökum fjallar skýrsla barnaþings að þessu sinni sérstaklega um stöðu þessara viðkvæmu hópa barna.

Í upphafi skýrslunnar er fjallað ítarlega um stöðu barna frá Grindavík, þær ráðstafanir sem gerðar voru í kjölfar jarðhræringanna og þá kerfisbundnu veikleika sem koma í veg fyrir að ákvæði Barnasáttmálans og réttindi barna séu virt að fullu í framkvæmd við þessar aðstæður. Því næst er fjallað um stöðu barnaverndarmála, það neyðarástand sem ríkir innan meðferðarkerfisins, réttindi barna og skyldur ríkisins, upplifun barna af barnaverndarkerfinu og þær athugasemdir sem umboðsmaður barna hefur sett fram í því samhengi. Þá er fjallað um stöðu barna gagnvart réttarkerfinu hér á landi og gerð grein fyrir niðurstöðum skýrslna umboðsmanns barna um barnvæna réttarvörslu og börn fanga, auk þess sem birtar eru tölfræðilegar upplýsingar um mál barna sem eru til meðferðar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Að lokum er fjallað um þau áhrif sem þátttaka barna á barnaþingi hefur haft fram til þessa og hvernig hefur verið unnið með niðurstöður frá fyrri barnaþingum innan Stjórnarráðsins.

Í starfi umboðsmanns barna er skýr áhersla lögð á 12. gr. Barnasáttmálans, og unnið að því markmiði að við mótun stefnu og töku ákvarðana sem varða börn verði ávallt leitað eftir og tekið tillit til sjónarmiða þeirra. Í þessari skýrslu er víða vísað í frásagnir og sjónarmið barna, annars vegar frá fyrri barnaþingum og fundi með börnum frá Grindavík og hins vegar frá börnum sem rætt var við vegna skýrslu umboðsmanns um barnvæna réttarvörslu. Frásagnir þeirra veita dýrmæta innsýn í reynsluheim barna og færir starfsfólk embættisins börnunum bestu þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag til opinberrar umræðu um málefni barna. 

Börn í Grindavík

Rúmlega 900 börn þurftu að yfirgefa heimili sín.

Umbrotatímabil hófst á Reykjanesskaga í desember 2019, með jarðskjálftavirkni, kvikuhreyfingum og eldgosum. Þann 10. nóvember 2023 var neyðarstigi lýst yfir og öllum íbúum Grindavíkur gert að rýma bæinn vegna mikilla jarðhræringa. Fyrsta eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni varð í desember 2023 og í kjölfarið hófust þar endurtekin eldgos. Á þeim tíma sem rýmingin átti sér stað bjuggu um 3.790 manns í Grindavík, þar af um 920 börn, á rúmlega 1.100 heimilum. Mjög fáir íbúar hafa snúið aftur nema til að vitja eigna sinna.

Við rýmingu bæjarins voru opnaðar fjöldahjálparstöðvar í Kópavogi, Keflavík og á Selfossi og þær voru opnar meðan þörf var á. Miklar skemmdir hafa orðið á innviðum Grindavíkur vegna umbrotanna m.a. á fasteignum og gatnakerfi svo fátt eitt sé nefnt. Viðbrögð almannavarnakerfisins og stjórnvalda vegna þessara atburða eru samanlagt umfangsmesta verkefni vegna náttúruhamfara sem tekist hefur verið á við.

Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra sem lögð var fyrir Alþingi 8. nóvember 2024 hefur áhersla verið lögð á að veita áfallamiðaðan stuðning, hlúa að börnum og ungmennum og tryggja velferð þeirra. Hins vegar standi eftir stór úrlausnarefni, þar á meðal sé að takast á við áföll og félagslegar afleiðingar sem sé langtímaverkefni. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að meðal áskorana á þessu sviði séu vísbendingar um að mörgum börnum frá Grindavík hafi reynst skólabyrjun haustið 2024 erfið, hegðunarvandi hafi aukist sem og skólaforðun. Þekkt er að hamfarir og langvarandi óvissa í kjölfar þeirra hafa áhrif á heilsu og líðan fólks sem fyrir þeim verður. Að mati umboðsmanns barna er áríðandi að styðja við og fylgja eftir börnum frá Grindavík þar sem rannsóknir hafa sýnt að hamfarir geti haft langvarandi áhrif á heilsu þolenda og jafnframt að afleiðingar slíkra áfalla geti komið fram yfir langt tímabil.

Þegar íbúum Grindavíkur var gert að rýma bæinn voru rúmlega 800 börn á leik- og grunnskólaaldri og um 260 nemendur á framhaldsskólaaldri skráð með lögheimili í Grindavík. Samkvæmt áðurnefndri skýrslu forsætisráðherra tóku stjórnvöld þá ákvörðun að leiðarljós í öllum viðbrögðum ætti að vera að hlúa að börnum og ungmennum og tryggja velferð þeirra. Skólaganga væri lykilatriði enda sýni rannsóknir að regluleg skólasókn og áframhaldandi þátttaka í daglegum venjum hjálpi börnum að viðhalda rútínu, dragi úr óvissu og skapi öryggi við slíkar aðstæður. Jafnframt kemur fram að skólinn geti veitt stöðugleika sem sé mikilvægur þegar fjölskyldulíf barna og ungmenna tekur umfangsmiklum breytingum. Skólinn geti veitt börnum það örugga skjól sem þau þurfi. Það hafi því verið forgangsatriði stjórnvalda að tryggja öruggt skólaumhverfi og aðgengi að tómstunda-, íþrótta- og frístundastarfi. Einnig er greint frá því að sérstaklega hafi verið hugað að börnum í viðkvæmri stöðu, börnum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og börnum með miklar stuðningsþarfir. Í skýrslunni er greint frá því að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi virkjað teymi þvert á málefnasvið ráðuneytisins og milli ráðuneyta til að taka þátt í viðbrögðum stjórnvalda og styðja við bæjaryfirvöld í Grindavík og Landsteymi, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafi verið virkjað. Í upphafi hafi verið talið mikilvægt að börnum og fjölskyldum væri veitt svigrúm til að ná áttum og að veita þeim stuðning vegna þess áfalls sem þau höfðu orðið fyrir. Nokkur börn hófu nám á nýjum stað nokkuð fljótt en flestir foreldrar biðu þó frekari upplýsinga frá bæjaryfirvöldum í Grindavík. Stjórnvöld fóru í að kortleggja staðsetningu grindvískra barna og fjölskyldna þeirra til að fá skýrari mynd um ákjósanlega búsetu til lengri tíma og áframhaldandi skólagöngu. Framhaldsskólar reyndu að finna leiðir til þess að koma til móts við nemendur m.a. með því að veita aukinn sveigjanleika og stuðning eftir þörfum. Þá vann félagsþjónustan í Grindavík að því að grípa ungmenni sem hvorki sóttu skóla né vinnu.  

Í lok nóvember 2023 voru safnskólar fyrir grindvísk börn opnaðir í Reykjavík fyrir leik- og grunnskólabörn. Þá var tekin ákvörðun um að gera undantekningu frá lögum um grunnskóla um skólaskyldu í desember 2023 en skólaskylda var virkjuð að nýju í upphafi árs 2024. Búið var að kortleggja stöðu allra barna sem sóttu leikskóla í Grindavík við upphaf jarðhræringanna í byrjun desember 2023 og þá höfðu 65% þeirra fengið leikskólavistun í nýjum skóla. Viku síðar var hlutfallið komið í 74%. Samanlögð skólasókn grunnskólabarna í safn- og hverfisskólum var í desember 2023 aðeins ólík eftir árgöngum en heilt yfir mjög góð eða á bilinu 91% til 100%. Bæjarstjórn Grindavíkur tók ákvörðun í lok mars 2024 um að í stað safnskóla, sem ekki voru taldir ákjósanlegir til lengri tíma, yrði skólaganga barna og ungmenna í hverfisskólum frá og með næsta skólaári. Sú ákvörðun byggði á greinargerð fagnefndar um börn, félagslegar þarfir og skólagöngu í kjölfar náttúruhamfara. Var það talið geta flýtt fyrir því að börn og fjölskyldur þeirra mynduðu jákvæð tengsl í nærumhverfi sínu.

Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra vöknuðu áhyggjur af velferð barna frá Grindavík á ný undir lok skólaársins 2023-2024 og hafði verkefnum félagsþjónustu- og fræðslusviðs bæjarins fjölgað. Þjónustubeiðnir og tilkynningar gáfu til kynna aukna tilfinningalega erfiðleika hjá börnum, versnandi skólasókn og ofbeldishegðun. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að brugðist hafi verið við með endurskipulagningu og eflingu stuðnings við börn og fjölskyldur þeirra, sem og aðra viðkvæma hópa, með farsæld og velferð þeirra að leiðarljósi. Ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um að koma á fót sérstöku teymi sem hafði það hlutverk að kortleggja félagslegar áskoranir. Í kjölfarið hafi börnum verið veitt samþætt þjónusta og stuðningur, með áherslu á áfallamiðaða nálgun. Reynt hafi verið að lágmarka áhrif af óvissu um húsnæði, atvinnu, skólastarf, frístundastarf og íþróttir samhliða markvissari stuðningi við fjölskyldur og börn úr Grindavík. Fram kemur að einnig hafi verið farið í sértækar félagslegar aðgerðir til að stuðla að því að börn fengju tilfinningalegan stuðning frá jafnöldrum, m.a. í sumarbúðum og sumarstarfi félagsmiðstöðvarinnar Þrumunnar. 

Fram kemur í skýrslu forsætisráðherra að vegna ábendinga sem bárust mennta- og barnamálaráðuneytinu við upphaf skólaársins 2024-2025, um að ekki lægi fyrir hvar öll börn á grunnskólaaldri, sem væru með lögheimili í Grindavík, myndu sækja skóla, hafi ráðuneytið sent Grindavíkurbæ eftirlitserindi þar sem óskað var upplýsinga um til hvaða ráðstafana bærinn hefði gripið til að tryggja lögbundna skólavist barna. Í svari bæjarstjórnar kom fram að Grindavíkurbær hefði leitað til Reykjanesbæjar um að tryggja börnum á grunnskólaaldri með lögheimili og búsetu í Grindavík skólavist á skólaárinu 2024-2025.

Í nóvember 2024 bjuggu um 40% grindvískra barna á Suðurnesjum. Í áðurnefndri skýrslu forsætisráðherra kemur fram að skólabyrjun hafi reynst mörgum barnanna erfið þar sem þau hafi átt í erfiðleikum með að aðlagast nýjum skólum og samfélögum. Hegðunarvandamál og skólaforðun hafi verið sýnileg, sérstaklega meðal barna sem áður bjuggu við stöðugleika og mikil lífsgæði í Grindavík. Alls dreifðust grindvísk börn á 71 grunnskóla í nóvember 2024. Flestir nemendur voru í skólum í Reykjanesbæ, þar af 51 í Njarðvíkurskóla og 40 í Stóru-Vogaskóla. Þjónustuteymi Grindavíkur hefur lagt mat á stöðu nemenda og eru niðurstöður þess stöðumatsins m.a. að viðtökuskólar hafi tekið vel á móti grindvískum nemendum, fylgst hafi verið með mætingu þeirra og ástundun og sýndur hafi verið sveigjanleiki við innritun nemenda frá Grindavík. Þá kemur fram að greinileg neikvæð áhrif á námsframvindu séu sýnileg, í flestum skólum hafi borið á erfiðleikum í skólasókn hjá nemendum en dæmi séu einnig um að unglingar frá Grindavík hafi verið virkir í námi og félagslífi. Í skýrslu forsætisráðherra kemur fram að staða grindvískra nemenda á framhaldsskólaaldri sé almennt góð en ekki liggja fyrir formlegar mælingar á stöðu og líðan þeirra. Að mati umboðsmanns barna er það miður að ekki hafi verið farið í formlega greiningu á stöðu og líðan framhaldsskólanema frá Grindavík.

Þó að margt hafi verið gert vel í því miði að tryggja velferð og réttindi grindvískra barna er það mat umboðsmanns barna að ráðstafanir sem gerðar voru í kjölfar jarðhræringa á Reykjanesskaga hafi leitt í ljós kerfisbundna veikleika sem koma í veg fyrir að ákvæði Barnasáttmálans og réttindi barna séu virt að fullu í framkvæmd. Á umboðsmaður þar einkum við rétt barna til upplýsinga, þátttöku og áhrifa og jafnframt að mat sé lagt á áhrif á börn. Ákvarðanir voru teknar og ráðstafanir gerðar án þess að mat væri lagt á áhrif þeirra á börn, án samráðs við börn eða að þau fengju upplýsingar sem hæfðu aldri þeirra og þroska.

Það er ekki síst þegar vá steðjar að, sem hvað mikilvægast er að virða, vernda og tryggja réttindi barna, enda þekkt að í slíkum aðstæðum er heilsu og velferð barna hætta búin. Það er mikilvægt að stjórnvöld tryggi að réttindi barna sé virt þegar beita þarf almannavarnaaðgerðum. Það þurfa að liggja fyrir viðbragðsáætlanir sem varða börn, stöðu þeirra og hagsmuni sérstaklega. Þá þarf að tryggja að þau fái upplýsingar sem hæfa aldri þeirra og þroska, þau fái tækifæri til þess að taka þátt og hafa áhrif á ráðstafanir. Þá er það grundvallaratriði að mat sé lagt á áhrif ráðstafana á börn m.a. til þess að hægt sé að bregðast við mögulegum neikvæðum áhrifum á ákveðna hópa barna. Í áliti Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um félagslegar áskoranir vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga og samfélagsleg áhrif þeirra kemur fram að mikilvægt sé fyrir börn að vera virkir þátttakendur, í samræmi við aldur og þroska, í undirbúningi, forvörnum og viðbrögðum vegna áfalla. Rannsóknir hafi sýnt að viðnámsþróttur barna og aðlögunarhæfni í breyttum aðstæðum geti aukist þegar þau fái tækifæri til að taka þátt í samfélagsverkefnum á tímum áfalla. Það hafi m.a. þær afleiðingar að auka þroska, sjálfstraust og færni til að takast á við erfiðleika.

Á síðustu árum hefur mikil umræða átt sér stað á Norðurlöndunum um réttindi barna á hættutímum. Þann 12. ágúst sl. gaf Norræna Velferðarmiðstöðin út skýrslu sem ber heitið Participation is protection – embedding children's rights in Nordic crisis governance. Umboðsmenn barna á Norðurlöndunum tóku þátt í vinnu við þá skýrslu en þar er m.a. fjallað um mikilvægi þess að öll löggjöf og stjórnsýsla er varðar almannavarnir og viðbrögð við hættuástandi taki mið af og virði réttindi barna. Í Noregi hefur mikilvægt skref verið stigið en norska þingið hefur falið stjórnvöldum í Noregi að endurskoða öll lög sem varða viðbúnað við hamförum í þeim tilgangi að greina hvaða breytinga sé þörf til þess að hægt sé að tryggja að hagsmunir barnsins séu ávallt í fyrirrúmi og að ráðstafanir sem gerðar eru á hamfaratímum tryggi að börn geti lifað eðlilegu lífi eftir fremsta megni. Að mati umboðsmanns barna er mikil þörf á að ráðast í sambærilega vinnu hér á landi.

Íslenska æskulýðsrannsóknin – líðan barna frá Grindavík

Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem sér um Íslensku æskulýðsrannsóknina ákvað í ár að beina sjónum sérstaklega að börnum sem fluttu frá Grindavík í kjölfar rýmingarinnar. Þátttakendur í rannsókninni voru nemendur í 6-10. bekk úr 152 skólum. Rúmlega 200 börn sem þurftu að yfirgefa heimili sín 10. nóvember 2023 tóku þátt í rannsókninni en vorið 2025 voru börnin skráð í að minnsta kosti 68 grunnskóla víðs vegar um landið. Þetta er fyrsta vísindarannsóknin sem beinist að líðan barna frá Grindavík. Samkvæmt niðurstöðunum hafði rýmingin djúpstæð og víðtæk áhrif á börn. Á meðal helstu niðurstaðna var að börnin meta lífsánægju sína og félagsleg tengsl verri en börn á sama aldri á landsvísu. Þau eru líklegri til að upplifa veikari tengsl við skólann og eiga í vanda með skólasókn. Samkvæmt höfundum rannsóknarinnar er hægt að rekja þessi einkenni til þess að hafa flutt vegna rýmingar. Börnin frá Grindavík fundu einnig meira fyrir sállíkamlegum einkennum, líkt og depurð, kvíða og höfuð- eða magaverki. Þá voru þau einnig líklegri til að hafa neytt áfengis eða vímuefna en jafnaldrar á landsvísu. Samkvæmt höfundum rannsóknarinnar er hins vegar ekki hægt að segja til með vissu hvort þessi áhrif stafi af flutningi í nýtt umhverfi eða vegna áhrifa af að hafa flúið heimili sín. Stúlkur mátu lífsánægju sína og félagsleg tengsl síðri en drengir. Að mati höfunda rannsóknarinnar undirstrika niðurstöðurnar mikilvægi þess að velferð barna sé í forgrunni í viðbrögðum við náttúruhamförum og að fylgst sé með líðan þeirra yfir lengri tíma.

Fundur með börnum úr Grindavík

UB-fundur-Grindavik-14

Með það að markmiði að veita börnum frá Grindavík tækifæri til þess að koma upplifun sinni og sjónarmiðum á framfæri hélt umboðsmaður barna í samstarfi við Grindavíkurbæ fund með börnum frá Grindavík þann 7. mars 2024. Öllum börnum á grunn- og framhaldsskólaaldri var boðið á fundinn og var hann mjög vel sóttur, en yfir 300 börn mættu til fundarins. Fundurinn var haldinn með þjóðfundarsniði og börnin unnu í hópum að tillögum og skilaboðum til stjórnvalda. Þar kom berlega í ljós að áhrifin á líf grindvískra barna hafa verið margvísleg og að ástandið hefur haft í för með sér mikla óvissu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Börnin telja mikilvægt að stórfjölskyldum verði gert kleift að vera saman og ljóst er að mörg börn upplifa sáran söknuð, í ýmsu tilliti. Í tillögum barnanna komu fram fjölmörg áhersluatriði, einkum varðandi skóla- og íþróttastarf, tómstundir, húsnæðismál og stuðning fyrir fjölskyldur. Þá birtist með margvíslegum hætti sú ósk barnanna að þeim verði veitt fleiri tækifæri til samveru og að styrkja tengsl sín á milli. Fram kom að börnin sakna Grindvíkur og lífsins þar, en einnig vina og ættingja. Þá lýstu börnin miklum áhuga á að heimsækja bæinn sinn. Áhersla var lögð á að tryggja þurfi öllum sálrænan stuðning til þess að vinna úr þeim áföllum sem hamfarirnar hafa haft í för með sér. Einnig var skýrt ákall um betri upplýsingagjöf til barna og kom m.a. fram tillaga um sérstaka íbúafundi fyrir börn og ungmenni.

raddir barna úr grindavík

  • „Ég sakna skólans sem er í Grindavík :(“
  • „Það er erfitt að byrja í nýjum skóla“
  • „Glöð að ég fékk að hitta vinkonur mínar í safnskólanum“
  • „Vill ekki vera í nýjum skóla og æfa með nýju liði“
  • „Frábært að hafa Smárann sem heimavöll. Takk, Breiðablik!“
  • „Erfitt að geta ekki átt heima þar sem maður er búinn að vera allt sitt líf“
  • „Mér finnst leiðinlegt að við þurfum að rápa svo mikið og við þurftum að lána hús fara í hús sem við eigum ekki“
  • Getum við fengið betri útskýringar á öllu því sem er að gerast? (íbúafundur fyrir ungmenni).“


frá fundi barna úr Grindavík
Salvör Nordal umboðsmaður barna í pontu
Börn að tala
Yfirlitsmynd frá fundi barna úr Grindavík

Umboðsmaður barna stóð einnig fyrir sýningu á verkum grindvískra barna í samstarfi við Listasafn Íslands. Á opnun sýningarinnar þann 17. júní 2024 afhentu börn frá Grindavík, þau Bergþóra, Lena, Ágústa, Þórgunnur og Sigtryggur Máni, forsætisráðherra skýrslu með niðurstöðum frá fundi grindvískra barna. Sýningin bar heitið Að allir séu óhultir og var haldin í Safnahúsinu, verkin á sýningunni voru afrakstur myndlistarnámskeiðs sem Listasafn Íslands hélt í samstarfi við umboðsmann barna og var undir handleiðslu myndlistarfólksins Margrétar H. Blöndal og Kolbeins Huga. Verkin sem voru sýnd voru unnin út frá reynslu barna frá Grindavík.

Srs_9196_53804438099_o

Srs_9186_53803176342_o

Srs_9265_53804438229_o


Staða barnaverndar


Neyðarástand í meðferðarkerfi

Staða barna sem þurfa á meðferðarþjónustu að halda hefur verið sérstakt áhyggjuefni undanfarin misseri og hefur umboðsmaður barna verið í tíðum bréfaskiptum við mennta- og barnamálaráðuneytið vegna þess. Í nóvember 2024 sendi umboðsmaður bréf til mennta- og barnamálaráðherra og ávarpaði þar það neyðarástand sem hafði skapast í málaflokknum. Í bréfi umboðsmanns sem sent var ráðherra í byrjun febrúar kemur fram að það sé mat embættisins að þau meðferðarúrræði sem ríkið beri ábyrgð á standi ekki undir hlutverki sínu. Meðferðarkerfið sé því ófært um að sinna þeirri þjónustuþörf sem því er ætlað að sinna í þágu þessa viðkvæma hóps. Skort hefur á að viðeigandi úrræði hafi verið tiltæk fyrir börn sem sýna áhættuhegðun og glíma við fíknivanda, meðal annars vegna þess að meðferðarúrræðum fyrir þennan hóp barna hefur verið lokað og miklar tafir hafa verið á að setja á fót önnur í þeirra stað.

Rannsóknir og opinber gögn hafa sýnt fram á að aukin áhættuhegðun og ofbeldi meðal barna hefur verið vaxandi vandamál undanfarin ár. Þrátt fyrir að sú staða hafi verið ljós um nokkurt skeið hefur ekki verið gripið til viðeigandi viðbragða og að mati embættisins hefur langvarandi andvaraleysi ríkt í málaflokknum. Ekkert langtíma meðferðarúrræði hefur staðið drengjum til boða síðan meðferðarheimilinu að Lækjarbakka var lokað í mars 2024. Um tíma var ennfremur engin hefðbundin meðferðardeild starfrækt á Stuðlum eftir að bruni varð á neyðarvistun Stuðla í október 2024, þar sem 17 ára barn lést í umsjá yfirvalda.

Í kjölfar brunans á Stuðlum var vistunartími barna á neyðarvistun styttur úr 14 dögum í 7 daga og undafarin misseri hafa einnig borist ítrekað fréttir af stroki barna og viðvarandi fíkniefnaneyslu á Stuðlum og Blönduhlíð á Vogi.

Ljóst er að aukið fjármagn inn í málaflokkinn hefur ekki skilað árangri í þá átt að bæta stöðu barna í þessari viðkvæmu stöðu og hefur umboðsmaður barna ítrekað lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni og þeim afleiðingum sem úrræðaleysið hefur óhjákvæmilega á þennan hóp barna og fjölskyldur þeirra. Þrátt fyrir það og ákall frá barnaverndarþjónustum og foreldrum hafa litlar sem engar umbætur átt sér stað. Foreldrar hafa lýst mikilli örvæntingu og að þau beri ekki lengur traust til kerfisins og þeirrar meðferðar sem þar er veitt. Þá hafa foreldrar í einhverjum tilvikum leitað út fyrir landsteinana til þess að útvega börnum sínum viðeigandi meðferð.

Neyðarvistun barna í fangageymslum á Flatahrauni

Í kjölfar brunans á Stuðlum var fangageymsla lögreglustöðvarinnar í Flatahrauni tekin til notkunar til þess að taka á móti börnum í neyðarvistun. Umboðsmaður barna gerði alvarlegar athugasemdir við þá framkvæmd og kom því ítrekað á framfæri við mennta- og barnamálaráðuneytið að notkun fangaklefa væri óásættanleg ráðstöfun sem gengi þvert gegn ákvæðum Barnasáttmálans og yfirlýstum stefnum íslenskra stjórnvalda. Þá gæti skortur á viðeigandi úrræðum ekki réttlætt slíka vistun. Að mati umboðsmanns væri því mjög alvarlegt að Barna- og fjölskyldustofa skyldi reka úrræði fyrir börn í fangageymslum þar sem ekki væri til staðar viðunandi meðferðarheimili fyrir börn í þessari stöðu. Þá gaf umboðsmaður Alþingis út skýrslu um neyðarvistun barna í úrræðinu, á grundvelli OPCAT eftirlits sem ætlað er að hindra pyndingar eða aðra grimmilega, ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu á stöðum þar sem frelsissviptir dvelja. Í skýrslunni kemur m.a. fram að það sé mat umboðsmanns Alþingis að úrræðið hentaði ekki sem vistunarstaður fyrir börn og beindi hann þeim tilmælum til Barna- og fjölskyldustofu að endurskoða notkun úrræðisins. Þá kemur fram að allur aðbúnaður og umhverfi þar hafi haft yfirbragð hefðbundinnar fangageymslu sem er sérútbúin fyrir vistun fullorðinna einstaklinga við hátt öryggisstig. Ekki hafi verið gluggar í klefum sem hleypi dagsbirtu inn og ekki aðstaða til útiveru. Þá var einnig fjallað sérstaklega um það í skýrslunni að í meirihluta tilvika hafi verið um einangrunarvist að ræða, sem er börnum mjög þungbær og skaðleg og að í fjölþjóðlegum viðmiðum sé lögð áhersla á að börn skuli ekki sæta einangrun undir neinum kringumstæðum. Þá benti umboðsmaður Alþingis einnig á að börn sem vistuð voru á Flatahrauni hafi notið lakari réttarverndar en fullorðnir einstaklingar sem vistaðir eru við sambærilegar aðstæður.

Samkvæmt upplýsingum sem umboðsmanni barna bárust um notkun úrræðisins að Flatahrauni voru börn vistuð þar í allt að sex sólarhringa í senn og þá hafi börn allt niður í 12 ára vistast í úrræðinu. Umboðsmaður óskaði þess með bréfi til mennta- og barnamálaráðuneytis að embættið yrði upplýst um hvaða ráðstafana yrði gripið til þess að loka mætti úrræðinu. Í svari frá ráðuneytinu kom fram að úrræðið yrði í notkun á meðan ekki væri annað húsnæði nothæft fyrir neyðarvistun, en unnið væri að úrbótum. Úrræðinu að Flatahrauni var lokað á vormánuðum þessa árs.

Áform um stofnun nýs meðferðarheimilis

Árið 2012 kom fram í framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar að brýn þörf væri á nýju meðferðarúrræði sem þjónustað gæti börn sem glíma við alvarlegan vímuefnavanda eða sæta gæsluvarðhaldi eða afplánun. Hafa áform um stofnun nýs meðferðarheimilis síðan komið fram í öllum framkvæmdaáætlunum í barnavernd sem lagðar hafa verið fram á Alþingi. Árið 2018 undirrituðu þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra, Barnaverndarstofa og Garðabær sameiginlega viljayfirlýsingu um uppbyggingu nýs meðferðarúrræðis fyrir börn í Garðabæ þar sem fram kom að stefnt væri að því að framkvæmdir við meðferðarheimilið hæfust árið 2019. Framkvæmdir hafa enn ekki hafist og ljóst er að meðferðarheimilið er engu nær því að verða að veruleika nú en þegar umræður um það hófust fyrir hálfum öðrum áratug síðan, þrátt fyrir aðkallandi þörf.

Skyldur ríkisins og réttindi barna

Samkvæmt 79. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber íslenska ríkið ábyrgð á því að til staðar séu meðferðarúrræði fyrir börn. Nánar tiltekið ber ríkinu að sjá til þess að tiltæk séu heimili og stofnanir til að veita börnum móttöku í bráðatilvikum til að tryggja öryggi þeirra vegna meintra afbrota eða alvarlegra hegðunarerfiðleika, greina vanda barna sem þurfa sérhæfða meðferð og veita börnum sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota.

Réttur barns til lífs og þroska

Stjórnvöldum ber að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til lífs og þroska í samræmi við 6. gr. Barnasáttmálans. Ákvæðið tryggir börnum rétt til þess að alast upp við þroskavænleg skilyrði og gerir því m.a. kröfu um fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, menntun og vernd gegn ofbeldi, vanrækslu, misnotkun og annars konar illri meðferð. Lögð er áhersla á að sérhverju barni séu tryggðar aðstæður þar sem þeim getur liðið vel og fái tækifæri til þess að ná líkamlegum, andlegum, siðferðislegum og félagslegum þroska. Réttur barna samkvæmt ákvæðinu er forsenda þess að þau fái notið annarra mannréttinda samkvæmt Barnasáttmálanum.

Þá eiga börn einnig stjórnarskrárvarinn rétt til þess að njóta verndar og umönnunar sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Umboðsmaður barna telur ljóst að Ísland standi ekki að fullu við skuldbindingar sínar gagnvart þeim hópi barna sem þurfa á meðferðarþjónustu að halda. Þá hafi það langvarandi úrræða- og andvaraleysi sem ríkt hefur í málaflokknum skert réttindi þessa hóps barna, sem oft eru í bráðri hættu, þar sem lífsnauðsynleg þjónusta hefur ekki staðið til boða í lengri tíma.

Þá hefur barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna lagt áherslu á að íslenska ríkið tryggi snemmtæka greiningu og viðeigandi tilvísun unglinga sem þurfa á meðferð að halda og að slík meðferð sé aðgengileg og barnvæn.

ungmenni í svartri hettupeysu

Meðferðarþjónusta sem velferðarþjónusta – þörf á endurskoðun?

Ákvörðun um vistun barns á meðferðarheimili á vegum ríkisins er tekin af barnaverndaryfirvöldum eftir að önnur úrræði barnaverndarlaga hafa verið fullreynd, líkt og á almennt við um vistun barns utan heimilis. Meðferðarúrræði sem rekin eru á grundvelli barnaverndarlaga teljast því eðli málsins samkvæmt til velferðarþjónustu. Sú spurning hefur þó vaknað undanfarið hvort betur færi á því að meðferðarþjónusta þessi væri skilgreind sem heilbrigðisþjónusta, líkt og á við þegar um fullorðna einstaklinga er að ræða sem sækja þurfa meðferð vegna fíknivanda eða andlegra erfiðleika. Óumdeilt er að stór hluti þeirra barna sem vistast á umræddum meðferðarheimilum notar fíkniefni og er þörf á aðhlynningu því oft mikil, auk þess sem mörg glíma við alvarlega sjálfsskaðahegðun. Þá geta börn sem vistast á meðferðarheimilum einnig þurft á lyfjagjöf að halda sem og margvíslegri geðheilbrigðisþjónustu.

Ljóst er að börn sem glíma við vímuefnavanda og þurfa á meðferðarþjónustu að halda njóta að mörgu leyti lakara réttaröryggis en einstaklingar sem náð hafa 18 ára aldri. Þá er einnig ljóst að fleiri meðferðarúrræði standa fullorðnum einstaklingum til boða eins og sakir standa þar sem ekki er til staðar langtímameðferðarúrræði fyrir drengi hér á landi. Í 23. gr. laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008 kemur fram að ef ekki er hægt að veita nauðsynlega meðferð hér á landi þá greiði sjúkratryggingar kostnað við meðferð erlendis. Þá veita einnig lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 einstaklingum ríka réttarvernd í samskiptum við heilbrigðiskerfið, sem börn sem þiggja meðferð á vegum hins opinbera njóta ekki með sambærilegum hætti. Að mati umboðsmanns er því ríkt tilefni til þess að stjórnvöld endurskoði þá tilhögun að meðferðarúrræði fyrir börn heyri undir faglega yfirstjórn mennta- og barnamálaráðuneytisins og Barna- og fjölskyldustofu, í stað þess að heyra undir heilbrigðisyfirvöld.

Árið 2024 var framkvæmt stöðumat á áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi, þar sem heilbrigðisráðherra fól Dr. Thomas Kattau að framkvæma greiningu á meðferðarkerfinu. Í skýrslu hans er núverandi kerfi kortlagt, styrkleikar og veikleikar greindir og lagðar fram tillögur um úrbætur. Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að hér á landi bjóðist börnum ekki sérhæfð áfengis- og vímuefnameðferð á vegum heilbrigðisyfirvalda og er það sérstaklega ávarpað að núverandi fyrirkomulag, þar sem mennta- og barnamálaráðuneytið fari með yfirstjórn meðferðarmála barna, sé óskilvirkt og valdi ýmsum vandkvæðum í framkvæmd.

Rannsókn á afdrifum barna sem vistuð hafa verið í meðferðarúrræðum

Umboðsmaður barna sendi erindi til forsætisráðherra þann 7. október sl. þess efnis að nauðsynlegt sé að rannsaka afdrif barna sem vistuð hafa verið í meðferðarúrræðum frá því að ríkið tók við rekstri þeirra samhliða því að Barnaverndarstofa var sett á fót árið 1996. Telur embættið mikilvægt að lagt verði sérstakt mat á það hvort meðferðarkerfið skili tilætluðum árangri og gagnist þeim börnum sem þurfa á slíkri þjónustu að halda. Í því samhengi er brýnt að meta hvernig þessum börnum reiðir af og vegnar á lífsleiðinni, en bent hefur verið á að óæskileg blöndun barna í meðferð hafi haft skaðlegar afleiðingar fyrir líf og heilsu þeirra. Einnig eru margvíslegar vísbendingar til staðar um að þessi hópur standi höllum fæti á ýmsum sviðum samfélagsins eftir 18 ára aldur. Að mati embættisins er rík ástæða til að rannsaka sérstaklega dánartíðni, atvinnuþátttöku, menntun, húsnæðisstöðu, örorku, afplánun dóma og geðheilbrigði.

Fjölgun tilkynninga til barnaverndar

Tilkynningum til barnaverndar hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Þann 25. júní sl. gaf Barna- og fjölskyldustofa út skýrslu þar sem birtur er samanburður á tilkynningum til barnaverndar á árunum 2022 – 2024.

Á árinu 2024 fjölgaði tilkynningum um 9,9% frá 2023, sem var minni aukning en árið áður. Flestar tilkynningar 2024 voru vegna vanrækslu og fjölgaði þeim um 8,2%, en hlutfallslega jókst mest tilfinningaleg vanræksla. Tilkynningum vegna ofbeldis gegn börnum fjölgaði um 6,5%, nema í kynferðisofbeldi þar sem fækkaði um 6,2%. Tilkynningar vegna áhættuhegðunar barna voru 33,7% allra tilkynninga og fjölgaði þeim um 14,5%. Sérstaklega jókst fjöldi tilkynninga um neyslu vímuefna og annarra skaðlegra efna (tæplega 60%).

Hér er um sláandi hækkun að ræða og að mati umboðsmanns barna er mikilvægt að greina hvort neysla barna sé almennt að aukast í samræmi við þessar tölur eða hvort þessi aukning sé birtingarmynd þess úrræðaleysis sem ríkt hefur innan meðferðarkerfisins. Tilkynningum vegna afbrota barna fjölgaði einnig, eða um 8%, og tilkynningum vegna þess að barn beitir ofbeldi fjölgaði um 21,9%. Flestar slíkar tilkynningar eru vegna drengja, eða 82,6%.

Á fyrstu sex mánuðum ársins 2025 heldur þróunin áfram. Þá bárust 9.610 tilkynningar, samanborið við 8.515 á sama tímabili 2024, sem er 12,9% aukning. Vanræksla var áfram algengasta ástæða tilkynninga, en hlutfallslega fjölgaði tilkynningum vegna ofbeldis gegn börnum mest (22,6%) og vegna áhættuhegðunar barna (17,2%). Á tveimur árum (2023–2025) hefur tilkynningum um áhættuhegðun barna fjölgað um nær 38%. Ekki varð heildarfjölgun í tilkynningum um vímuefnaneyslu barna milli 2024 og 2025, fyrst og fremst vegna fækkunar tilkynninga um slíka hegðun meðal stúlkna.

Að mati umboðsmanns barna er áríðandi að greina þessar upplýsingar nánar. Tölurnar í skýrslunni um fjölda barna sem tilkynnt var um eru fengnar þannig að fjöldi barna sem tilkynnt var vegna í hverjum mánuði fyrir sig er lagður saman. Tilkynningar geta borist um sama barnið á milli mánaða, þannig að hér er ekki alltaf um að ræða fjölda einstaklinga yfir ákveðið tímabil heldur samanlagðan heildarfjölda barna í hverjum mánuði fyrir sig. Aukningin getur þar af leiðandi verið vegna þess að ítrekað er verið að senda tilkynningar til barnaverndar vegna sömu barnanna. Þrátt fyrir að þessar upplýsingar varpi ljósi á ákveðna þróun skortir mikilvægar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að fá heildstæða mynd af stöðunni. Þá liggur t.a.m. ekki fyrir fjöldi barna sem þessar tilkynningar varða. Skortur á aðgengilegum og sundurliðuðum gögnum torveldar markvissa greiningu, stefnumótun og úrbætur í þágu barna.

Priscilla-du-preez-NP3KdAQc6c4-unsplash

Þátttaka barna í eigin málum og upplifun þeirra af barnaverndarkerfinu

12. gr. Barnasáttmálans fjallar um rétt barns til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra. Felur ákvæðið þannig í sér að skapa þarf aðstæður þar sem barn er raunverulegur þátttakandi í málsmeðferð sem það varðar. Til þess að svo megi vera er mikilvægt að barn fái upplýsingar við hæfi á öllum stigum máls og geti þannig brugðist við því sem upp kemur í málsmeðferðinni og gætt sinna réttinda í tengslum við hana. Einnig skiptir miklu máli að aðrar aðstæður séu með þeim hætti að barnið finni fyrir öryggi og skilningi og geti þannig tjáð sig frjálslega, í umhverfi sem styður við þarfir þess. Grundvöllur réttlátrar málsmeðferðar er að ferlið sé aðgengilegt og skiljanlegt fyrir börn, og að sjónarmið þeirra séu virt í samræmi við aldur og þroska.

Upplifun barna af barnaverndarkerfinu

Í skýrslu umboðsmanns barna um barnvæna réttarvörslu, sem nánar er fjallað um í kafla X, voru tekin viðtöl við börn sem hafa reynslu af barnaverndarkerfinu og þeim meðferðarúrræðum sem rekin eru á grundvelli barnaverndarlaga. Í viðtölum við börnin kom fram skýr vilji þeirra til að fá að vera virkari þátttakendur í eigin málum og benda niðurstöðurnar til þess að sérstaklega þurfi að styrkja þátttöku barna í barnaverndarmálum. Börnin lýstu einnig miklum ófyrirsjáanleika og að þau fái almennt ekki upplýsingar um framgang og framvindu mála. Þá töldu þau einnig að sjónarmið þeirra, fái þau að koma þeim á framfæri, hafi oft á tíðum lítið vægi við ákvarðanatöku.

Í viðtölum við börnin komu fram blendnar tilfinningar í garð barnaverndar. Börnin voru spurð um almenna upplifun sína af barnavernd, þátttöku og upplýsingagjöf. Sum barnanna höfðu neikvæðar upplifanir í samskiptum sínum við barnavernd, en önnur voru hlutlaus eða jákvæð. Hins vegar kom fram í samtölum við börnin að bæði þau sem hafa jákvæðar og neikvæðar upplifanir af barnavernd finnist þau ekki fá nægar upplýsingar um málin sín, fái ekki að vera þátttakendur og að þau upplifi að ekki sé tekið tillit til þeirra sjónarmiða. Þá ræddu börnin einnig um það að upplýsingagjöf væri í einhverjum tilvikum háð aldri sem þeim finnst ósanngjarnt. Í viðtölum við börnin kom fram skýr vilji þeirra til þess að fá að vera virkir þátttakendur í sínum málum. Mörg þeirra upplifðu að þau hefðu ekki rödd eða að ekki væri hlustað á skoðanir þeirra áður en teknar væru ákvarðanir er varða þau. Þá ræddu þau einnig um mikinn ófyrirsjáanleika og flakk innan kerfisins.

Eftirlit með gæðum þjónustu

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) hefur eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli barnaverndara, laga um Barna- og fjölskyldustofu og farsældarlaga, auk annarra laga. Meginhlutverk GEV er að sú þjónusta sem lýtur eftirliti stofnunarinnar sé traust, örugg og í samræmi við ákvæði laga, reglugerða, samninga og leiðbeininga. Þá ber GEV m.a. að þróa gæðaviðmið á grundvelli bestu mögulegu þekkingar í málaflokknum, veita rekstrarleyfi og hafa eftirlit með því að skilyrði rektrarleyfa séu uppfyllt, taka á móti og vinna úr kvörtunum frá notandum þjónustu og safna upplýsingum frá þeim sem lúta eftirliti stofnununarinnar.

Líkt og fram hefur komið varð bruni á neyðarvistun Stuðla í október á síðasta ári þar sem barn lést í umsjá yfirvalda. Málið hefur verið til rannsóknar hjá lögreglu en þeirri rannsókn er enn ekki lokið, rúmi ári síðar. Samkvæmt 12. gr. laga um gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála nr. 88/2021 er um að ræða alvarlegt óvænt atvik sem skylt er að tilkynna til GEV, sem ber að hefja rannsókn á atvikinu. Fram hefur komið af hálfu GEV að stofnunin telur sig ekki geta framkvæmt slíka rannsókn á meðan málið er til rannsóknar hjá lögreglu, til þess þurfi stofnunin ríkari heimildir í lögum. Umboðsmaður barna telur brýnt að stjórnvöld leysi úr þeim vanda, eftir atvikum með nauðsynlegum lagabreytingum, svo að hægt sé komast að niðurstöðu um hvað fór úrskeiðis í þjónustunni, draga lærdóm af því og koma í veg fyrir að sambærileg atvik endurtaki sig.

Réttarkerfið

Inngangur

Réttarkerfið gegnir lykilhlutverki í að tryggja vernd og öryggi barna á margvíslegan hátt. Í þessum kafla er fjallað um stöðu barna gagnvart réttarkerfinu hér á landi. Sérstaklega er fjallað um hvernig réttarkerfið mætir þörfum barna og að hvaða leyti þörf er á að styrkja frekar réttindi þeirra. Einkum er byggt á niðurstöðum skýrslna umboðsmanns barna um barnvæna réttarvörslu og börn fanga, auk þess sem birtar eru tölfræðilegar upplýsingar um mál barna sem eru til meðferðar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og á landsvísu.[1]

Mynd1-barnathing25

Mynd 1. Fjöldi ólögráða (yngri en 18 ára) sakborninga í málum hjá LRH eftir brotaflokki – þróun 2020-2024  

Á mynd 1 sést að fjöldi sakborninga yngri en 18 ára hefur aukist töluvert á 5 ára tímabili, frá 2020 til 2024. Einnig hefur ungum sakborningum fjölgað í heimilisofbeldismálum, einkum árið 2024. Fjöldi ungra sakborninga í kynferðisbrotum hefur að mestu verið í kringum tuttugu síðustu ár, fyrir utan árið 2023 þegar þeir voru þrettán.


[1] Forsendur/fyrirvarar: Teknar voru saman upplýsingar úr lögreglukerfinu um fjölda barna (yngri en 18 ára) sem skráð eru sem sakborningar í ofbeldismálum, heimilisofbeldi og kynferðisbrotum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hvert barn er talið einu sinni á hverju ári í hverjum brotaflokki en þau geta verið sakborningar í fleiri en einu broti á sama ári þannig að fjöldi brota þar sem börn eru sakborningar er meiri en fjöldi barna.

Töluverð skörun er milli ofbeldisbrota og heimilisofbeldis, þar sem heimilisofbeldi er verkefnaflokkur sem tekur með sér önnur brot, t.d. ofbeldi (ofbeldisbrot eru ríflega 70% brota í heimilisofbeldismálum). Ekki er því hægt að leggja saman tölur um sakborninga í mismunandi brotaflokkum, því þá væri verið að telja sömu börnin oftar en einu sinni á ári. Það sama gildir um talningu brotaþola.

Hvað varðar talningu á aukaaðilum, þá eru brotaþolar skilgreindir sem aukaaðilar og stundum eru sakborningar bæði skráðir sem sakborningar og sem árásaraðilar í aukaaðilum. Því inniheldur talning á aukaaðilum, alla brotaþola og einhvern hluta sakborninga.

Almennt má setja þann fyrirvara að gögn lögreglu gefi einungis ákveðna mynd af þeim fjölda sem verður fyrir brotum, þ.e. sýna einungis fjölda í tilkynntum brotum. Ýmislegt getur haft áhrif á það hversu mörg brot eru tilkynnt, t.d. umræða í þjóðfélaginu, forgangsröðun verkefna hjá lögreglu, mönnun og fleira. T.d. hefur breytt verklag lögreglu í heimilisofbeldismálum áhrif á hvernig málin eru skilgreind og skráð.

Mynd2-b25

Mynd 2. Fjöldi ólögráða (yngri en 18 ára) brotaþola í málum hjá LRH eftir brotaflokki – þróun 2020-2024 

Mynd 2 sýnir að brotaþolum yngri en 18 ára í ofbeldisbrotum hefur fjölgað á 5 ára tímabili, frá 2020 til 2024. Ungum brotaþolum hefur einnig fjölgað í heimilisofbeldismálum, einkum árið 2024. Meiri sveiflur hafa verið í fjölda brotaþola í kynferðisbrotum og voru þeir aldrei fleiri en árið 2021. Það skýrist að hluta til vegna þess að það ár komu upp mál tengd stafrænu kynferðisofbeldi þar sem sami gerandi var í samskiptum við marga unga brotaþola.

Mynd3-barnat25

Mynd 3. Fjöldi ólögráða (yngri en 18 ára) aukaaðila í málum hjá LRH eftir brotaflokki – þróun 2020-2024

Aukaaðilar í málum hjá lögreglu eru allir þeir sem ekki eru skráðir aðalaðilar þ.e. sakborningar, kærðir eða grunaðir. Allir brotaþolar eru því aukaaðilar og meira að segja sumir árásaraðilar ef þeir eru skráðir líka sem aukaaðilar. Aðrir aukaaðilar geta t.d. verið tilkynnendur, vitni, forráðamenn, ólögráða, aðstandendur, félagahópur, tjónþolar, vegfarendur o.s.frv. og er listinn ansi langur. Mynd 3 sýnir alla aukaaðila í málum í þessum brotaflokkum í LÖKE sem eru yngri en 18 ára, þ.m.t. alla brotaþola og árásaraðila sem skráðir eru sem aukaaðilar. Ólögraða eru hér taldir einu sinni á ári sem aukaaðilar óháð því hvernig þeir eru skráðir sem aukaaðilar í málinu, þ.e. tengsl þeirra við brotið. Fjöldi aukaaðila nær því yfir alla brotaþola og suma sakborninga (mikil skörun).

Skýrsla um barnvæna réttarvörslu

Barnvæn réttarvarsla (e. Child Friendly Justice) tryggir rétt barna til frumkvæðis og þátttöku í réttarkerfi sem tekur mið af þörfum þeirra og er þeim aðgengilegt á allan hátt. Í þessu felst að réttarkerfið þarf að vera aðlagað að þörfum, aldri og þroska barna með það að markmiði að vernda réttindi þeirra og velferð. Þegar þessi hugmyndafræði er höfð að leiðarljósi er horft á ferlið út frá sjónarhóli barnsins og tryggt að barnið finni fyrir öryggi, skilningi og sanngirni.

Á liðnu ári vann umboðsmaður barna að úttekt og skýrslu um barnvæna réttargæslu. Framkvæmd var könnun í því skyni að greina hvernig réttarkerfið og stjórnsýslan á Íslandi samræmist kröfum um barnvæna réttarvörslu eins og þær birtast í alþjóðlegum skuldbindingum, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, almennu áliti barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 24 frá árinu 2019 og í leiðbeiningarreglum ráðherranefndar Evrópuráðsins um barnvæna réttarvörslu frá 17. nóvember 2010.

Könnunin náði til lögreglu og ákæruvalds, dómstóla, barnaverndarþjónustu, umdæmisráða barnaverndar, Barna- og fjölskyldustofu, Útlendingastofnunar og sýslumannsembætta. Eingöngu var um að ræða könnun á fyrsta stjórnsýslustigi en gera má ráð fyrir að umfang verkefnisins nái á síðari stigum einnig til úrskurðarnefnda, eftirlitsstofnanna og annarra æðra settra stjórnvalda. Niðurstöður verkefnisins sýna mikla þörf á því að unnið verði í víðara samhengi að innleiðingu barnvænnar réttarvörslu þvert á réttarkerfið svo að málsmeðferð sé ávallt örugg og aðlöguð að þörfum barna.

Fyrir útgáfu skýrslunnar óskaði umboðsmaður einnig eftir viðbótarupplýsingum um frelsissviptingar barna. Óskaði embættið eftir tölulegum upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra og Fangelsismálastofnun um fjölda barna sem hafa verið vistuð í fangaklefa á grundvelli úrskurðar um einangrun í gæsluvarðhaldi. Þá liggur einnig fyrir að Barna- og fjölskyldustofa tók til notkunar fangaklefa lögreglustöðvarinnar á Flatahrauni eftir að könnun umboðsmanns var framkvæmd og er því sérstaklega fjallað um þá aðstöðu í skýrslunni, tölulegar upplýsingar um fjölda barna sem vistuð hafa verið í úrræðinu og athugasemdir umboðsmanns þar að lútandi.

Þá koma einnig fram í skýrslunni sjónarmið barna, en tekin voru viðtöl við hóp barna sem hafa mismunandi reynslu af réttarkerfinu. Tekið skal fram að ekki var um að ræða félagsvísindalega rannsókn, heldur var um að ræða hóp barna sem búa yfir þessari sérstöku reynslu og voru umboðsmanni til ráðgjafar. 

Eric-ward-akT1bnnuMMk-unsplash

Niðurstöður

Ljóst er af niðurstöðunum að ýmissa úrbóta er þörf innan réttarkerfisins til að tryggja að börn njóti að fullu þeirra réttinda sem þeim eru tryggð samkvæmt Barnasáttmálanum og alþjóðlegum mannréttindareglum. Þrátt fyrir almenna viðleitni stofnana til að taka mið af réttindum barna, leiddi könnun umboðsmanns barna og viðtöl við börn í ljós talsvert ósamræmi í framkvæmd. Þetta ósamræmi kemur fram í skilningi mismunandi aðila á hlutverki, skyldum og framkvæmd, bæði innan og utan ákveðinna málefnasviða réttarkerfisins. Niðurstöðurnar undirstrika að þrátt fyrir ágæta þekkingu á hugmyndafræði barnvænnar réttarvörslu og almenna viðleitni stofnana, er framkvæmdin á Íslandi ekki í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum. Þörf er á aukinni samræmingu innan fagstétta og þörf er á margvíslegum úrbótum til að styrkja réttindi barna innan réttarkerfisins. Þá kalla leiðbeiningareglur Evrópuráðsins á það að ríki leggi heildstætt mat á málaflokkinn og grípi til sérstakra ráðstafana til að tryggja barnvæna réttarvörslu. Er það von umboðsmanns barna að stjórnvöld nýti niðurstöðurnar til þess að leggja mat á það hvaða ráðstafana verði gripið til í því skyni og að ráðist verði í nauðsynlegar úrbætur.

Upplýsingagjöf og þátttaka barna í eigin málum

Þrátt fyrir ágæta lagalega umgjörð um réttindi barna er ljóst að skortur er á útfærslu í framkvæmd, einkum varðandi upplýsingagjöf, aðlögun málsmeðferðar að börnum og tryggingu fyrir þátttöku þeirra í eigin málum. Mikilvægt er að gripið verði til markvissra úrbóta í upplýsingagjöf, þátttöku barna og samræmingu milli stofnana til að tryggja að börn njóti réttlátrar málsmeðferðar í samræmi við Barnasáttmálann og alþjóðlega mannréttindasáttmála. Viðtöl við börnin sýndu einnig að þeirra upplifun af réttarkerfinu er oft talsvert neikvæðari en mat stofnana á eigin framkvæmd. Benda niðurstöður enn fremur til þess að börn upplifi sig oft vanmáttug í samskiptum við réttarkerfið og upplifi sig ekki sem raunverulega þátttakendur í eigin málsmeðferð.

Grundvallarforsenda barnvænnar réttarvörslu er að börn séu raunverulegir þátttakendur í málsmeðferð sem þau varðar. Niðurstöðurnar benda til þess að þátttaka barna innan réttarkerfisins sé oft takmörkuð og að réttur þeirra samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans sé þannig ekki virtur að fullu. Til þess að tryggja að þátttaka barns hafi raunverulegt gildi eru ýmsir þættir sem huga þarf að, t.a.m. skýr upplýsingagjöf, barnvænt umhverfi og þjálfun fagfólks. Í viðtölum við börn kom fram skýr vilji þeirra til að fá vera virkari þátttakendur í eigin málum og benda niðurstöður til þess að sérstaklega þurfi að styrkja þátttöku barna í barnaverndarmálum. Í skýrslunni hvetur umboðsmaður barna stjórnvöld til þess að huga sérstaklega að því hvernig unnt er að tryggja betur þátttöku barna í eigin málum og hvernig styrkja megi rétt barna til þátttöku innan réttarkerfisins á markvissan hátt.

Mikilvægt er að grípa til markvissra úrbóta í upplýsingagjöf til að styrkja þátttöku barna innan réttarkerfisins. Þetta felur í sér að auka verulega aðgengi barna að upplýsingaefni innan réttarkerfisins, bæði hvað varðar beina upplýsingagjöf til barna við málsmeðferð og almennar upplýsingar sem aðgengilegar eru börnum um hlutverk stofnana. Ljóst er af niðurstöðunum að auka þarf verulega aðgengi barna að upplýsingaefni innan réttarkerfisins, bæði hvað varðar beina upplýsingagjöf til barna við málsmeðferð og almennar upplýsingar sem aðgengilegar eru börnum.

Fræðsla, samhæfing og þverfagleg nálgun

Þörf er á aukinni samhæfingu og skýrari reglum um þær kröfur sem gerðar eru til þekkingar og fræðslu til fagfólks innan réttarkerfisins. Forsenda þess að markmiðum barnvænnar réttarvörslu sé náð er að starfsfólk sem starfar með börnum og í þágu þeirra, fái viðeigandi fræðslu um réttindi barna, þarfir þeirra og barnvæna málsmeðferð. Ljóst er að rík áhersla er innan réttarkerfisins á þverfaglega samvinnu en niðurstöðurnar sýna þó að skerpa þurfi á sameiginlegum skilningi og samhæfingu innan alls réttarkerfisins.

Barnvænt umhverfi og aðstaða

Ljóst er af niðurstöðum könnunarinnar að talsvert má bæta innan réttarkerfisins hvað varðar umhverfi og aðstöðu stofnana. Mikilvægt er að stofnanir innan réttarkerfisins skapi barnvænt umhverfi sem stuðlar að velferð barna og veitir þeim öryggistilfinningu. Barnvænt réttarkerfi byggist á því að virða réttindi barna og tryggja að þau upplifi ekki óþarfa álag eða ógn. Þetta felur í sér að á meðan börn taka þátt í málsmeðferð þarf að tryggja að ferlið í heild sinni sé sem minnst yfirþyrmandi.

Meðferð mála hjá lögreglu

Viðtöl við börn leiddu í ljós að mörg þeirra upplifðu óþarfa hörku af hálfu lögreglunnar og að beiting þvingunar ætti ekki ávallt rétt á sér að þeirra mati. Fram kom að lögregluyfirvöld leggja áherslu á meðalhóf og barnvæna málsmeðferð, en frásagnir barnanna benda til annars. Sérstaklega kom fram að börn töldu sig ekki fá nægjanlega skýrar upplýsingar um stöðu sína og réttindi, sérstaklega við handtöku og skýrslutöku.

Í skýrslunni hvetur umboðsmaður barna löggæsluyfirvöld til þess að grípa til sérstakra ráðstafana í því skyni að styrkja réttindi barna innan refsivörslukerfisins. Nauðsynlegt er að vinna að aukinni samhæfingu meðal lögregluembætta á landsvísu, sem og samræmingu verkferla hvað varðar samskipti við börn og réttindi barna í þeim aðstæðum. Þá er brýnt að upplýsingagjöf til barna verði bætt til muna og að útbúið verði barnvænt upplýsingaefni um réttindi barna í samskiptum við lögreglu og við rannsókn sakamála.

Að mati umboðsmanns barna er afar brýnt að gerður sé skýr greinarmunur á börnum og fullorðnum innan refsivörslukerfisins og að tekið sé tillit til sérstakra þarfa barna. Vert er að íhuga hvort tilefni sé til þess að útbúa sérstaka aðstöðu innan lögreglustöðva sem ætluð er börnum og ungmennum, svo að aðskilja megi börn og fullorðna sem stödd eru á lögreglustöð. Þá er einnig ljóst að auka þarf markvissa og reglubundna könnun á hæfni fagfólks sem starfar með börnum og skýrari reglur um þær kröfur sem gerðar eru til þekkingar og fræðslu starfsfólks um réttindi barna, þarfir þeirra og barnvæna málsmeðferð.

Þá leggur umboðsmaður barna ríka áherslu á það að börn skuli ekki vistuð í fangaklefum og að öll aðstaða þar sem börn eru vistuð þurfi að öðru leyti að hæfa einstaklingsbundnum þörfum þeirra og styðja við andlega, líkamlega og félagslega velferð þeirra. Börn sem svipt eru frelsi sínu skulu í öllum tilvikum meðhöndluð með virðingu og réttindi þeirra virt í samræmi við alþjóðlegar mannréttindareglur og stjórnarskrárvarin réttindi þeirra. Þá skal ekki í neinum tilvikum láta börn sæta einangrunarvist. Umboðsmaður barna hvetur stjórnvöld til að grípa til sérstakra ráðstafana til að framangreint verði tryggt.

Mikilvægt er að innleiða barnvæna réttarvörslu og uppbyggilega réttvísi (e. restorative justice) til að tryggja að börn njóti réttinda sinna, þau fái tækifæri til þátttöku og að tekið sé mið af aldri þeirra og þroska. Slíkar nálganir stuðla að betri úrlausn mála, styrkja traust barna á kerfinu og stuðla að velferð þeirra til lengri tíma.

Leggur umboðsmaður barna til að gripið verði til sérstakra aðgerða til þess að börn eldri en 15 ára njóti sama réttar og yngri börn innan dómskerfisins.

Meðferð mála fyrir dómi

Börn sem höfðu reynslu af dómsmálum lýstu því að þau skildu almennt ekki það sem fór fram í dómsalnum. Lögfræðilegt orðfæri og vísanir í lagagreinar voru þeim oft óskiljanlegar, og fram kom bæði í viðtölum við börn og svörum dómstóla að það félli yfirleitt í hlut lögmanna þeirra eða réttargæslumanna að útskýra ferlið fyrir þeim, sem og niðurstöður mála. Þá lýstu börn einnig skorti á upplýsingagjöf af hálfu annarra stjórnvalda, einkum, lögreglu og barnaverndar. Fram kom hjá börnunum að þau fengu almennt ekki upplýsingar um vinnslu máls, framvindu og ferlið í heild sinni og upplifðu sig ekki þátttakendur í eigin málum. Upplifun barnanna bendir því til þess að þær upplýsingar hafi ekki verið aðgengilegar þeim á skiljanlegan hátt. Í skýrslunni mælist umboðsmaður barna til þess að lagt verði sérstakt mat á þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að styrkja réttindi barna innan dómskerfisins svo að aðlaga megi málsmeðferð betur að þörfum barna og tryggja raunverulega þátttöku þeirra í eigin málum.

Marc-zimmer-ISBPr3reT68-unsplash

Leit að börnum

Í ljósi þess að ítrekaðar fréttir hafa borist um strok frá meðferðarheimilum sem rekin eru af hálfu ríkisins skv. 79. gr. barnaverndarlaga (sjá nánari umfjöllun í kafla um barnavernd), þótti tilefni til þess að óska sérstaklega eftir tölfræðilegum upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um leit að börnum. Taka ber fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er eina embættið sem hefur sérstakt stöðugildi lögreglumanns fyrir leit að börnum og heldur yfir það tölfræði. Tölurnar sýna að leitarbeiðnum hefur fjölgað gríðarlega á þessu ári og síðasta og hefur fjöldi barna sem lögregla leitar að aldrei verið hærri en í ár. Að mati umboðsmanns er það mikið áhyggjuefni og sýnir einnig skýrt fram á hvernig neyðarástand í barnaverndar- og meðferðarmálum teygir sig yfir á önnur svið réttarkerfisins og setur álag á önnur kerfi.

Mynd4-barnat25

Mynd 4. Fjöldi týndra barna (yngri en 18 ára) eftir árum, leit að beiðni barnaverndar – þróun 2020-2024

Á mynd 4 má sjá að á síðastliðnum fimm árum hefur börnum sem LRH leitar að, að beiðni barnaverndar, fjölgað talsvert, auk þess sem „nýjum börnum“ (sem ekki hefur verið leitað að áður) fjölgar einnig. Það sem af er ári 2025 hefur leitarbeiðnum enn fjölgað og hafa þær aldrei verið fleiri. Á fyrstu 10 mánuðum ársins hefur verið leitað að 85 börnum, samtals 333 leitum og enn eru tveir mánuðir eftir af árinu (mesti fjöldi leitarbeiðna fyrir þann tíma var árið 2018 þegar þær voru 285 og vörðuðu 102 börn).

Börn sem eiga foreldri í fangelsi

Umboðsmaður barna gaf árið 2022 út skýrslu þar sem gerð var grein fyrir stöðu og réttindum barna sem eiga foreldri í fangelsi auk þess sem gerðar voru tillögur til úrbóta. Annars vegar var um að ræða úttekt á íslenskri löggjöf og framkvæmd, þar sem gerður er samanburður við hin Norðurlöndin og hins vegar er um að ræða rannsókn á reynslu og viðhorfum fanga sem eiga börn. Niðurstöður verkefnisins sýndu að börn fanga eru gleymdur og jaðarsettur hópur sem ekki hefur notið viðeigandi verndar samkvæmt alþjóðlegum mannréttindareglum. Þá sýna niðurstöður einnig að staða þessa hóps er hvað veikust á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Til þess að bæta stöðu þessa barna er afar brýnt að fangelsisyfirvöld hefji skráningu á því hvort fangi eigi barn við upphaf afplánunar líkt og krafist er skv. alþjóðlegum skuldbindingum. Börn sem eiga foreldra í fangelsi eru viðkvæmur hópur sem þarfnast sérstakrar verndar. Það er því nauðsynlegt að bera kennsl á umfang hópsins til að unnt sé að huga sérstaklega að þessum börnum við mótun stefnu og töku ákvarðana. Á hinum Norðurlöndunum eiga börn sem eiga foreldri í fangelsi rétt á upplýsingum um fangelsun foreldris á barnvænu og aðgengilegu máli. Þar eru einnig reknar sérstakar vefsíður og starfandi öflug hagsmunasamtök sem styðja börnin og bjóða þeim fræðslu og úrræði. Ekkert slíkt upplýsingaefni er aðgengilegt börnum hér á landi og hefur umboðsmaður barna lagt ríka áherslu á að úr því verði bætt.

Þá er einnig rakið í skýrslunni að heimsóknarreglur til fanga eru strangari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Það takmarkar tækifæri barna til að umgangast foreldra sína og getur haft neikvæð áhrif á tengsl og líðan þeirra. Þá er alls ekki sjálfgefið að forsjáraðili eða annar náinn aðstandandi barns geti eða vilji fylgja barninu í fangelsisheimsókn. Evrópuráðið hefur bent á nauðsyn þess að bjóða upp á aðra fylgd, til dæmis frá félagsráðgjafa eða barnavernd, þegar þannig stendur á. Mikilvægt er einnig að heimsóknartímar trufli ekki skólagöngu eða aðra reglubundna þætti í lífi barnsins.

Í skýrslunni kemur fram að aðbúnaður barna við heimsóknir og upplýsingar sem þeim standa til boða hafa verið ófullnægjandi. Börn sem eiga foreldri í fangelsi upplifa gjarnan sorg, söknuð, skömm og óöryggi og því ber stjórnvöldum að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að milda neikvæð áhrif fangavistar. Betri aðstaða til heimsókna, aukinn stuðningur og aðgengilegar upplýsingar geta skipt sköpum fyrir þennan hóp barna. Taka skal fram að eftir að skýrsla umboðsmanns kom út hafa talsverðar umbætur orðið á heimsóknaraðstöðu og verklagi hvað varðar heimsóknir barna í fangelsi. Engu að síður er brýnt að stjórnvöld ráðist í frekari aðgerðir og móti heildstæða stefnu í þessum málaflokki. Aðgerðir sem mótaðar eru þurfa að miða að því að bæta og styrkja stöðu og réttindi barna sem eiga foreldra í fangelsi, enda er ljóst að slíkar aðgerðir myndu jafnframt vera liður í því að ná öðrum þeim markmiðum sem stefnt er að í stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Viðhald og efling fjölskyldutengsla hafa grundvallarþýðingu fyrir samfélagslega aðlögun fanga þegar afplánun lýkur og stuðlar enn fremur að lækkaðri endurkomutíðni. Þá er jafnframt mikilvægt að aðgerðir sem mótaðar eru byggist á sjálfstæðum réttindum barna og stuðli að vernd þeirra, velferð og þátttöku í málefnum sem þau varða.

Niðurstöður barnaþings

Mynd frá barnaþingi 2023

Barnaþingi er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau, veita sjónarmiðum þeirra farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu, og gefa stjórnvöldum tækifæri til þess að fylgja hugmyndum barna eftir og koma tillögum þeirra í framkvæmd í samræmi við 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Barnaþing hefur verið haldið þrisvar og eftir hvert þing hefur umboðsmaður barna afhent ríkisstjórn skýrslu með niðurstöðum þingsins. Þessar skýrslur hafa að geyma fjölbreyttar tillögur og óskir barna sem varða flesta þætti samfélagsins. Það eru mikil verðmæti fólgin í því samráði sem fram fer á barnaþingi og skýrslurnar sem greina frá niðurstöðum hvers þings eru mikilvægt innlegg fyrir stefnumótun stjórnvalda. Sérstök umræða var á Alþingi um niðurstöður barnaþings og tillögur barnaþingmanna þann 9. júní 2022. Þar flutti þáverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, munnlega skýrslu um niðurstöður barnaþings. Í ræðu ráðherra kom fram að barnaþing hafi fest sig í sessi sem einstakur vettvangur fyrir sjónarmið barna og ungmenna í íslensku samfélagi.

Þegar börn eru kölluð til samráðs skiptir miklu að búið sé svo um hnútana að þau geti raunverulega sagt það sem þeim finnst, að hlustað sé á skoðanir þeirra og mark tekið á þeim. Það er mikilvægt að niðurstöður barnaþings hverju sinni séu nýttar við stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda. Það er þess vegna afar ánægjulegt að samþykkt hafi verið nýtt verklag sem hefur það að markmiði að niðurstöður barnaþings verði nýttar með markvissum hætti við opinbera stefnumótun hjá stjórnvöldum og að eftirfylgni með niðurstöðunum innan Stjórnarráðsins verði tryggð. Verklagið var unnið í mennta- og barnamálaráðuneytinu, í samvinnu við umboðsmann barna. Því er ætlað að styðja við markvissa nýtingu niðurstaðna barnaþings og felur m.a. í sér að umboðsmaður barna kynni niðurstöður barnaþings fyrir stýrihópi Stjórnarráðsins í málefnum barna. Fulltrúar ráðuneyta í stýrihópnum eru síðan ábyrgir fyrir því hvernig niðurstöðurnar eru nýttar innan ráðuneytanna, ásamt því að veita umboðsmanni barna upplýsingar um hvernig eftirfylgninni er háttað. Byrjað verður að vinna eftir þessu nýja verklagi eftir barnaþing 2025.

Það getur verið erfitt að greina öll þau áhrif sem barnaþing hefur haft enda hafa áhrifin bæði verið formleg og óformleg. Að mati umboðsmanns barna var mikilvægt að gera sérstaklega grein fyrir þeim áhrifum sem þátttaka barna á barnaþingi hefur haft fram til þessa og hvernig hafi verið unnið með niðurstöður frá fyrri barnaþingum innan Stjórnarráðsins. Umboðsmaður barna óskaði þess vegna eftir upplýsingum frá öllum ráðuneytunum um hvort og þá hvernig brugðist hafi verið við niðurstöðum barnaþings árin 2019, 2022 og 2023 innan viðkomandi ráðuneytis. Svör bárust frá forsætisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu, innviðaráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu. Hér er birt samantekt á svörum ráðuneytanna.

Forsætisráðuneyti

Í svari ráðuneytisins er sérstaklega vakin athygli á því að niðurstöður barnaþings hafi haft margvísleg áhrif á stefnumótun þó að þær hafi fram til þessa ekki farið í fastan farveg innan ráðuneytisins. Þá verði við úrvinnslu á niðurstöðum barnaþings 2025 unnið eftir nýju verklagi sem sé ætlað að tryggja að niðurstöður barnaþings nýtist með markvissari hætti við opinbera stefnumótun og að þeim verði fylgt eftir innan Stjórnarráðsins.

Barnaþingmenn vilja jafnrétti til náms og heilbrigðisþjónustu.

Forsætisráðuneytið nefnir í þessu samhengi að markmið laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar. Árið 2022 hafi lögin verið útvíkkuð og fengið heitið lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar. Frá því hafi lögin einnig gilt um jafna meðferð einstaklinga óháð þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Ráðuneytið áréttar að í lögunum sé t.d. kveðið á um bann við mismunun í tengslum við heilbrigðisþjónustu og bann við mismunun í skólum og öðrum menntastofnunum, á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þá er nefnt að með þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir tímabilið 2020-2023 hafi verið sett á dagskrá verkefni sem hafi það að markmiði að vinna að jafnrétti t.d. á sviði mennta- og heilbrigðismála.

Barnaþingmenn vilja jafna út launamun almennt og sérstaklega milli kynja.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að samkvæmt jafnréttislögum skuli greiða öllum jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Þá hafi stjórnvöld gripið til ýmissa ráðstafana til að takast á við launamun kynjanna, m.a. með lögum um jafnlaunavottun frá 2018 sem hafi það markmið að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Barnaþingmenn vilja hafa áhrif á samfélagið og að barnaþing sé haldið oftar.

Ráðuneytið segir barnaþing mikilvægan vettvang til samtals milli barna, kjörinna fulltrúa, embættismanna, aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka. Þó hafi ekki komið til skoðunar að halda barnaþing oftar. Farið er yfir að barnaþingi hafi verið komið á með lögum í desember 2018. Í lögunum segi að umboðsmaður barna skuli boða til þings um málefni barna annað hvert ár og að niðurstöður og ályktanir þingsins skuli kynntar ríkisstjórn.

Barnaþingmenn vilja jafnrétti allra og betra aðgengi fyrir öll kyn að opinberum stöðum.

Í svari ráðuneytisins er í þessu samhengi vísað til aðgerðaáætlunar í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022-2025, sem hafi að geyma aðgerðir sem miði að því að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks. Í áætluninni sé lögð áhersla á fræðslutengd verkefni og vitundarvakningu um málefni hinsegin fólks, enda sé mikilvægt að auka þekkingu og búa til farveg fyrir málefnalega umræðu um stöðu og réttindi hinsegin fólks. Þá segir að í áætluninni séu einnig verkefni sem snúi að því að tryggja að tekið sé tillit til trans fólks, þar á meðal fólks með hlutlausa kynskráningu, í ákvæðum sem snúa að aðgengi að salernum, sundstöðum og íþróttamannvirkjum og þeim verkefnum sé lokið.

Barnaþingmenn vilja að allir njóti sambærilegra réttinda á vinnumarkaði.

Markmið laga um jafna meðferð á vinnumarkaði er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, segir í svari ráðuneytisins.

Barnaþingmenn vilja að réttindi barna séu virt, þau fái að taka þátt í umræðu um mál sem varða þau, tillit sé tekið til skoðana þeirra og hugmyndum þeirra hrint í framkvæmd.

Tilgreint er í svari ráðuneytisins að við afhendingu skýrslu barnaþings til ríkisstjórnarinnar hafi barnaþingmenn óskað eftir að niðurstöðurnar yrðu teknar til umræðu á Alþingi. Forsætisráðherra efndi í kjölfarið til sérstakrar umræðu um skýrslu barnaþings 2022 á Alþingi til að tryggja að niðurstöður barnaþings kæmust skýrt til skila. Þá kemur fram að forsætisráðuneytið hafi unnið að því að virkja aðkomu ungs fólks að innleiðingu heimsmarkmiðanna með því að koma á fót barna- og ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna árið 2018. Ráðinu sé ætlað að veita stjórnvöldum innsýn í viðhorf ungs fólks til heimsmarkmiðanna og veita þeim tækifæri til að koma sínum áherslum varðandi innleiðinguna á framfæri við ríkisstjórn árlega. Einnig er nefnt að ráðið hafi verið fengið til að skrifa kafla í aðra landrýniskýrslu Íslands um stöðu heimsmarkmiðanna. Þá kemur fram að forsætisráðuneytið hafi jafnframt haft samráð við börn þegar unnið var að grænbók um mannréttindi og haldnir hafi verið samráðsfundir með börnum úr barna- og ungmennaráðinu, ráðgjafahópi umboðsmanns barna, ungmennaráði Samtakanna ´78 og fötluðum börnum með milligöngu Þroskahjálpar.

Barnaþingmenn spyrja: „Hvað ætli þið að gera til þess að draga úr transhatri í samfélaginu og vernda réttindi þeirra?“

Ráðuneytið svarar því til að í febrúar 2024 hafi Jafnréttisstofa hleypt af stokkunum herferðinni Orðin okkar með stuðningi forsætisráðuneytisins. Herferðinni hafi verið ætlað að hvetja fólk til umhugsunar um áhrifamátt orða sinna. „Orð geta sært, sundrað og brotið niður en þau geta einnig nært, huggað og sameinað.“ Þannig hljómuðu skilaboðin sem Jafnréttisstofa sendi með herferðinni sem var liður í að stuðla að auknu jafnrétti í íslensku samfélagi og berjast gegn hatursorðræðu.

Barnaþingmenn spyrja: „Hvernig getum við verið fullviss um að raddir barna heyrist?“

Í svari ráðuneytisins er í þessu samhengi áréttað að við úrvinnslu á niðurstöðum barnaþings 2025 hafi verði innleitt nýtt vinnulag til að tryggja að niðurstöður barnaþings nýtist með markvissum hætti við opinbera stefnumótun og þeim fylgt eftir innan Stjórnarráðsins.

Barnaþingmenn spyrja: „Hvernig getur ríkisstjórnin tryggt jafnrétti fyrir alla?

Jafnrétti er bundið í stjórnarskrá, ýmis lög og áætlanir stjórnvalda en að tryggja jafnrétti allra er jafnframt viðvarandi verkefni stjórnvalda, segir í svari ráðuneytisins. Þar segir jafnframt að í jafnréttislögum sé kveðið á um að ráðherra jafnréttismála skuli leggja fyrir Alþingi á fjögurra ára fresti tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum til fjögurra ára í senn. Þannig sé tryggt að ávallt sé unnið að verkefnum á sviði kynjajafnréttis. Einnig kemur fram að í júlí 2024 hafi verið samþykkt lög um Mannréttindastofnun Íslands og meginhlutverk hennar sé að efla og vernda mannréttindi á Íslandi.

Barnaþingmenn vilja að meira sé gert fyrir fátæk börn.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að forsætisráðherra hafi látið vinna skýrslu um fátækt og áætlaðan samfélagslegan kostnað sem var birt í júní 2023. Í kjölfarið hafi ríkisstjórnin samþykkt að veita fjármagn í frekari rannsóknir á fátækt á Íslandi. Greint er frá því að hópur fræðimanna vinni nú í samstarfi við sérfræðinga Stjórnarráðsins að úrvinnslu gagna um fátækt og muni á næstu mánuðum skila forsætisráðherra samantekt með stöðumati og mögulegum valkostum.

Barnaþingmenn vilja meiri stuðning fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Í þessu samhengi vísar forsætisráðuneytið til þess að þingsályktunartillaga forsætisráðherra um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021- 2025, hafi verið samþykkt á Alþingi í júní 2020. Um er að ræða fyrstu heildstæðu stefnuna um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni á Íslandi segir í svari ráðuneytisins. Meðal aðgerða sem hefur verið ráðist í er gerð netnámskeiða með grunnfræðslu um þessi mál og opnun vefsins stoppofbeldi.is, þar sem náms- og fræðsluefni sem styður við forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi er aðgengilegt á einum stað.

Niðurstöður barnaþings endurspeglast í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar

Að lokum kemur fram í svari forsætisráðuneytisins að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins séu ýmsar aðgerðir settar á dagskrá sem svari kalli barnaþings 2023. Áhersla sé lögð á jafnrétti og upprætingu fordóma, stofnuð hafi verið ráðherranefnd um málefni barna og til standi að stofna aðgengis- og aðlögunarsjóð og lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem nú hefur verið gert. Þá muni ríkisstjórnin huga sérstaklega að stöðu fatlaðs fólks í menntakerfinu og vinna með markvissum hætti að inngildingu barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli ásamt því að tryggja snemmtæka íhlutun fyrir börn með fjölþættan vanda. Ríkisstjórnin áformar einnig að móta ungmennastefnu og beita sér fyrir jöfnu aðgengi allra barna að íþróttum, listum og frístundastarfi.

Viðbrögð forsætisráðuneytisins við niðurstöðum barnaþings

Fjármála- og efnahagsráðuneyti

Barnaþingmenn vilja lægri skatta, sérstaklega fyrir börn. Þá hefur komið fram að börn eigi ekki að greiða skatt fyrr en þau verða 18 ára.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að skattkerfið á Íslandi byggi á þeirri grundvallarreglu að allir sem afli tekna skuli taka þátt í fjármögnun opinberra útgjalda samfélagsins. Það sé ekki talið sanngjarnt að mismuna eftir aldri, þannig að börn borgi lægri skatta. Þá bendir ráðuneytið á að við skattlagningu njóti einstaklingar persónuafsláttar sem sé ætlað að tryggja að tekjulægri einstaklingar haldi eftir stórum hluta launa sinna.

Barnaþingmenn vilja að kennarar, hjúkrunarfræðingar, heimilislæknar og strætóbílstjórar fái greidd hærri laun.

Ráðuneytið segir að kennarar, hjúkrunarfræðingar, læknar og strætóbílstjórar eigi að fá sanngjörn laun fyrir störfin sín, enda sinni þessar stéttir mikilvægum störfum sem samfélagið treystir á. Einnig þurfi að viðurkenna framlag margra annarra stétta og þar megi t.d. nefna bændur sem framleiði matinn okkar, starfsfólk í byggingariðnaði sem reisi og viðhaldi byggingum og innviðum sem við notum og fjölmiðlafólk sem upplýsi okkur um það sem gerist í samfélaginu.

Barnaþingmenn vilja jöfn laun fyrir konur og karla.

Samkvæmt jafnréttislögum skal greiða konum, körlum og fólki með kynhlutlausa skráningu í Þjóðskrá jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, segir í svari ráðuneytisins. Fólk sem er með sömu starfsheiti, t.d. lögreglufólk og kennarar, fá sambærileg laun. Ráðuneytið segir það vera flóknara að meta hvaða störf séu jafn verðmæt en eftir síðustu kjarasamninga hafi verið ákveðið að útbúa mælikvarða til að meta virði starfa og þegar þessir mælikvarðar séu tilbúnir verði vonandi hægt að meta virði starfa hjá ríkinu og leiðrétta ómálefnalegan launamun.

Barnaþingmenn spyrja: „Af hverju fær ríkið skattpeningana mína frá 16 ára aldri en ég fæ ekki að ákveða hver situr í ríkisstjórn fyrr en ég verð 18?“

Ráðuneytið taldi rétt í þessu samhengi að taka fram að þótt einstaklingur sé ekki orðinn sjálfstæður skattaðili þá séu tekjur hans engu að síður skattlagðar. Í svarinu kemur fram að tillögum um breytingar á aldursviðmiðum, t.d. fyrir sjálfræði, þátttöku í kosningum eða ákvarðanir á sviði heilbrigðismála þurfi að fylgja rökstuðningur þar sem mat sé lagt á þroska og ábyrgð og horft til bæði hagsmuna barna og samfélagsins. Ráðuneytið leggur til að umboðsmaður barna veiti aðstoð við að setja fram rök um hvernig tillaga að breyttu aldursviðmiði falli að slíkum sjónarmiðum.

Barnaþingmenn vilja lækka verðbólgu.

Þessi krafa samrýmist áherslum stjórnvalda sem m.a. birtast í fjármálaáætlunum núverandi og síðustu ríkisstjórnar, segir í svari ráðuneytisins. Það sé gert með því að halda aftur af eftirspurn í hagkerfinu, svo sem með hækkun vaxta eða með því að bæta afkomu í opinberum fjármálum.

Utanríkisráðuneyti

Ráðuneytið tekur fram að ályktunum barnaþinga hafi ekki verið kerfisbundið fylgt eftir á vegum utanríkisráðuneytisins. Hins vegar hafi ráðuneytið lagt áherslu á virðingu fyrir réttindum barna á erlendum vettvangi. Í formennsku Íslands í Evrópuráðinu 2022-2023 og í setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna 2025-2027 hafi réttindi barna verið ein af megináherslunum. Þá segir að í tengslum við þessi verkefni hafi Ísland talað fyrir samþættri þjónustu við börn og haldið á lofti Barnahús-módelinu, sem sé nú orðinn alþjóðlegur staðall fyrir samþætta þjónustu og réttlæti fyrir börn sem eru fórnarlömb ofbeldis. Þá hafi ráðuneytið stutt þátttöku ungmennafulltrúa í alþjóðastarfi, en fulltrúarnir eru kosnir af Landssambandi ungmennafélaga. Jafnframt kemur fram að í formennskunni í Evrópuráðinu hafi Ísland einnig stutt við ungmennasamráð innan ráðsins. Að lokum er nefnt að málefni barna séu áhersluþáttur í ýmsu starfi utanríkisþjónustunnar, m.a. í þróunarsamvinnu og á vettvangi alþjóðastofnana.

Viðbrögð fjármála- og efnahagsráðuneytisins við niðurstöðum barnaþings

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

Barnaþingmenn vilja að minna sé notað af plasti.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að aðgerðaáætlun í plastmálefnum, Úr viðjum plastsins, hafi verið gefin út í september 2020. Hún innihaldi 18 aðgerðir sem miði að því að draga úr notkun plasts, auka endurvinnslu plasts og taka á plasti í hafi. Einnig er bent á að frá upphafi árs 2021 hafi verið óheimilt að afhenda burðarpoka úr plasti við afgreiðslukassa í verslunum. Jafnframt hafi verið gripið til aðgerða til að sporna við losun plasts í hafið og blásið til átaks til að hreinsa strendur landsins af plasti og öðru rusli. Þá kemur fram að enn sé unnið að þessum aðgerðum og eftirfylgni með áætluninni.

Barnaþingmenn vilja að komið sé í veg fyrir matarsóun.

Í þessu samhengi kemur fram að aðgerðaáætlun gegn matarsóun hafi verið gefin út í september 2021. Hún innihaldi 24 aðgerðir sem snúi að allri virðiskeðju matvæla, frá frumframleiðslu til neytenda, og miða að því að ná þeim árangri að minnka matarsóun um 30% fyrir yfirstandandi ár og um helming fyrir árið 2030.

Barnaþingmenn vilja að rusl sé endurnýtt og að betur sé gengið um jörðina.

Ráðuneytið segir að heildarstefna stjórnvalda í úrgangsmálum hafi litið dagsins ljós árið 2021, undir yfirskriftinni Í átt að hringrásarhagkerfi. Meginmarkmið stefnunnar sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu og draga úr urðun og myndun úrgangs. Þá kemur fram að meðal aðgerða sem grundvallist á stefnunni og komið hafi til framkvæmdar séu m.a. skylda til flokkunar hvors tveggja, heimilisúrgangs og rekstrarúrgangs og skylda til sérstakrar söfnunar heimilisúrgangs innan lóðar við heimili og fyrirtæki, auk þess sem samræmdum merkingum fyrir úrgangsflokka hafi verið komið á til að auðvelda flokkun. Jafnframt er nefnd framlengd framleiðendaábyrgð á ýmsar einnota plastvörur sem hafi m.a. leitt til þess að sveitarfélög fái greiðslur úr Úrvinnslusjóði til að standa straum af kostnaði við hreinsun rusls á víðavangi, sem þau fengu ekki áður, en á árunum 2023 og 2024 greiddi sjóðurinn samtals næstum 100 m.kr. til sveitarfélaga vegna þessarar hreinsunar.

Barnaþingmenn vilja meiri fræðslu fyrir börn og fullorðna um umhverfismál.

Ráðuneytið segir fræðslu og upplýsingagjöf til almennings og fyrirtækja ávallt hluta þeirra verkfæra sem stjórnvöld beiti í málaflokknum. Til að mynda hafi Umhverfis- og orkustofnun rekið öflugt fræðslustarf undir merkjum Saman gegn sóun og Grænn lífsstíll. Ekki megi gleyma því fræðslustarfi sem stofnunin sinni á vegum norræna umhverfismerkisins Svansins, en meginmarkmið með Svansvottun er að draga úr umhverfisáhrifum af vörum og þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti. Að lokum vill ráðuneytið nefna verkefnið Skólar á grænni grein (grænfánaverkefnið), en um er að ræða alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni, það stærsta sinnar tegundar í heimi. Skólar af öllum skólastigum taki þátt í því verkefni og vinni að sjálfbærnimenntun með því m.a. að auka umhverfisvitund og bæta umhverfi skólans með minnkun úrgangs.

Viðbrögð Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við niðurstöðum barnaþings

Heilbrigðisráðuneyti

Barnaþingmenn vilja að allir hafi aðgang að ókeypis læknis-, tannlækna- og sálfræðiþjónustu.

Heilbrigðisráðuneytið segir að lög um sjúkratryggingar mæli fyrir um að gjald fyrir börn skuli vera lægra en almennt gjald fyrir þjónustu, en börn þurfi t.a.m. ekki að greiða fyrir þjónustu heilsugæslunnar og sjúkrahúsa. Þá er bent á að heilbrigðisráðherra hafi þann 1. júlí 2025 gert þær breytingar að öll þjónusta sérgreinalækna sé gjaldfrjáls, en fram að því þurftu börn sem ekki höfðu tilvísun frá heimilislækni að greiða fyrir þjónustuna. Þessari breytingu sé m.a. ætlað að tryggja rétt barna til aðgangs að læknishjálp óháð efnahag. Jafnframt kemur fram að sálfræðiþjónusta við börn sé gjaldfrjáls ef fyrir liggur tilvísun frá heilsugæslustöð eða þverfaglegu greiningarteymi.

Barnaþingmenn vilja strangari reglur um sölu og markaðssetningu á vörum sem innihalda nikótín.

Á yfirstandandi löggjafarþingi hyggst heilbrigðisráðherra leggja fram frumvarp um nikótín- og tóbaksvörur. Ráðuneytið segir að markmið frumvarpsins sé að draga úr notkun á þessum vörum, sérstaklega hjá börnum og ungmennum. Þar verði lagðar til takmarkanir á sölu nikótínvara sem innihaldi bragðefni sem höfði til barna.umbúðir verði einsleitnari og söluaðilum gert að spyrja kaupendur um skilríki. Þá kemur fram í svari ráðuneytisins að í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til hagsmuna barna af því að takmarkanir séu settar á sölu- og markaðssetningu nikótínvara.

Barnaþingmenn spyrja: „Hvernig getum við stytt biðtíma eftir greiningum og hjálp?“

Ráðuneytið bendir í þessu samhengi á að tilvísunum til Geðheilsumiðstöðvar barna hafi fjölgað mikið undanfarin ár og að þrátt fyrir fjölgun starfsfólks hafi bið eftir þjónustunni verið nokkur. Fram kemur að í febrúar 2025 hafi heilbrigðisráðherra ákveðið að veita miðstöðinni aukið fjármagn, sem geri henni kleift að fjölga stöðugildum um tvö í því skyni að stytta bið barna eftir þjónustu. Ákvörðunin endurspegli áherslu ríkisstjórnarinnar á að stytta bið barna eftir þjónustunni og að geðheilbrigðismál barna séu sett í forgang. Þá hafi ráðuneytið einnig ákveðið að hefja samvinnu ráðuneyta og þjónustukerfa um skýrari þjónustufarveg fyrir málefni barna með ADHD. Einnig verði ráðist í að skima eftir alvarleika hömlunar á biðtíma Geðheilsumiðstöðvar barna þannig að alvarleg tilfelli njóti forgangs. Jafnframt þurfi að skima biðlista svo þar bíði ekki fólk til lengri tíma eftir úrlausn sem við nánari skoðun reynist ekki henta viðkomandi. Samhliða því þurfi að skipuleggja úrræði á biðtíma, t.d. námskeið, sem stutt geti við þekkingu, færni og líðan skjólstæðinga.

Viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins við niðurstöðum barnaþings

Dómsmálaráðuneyti

Barnaþingmenn vilja að kosningaaldur verði lækkaður í 16 ár.

Dómsmálaráðuneytið greinir frá því í svari sínu að það sé bundið í stjórnarskrá Íslands að til þess að geta kosið í alþingiskosningum verði kjósandi að vera orðinn 18 ára. Það sé því ekki einföld lagabreyting að lækka kosningaaldur í 18 ár við alþingiskosningar. Hvað varði kosningarétt til sveitarstjórna þá sé 18 ára aldurinn bundinn í kosningalög. Fram kemur að það hafi farið saman að vera kjörgengur og að hafa kosningarétt. Skoða þurfi mjög vel ef slíta eigi sundur réttinn til að kjósa og réttinn til að bjóða sig fram. Byggt hafi verið á því að kjörnir fulltrúar hafi náð lögræðisaldri enda sé kjörnum fulltrúum falið að taka ákvarðanir m.a. um meðferð fjármuna og annað sem áhrif hafi jafnvel á stóran hóp manna. Þá kemur fram að það hafi ekki komið til sérstakrar skoðunar í ráðuneytinu undanfarið að leggja til breytingar á kosningaaldri.

Barnaþingmenn vilja að hlustað sé á börn

Í svari ráðuneytisins segir að í barnalögum sé kveðið á um rétt barns til að tjá sig í öllum málum er það varðar og að tekið skuli réttmætt tillit til skoðana barns í samræmi við aldur þess og þroska. Þá kemur fram að ýmsar breytingar hafi verið gerðar á barnalögum 2022 sem hafi átt að styrkja rétt barns til að tjá sig við sáttameðferð og úrlausn ágreiningsmála fyrir dómstólum. Á sama tíma hafi einnig verið lögfest mikilvægt nýmæli, sem geri ráð fyrir að barn geti haft frumkvæði að því að sýslumaður boði foreldra til samtals til að ræða fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu og umgengni. Markmið ákvæðisins sé að styrkja rétt barns til að beita sér í málum sem líkleg séu til að hafa grundvallaráhrif á velferð þess og líðan. Að lokum kemur fram að núna sé verið að endurskoða barnalög og það muni koma í ljós hvort ástæða sé til að árétta þar sjónarmið um réttindi barns enn frekar.

Barnaþingmenn vilja meiri stuðning fyrir þolendur kynferðisofbeldis og aukna fræðslu.

Fram kemur í þessu samhengi að ýmislegt hafi verið gert á undanförnum árum til að taka á kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Til dæmis hafi sérstakur stýrihópur sem leiddur er af ráðuneytinu unnið að því að fylgja eftir þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Á vef ráðuneytisins er hægt að sjá mælaborð sem sýnir stöðu aðgerða. Þá kemur fram að á undanförnum árum hafi verið unnið að úrbótum við meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu sem eigi að stuðla að bættri upplifun þolenda, þar á meðal barna. Jafnframt hafi ráðherra boðað enn frekari aðgerðir til að auka vernd brotaþola. Fram kemur einnig að í ráðuneytinu sé verið að vinna að gerð nýrrar landsáætlunar um kynbundið ofbeldi og að þar verði að finna aðgerðir sem varði börn.

Barnaþingmenn vilja jafnrétti fyrir alla.

Ráðuneytið bendir á að ýmislegt hafi verið gert á undanförnum árum til að stuðla að auknu jafnrétti. Til dæmis hafi verið gerð jafnréttisáætlun fyrir árin 2020-2023, en upplýsingar um stöðu aðgerða sé að finna á vef ráðuneytisins. Ráðuneytið tekur fram að í þeirri áætlun sé að finna ýmsar aðgerðir sem varði börn sérstaklega, s.s. um lengingu fæðingarorlofs, brotthvarf drengja og nemenda með annað móðurmál en íslensku úr námi, jafnrétti og kynbundið námsval, jafnrétti í félagslífi framhaldsskóla, jafnrétti og öryggi í leik-, grunn- og framhaldsskólum, jafnrétti og öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi og forvarnir gegn kynbundnu brotthvarfi úr íþróttum. Þá kemur fram að framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2026- 2029 hafi verið lögð fram á Alþingi og að þar sé að finna ýmsar aðgerðir sem sé ætlað að stuðla að auknu jafnrétti, t.d. aðgerðir sem miði að því að tryggja jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum og vitundarvakningu um jafnrétti í framhaldsskólum, sem eigi að auka þekkingu á einelti, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Einnig sé að finna nokkrar aðgerðir um jafnrétti í íþróttum.

Barnaþingmenn vilja aukna fræðslu um hinseginleika fyrir nemendur og kennara og að betur sé passað upp á hinsegin börn.

Í tengslum við þetta atriði nefnir ráðuneytið að fyrsta aðgerðaáætlunin í málefnum hinsegin fólks hafi verið samþykkt 2022 fyrir árin 2022 – 2025. Fram kemur að áætlunin miði að því að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks. Þar sé að finna ýmsar aðgerðir sem varði börn, s.s. um líðan hinsegin barna í skólum og hinsegin börn og ungmenni í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Þá er tekið fram að nýlega hafi verið birt drög að nýrri aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2026- 2029 í samráðsgátt stjórnvalda. Í þeirri áætlun sé sérstakur kafli um börn, þar sem m.a. sé að finna aðgerðir sem miði að auknum sýnileika hinseginleika í grunnskólum og endurskoðun á orðalagi aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla. Jafnframt sé að finna aðgerðir sem miði að því að hvetja skóla til að setja sér stuðningsáætlanir fyrir hinsegin nemendur, reglulegar úttektir á líðan hinsegin barna og ungmenna og starfsþróunarnámskeið fyrir starfsfólk skóla og frístundastarfs. Í kaflanum sé einnig að finna aðgerðir um stuðning við börn og forsjáraðila barna með kynama og ódæmigerð kyneinkenni.

Barnaþingmenn vilja að öryggi barna á flótta verði betur tryggt, þau vilja að flóttafólk fái meiri stuðning og að hætt verði að vísa fólki úr landi. Þá vilja þau einnig að það sé auðveldara að fá íslenska kennitölu.

Ísland er bundið af alþjóðlegum skuldbindingum hvað brottvísanir varðar, kemur fram í svari ráðuneytisins. Ísland er þar skuldbundið til að tryggja að einstaklingur, sem ekki hefur heimild til dvalar hér á landi og eftir atvikum innan Schengen-svæðisins, yfirgefi landið og eftir atvikum Schengen svæðið. Þetta er gert með annaðhvort samstarfi við viðkomandi útlending þar sem honum er boðin aðstoð við sjálfviljuga heimför og í undantekningartilvikum með þvinguðum flutningi í fylgd yfirvalda. Í svari ráðuneytisins kemur fram að við allar ákvarðanir um brottvísanir sé tekið tillit til aðstæðna einstaklings og hvort sjónarmið um bann við brottvísun (e. non-refoulment) eigi við um aðstæður viðkomandi. Þá segir að brottvísanir þeirra sem ekki hafi heimild til dvalar á Íslandi sé lykilþáttur í tryggri innflytjendastefnu.

Á barnaþingi árið 2023 fengu ráðherrar nokkrar spurningar sem varða réttindi flóttafólks.

1. Hvernig getum við passað að allir sem koma að okkar landi fái sanngjarna meðferð?

Ráðuneytið tekur fram að meðferð umsókna um alþjóðlega vernd sé bundin í lög og taki mið af meginreglum Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Hver og ein umsókn um vernd taki mið af einstaklingsbundnum aðstæðum og ákvarðanir Útlendingastofnunar séu kærlegar til kærunefndar útlendingamála. Þá geti einstaklingar borið ákvarðanir undir dómstóla. Jafnframt er bent á að hjá Útlendingastofnun séu í gildi verklagsreglur um mat á hagsmunum barna sem sé ætlað að tryggja að málsmeðferð stofnunarinnar sé í samræmi við lög og alþjóðlegar skuldbindingar og að heildstætt og einstaklingsbundið mat sé lagt á hagsmuni barna vegna umsókna þeirra um vernd hér á landi. Einnig að öryggi barns, velferð þess og félagslegur þroski sé hafður að leiðarljósi á öllum stigum málsmeðferðar.

2. Hvernig getum við hjálpað flóttafólki að fá kennitölu fyrr til þess að auka réttindi þeirra?

Ráðuneytið bendir í þessu samhengi á að réttindi einstaklinga sem sæki um vernd hér á landi séu ekki bundin við útgáfu kennitölu og kennitala gefi í reynd aðeins til kynna skráningu einstaklinga hjá Þjóðskrá. Þegar einstaklingur hafi fengið stöðu flóttamanns fái viðkomandi úthlutað kennitölu samhliða útgáfu dvalarleyfis á grundvelli alþjóðlegrar verndar.

3. Hvernig væri hægt að passa að öll börn eigi heimili? Líka þau sem hafa flúið heimili sín?

Öllum börnum sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi er tryggt húsnæði, á öllum stigum málsmeðferðar og eftir að henni lýkur, hvort sem niðurstaða stjórnvalda um vernd hér á landi sé jákvæð eða neikvæð, segir í svari ráðuneytisins. Þá kemur fram að sé reyndin sú að barni sé ekki veitt dvalarleyfi hér á landi í kjölfar málsmeðferðar sé húsnæði eftir sem áður tryggt allt þar til barn fer af landi brott. Meðan á málsmeðferð stendur ber Vinnumálastofnun ábyrgð á að tryggja umsækjendum, þar á meðal börnum, viðunandi húsnæði meðan umsókn er til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Viðbrögð dómsmálaráðuneytisins við niðurstöðum barnaþings

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti

Í svari ráðuneytisins kemur fram að ekki hafi verið tekið sérstaklega mið af niðurstöðum barnaþinga en stuðst hafi verið við þá menningarstefnu sem hefur verið í gildi frá 2013 þar sem lögð er áhersla á að efla framboð á menningu fyrir börn og ungmenni og stuðla að þátttöku þeirra. Ráðuneytið nefnir einnig aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028 en meginmarkmið hennar sé að efla stefnumótun og nýsköpun á sviði barnamenningar. Þar sé jafnframt lögð áhersla á aukið framboð lista og menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni. Í þingsályktuninni var lagt til að List fyrir alla verði varanlegt verkefni sem hafi það meginhlutverk að miðla listkynningum og menningarverkefnum í skólum landsins, gjarnan í samstarfi við opinberar menningarstofnanir. Listheimsóknir verði þannig sjálfsagður hluti skólastarfs á meðan skólaskylda varir og reglulegir listviðburðir hluti af daglegu lífi barna og ungmenna. Frá 2016 hefur List fyrir alla boðið grunnskólabörnum óháð búsetu upp á fjölbreytta og vandaða listviðburði.

Viðbrögð menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins við niðurstöðum barnaþings

Innviðaráðuneyti

Barnaþingmenn vilja að matur í mötuneytum skóla sé fjölbreyttari, betri og ókeypis.

Innviðaráðuneytið segir í svari sínu að mikil umræða hafi verið um skólamáltíðir á barnaþingum. Í því samhengi nefnir ráðuneytið að innviðaráðherra hafi lagt fram frumvarp í maí 2024 um að frá og með haustinu það ár yrðu skólamáltíðir gjaldfrjálsar fyrir öll börn á grunnskólastigi um allt land. Verkefnið hafi verið afrakstur samvinnu ríkis, sveitarfélaga og vinnumarkaðarins um að auka lífsgæði barna og bæta kjör fjölskyldna þeirra og nú hafi verið tryggt fjármagn til næstu ára.

Barnaþingmenn vilja betri og ódýrari samgöngur.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að barnaþingmenn hafi rætt ýmsar hugmyndir á sviði samgöngumála sem miði að bættum almenningssamgöngum innanbæjar og milli landsvæða bæði í formi strætóferða og innanlandsflugs. Einnig hafi kostir borgarlínu verið nefndir og óskir settar fram um fleiri hjóla- og göngustíga og að ókeypis væri í strætó. Ráðuneytið nefnir að samgöngusáttmálinn sem gerður var árið 2019 og uppfærður í ágúst 2024, milli ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, miði að því að stytta ferðatíma, minnka tafir, auka umferðaröryggi, draga úr kolefnisspori, bæta almenningssamgöngur og fjölga hjóla- og göngustígum en gildistími sáttmálans hafi verið lengdur til ársins 2040. Þá kemur fram að frá árinu 2019 sé búið að leggja rúmlega 20 kílómetra af hjóla- og göngustígum og stefnt sé að enn frekari árangri á næstu árum. Jafnframt nefnir ráðuneytið að í sumar hafi þjónusta Strætó verið aukin verulega á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli samgöngusáttmálans með fjölgun ferða og lengri aksturstíma. Þá sé undirbúningur fyrir fyrstu lotu borgarlínu kominn vel á veg. Einnig sé unnið að því að bæta almenningssamgöngur milli byggðalaga. Ráðuneytið nefnir að í september 2020 hafi Loftbrú verið kynnt til sögunnar sem hafi gert íbúum með lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu eða á eyjum án vegasambands kleift að fá 40% afslátt af ferðum til og frá Reykjavík, allt að 6 flugleggi á ári. Þá kemur fram að ráðherrar í innviðaráðuneytinu og forverar þess hafi ávallt lagt sig fram um að hlusta á raddir barna og ungs fólks, tekið þátt í barnaþingum og haldið sérstaka fundi um málefni barna í samgöngum. Þá sé í samgönguáætlun á hverjum tíma lögð áhersla á umferðarfræðslu og forvarnarstarf með það sérstaklega fyrir augum að ná athygli barna og unglinga.

Að lokum kemur fram að tilhlökkun sé eftir því að fylgjast með og taka þátt í næsta barnaþingi og heyra góðar hugmyndir og ábendingar barna og ungmenna um málefnasvið ráðuneytisins.

Viðbrögð innviðaráðuneytisins við barnaþingi 2023

Mennta- og barnamálaráðuneyti

Barnaþingmenn vilja að börn hafi jöfn tækifæri til þess að stunda íþrótta- og æskulýðsstarf.

Ráðuneytið nefnir í svari sínu að á barnaþingi hafi ítrekað komið fram áhyggjur barna af því að börn hafi ekki jöfn tækifæri til þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Fram kemur að í Íþróttastefnu ríkisins fyrir árin 2019-2030 sé lögð áhersla á að öll börn hafi jöfn tækifæri til þátttöku í íþróttum óháð efnahag og búsetu. Í því felist meðal annars stuðningur við íþróttafélög og samstarf við sveitarfélög til að tryggja aðgengilegar æfingar og hagstæð skilyrði fyrir öll börn. Þá er greint frá því að í íþróttastefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda varðandi hinsegin málefni sé jafnframt gert ráð fyrir að stuðla að vernd og bættum stuðningi við andlega heilsu barna og ungmenna í íþróttastarfi.

Barnaþingmenn vilja að gætt sé að andlegri líðan barna í íþróttum.

Á það er bent í svari ráðuneytisins að á barnaþingi hafi komið fram athugasemdir um að gæta þurfi að andlegri líðan barna í íþróttum. Tekið er fram að Samtökin 78 hafi unnið fræðsluefni út frá þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks og að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi haft milligöngu um framkvæmd verkefnisins. Fræðsluefnið hafi einkum verið ætlað starfsfólki og sjálfboðaliðum í íþrótta- og æskulýðsstarfi og hafi verið kynnt og útgefið í október 2024. Efninu er ætlað að stuðla að aukinni þekkingu á sértækum þörfum hinsegin barna, þannig að þátttaka þeirra í íþrótta- og æskulýðsstarfi verði örugg og án fordóma. Efnið er í formi þriggja myndskreyttra bæklinga sem bera yfirskriftina: Stöðvum fordóma og mismunun, Sýnilegur stuðningur og Aðstaða og mót. Auk þess voru gefin út tvö veggspjöld sem fjalla um vítahring fordóma í íþróttum og hvernig fordómar byggjast upp. Gerð er grein fyrir því í svarinu að svæðisstöðvar íþróttahéraða, sem komið hafi verið á fót árið 2023 af UMFÍ og ÍSÍ með stuðningi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, styðji við öll íþróttahéröð landsins og hafi það hlutverk að tryggja jafnt aðgengi barna að íþróttastarfi, óháð búsetu, efnahag, fötlun eða menningarbakgrunni, m.a. með auknu samstarfi, samræmdri þjónustu og stuðningi við íþróttafélög í nærumhverfi barna.

Barnaþingmenn vilja að hlustað sé á börn og mark tekið á skoðunum þeirra.

Í því samhengi bendir ráðuneytið á að það hafi styrkt verkefni UNICEF um réttindaskóla- og frístund og stutt þannig við markvissa innleiðingu Barnasáttmálans í skóla- og frístundastarf. Verkefnið hafi skapað raunverulegt tæki til þess að börn hafi rödd og áhrif í skólastarfi. Þau tækifæri birtist m.a. í stofnun og starfi réttindaráða þar sem nemendur taki þátt í ákvarðanatöku ásamt kennurum og stjórnendum. Með þessu fyrirkomulagi sé Barnasáttmálinn fléttaður inn í daglegt starf skóla og börnum tryggður farvegur til að þekkja og virða eigin réttindi og annarra og hafa áhrif á námsumhverfi sitt. Fram kemur að í lok árs 2024 hafi verkefnið náð til 17.200 barna af öllu landinu. Þá hafi verið gerðar breytingar m.a. á leik-, grunn- og framhaldsskólalögum sem miði að því að samræma ákvæði laganna við ákvæði Barnasáttmálans, og þar hafi einkum verið litið til 12. gr. sáttmálans. Í lögunum sé m.a. kveðið á um að börnum skuli veitt tækifæri til þess að taka þátt í gerð aðalnámskrár, skólanámskrár og stefnu sveitarfélags um grunnskólahald. Það eigi að tryggja að sjónarmið barna fái skipulegan farveg í mótun skólastarfs og þátttaka þeirra sé því ekki aðeins viðurkennd heldur formlega lögfest, sem styrki lýðræðislega menningu innan skólastarfsins og stuðli að því að raddir barna heyrist og hafi raunveruleg áhrif á námsumhverfi þeirra. Þá hafi á barnaþingi einnig verið lögð áhersla á að raddir barna heyrist almennt og því hafi stjórnvöld og mennta- og barnamálaráðuneytið unnið að síðustu ár. Gefinn hafi verið út leiðarvísir um mat á áhrifum á börn, en hluti af því mati sé að tryggja að raddir barna heyrist með því að stjórnvöld leiti markvisst eftir röddum barna og veiti þeim vettvang til að tjá sig um málefni sem snerta þau. Þar sé einnig lögð áhersla á að niðurstöður matsins leiði til þess að réttindi þeirra og hagsmunir verði raunverulega hafðir að leiðarljósi.

Barnaþingmenn vilja fleiri verkefni í stað lokaprófa.

Á barnaþingi hafa komið fram áherslur á að skipta út hefðbundnum lokaprófum fyrir verkefnavinnu. Ráðuneytið segir þessi sjónarmið samræmast stefnu stjórnvalda um námsmat, þar sem lögð er áhersla á að mat verði leiðbeinandi, fjölbreytt og samræmt með tilkomu matsferils sem unnið er að innleiðingu að hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

Barnaþingmenn vilja að aukinn metnaður verði lagður á að kenna skrift og lestur.

Ráðuneytið segir Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafa lagt áherslu á notkun lesferils, sem sé leið til að fá samanburðarhæfar upplýsingar um stöðu nemenda og vísbendingar um hvað megi bæta í lestrarferli þeirra. Vonir standi til þess að þessi aðferð geti lagt grunninn að árangursríkri lestrarkennslu sem skili öllum nemendum nauðsynlegri og góðri lestrarfærni.

Barnaþingmenn vilja að skýrar reglur gildi innan skólans um notkun farsíma og að dregið verði úr skjánotkun við kennslu.

Barnaþingmenn hafa fjallað um notkun farsíma í skólum og bendir ráðuneytið í því sambandi á að innan ráðuneytisins sé nú unnið að því að festa slíkar reglur í sessi. Starfshópur hafi verið settur á fót í ágúst 2023 sem hafi haft það hlutverk að móta leiðbeiningar um viðeigandi og örugga farsímanotkun í grunnskólum. Leiðbeiningarnar eigi að tryggja örugga farsímanotkun grunnskólanemenda í skólastarfi, þar á meðal fullnægjandi fræðslu. Þá standi til að mennta- og barnamálaráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, til þess að hægt verði að setja samræmdar reglur, sem nú hefur verið gert.

Barnaþingmenn vilja að auknu fjármagni sé varið í endurmenntun kennara.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að stjórnvöld hafi m.a. stutt við endurmenntun kennara með því að styrkja Menntafléttuna sem bjóði kennurum netnámskeið án kostnaðar og leggi áherslu á námssamfélög innan skóla þar sem kennarar geti tengt fræðilega þekkingu við kennsluhætti. Með þessu skapist vettvangur fyrir stöðuga endurmenntun, miðlun rannsókna og faglegt samfélag sem styðji við nýbreytni og faglegan metnað í skólastarfi.

Barnaþingmenn vilja að börn þurfi ekki að bíða eftir greiningu eða annarri þjónustu.

Á barnaþingi hefur verið lögð áhersla á að stytta biðtíma barna eftir greiningum og þjónustu. Ráðuneytið bendir á að lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna sé ætlað að tryggja skjót viðbrögð þegar þörf kemur upp, bæta upplýsingaflæði milli stofnanna, fela tengiliðum farsældar að samhæfa þjónustu strax í upphafi máls og styðja við stigskipta þjónustu sem geri börnum kleift að fá rétta aðstoð á réttum tíma. Þannig eigi lögin að tryggja að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og verði ekki send á eigin ábyrgð milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Einnig kemur fram að Ráðgjafar- og greiningarstöð hafi fengið sérstakt fjármagn til að bregðast við biðlistum árin 2023 - 2025 eða samtals 240 m.kr. Þá hafi Barna- og fjölskyldustofa frá árinu 2022 fengið 79,5 m.kr. til að bregðast sérstaklega við biðlistum ásamt því að nokkru fjármagni hafi verið varið í að laga húsnæði stofnanna en húsnæðisvandi hafi þar haft bein áhrif á framboð þjónustu.

Barnaþingmenn spyrja: „ Hvernig getum við verið fullviss um að barnavernd fari rétt að?“

Í svari ráðuneytisins er bent á að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi unnið framkvæmdaáætlun í barnavernd fyrir árin 2023-2027, sem samþykkt hafi verið á Alþingi í lok árs 2023. Þar sé lögð áhersla á að rétt sé staðið að barnaverndarmálum með því að samræma verklag og áhættumat milli þjónustuaðila, setja gæðaviðmið fyrir allar barnaverndarþjónustur og innleiða málavog til að fylgjast með álagi barnaverndarstarfsmanna. Fram kemur að allt framangreint eigi að tryggja fagleg vinnubrögð, jafnræði í afgreiðslu mála og að börn fái viðeigandi stuðning án óeðlilegrar seinkunar.

Barnaþingmenn vilja að foreldrar fái meiri stuðning við uppeldi barna.

Ráðuneytið nefnir í þessu samhengi að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi sett af stað þróunarverkefnið Föruneyti barna í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Háskóla Íslands. Markmið verkefnisins sé að valdefla foreldra og forsjáraðila og styðja við farsæld barna með námskeiðum og fræðslu innan leik- og grunnskóla. Fram kemur að verkefnið sé hluti af því að efla grunnþjónustu fjölskyldna í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og teljist til forvarnarverkefna sem séu í boði fyrir alla uppalendur. Verkefnið nýtir menningarnæmt námsefni; Tengjumst í leik, sem byggir á rannsóknum og gagnreyndum aðferðum. Greint er frá því að upplifun foreldra og forsjáraðila, bæði hérlendis og erlendis, sýni að með þátttöku í námskeiðinu hafi þau öðlast aukið sjálfstraust í uppeldishlutverkinu, upplifað minni streitu og að hegðunarvandi barna hafi dregist saman. Einnig hafi samskipti og samstarf við leik- eða grunnskóla barna þeirra eflst.

Að lokum tekur mennta- og barnamálaráðuneytið fram að rík áhersla sé lögð á að hlustað sé á sjónarmið barna um málefni er þau varða og að þeirra raddir heyrist í stefnumótunarvinnu ráðuneytisins. Ráðuneytið segist binda miklar vonir við nýtt verklag sem hefur verið samþykkt um úrvinnslu á niðurstöðum barnaþings og hafa væntingar til þess að niðurstöður barnaþings 2025 verði ráðuneytinu gott veganesti í komandi vinnu. 

Viðbrögð mennta- og barnamálaráðuneytisins við niðurstöðum barnaþings 2023

Michal-janek-1d1l3gU1PQk-unsplash


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica