Niðurstöður könnunar um Barnasáttmálann hjá ríkis-stofnunum

Umboðsmaður barna á að fylgjast með því að Barnasáttmálinn sé uppfylltur. Þess vegna sendi umboðsmaður könnun eða spurningarlista til allra ríkis-stofnana. Þar bað hann um upplýsingar um það hvernig verið er að fara eftir sáttmálanum. Í þessari skýrslu er fjallað um svörin sem bárust við spurningarlistanum.

Um umboðsmann barna

 

Umboðsmaður barna vinnur að því að réttindi barna séu virt í öllu samfélaginu, bendir á það sem þarf að breyta og bæta fyrir börn, og sér um fræðslu til barna og svarar spurningum þeirra.

 

Umboðsmaður barna hefur verið til á Íslandi frá árinu 1995. Umboðsmaður barna talar máli allra barna í íslensku samfélagi og vinnur að réttindum þeirra með því að benda á ýmislegt sem þarf að breyta og bæta fyrir börn. Umboðsmaður barna veitir líka börnum fræðslu og upplýsingar um réttindi þeirra og Barnasáttmálann, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Börn og unglingar geta alltaf sent skilaboð til umboðsmanns barna og fengið svör við spurningum sínum

Barnasáttmálinn er orðinn að lögum á Íslandi og það þýðir að allir eiga að fara eftir því sem í honum stendur, sérstaklega þeir sem vinna með börnum, eða taka ákvarðanir um það sem skiptir börn máli.

 

Meðal þess sem umboðsmaður barna gerir er að fylgjast með því að Barnasáttmálinn sé uppfylltur. Þess vegna sendi umboðsmaður barna könnun eða spurningalista í janúar 2020 til allra ríkisstofnana. Þar bað umboðsmaður um upplýsingar um það hvernig er verið að fara eftir Barnasáttmálanum. Hann vildi vita hvernig börn fá upplýsingar, þjónustu og að taka þátt í málum sem hafa áhrif á þau. Hér á eftir er fjallað um svörin við spurningalistanum. Umboðsmaður barna ætlar að halda áfram að fylgjast með þessu.

Stofnanir ríkisins eru til dæmis ráðuneyti og aðrar stofnanir sem veita börnum þjónustu og taka ákvarðanir sem skipta börn máli.

 

 

Svör við spurningalistanum

2. grein Barnasáttmálans

Öll börn eru jöfn

Öll börn eiga að njóta allra réttinda Barnasáttmálans án tillits til: 

 • Hver þau eru,
 • Hvar þau búa,
 • Hvaða tungumál þau tala,
 • Hvað þau trúa á,
 • Hvernig þau hugsa eða líta út, 
 • Af hvaða kyni þau eru,
 • Hvort þau eru fötluð, rík eða fátæk,
 • Hvað fjölskylda þeirra gerir eða trúir á.

Aldrei skal koma fram við barn af óréttlæti.


 

Stofnanir ríkisins eru alls 155 og fékk umboðsmaður barna 132 svör við spurningalistanum sínum. Það eru því til góðar upplýsingar um hvernig er verið að uppfylla Barnasáttmálann og tryggja réttindi barna hjá stofnunum ríkisins.

Svörin sýndu að stofnanir hafa mikinn áhuga á að fara eftir Barnasáttmálanum og bæta þjónustu og upplýsingar til barna. Það er jákvætt. Til þess að svo megi verða þurfa þeir sem þar vinna að fá meiri fræðslu um réttindi barna. Þeir þurfa líka að fá þjálfun í því að tala við börn og vinna með þeim. 

Umboðsmaður barna ætlar því að bjóða upp á námskeið á næsta ári fyrir um hvernig á að fara eftir Barnasáttmálanum. Námskeiðið er fyrir þá sem vinna hjá stofnunum.

Mynd með færslu

Þekkir starfsfólkið Barnasáttmálann?

42. grein Barnasáttmálans

Allir verða að þekkja réttindi barna

Stjórnvöld skulu fræða börn og fullorðna um Barnasáttmálann reglulega svo allir þekki réttindi barna.

 • Það er mikilvægt að allir þekki réttindi barna.

Hjá stofnuninni er góð þekking á efni Barnasáttmálans.

Svörin sýndu að starfsfólki stofnana þekkir ekki Barnasáttmálann nógu vel. Þau þekkja ekki réttindi barna sem þar er fjallað um og því þarf að bæta úr því. 

Tafla sem fylgir skýrslu

Starfsmenn hafa fengið fræðslu eða kynningu á efni Barnasáttmálans.

Svörin við spurningalistanum sýna að bara 14% þeirra sem vinna hjá stofnunum hafa fengið fræðslu eða kynningu um Barnasáttmálann. Það er mikilvægt að sem allir þekki Barnasáttmálann og réttindi barna. 

Kökurit sem fylgir skýrslu 

 

Starfsmenn hafa fengið þjálfun í því að vinna með og eiga í samskiptum við börn? 

Kökurit sem fylgir skýrslu

Það er líka mikilvægt að allir sem vinna með börnum læri hvernig á að tala við börn og vinna með þeim. Svörin við spurningalistanum sýna að minna en helmingur af starfsfólki stofnana hefur lært það. Til þess að uppfylla það sem stendur í Barnasáttmálanum þarf að hækka þá tölu. Umboðsmaður barna ætlar að vinna í því að finna leiðir til þess.

Mynd með færslu

Kynning á Barnasáttmálanum

Meira en helmingur þeirra sem svöruðu sögðust hafa áhuga á að fá kynningu á Barnasáttmálanum. Það er mjög gott því það þýðir að flestir vita að réttindi barna skipta miklu máli. Það þarf að búa til nýtt fræðsluefni þannig að allir geti fengið góðar upplýsingar um hann og réttindi barna.

Er áhugi á að fá frekari kynningu á efni Barnasáttmálans? 

Kökurit sem fylgir skýrslu

Að taka á móti börnum og vinna með þeim

 

13. grein Barnasáttmálans

Frelsi til að deila hugmyndum sínum

Börn eiga rétt á því að deila skoðunum sínum, vitneskju og hvernig þeim líður, svo lengi sem það hefur ekki skaðleg áhrif á annað fólk.


Húsnæði

Í spurningalistanum var spurt um húsnæði stofnana og hvort það sé barnvænt. Það þýðir að húsnæði sé þannig að börnum líði vel þar. Flestir sem svöruðu spurningalistanum sögðu að stofnunin væri í húsnæði sem er barnvænt. Nokkrir sögðu að húsnæðið væri ekki barnvænt. 

Ef börn þurfa eða vilja heimsækja stofnanir verða þau að finna að þau séu velkomin. Búa þarf til lista yfir það sem þarf að gera til þess að gera húsnæði barnvænt.

Tafla sem fylgir skýrslu

Heimasíður og kynningarefni

17. grein Barnasáttmálans

Aðgengi að upplýsingum

Börn eiga rétt á því að sækja upplýsingar á netinu, úr sjónvarpi, útvarpi, tímaritum, bókum og öðrum miðlum. Fullorðnir eiga að gæta þess að upplýsingar séu börnum ekki skaðlegar. Stjórnvöld eiga að hvetja útgefendur og fjölmiða til þess að deila upplýsingum með fjölbreyttum leiðum sem öll börn skilja.


 

 

Til þess að börn geti haft skoðanir á málum sem hafa áhrif á líf þeirra verða þau fyrst að fá upplýsingar sem þau skilja. Í spurningalistanum var spurt hvort stofnanir séu með upplýsingar á heimasíðum sínum sem eru sérstaklega fyrir börn. 

Svörin sýna að það er allt of lítið af upplýsingum sem eru sérstaklega fyrir börn á heimasíðum stofnana. Mjög lítið er af öðrum upplýsingum eins og til dæmis bæklingum sem eru sérstaklega fyrir börn. Þessu þarf að breyta og það þarf að búa til leiðbeiningar fyrir stofnanir um hvernig upplýsingar fyrir börn eiga að vera.

Vefsíða stofnunarinnar er á einföldu máli sem börn skilja.

Tafla sem fylgir skýrslu

Það eru ekki margar vefsíður sem eru góðar fyrir börn að skoða. Því þarf að breyta.

Kynningarefni stofnunarinnar er barnvænt.

Tafla sem fylgir skýrslu

Það er lítið um kynningarefni fyrir börn. Það má bæta úr því. 

Mynd með færslu

Áhrif á börn

3. grein Barnasáttmálans

Það sem er barninu fyrir bestu

 • Þegar fullorðnir taka ákvarðanir eiga þeir að hugsa um hvaða áhrif þær hafa á börn og eiga að gera það sem er best fyrir þau. 

 • Stjórnvöld eiga að sjá til þess að fólk sem er ábyrgt fyrir börnum hafi hagsmuni þeirra alltaf að leiðarljósi og að staðir sem ætlaðir eru börnum uppfylli einnig þær skyldur.


 

Leggur stofnunin sérstaklega mat á það hvaða áhrif tillögur hennar eða aðgerðir hafa á börn?

Ef stofnanir eru að fara taka ákvörðun um til dæmis breytingar sem geta skipt máli fyrir börn þá þarf sérstaklega að skoða áhrifin á börn, bæði jákvæð og neikvæð. 

Í svörum við spurningalistanum kom fram að það er bara helmingur stofnana sem hafa sérstaklega skoðað áhrif á börn. Þá tölu þarf að hækka með því að búa til leiðbeiningar um Barnasáttmálann. Líka þarf að athuga hvernig hægt er að skoða áhrif sem ákvarðanir hafa á börn.

Tafla sem fylgir skýrslu

 

Barnasáttmálinn hjá stofnunum

4. grein Barnasáttmálans

Réttindi gerð að veruleika

Stjórnvöld þurfa að gera allt til að sjá til þess að hvert og eitt barn njóti allra réttinda Barnasáttmálans.


 

Í spurningalistanum voru stofnanir beðnar um að segja frá því hvernig þær fara eftir Barnasáttmálanum eða innleiða hann í starfinu. Svörin sýndu að mjög fáar stofnanir hafa farið í sérstaka vinnu við að innleiða Barnasáttmálnn. Flestar stofnanir höfðu þó gert eitthvað til þess að gera húsnæðið eða þjónustuna barnvæna. Flestar stofnanir hafa áhuga á því að gera betur og gera meira fyrir börn. Það er mjög jákvætt en það þarf að sýna þeim hvernig á að gera það með fræðslu og leiðbeiningum.

Samtal við börn og virðing fyrir skoðunum þeirra

12. grein Barnasáttmálans

Virðing fyrir skoðunum barna

Börn eiga rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim. 


 

Í Barnasáttmálanum er grein um þátttöku barna en það þýðir til dæmis, að þegar taka á ákvörðun um eitthvað sem hefur áhrif á börn þá á að ræða við börn, áður en ákvörðunin er tekin, til þess að fá að heyra skoðanir þeirra. Þannig er hægt að taka betri ákvarðanir fyrir öll börn.

Umboðsmaður barna vildi vita hvort stofnanir séu að ræða við börn ef starf stofnunarinnar hefur áhrif á börn. Meirihluti stofnana virðist ekki vera að gera það og þar þarf að gera betur. Stofnanir þurfa að fá aðstoð við þetta verkefni. Til dæmis með leiðbeiningum um hvernig hægt er að tala við börn og fá fram skoðanir þeirra.

Hefur stofnunin haft samráð við börn í sínu starfi?

Kökurit sem fylgir skýrslu

Umboðsmaður barna ætlar að halda áfram að vinna í því að börn fái að segja skoðanir sínar á öllum málum sem hafa áhrif á þau og að mark sé tekið á þeim.

Mynd með færslu

Annað

Í spurningalistanum var einnig hægt að skrifa um annað sem þeim sem svöruðu spurningalistanum fannst mikilvægt að kæmi fram. Hér fyrir neðan eru nokkur þannig svör frá stofnunum.

 

 • Kynning á sáttmálanum og því hvernig innleiða megi hann væri þörf og holl . En ekki síst áhugaverð.
 • Börn skipa stóran sess í hjörtum okkar. Stofnunin er boðin og búin til að leggja sitt af mörkum til að vinna að málefnum barna.
 • Nýlega hefur verið rætt að uppfæra efni á heimasíðu með tilliti til barna. Það verður gert á næstu vikum og mánuðum.
 • Samráð við börn og ungmenni hefur almennt aukist.
 • Þakklæti fyrir störf umboðsmanns barna í þágu betra og barnvænna samfélags. Það er góður vilji innan stofnunnar til að eiga gott samstarf og þiggja ráðleggingar.
 • Fljótt á litið mætti áætla að starfsemi stofnunarinnar væri ekki beint tengd börnum. En við nánari skoðun eru vissulega þættir í starfseminni sem falla beint að Barnasáttmálanum. Það er vissulega vilji stofnunarinnar að höfða til barna og að börn hafi meira að segja um starfsemina.

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica