Skýrsla umboðsmanns barna til barnaréttarnefndarinnar 2020

Í þessari skýrslu til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna eru tillögur umboðsmanns barna um það sem þarf að bæta fyrir börn í samfélaginu okkar en umboðsmaður fær upplýsingar um það frá börnum, foreldrum, fólki sem vinnur með börnum og svo kemur margt fram um börn á Íslandi í könnunum og rannsóknum. Þessi útgáfa af skýrslunni hefur verið stytt með það markmið að gera hana aðgengilega öllum.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna fylgist með því hvernig ríki fara eftir Barnasáttmálanum. Í skýrslu til nefndarinnar bendir umboðsmaður barna á það sem þarf að bæta og breyta til þess að réttindi barna séu virt á Íslandi.

Um umboðsmann barna

Umboðsmaður barna vinnur að því að réttindi barna séu virt í öllu samfélaginu, bendir á það sem þarf að breyta og bæta fyrir börn, og sér um fræðslu til barna og svarar spurningum þeirra.


Barnasáttmálinn

Barnasáttmálinn er orðinn að lögum á Íslandi og það þýðir að allir eiga að fara eftir því sem í honum stendur, sérstaklega þeir sem vinna með börnum, eða taka ákvarðanir um það sem skiptir börn máli.

Umboðsmanni barna finnst mikilvægt að börn fái sömu þjónustu alls staðar og eigi sömu réttindin, alveg sama hvar þau búa, hver þau eru eða hvaðan þau koma. Ein leið til þess er að stjórnvöld geri aðgerðaáætlun um hvernig þau ætla að fara eftir Barnasáttmálanum og vinna að réttindum barna. Það hefur ekki verið gert á Íslandi.

Allir sem vinna með börnum eða taka ákvarðanir sem skipta börn máli eiga að fara eftir Barnasáttmálanum og það þarf að setja aðgerðaáætlun fyrir allt landið til þess að tryggja að öll börn fái notið réttinda sinna.

Þriðja valfrjálsa bókunin

Ísland hefur ekki skrifað undir það sem kallað er þriðja valfrjálsa bókunin við Barnasáttmálann en hún gefur börnum eða fulltrúum þeirra möguleika á að kæra brot gegn Barnasáttmálanum til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Ísland þarf að skrifa undir þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmálann svo að börn geti kært brot gegn sáttmálanum til Sameinuðu þjóðanna.

Hvað lætur ríkið mikla peninga í að styðja við börn?

Umboðsmaður barna hefur bent á að ríkisstjórnin þurfi að sýna sérstaklega hversu mikið af fjármunum (peningum) ríkisins fer í þjónustu og aðstoð við börn. Þannig er hægt að fylgjast með því hvort börn séu raunverulega í forgangi og hvort það sé verið að auka fjármagn sem fer í að styðja við börn en það er mikilvægt að fylgjast með því.

Það þurfa að vera til upplýsingar sem sýna raunverulega hversu miklir peningar fara í þjónustu og aðstoð við börn til þess að hægt sé að fylgjast með því að börn séu í forgangi í samfélaginu.

Upplýsingar um börn

Á hverjum degi eru teknar ákvarðanir um börn og þess vegna þurfa að vera til góðar upplýsingar um þau í samfélaginu okkar. Þeir sem taka þessar ákvarðanir, þurfa að vita hvernig börn hafa það, hvað þeim finnst og hverju þau þurfa á að halda. Það er líka mikilvægt að safna saman öllum upplýsingum um börn og nýta þær betur, svo að allar ákvarðanir um börn byggi á því sem er þeim fyrir bestu.

Ákvarðanir um börn þurfa alltaf að byggja á því sem er þeim fyrir bestu en til þess að það sé hægt þurfum við betri upplýsingar um börn í samfélaginu, um hvað þeim finnst, og hverju þau þurfa á að halda.

Fólk sem vinnur með börnum og fyrir börn

Það er mikilvægt að þeir sem vinna með börnum fái góðan undirbúning fyrir það og fræðslu um réttindi barna og mismunandi þarfir þeirra. Umboðsmanni barna finnst að það eigi að vera hluti af námi kennara og annarra sem vinna með börnum. Það er líka mikilvægt að allir sem vinna með börnum viti að það er skylda þeirra að upplýsa barnavernd, ef börn búa við slæmar aðstæður og þurfa á hjálp að halda. Aðrir sem vinna með börnum eða taka ákvarðanir sem hafa áhrif á börn, þurfa að fá þjálfun í að tala við börn.

Fólk sem vinnur með börnum þarf að fá kennslu um réttindi barna, þarf að vita að þau eiga að tilkynna til barnaverndar ef börn þurfa á aðstoð að halda, og eiga að fá þjálfun í að vinna með börnum og tala við þau.

Það sem er barni fyrir bestu

Í Barnasáttmálanum segir að ákvarðanir um börn eigi alltaf að taka út frá því sem er barni fyri bestu. Þess vegna þurfa þeir sem taka ákvarðanir að fá leiðbeiningar um það hvernig á að komast að því sem er barni eða börnum fyrir bestu.

Þeir sem taka ákvarðanir um börn þurfa að fá leiðbeiningar um það hvernig á að taka ákvörðun um það sem er barni eða börnum fyrir bestu.

Börn eiga að fá að taka þátt í ákvörðunum um það sem skiptir þau máli

Í Barnasáttmálanum kemur fram að ef taka á ákvörðun um eitthvað sem skiptir börn máli þá eiga börn að fá að taka þátt í þeirri ákvörðun, með því að fá tækifæri til að segja sína skoðun og að tekið sé mark á því sem börn segja. Það eru samt mörg dæmi um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar um mál sem skipta börn og unglinga miklu máli, án þess að þau hafi fengið tækifæri til að hafa áhrif á þá ákvörðun. Stytting framhaldsskólanna er dæmi um mál þar sem ekki var leitað eftir skoðunum barna og ungmenna.

Börn eiga að fá að segja sína skoðun þegar taka á ákvarðanir um mál sem skipta þau máli, og taka á mark á því sem þau segja. Til þess að það geti gerst þurfa þau að fá upplýsingar sem þau skilja og tækifæri til þess að segja sína skoðun. 

Ungmennaráð sveitarfélaga

Í sveitarfélögum eru teknar margar ákvarðanir sem skipta börn máli. Ein leið fyrir börn til þess að hafa áhrif þar sem þau búa er að taka þátt í ungmennaráði sveitarfélaga. Ungmennaráð eru ekki í öllum sveitarfélögum og hlutverk þeirra eru mismunandi og þau fá ekki alltaf að hafa raunveruleg áhrif. Þess vegna er mikilvægt að það standi í lögum að sveitarfélög eigi að vera með ungmennaráð og að ungmennaráð eigi að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar eru í sveitarfélagi og sem skipta börn máli.

Börn eiga að fá tækifæri til að taka þátt í ungmennaráði í sínu sveitarfélagi og það á að vera ljóst hvernig ungmennaráð getur haft áhrif á ákvarðanir sem teknar eru og sem skipta börn máli.

Lækkun kosningaaldurs

Á Alþingi hafa nokkrar tillögur verið lagðar fram um að 16 ára unglingar eigi að fá að kjósa í sveitarstjórnarkosningum en núna er kosningaaldurinn 18 ár. Það að fá að kjósa um þá sem stjórna sveitarfélaginu sem maður býr í er ein leið fyrir börn til þess að hafa áhrif í samfélaginu. Þessar tillögur hafa þó ekki verið samþykktar og umboðsmanni barna finnst mikilvægt að lækka kosningaaldurinn en líka að börn fái fræðslu um aðrar leiðir til þess að hafa áhrif.

Börn eiga að fá að hafa áhrif á samfélagið og því þarf að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum en líka með fræðslu í skólum um aðrar leiðir til að taka þátt og hafa áhrif.

Börn á flótta

Það koma börn á hverju ári til Íslands sem hafa þurft að fara frá heimalandi sínu, stundum vegna stríðs eða ofbeldis og stundum vegna þess að fjölskyldan leitar eftir betra lífi. Stundum koma börnin ein til Íslands en oftast koma þau með fjölskyldum sínum. Þau vilja fá að vera og búa á Íslandi og sækja því um alþjóðlega vernd hér á landi. Þá verða íslensk stjórnvöld að taka ákvörðun um það hvort börnin þurfi alþjóðlega vernd og fái því að vera á Íslandi eða hvort þau verði send til heimalands þeirra eða til landsins sem þau komu fyrst til á leiðinni til Íslands.

Börn sem þurfa að fara frá heimalandi sínu og sem óska eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi eiga að fá upplýsingar svo þau skilji hvernig ákvörðun stjórnvalda um umsókn um alþjóðlega vernd er tekin. Þegar stjórnvöld hér taka ákvarðanir um það hvort börn fái alþjóðlega vernd á ákvörðunin alltaf að vera um það sem er barninu fyrir bestu.

Börn eftir skilnað foreldra 

Á hverju ári ganga mörg börn í gegnum skilnað foreldra en það getur haft mikil áhrif á líf þeirra. Foreldrar sem eru að skilja þurfa að fá stuðning og ráðgjöf því skilnaður hefur

mikil áhrif á börn og sérstaklega þegar foreldrarnir eru ósammála og eru jafnvel að rífast um hvar börnin eigi að vera. Það er líka mikilvægt að börn fái að segja sína skoðun, ef þau vilja það, þegar foreldrar eru að skilja og það er kannski verið að ræða hvar börn eiga að búa, eða hversu mikið þau fá að vera með báðum foreldrum.

Í dag er langur biðlisti eftir aðstoð fyrir foreldra sem eiga erfitt með að ákveða ýmislegt um börn sín eftir skilnað. Þá vita börn ekki hvernig líf þeirra og aðstæður verða sem er mjög slæmt. Það verður því að stytta biðina eftir ráðgjöf til foreldra sem eru að skilja.

Börn sem eiga foreldra sem skilja, verða að fá að hafa áhrif á ákvarðanir um hvar þau eiga að búa og hversu mikinn tíma þau fá með báðum foreldrum. Foreldrar sem eru að skilja þurfa að fá stuðning og ráðgjöf um hvernig þau eiga að vinna saman sem foreldrar, þrátt fyrir að búa ekki lengur á sama heimili. Það má ekki vera biðlisti eftir þannig ráðgjöf því það hefur neikvæð áhrif á börn og fjölskyldur þeirra.



Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica