Ósk um rannsókn á afdrifum barna
Í gær þann 7. október sendi embætti umboðsmanns barna erindi til forsætisráðherra þar sem óskað er eftir að framkvæmd verði sérstök rannsókn á afdrifum barna sem vistuð hafa verið á vegum ríkisins í úrræðum skv. 79. gr. barnaverndarlaga.
Í bréfinu segir:
„Að mati umboðsmanns er mikilvægt að lagt sé sérstakt mat á hvort meðferðarkerfið skili tilætluðum árangri og hvort veitt sé þjónusta sem raunverulega gagnast þeim skjólstæðingum sem þjónustuna þiggja. Einn mælikvarði á gæði slíkrar þjónustu er að meta hvernig þessum börnum reiðir af og vegnar á lífsleiðinni. Bent hefur verið á að óæskileg blöndun barna í meðferð hafi verið viðvarandi vandamál til lengri tíma og haft í för með sér skaðlegar afleiðingar fyrir líf og heilsu skjólstæðinga. Þá hafa einnig komið fram margvíslegar vísbendingar um að þessi hópur standi höllum fæti í samfélaginu á ýmsum sviðum, eftir 18 ára aldur. Er því að mati umboðsmanns rík ástæða til að rannsaka sérstaklega afdrif barna sem vistuð hafa verið í áðurnefndum úrræðum frá því að ríkið tók við rekstri þeirra samhliða því að Barnaverndarstofa var sett á fót árið 1996.“
Hægt er að lesa bréfið hér.