Netið og samfélagsmiðlar - leiðbeiningar til foreldra

Réttur barna til einkalífs

Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs og persónuvernd á sama hátt og fullorðnir og eiga því sjálf að fá að hafa áhrif á það hvað aðrir fá að vita um þau. Þó svo að foreldrar eigi rétt á að taka ákvarðanir sem varða hag barna og daglegt líf þeirra þýðir það ekki að foreldrar eigi ótakmarkaðan rétt á því að birta ljósmyndir og aðrar upplýsingar um eigin börn á samfélagsmiðlum.

Stelpa að taka sjálfsmynd

Hugaðu að þessu...

Áður en þú setur ljósmynd eða aðrar upplýsingar um barnið þitt (eða börn annarra) á samfélagsmiðla er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  • Fáðu alltaf samþykki barnsins fyrir birtingu ljósmyndar eða annarra upplýsinga um það á samfélagsmiðlum. Jafnvel mjög ung börn geta haft sterkar skoðanir á því hvað aðrir eiga að fá vita um þau. 

  • Staldraðu við áður en þú setur inn ljósmynd eða aðrar upplýsingar á samfélagsmiðla um börn og veltu fyrir þér hvort þetta eigi yfirleitt erindi við aðra.

  • Ekki birta myndir af börnum nöktum eða fáklæddum, hvort sem myndin er tekin heima í baði eða á sólarströnd.

  • Ekki birta ljósmynd af barni sem líður illa, er að sýna af sér erfiða hegðun, er veikt eða er að öðru leyti í viðkvæmum aðstæðum.

  • Forðastu að birta upplýsingar og ljósmyndir af börnum í umræðuhópum á samfélagsmiðlum. Þó svo að nafn barnsins komi ekki fram er auðveldlega hægt að tengja það við foreldri. Ef þú telur þig hafa gagn af því að spjalla við foreldra í sömu stöðu um t.d. veikindi barna, óskaðu frekar eftir spjalli við þá beint, t.d. í síma eða í einkaskilaboðum, frekar en að gera það í opnu spjalli í stórum umræðuhópum.

  • Ekki ganga út frá því að börn séu hlynnt því að þú segir frá atvikum í lífi þeirra á samfélagsmiðlum. Spurðu barnið hvort þú megir segja frá t.d. sigrum á íþróttamótum eða góðum námsárangri, áður en þú gerir það. 

  • Fullvissaðu þig um að friðhelgisstillingar þínar á samfélagsmiðlum séu þannig að ljósmyndir og aðrar upplýsingar um börnin þín séu ekki aðgengilegar öllum.

  • Áður en þú birtir ljósmyndir, kannaðu hvort þú þurfir að aftengja GPS hnit, þannig að ekki sé hægt að sjá hvar myndin er tekin. 

  • Í öllum tilvikum, hugsaðu um það sem barninu er fyrir bestu, leitaðu eftir sjónarmiðum þess áður en þú birtir eitthvað um það á samfélagsmiðlum, og hugsaðu um hvaða áhrif það gæti haft á barnið til skemmri eða lengri tíma.


Ungmenni líklegri til að upplifa afð myndir hafi verið birtar án samþykkis

Réttur barna til einkalífs

Frekari upplýsingar

Hér eru hlekkir á frekari upplýsingar varðandi persónuvernd barna og rétt þeirra til einkalífs.


Stelpa að skrifa á tölvu

Upp

Netöryggi

Börn og Internetið

Internetið er gagnlegt verkfæri sem býður börnum upp á endalausa möguleika til fræðslu, leikja, skemmtunar og samskipta. Það er hins vegar nauðsynlegt að foreldrar eigi reglulega samtal við börn og leiðbeini þeim um hvernig eigi að nota Netið á öruggan og uppbyggilegan hátt. Þetta samtal getur verið ákveðin áskorun fyrir foreldra þar sem börnin eru í flestum tilvikum mun betur að sér en þeir um tækni og Netið. En þó svo að börn séu fljót að læra á tækin þýðir það ekki endilega að þau hafi þroska til þess að skilja til fulls hvaða áhrif notkunin getur haft í för með sér.

Byrjaðu snemma!

Regluleg samtöl foreldra við börn um netnotkun skipta miklu máli og best er að byrja á meðan barnið er ungt og er að kynnast símum, tölvum og Netinu, það er líklegast til árangurs.

  • Netöryggi er jafn mikilvægt umræðuefni foreldra og barna og t.d. umferðaröryggi, útivistartími og annað sem varðar öryggi barna og heilsu.
  • Þetta þarf ekki að vera flókið – bara það að minna á netöryggi af og til getur haft mikil áhrif.

Tafla - telja foreldra sína aldrei athuga netskoðun

Ræðum reglulega um netöryggi og samskipti á Netinu

Setjum mörk en verum raunsæ

Á sama hátt og þegar foreldrar kenna börnum umferðaröryggi þarf mismunandi nálgun eftir aldri barna. Foreldrar leiða yngstu börnin yfir götur til að byrja með en leyfa eldri börnum að fara sjálf yfir götur, um leið og þeir minna reglulega á umferðarreglur og mikilvægi þess að fara eftir þeim. Á sama hátt er eðlilegt að foreldrar séu viðstaddir og fylgist vel með því þegar t.d. leikskólabörn fá fyrst að fara t.d. í einfalda tölvuleiki sem eru leyfilegir fyrir þeirra aldurshóp, en aðra nálgun þarf fyrir eldri börn, með áherslu á leiðbeiningar og samtalið.

Setjum okkur sameiginlegar reglur

Það hefur reynst mörgum fjölskyldum vel að setja sér reglur um net- og símanotkun, sem þá gilda að sjálfsögðu jafnt um foreldra og börn, eins og t.d.:

  • Allar máltíðir verði tækjalausar.
  • Að síðasti klukkutíminn fyrir háttatíma sé tækjalaus til að stuðla að betri svefni.
  • Að fjölskyldumeðlimir skilji síma og önnur tæki eftir í alrými heimilisins þegar farið er í háttinn.

tölur um farsímaeign barna

Eru foreldrastýringar lausnin?

Símar og önnur tæki bjóða stundum upp á möguleika eins og tímastillingar og annað sem takmarkar skjánotkun, en best er þó að stuðla að því að börn og ungmenni læri að taka skynsamar ákvarðanir og að hafa stjórn á eigin netnotkun. Til eru ýmis verkfæri sem miða að því að koma í veg fyrir að börn geti nálgast efni á Netinu sem er ekki við hæfi þeirra, en hafðu í huga að börn eru yfirleitt fljót að læra leiðir í kringum foreldrastýringar og því er betra að fræða börn og styðja þau í því að taka góðar ákvarðanir.

Fjölskyldur þurfa að ræða saman og setja sér sameiginlegar reglur um net- og símanotkun fyrir alla fjölskylduna.

Móðir og dóttir ræða saman

Upp

Hlutverk foreldra

Verum góðar fyrirmyndir!

Það er nauðsynlegt fyrir foreldra að velta fyrir sér hvers konar fyrirmyndir þeir eru með því að skoða eigin hegðun og tjáningu á t.d. samfélagsmiðlum eða í athugasemdakerfum fjölmiðla.

  • Sýndu gott fordæmi með því að halda eigin síma- og netnotkun í hófi og haga þér á Netinu eins og þú vilt að börnin þín geri.
  • Ræddu við börnin um þína eigin upplifun af Netinu og samfélagsmiðlum. Sýndu þeim vefsíður sem þú hefur gaman af að heimsækja og smáforrit sem þú notar og útskýrðu fyrir þeim hvernig þetta nýtist þér í daglegu lífi.
  • Með því að sýna börnum jákvæðar hliðar Netsins kennir þú þeim líka að vera gagnrýnin gagnvart því sem er neikvætt, gagnslaust eða jafnvel skaðlegt.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-12

Foreldrar eru mikilvægustu fyrirmyndir barna og setja fordæmi með eigin netnotkun og samskiptum á Netinu.

Sýnum áhuga

Börn nota Netið á fjölbreyttan hátt og margt af því sem þar er að finna er bæði gagnlegt og fróðlegt.

  • Spurðu börnin þín um þau smáforrit sem þau nota, vefsíður sem þau heimsækja og tölvuleiki sem þau spila og taktu síðan fram hvað þér finnst vera jákvætt og skemmtilegt.
  • Ræddu líka við þau um það sem veldur þér áhyggjum eða þú hefur einhverjar efasemdir um.
  • Hugsaðu í lausnum, ef barn er að spila tölvuleik sem er ekki við hæfi þess, er hægt að finna eitthvað annað sambærilegt?
  • Í stað þess að vera með boð og bönn er betra að ræða við barnið og komast að samkomulagi um þær vefsíður eða þá tölvuleiki sem barn fær að skoða og spila, það er yfirleitt vænlegra til árangurs.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-05_1649769114977

Sýndu því áhuga sem barnið er að gera á Netinu, ræddu áhyggjur þínar ef einhverjar eru, en líka það sem er jákvætt og skemmtilegt.

Byggjum upp traust og verum til staðar

Börn geta rekist á ýmislegt á Netinu eða fengið sent efni sem er ekki við þeirra hæfi. Það er mikilvægt að foreldrar komi þeim skilaboðum til barna að þau geti leitað til þeirra ef þau rekast á eitthvað á Netinu eða fá eitthvað sent sem þau skilja ekki, finnst óþægilegt, eða líður illa yfir að hafa séð.

  • Fullvissaðu barnið um að þú munir hlusta á það og ekki bregðast of harkalega við.
  • Ef barnið leitar til þín, haltu ró þinni og ræddu við það af stillingu, þannig að barn finni ekki til sektarkenndar eða skammar. Þú vilt tryggja að barnið leiti til þín aftur.
  • Gefðu barninu tækifæri á að opna sig og tjá sig um um sína upplifun og gefðu því leiðbeiningar við hæfi, t.d. um hvernig á að tilkynna um óæskilegt efni á Netinu eða nýta friðhelgisstillingar eða aðrar leiðir til þess að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.
  • Hrósaðu barninu fyrir að leita til þín, það er mikilvægt að byggja upp traust og viðhalda því, svo barnið viti að það geti leitað til þín, án þess að óttast viðbrögð þín, það er mikilvægur þáttur í því að tryggja öryggi barnsins.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-13

Það er mikilvægur þáttur í því að tryggja öryggi barns að það geti leitað til foreldra vegna þess sem það sér eða upplifir á Netinu.

Upp

Umræðupunktar fyrir foreldra

Umræðupunktar fyrir foreldra fyrir samtal við barn um samskipti á netinu

  • Komdu fram við aðra á Netinu eins og þú vilt láta koma fram við þig og mundu að sömu reglur gilda um samskipti á Netinu og annars staðar.
  • Það er stundum hægt að eyða ljósmyndum eða öðru efni á Netinu en það getur lifað áfram ef t.d. einhver nær að taka skjáskot af því.
  • Ekki birta myndir, upptökur eða aðrar upplýsingar um aðra án þess að fá leyfi þeirra fyrst.
  • Það er auðvelt að deila öðru og meira á Netinu en maður ætlar sér, og því er gagnlegt að kunna hvernig maður skiptir fylgjendum eða vinum á samfélagsmiðlum í hópa, eftir því hversu vel maður þekkir þá, eða hverju maður vill deila með þeim.
  • Það er ekkert að því að tilkynna eða útiloka einstaklinga á samfélagsmiðlum sem sýna af sér slæma hegðum. Netið er ekki staður fyrir fólk til þess að sýna af sér hegðun sem ekki væri liðin annars staðar.
  • Ekki taka þátt í því að deila slúðri, leiðinlegum athugasemdum eða myndum af öðrum.
  • Farðu varlega í að opna tölvupósta, hlekki eða fylgiskjöl ef þú ert ekki viss um innihaldið, það er algeng leið fyrir tölvuþrjóta til að komast yfir upplýsingarnar þínar.
  • Hugsaðu um leiðir til að vernda aðgangsorðin þín og ekki deila þeim með neinum.

hönd á síma

Ræddu við barnið um samfélagsmiðla

Á Íslandi er aldurstakmark fyrir þátttöku barna í upplýsingasamfélaginu 13 ár og þurfa yngri börn því samþykki foreldra t.d. fyrir því að skrá sig sem notendur á samfélagsmiðlum, óháð þeim aldurstakmörkunum sem miðlarnir sjálfir setja fyrir sína notendur. 

Það er mikilvægt að foreldrar virði þessi aldurstakmörk og geri sér grein fyrir því að þau eru sett til verndar börnum, og byggja m.a. á því að börn undir 13 ára aldri hafa ekki tekið út fullan andlegan og félagslegan þroska og búa því ekki endilega yfir hæfni til þess að átta sig á því hvaða áhrif samskipti á Netinu geta haft og hvernig þau eru öðruvísi en önnur samskipti.

  • Ef barn er orðið 13 ára skaltu ræða við það um friðhelgisstillingar á samfélagsmiðlum og af hverju þær skipta máli. Sýndu barninu hvernig á að takmarka með hverjum maður deilir upplýsingum og hvernig á að tilkynna um óæskilegt efni eða óæskilega hegðun og hvernig er hægt að útiloka einstaklinga frá eigin samfélagsmiðlum.
    • Skoðið í sameiningu tilraunir sem margir skólar hafa gert til að sýna hversu auðveldlega færslur á samfélagsmiðlum geta farið um allan heim á mjög stuttum tíma.
  • Bentu barninu á að einkasamtöl á samfélagsmiðlum og í skilaboðaforritum eru ekki örugg samskiptaleið og ekki er hægt að ganga að því sem vísu að trúnaður ríki um það sem þar er rætt. Það er hægt að taka skjáskot af slíkum samskiptum og sum skilaboðaforrit vista samskipti milli notenda.
  • Ekki gleyma því að ræða líka við barnið um jákvæða eiginleika samfélagsmiðla, hvernig má skapa tónlist og annað efni og miðla því til annarra, leita sér fróðleiks, skemmta sér og eiga í samskiptum við aðra.
  • Bentu barninu á að þó svo að sumir virðist lifa fullkomnu lífi á samfélagsmiðlum, þá er raunveruleikinn oft annar.
  • Upplýstu barnið um að það þurfi ekki að svara öllum skilaboðum eða taka þátt í allri umræðu á samfélagsmiðlum og það þarf heldur enginn að „læka“ allt sem frá öðrum kemur.
  • Komdu þeim skilaboðum á framfæri við barnið að það sé í lagi og jafnvel nauðsynlegt að taka sér hlé frá samfélagsmiðlum af og til.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-15

Ræddu við barnið um jákvæðar og neikvæðar hliðar samfélagsmiðla, hvernig nýta má friðhelgisstillingar og mikilvægi þess að taka sér reglulega hlé.

Ræddu við barnið um notendaskilmála samfélagsmiðla og hvað felst í samþykki þeirra

Fæstir notendur samfélagsmiðla hafa lesið langa og ítarlega notendaskilmála þeirra en það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að með samþykki þeirra er verið að heimila fyrirtækjunum á bak við samfélagsmiðlana að safna miklu magni af upplýsingum um notendur sem síðan eru jafnvel seldar öðrum fyrirtækjum.

  • Samfélagsmiðlar safna upplýsingum um allt sem notandi gerir þar, eins og niðurstöður leita, hverjir eru á vinalista viðkomandi og hvaða hópum hann tilheyrir. Það sama á við um ljósmyndir sem notandi setur inn, skilaboð sem hann sendir og tekur við, athugasemdir við færslur annarra notenda og allt sem viðkomandi skoðar þar.
  • Samþykki getur líka falið í sér að samfélagsmiðill safni upplýsingum um það sem notandinn gerir annars staðar á netinu, eins og hver IP tala notandans er, hvaða vefsíður hann eða hún skoðar, hversu oft, og með hvaða vafra.
    • Skoðaðu með barninu fréttir af öryggisbrestum og gagnalekum hjá fyrirtækjum eins og t.d. Facebook og TikTok og ræðið hvaða áhrif það getur haft ef upplýsingar af samfélagsmiðlum komast í rangar hendur.
  • Ræddu við barnið um þá staðreynd að aðgangur að samfélagsmiðlum sé yfirleitt ókeypis en að eigendur þeirra séu alþjóðleg stórfyrirtæki, sem ná hagnaði með því að selja upplýsingar notenda til fyrirtækja, sem nýta þær síðan til að markaðssetja vörur og þjónustu til einstaklinga.
    • Ræddu við barnið um einstaklingsmiðaðar auglýsingar og hvernig þær birtast okkur, t.d. þegar við skoðum eitthvað á netinu og fáum svo auglýsingu um sömu vöru á samfélagsmiðlum.

Með samþykki notendaskilmála samfélagsmiðla er verið að veita fyrirtækjum heimild til að safna miklu magni upplýsinga sem síðan eru jafnvel seldar öðrum fyrirtækjum.

Upp

Notendaskilmálar - friðhelgisstillingar

Hvað er hægt að gera til að takmarka þær upplýsingar sem er safnað og miðlað um okkur?

Það er ógerlegt að ætla sér að hafa fulla stjórn á öllum upplýsingum sem miðlað er um okkur, jafnvel það að hætta að fara á Netið myndi ekki duga til. Samt er ýmislegt sem hægt er að gera til að takmarka það.

Hvað er hægt að gera?

 

  • Skoðaðu friðhelgisstillingar með barninu á öllum miðlum sem það notar. Kannið hverjir geta séð færslur barnsins og hvaða upplýsingum er verið að heimila fyrirtækinu á bakvið miðilinn að deila með öðrum, t.d. öðrum fyrirtækjum.
  • Hvað vita fyrirtækin á bakvið miðlana um okkur? Á Google Dashboard er hægt að fá yfirlit yfir þær upplýsingar sem Google hefur safnað um tiltekinn notanda. Skoðaðu með barninu hvaða upplýsingar er verið að safna um það.
  • Ef barnið er á TikTok, skoðið í sameiningu hvaða upplýsingar um það eru vistaðar þar:
    • Veljið Profile
    • Ýtið síðan á … í efra horninu til hægri
    • Veljið síðan Privacy og síðan Personalize and data
    • Að lokum veljið Download TikTok Data og fylgið leiðbeiningum
  • Ef barnið er á Facebook skoðið hvaða upplýsingar um það eru vistaðar þar:
    • Veljið Settings and Privacy
    • Síðan veljið þið Settings
    • Næsta val er Your Facebook Information
    • Að lokum veljið Access your information
  • Þurfum við kökur (e. cookies)?
    • Ræddu við barnið um að samþykkja ekki sjálfkrafa vefkökur því oft breytir það engu um þjónustuna eða upplifunina að gera það ekki.
    • Bentu barninu á að hreinsa reglulega kökur, með því að fara í stillingar á vefvafranum sem það er að nota.
  • Útskráning hefur áhrif.
    • Skoðaðu með barninu hversu marga miðla það er skráð inn á á þeirri stundu.
    • Bentu því á að skrá sig reglulega út af miðlum og vera eingöngu innskráð þegar það er nauðsynlegt. Með því að takmarka þann fjölda miðla sem barn er skráð inn á, á sama tíma og barnið er á Netinu, er hægt að takmarka það magn upplýsinga sem safnað er um það.

sími

Það er ýmislegt hægt að gera sem takmarkar það magn upplýsinga sem verið er að safna um okkur og miðla á Netinu. Kennum börnum mismunandi leiðir til þess og minnum reglulega á þær.

Upp

Algóritmar

Hvað eru algóritmar og af hverju skipta þeir máli?

Þegar við leitum að einhverju í upplýsingaflæði leitarvéla og samfélagsmiðla eru það svokallaðir algóritmar sem sjá um að raða og flokka niðurstöðurnar til þess að auka líkurnar á því að við finnum það sem við leitum að. Algóritmar byggja m.a. á því sem við höfum áður skoðað, lesið og deilt á Netinu.

Sú staðreynd að algóritmar finna fyrir okkur efni sem við höfum áhuga á sparar okkur tíma og fyrirhöfn, en það þýðir líka að við sjáum eingöngu það sem við höfum þegar áhuga á eða umfjöllun sem við erum sammála. Þannig minnka líkurnar á að við fáum upplýsingar um gagnstæð sjónarmið eða skoðanir þeirra sem ekki eru sammála okkur.

  • Algóritmar eru ekki hlutlaus verkfæri heldur forritaðir í ákveðnum tilgangi og þeim er ætlað að hafa tiltekin áhrif.
  • Þá má því nýta í markaðsskyni, en líka til að dreifa falsfréttum, áróðri, og hatursorðræðu.
  • Þetta er sérstaklega varhugavert fyrir börn sem eru að mynda sér skoðanir og móta gagnrýna hugsun.
    • Ræddu við barnið um mikilvægi þess að nýta sér fjölbreyttar tegundir heimilda og að taka því sem við lesum á Netinu með ákveðnum fyrirvara.

Algóritmar sjá til þess að við fáum einstaklingsbundnar leitarniðurstöður út frá öllum þeim upplýsingum sem eru til um okkur. Það eru bæði upplýsingar sem við sjálf gefum upp en einnig aðrar upplýsingar sem við erum ekki meðvituð um að verið sé að miðla.

  • Ræddu um algóritma við barnið, ræddu gagnsemi þeirra, hvernig þeir finna fyrir okkur efni sem við höfum áhuga á og spara okkur þannig tíma og fyrirhöfn.
  • Ræddu líka hvaða áhrif það hefur á okkur þegar algóritmar verða til þess að við fáum ekki upplýsingar um allar hliðar máls eða gagnstæð sjónarmið.
  • Ein leið til þess að kanna áhrif algóritma er að gera æfingu með barninu þar sem þið með eigin snjalltækjum farið á sömu leitarsíðuna og leitið að því sama. Ræðið af hverju þið fáið mismunandi niðurstöður og hvernig algóritmar hafa áhrif á það.
  • Ræðið í sameiningu hvaða áhrif það getur haft ef algóritmar misskilja okkur og áhugamál okkar.
    • Dæmi: Barn sem skoðar mörg myndbönd með t.d. sýnikennslu í förðun eða matreiðslu á samfélagsmiðli fer síðan að fá tillögur um efni þar sem fjallað er t.d. um grenningarlyf eða sem ýtir undir neikvæða líkamsímynd hjá ungu fólki.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-16

Algóritmar eru ekki hlutlaus verkfæri heldur er þeim ætlað að hafa ákveðin áhrif. Það er mikilvægt að hafa það í huga varðandi netnotkun barna sem eru að mynda sér skoðanir og móta gagnrýna hugsun.

stelpa í tölvu

Áskoranir á samfélagsmiðlum

Ræddu við barnið um áskoranir á samfélagsmiðlum.

Samfélagsmiðlar eru vel til þess fallnir að koma ýmsum boðskap á framfæri við stóran hóp og oft er skorað á notendur að sýna stuðning við málstað eða málefni með ýmsum hætti. 

Dæmi eru um áskoranir sem beint er sérstaklega að börnum sem eiga þá að taka myndband af sér að takast á við áskorunina og birta síðan á tilteknum samfélagsmiðli. Slíkar áskoranir geta verið saklausar og skemmtilegar eins og t.d. flöskusnúningsáskorunin og klakafötuáskorunin sem margir kannast við, en foreldrar þurfa að vera meðvitaðir um að reglulega er skorað á börn á samfélagsmiðlum um að gera eitthvað sem getur verið hættulegt og haft alvarleg áhrif á heilsu þeirra og líðan.

Dæmi um áskoranir

 

  • Þvottaefnispúðaáskorunin: Dæmi eru um að börn hafi orðið fyrir eitrun og nýrna- og lungnaskemmdum eftir að hafa tekið þeirri áskorun að bíta í þvottaefnispúða og birta svo myndband af því. 

  • Bláhvalur: Áskorunin sem talin er hafa komið frá Rússlandi, fólst í því að á 50 daga tímabili, fengu þeir sem tóku áskoruninni, fyrirmæli frá nafnlausum stjórnanda, um sjálfsskaðandi hegðun, sem síðan átti að fara stigvaxandi og enda með sjálfsvígi á síðasta deginum. 

  • Yfirliðsáskorunin: Dæmi eru um börn hafi látist eftir að taka þátt í áskorun um að láta líða yfir sig með því að hefta eigin öndun, t.d. með oföndun eða beitingu kyrkingartaks á sig eða aðra. 

Það er mikilvægt að ræða samtakamátt samfélagsmiðla og hvernig nýta má þann vettvang til þess að koma mikilvægum og jákvæðum skilaboðum á framfæri.

Einnig þarf að ræða við barnið um mikilvægi þess að láta ekki undan þrýstingi um að taka áskorunum sem fela í sér áhættuhegðun. Bentu barninu á að þessar áskoranir gleymist fljótt og að á bak við þær séu einstaklingar einhvers staðar í heiminum, sem ekki hafa neitt gott í hyggju.

Áskoranir á samfélagsmiðlum geta verið saklausar og skemmtilegar leiðir til þess að lýsa yfir stuðningi við málefni eða málstað en þær geta líka verið tilgangslausar, neikvæðar og jafnvel hættulegar.

Samskipti á netinu

Ræddu við barnið um nektarmyndir og kynferðisleg skilaboð

Ræddu við barnið um þá staðreynd að margir senda kynferðisleg skilaboð, eða deila ljósmyndum eða myndböndum af sér eða öðrum fáklæddum, og börn geta orðið fyrir þrýstingi frá vinum og kunningjum eða jafnvel ókunnugum, sem vilja fá þannig efni frá þeim. Þó svo að mörgum foreldrum finnist þessi umræða erfið er hún algjörlega nauðsynleg.

  • Bentu barninu á þá staðreynd að það er ólöglegt fyrir alla (og líka börn) að senda, vista eða hlaða niður myndefni þar sem börn eru sýnd á kynferðislegan hátt.
  • Ræddu við barnið um hvað geti gerst þegar maður missi stjórn á eigin ljósmyndum eða upplýsingum á Netinu og að börn hafi orðið fyrir áreiti, einelti og jafnvel verið beitt hótunum og þvingunum, vegna ljósmynda þar sem þau eru fáklædd eða sýnd á kynferðislegan hátt.
  • Ræddu mikilvægi þess að virða eigin mörk, sem og mörk annarra, og mikilvægi þess að sýna og virða traust í samskiptum og samböndum, hvort sem er á Netinu eða í daglegu lífi.

Ræðum við börn um þá staðreynd að margir senda kynferðisleg skilaboð eða deila ljósmyndum eða myndböndum af sér eða öðrum fáklæddum og börn geta orðið fyrir þrýstingi frá vinum og kunningjum eða jafnvel ókunnugum, sem vilja fá þannig efni frá þeim.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-08_1649769115083

Frekari upplýsingar og fræðsluefni

Frekari upplýsingar og fræðsluefni fyrir börn og unglinga má nálgast hér: 

 


Ræddu við barnið um neteinelti.

Börn geta orðið fyrir einelti og öðru áreiti á Netinu eða á samfélagsmiðlum, en geta einnig verið þátttakendur í slíku, stundum án þess að gera sér grein fyrir því, með því t.d. að framsenda myndir eða aðrar upplýsingar, eða „læka“ færslur þar sem fjallað er um aðra á neikvæðan eða fordómafullan hátt.

  • Biddu barnið um að leita til þín, ef það telur sig hafa farið yfir strikið í samskiptum, eða orðið vitni að því að aðrir hafi gert það.
  • Ef barn verður fyrir neteinelti eða áreiti, er mikilvægt að halda utan um samskiptin, t.d. með því að taka skjáskot af þeim.
  • Sýndu barninu hvernig á að útiloka einstaklinga frá samfélagsmiðlum eða tilkynna um óæskilega hegðun, og hvernig hægt er að nota friðhelgisstillingar á samfélagsmiðlum til að takmarka aðgengi annarra að þeim og upplýsingum þeirra.
  • Komdu barninu í skilning um að það beri ábyrgð á því sem það setur fram á samfélagsmiðlum og Netinu, og að það eigi líka við um efni sem það framsendir frá öðrum.
  • Bentu barninu á mikilvægi þess að setja sig í spor annarra og minntu á þá góðu reglu að segja ekkert um aðra á Netinu sem maður myndi ekki segja við þá beint.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-18

Börn geta orðið fyrir einelti og áreiti á Netinu en geta jafnframt verið þátttakendur í slíku, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því.

Ræddu við barnið um haturstal

Börn sem tilheyra minnihlutahópum geta orðið fyrir haturstali, m.a. á Netinu eða samfélagsmiðlum og geta einnig orðið vitni að því að aðrir verði fyrir haturstali, t.d. vegna þjóðernisuppruna, kynhneigðar eða trúarbragða. Þá geta börn tekið þátt í haturstali, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því, með því að „læka“ færslur á samfélagsmiðlum eða dreifa færslum sem hvetja til haturs eða mismununar.

Haturstal

Hvað er haturstal?

Haturstal er orð, myndir eða önnur tjáning sem breiðir út eða hvetur til haturs gegn einstaklingi sem tilheyrir tilteknum hópi eða tilteknum hópi einstaklinga. Stundum er þetta líka kallað hatursáróður eða hatursorðræða. Haturstal getur til dæmis beinst að:

  • kyni

  • þjóðernisuppruna
  • trúar- eða lífsskoðun
  • fötlun
  • kynhneigð, kyngervi eða kynvitund. 

Haturstal getur verið margs konar. Til dæmis eitthvað sem sagt er í skólanum, í partýi eða annars staðar, símaskilaboð eða skrif á samfélagsmiðlum eða annað. Stundum getur hegðun sýnt hatur, t.d. svipbrigði eins og grettur eða líkamstjáning.


Hver eru áhrif haturstals?

Haturstal er særandi og getur haft alvarlegar afleiðingar. Áhrifin geta verið þau að þolendum líður illa, finnst þeir minna virði, vera einangraðir og útilokaðir frá öðrum. Að sjá aðra verða fyrir haturstali getur haft jafn alvarlegar afleiðingar og að verða fyrir því sjálfur. Í alvarlegustu tilvikunum getur haturstal m.a. leitt til hatursglæpa sem beinast að sömu minnihlutahópum og haturstalið, eins og gerðist t.d. í seinni heimsstyrjöldinni.

samskipti á netinu

Refsivert haturstal

Haturstal getur verið refsivert. Samkvæmt íslenskum hegningarlögum getur opinbert haturstal gegn einstaklingum eða hópum vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Lögreglan metur í hvert skipti hvort það sem sagt var eða gert, sé refsivert. Sömu reglur gilda í netheimum og í raunheimum um þetta.

  • Ræddu við barnið um það hvað haturstal er og af hverju það er ekki í lagi. Minntu það á að „læka“ ekki færslur á samfélagsmiðlum eða dreifa færslum sem hvetja til haturs eða auka á hatur.
  • Hvettu barnið til að leita til þín og/eða kennara í skólanum ef það verður fyrir haturstali eða hefur orðið vitni að því.
  • Hvettu barnið til að segja alltaf strax frá svo að hægt sé að hjálpa því og stöðva haturstalið.
  • Kenndu barninu að vista skilaboð eða myndir (með því að taka skjáskot) svo að það geti sýnt öðrum hvað hafi komið fyrir.
  • Biddu barnið að leita til þín ef það telur sig hafa farið yfir strikið í samskiptum við aðra eða hefur orðið vitni að því að aðrir hafi gert það.
  • Margar vefsíður eru með tilkynningarhnappa, þar sem hægt er að tilkynna um haturstal eða önnur óviðeigandi samskipti eða hegðun.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-17

Börn sem tilheyra minnihlutahópum geta orðið fyrir haturstali og geta einnig orðið vitni að því að aðrir verði fyrir haturstali, t.d. vegna þjóðernisuppruna, kynhneigðar eða trúarbragða.

Vertu vakandi!

Ef þú hefur áhyggjur af netnotkun barns eða samskiptum þess á Netinu, ber þér að bregðast við.

  • Ræddu við barnið á opinskáan hátt, vertu reiðubúin/n að hlusta, og fullvissaðu barnið um að þú sért til staðar og hafir hagsmuni þess í huga.
  • Haltu stillingu þinni ef barnið hefur deilt of miklum upplýsingum, skoðað efni sem er ekki við hæfi þess, eða að öðru leyti ekki farið eftir þeim reglum sem þið hafið komið ykkur saman um. Þú vilt bregðast þannig við að barnið treysti sér til að leita til þín næst þegar það er í vanda.
  • Leitaðu lausna, hvort sem þær felast í því að tilkynna um óæskileg samskipti eða efni á netinu, fara með barninu í gegnum friðhelgisstillingar eða ræða hvað eru góð og heilbrigð samskipti.

Ef foreldrar hafa áhyggjur af netnotkun barns eða samskiptum þess á Netinu ber þeim að bregðast við með því að ræða við barnið á opinskáan hátt.

Hvert er hægt að leita?

Ef um alvarlegt atvik er að ræða, eins og ofbeldi gegn barni, hafið samband við neyðarlínuna í síma 112, en þar má m.a. fá samband við lögreglu og barnavernd.

  • Upplýsingar fyrir börn um stafrænt ofbeldi: 

  • Tilkynningarhnappur um ólöglegt og óviðeigandi efni á Netinu:
    • Á vefsíðu Barnaheilla er hægt að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni á netinu sem varðar börn eða er beint gegn börnum og unglingum undir 18 ára aldri.
  • Upplýsingar um leiðir til að tilkynna neteinelti á ýmsum miðlum:
    • Á heimasíðu SAFT er hægt að finna upplýsingar um leiðir til að tilkynna neteinelti á ýmsum miðlum.
  • Netspjall og hjálparlínan 1717
    • Rauði krossinn rekur hjálparlínu og netspjall en þangað er hægt að leita vegna t.d. kvíða eða þunglyndis, eða til að ræða erfið samskipta eða upplifun á Netinu, en þar er einnig að finna hnapp til að tilkynna áreiti, ofbeldi eða einelti á Netinu.
  • Vefspjall fyrir börn og svör við fyrirspurnum
  • Á heimasíðu umboðsmanns barna , geta börn nýtt sér vefspjall fyrir börn til að fá upplýsingar um eigin réttindi og tiltæk úrræði, en einnig er hægt að senda fyrirspurnir.
  • Úrskurðir í ágreiningsmálum um vinnslu persónuupplýsinga: 
    • Það er hlutverk Persónuverndar að úrskurða í ágreiningsmálum um vinnslu persónuupplýsinga. 

Upp

Tölvuleikir

strákur með heyrnartól

Fjöldi barna og unglinga spila reglulega tölvuleiki, en það er mikilvægt að foreldrar sýni tölvuleikjanotkun barna sinna áhuga, og kynni sér efni tölvuleikja sem þau spila, aldursviðmið leikjanna, hvort í leiknum sé hægt að kaupa viðbætur og þá möguleika sem leikirnir bjóða upp á til samskipta við aðra, jafnvel ókunnuga.

  • Rannsóknir benda til þess að vandaðir tölvuleikir geti haft jákvæð áhrif á börn og unglinga, og bætt t.d. samhæfingu, sjónminni og lausnamiðaða hugsun.
  • Óhófleg spilun tölvuleikja getur hins vegar haft neikvæð áhrif á svefn, næringu og félagsleg samskipti barns og þar með heilsu og velferð þess.
  • Þá ber að forðast það að börn spili ofbeldisfulla tölvuleiki þó svo að rannsóknir hafi ekki sýnt með afgerandi hætti að mikil spilun tölvuleikja sem fela í sér gróft ofbeldi geti aukið árásargirni eða dregið úr samkennd.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-19

Hvernig eru tölvuleikir flokkaðir?

Flokkun tölvuleikja byggir á þremur þáttum:

  • Aldursviðmið.
  • Efnisflokkun (þar kemur fram ef leikur er t.d. ofbeldisfullur sem ætti þá jafnframt að endurspeglast í hærra aldurstakmarki).
  • Gagnvirkni (t.d. ef leikmenn geta átt í samskiptum við aðra notendur, hvort deila þurfi staðsetningu sinni til að geta tekið þátt o.s.frv.).

Hvað eru leynikassar í tölvuleikjum?

Svokallaðir leynikassar í tölvuleikjum eða loot boxes eru viðbætur sem leikmenn geta annað hvort unnið sér inn í leiknum eða keypt með t.d. kreditkorti. Innihald kassanna er óþekkt en um getur verið að ræða viðbætur eins og búninga eða fylgihluti fyrir persónur í tölvuleiknum, eins og t.d. vopn.

Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á möguleg tengsl þessara viðbóta við áhættuhegðun og spilafíkn, enda er oft verið að beita leikmenn ákveðnum sálrænum þrýstingi, með skilaboðum um að í kössunum geti leynst sjaldgæfar og jafnvel verðmætar viðbætur við tölvuleikinn og að með því að kaupa ekki kassa séu leikmenn að missa af upplifunum og tækifærum sem aðrir leikmenn fá þá að njóta. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að börn sem eiga í erfiðleikum með að hafa stjórn á eigin tölvuleikjanotkun, eru sérstaklega viðkvæm gagnvart þeim freistingum sem felast í leynikössunum.

Í aldursviðmiðumtölvuleikja er greint frá því ef um keyptar viðbætur í leiknum er að ræða, eins og leynikassar, en í flestum leikjatölvum og í mörgum þekktustu tölvuleikjunum, er hægt að takmarka eða koma alfarið í veg fyrir möguleikann á keyptum viðbótum.

  • Ræddu við barnið um leynikassa og þá staðreynd að þeir þjóna þeim tilgangi einum að vera viðbótartekjulind fyrir framleiðendur tölvuleikja.
  • Ræddu við barnið um mikilvægi þess að hafa stjórn á eigin tölvuleikjanotkun og að láta ekki freistast af keyptum viðbótum.
  • Kynntu þér ásamt barninu reynslusögur barna og unglinga sem hafa lent í erfiðleikum eftir að hafa eytt stórfé í leynikassa í tölvuleikjum.
  • Ljúkið umræðunni með því að komast að samkomulagi um að ganga þannig frá stillingum leikjatölva eða tölvuleikja að möguleikar á keyptum viðbótum séu ekki í boði.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-20

Foreldrar verða að sýna tölvuleikjanotkun barna sinna áhuga og kynna sér efni þeirra, aldursviðmið og möguleika til samskipta við aðra.

Upp

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-03_1649769115251

Aldursviðmið í sjónvarpi og tölvuleikjum

Aldursmerkingar sjónvarpsþátta, kvikmynda og tölvuleikja þjóna þeim tilgangi að vara við efni sem er skaðlegt börnum og þroska þeirra. Tilgangur merkinganna er hvorki að mæla með efninu fyrir börn á tilteknum aldri né að skilgreina markhóp viðkomandi myndefnis. Markmiðið er að tryggja vernd og velferð barna og að allt myndefni sé greinilega merkt upplýsingum um aldursviðmið. Öllum kvikmyndum, sjónvarpsþáttum eða tölvuleikjum skulu fylgja upplýsingar um aldursviðmið og tákn sem sýna um hvers konar efni er að ræða. Táknið gefur jafnframt til kynna eðli hins skaðlega efnis sem ræður aldursviðmiðinu.

Hvað ræður aldursviðmiðinu?

Myndefni sem er óviðeigandi eða skaðlegt barni á tilteknum aldri getur valdið því ótta. Aldursviðmið eru sett á myndefni sem getur valdið ótta, sýnir beitingu ofbeldis, kynlíf eða neyslu vímuefna og þar sem fram koma fordómar eða misrétti. Þá gefa tákn jafnframt til kynna ef ljótt orðbragð kemur fyrir í myndefninu, án þess að það hafi áhrif á aldursviðmið. Með auknum þroska verða börn síður berskjölduð fyrir skaðlegu fjölmiðlaefni. Mikilvægt er þó að hafa í huga að slíkur þroski er einstaklingsbundinn.

Hvaða reglur gilda í kvikmyndahúsum?

Aldursmeta skal allar kvikmyndir og gæta þess að aðgangur að sýningum sé í samræmi við það mat. Óheimilt er að sýna börnum undir lögræðisaldri ofbeldiskvikmyndir eða tölvuleiki, sem og kvikmyndir eða tölvuleiki sem ógna velferð þeirra. Samkvæmt íslenskum lögum má þó hafa allar kvikmyndir til sýningar opinberlega fyrir börn sem náð hafa 14 ára aldri svo lengi sem þau horfa á myndina í fylgd foreldris eða forsjáraðila.

Hvaða reglur gilda í sjónvarpi?

Í sjónvarpi eru kvikmyndir og sjónvarpsþættir yfirleitt merktir með auðkenni sjónvarpsstöðvarinnar sem ýmist er hvítt, gult eða rautt að lit. Hvítt merki þýðir að efnið er leyft öllum aldurshópum, gult merki táknar að efnið er ekki við hæfi barna yngri en 12 ára. Rautt merki þýðir að efnið er ekki við hæfi barna yngri en 16 ára.

Samkvæmt lögum um fjölmiðla er óheimilt að sýna efni, sem bannað er börnum yngri en 12 ára, í línulegri dagskrá fyrir kl. 21 á virkum dögum og sunnudögum og fyrir kl. 22 á föstudögum og laugardögum.

Hvaða reglur gilda um myndefni sem sýnt er eftir pöntun (VOD) í sjónvarpi, í smáforritum og vefspilurum?

Heimilt er að miðla efni eftir pöntun sem ekki er talið við hæfi barna ef tryggt er með tæknilegum ráðstöfunum að börn hafi ekki aðgang að efninu. Þessar ráðstafanir geta t.d. falist í því að efnið sé eingöngu aðgengilegt með því að notandinn slái inn sérstakt aðgangsnúmer eða „PIN“ númer. Einnig geta efnissíur og annar öryggisbúnaður talist viðeigandi tæknilegar ráðstafanir. Hér á landi geta foreldrar og forsjáraðilar t.d. sett upp aðgangsstillingar fyrir tiltekinn aldur í sjónvarpsviðmóti fjarskiptafyrirtækjanna og gilda þær þá einnig um efni sem er aðgengilegt í smáforritum (öppum) þessara fyrirtækja.

  • Spurðu barnið hvort það hafi tekið eftir því að kvikmyndir, sjónvarpsþættir og tölvuleikir hafi aldursviðmið.
  • Útskýrðu fyrir barninu af hverju merki sjónvarpsstöðvanna er stundum hvítt, stundum gult og stundum rautt.
  • Kynntu þér aldursviðmið einstakra kvikmynda og sjónvarpsþátta á vefsíðu Kvikmyndaskoðunar . Vefsíðan er á vegum hérlendra kvikmyndahúsa, sjónvarpsstöðva og þeirra sem gefa út kvikmyndir og tölvuleiki hérlendis.

Til baka

Myndavélar í símum og tölvum

Staðsetning ljósmynda

Þegar ljósmyndir eru teknar með stafrænum tækjum, vistar tækið nákvæma staðsetningu myndatökunnar með GPS hnitum. Þessi virkni er yfirleitt innbyggð í snjallsíma og á flestum samfélagsmiðlum, og því þarf að fara sérstaklega í stillingar tækisins eða notendastillingar á samfélagsmiðlum til þess að breyta því.

Þetta þýðir að hver sá sem sér myndirnar þínar á netinu getur á örskömmum tíma fundið út hvar myndin er tekin og barnið þitt gæti, án þess að gera sér grein fyrir því, verið að upplýsa alla í netheimum um hvar það er statt, jafnvel í rauntíma.

Hvað er til ráða?

  • Kynntu þér leiðbeiningar á Netinu um hvernig má aftengja staðsetningarpunkta í myndavél símans.
  • Kynntu þér hvernig má aftengja staðsetningarpunkta á myndum á samfélagsmiðlum.
  • Ef þú ætlar að birta myndir af barni er betra að ekki komi fram staðsetning myndatöku, sérstaklega ef um er að ræða heimili fjölskyldunnar eða skóli barns.
  • Ef ættingjar eða vinir ætla að birta myndir af barninu þínu á samfélagsmiðlum skaltu biðja þá um að aftengja staðsetningarpunkta á myndinni fyrir birtingu, þar sem þú hefur enga stjórn á friðhelgisstillingum þeirra, eða vina og fylgjenda þeirra á samfélagsmiðlum.
  • Ræddu þetta við barnið og útskýrðu hvað staðsetningarpunktar eru og af hverju það er ráðlegt að aftengja þá.

Upp

Nettengd leikföng

Pexels-pixabay-264907

Í dag er hægt að kaupa fjölmörg snjallleikföng, sem hægt er að tengja við netið og sem bjóða upp á marga möguleika fyrir börn, en þeim getur fylgt ákveðin áhætta.

Hér fyrir neðan má finna nokkur atriði fyrir foreldra til að kanna áður en snjallleikfangið endar í innkaupakerrunni.

Hvað þarf að skoða sérstaklega?

  • Býður leikfangið upp á þann möguleika að barnið geti spjallað við aðra?
  • Getur tækið tengst öðrum tækjum, er t.d. hægt að senda skilaboð úr því í síma eða tengjast snjallsjónvarpi?
  • Fylgir leikfanginu forrit sem inniheldur t.d. auglýsingar?
  • Þarf að skrá upplýsingar eins og staðsetningu, aldur barns og nafn eða netfang foreldranna?
  • Hvar er verið að vista og vinna með þær upplýsingar sem tækið safnar?
  • Er leikfangið ómissandi fyrir barnið eða eru aðrir valkostir í boði sem ekki eru nettengdir?
  • Er leikfangið með nettengda myndavél og hljóðnema?

Hvað er hægt að gera?

  • Farðu á netið og lestu umsagnir um leikfangið og hvort þar koma fram atriði sem foreldrar þurfa að kynna sér sérstaklega.
  • Skoðaðu hvað barnið getur gert með leikfangið og hvort tækið býður upp á einhverja samskiptamöguleika.
  • Kynntu þér hvort um viðurkenndan framleiðanda er að ræða.
  • Ef tækinu fylgir fyrir fram skráð lykilorð (t.d. 1234) skaltu breyta því um leið.
  • Þegar taka á leikfangið í notkun skaltu sjá til þess að veita eins litlar upplýsingar um barnið og mögulegt er. Ef hægt er að komast hjá því að skrá nafn barnsins og aldur, þá skaltu gera það.
  • Lestu skilmála framleiðandans og sérstaklega þá sem fjalla um vernd persónuupplýsinga.
  • Áður en barn fær leikfangið í hendur er mikilvægt að ræða við það um hvernig sé hægt að leika sér með það án þess að bjóða hættunni heim.
  • Kynntu þér hvernig hægt er að slökkva á t.d. myndavél og hljóðnema leikfangsins þegar það er ekki í notkun.

Snjallleikföng bjóða upp á fjölmarga möguleika en þeim getur fylgt ákveðin áhætta sem mikilvægt er að foreldrar séu meðvitaðir um.

Upp

Aðgangsorð

Í daglegu lífi þurfum við öll að muna fjölmörg aðgangsorð og því er auðvelt að láta freistast af því að nota sama aðgangsorðið alls staðar. Þetta getur þó verið varasamt, af augljósum ástæðum, því að ef óviðkomandi aðili kemst yfir lykilorðið getur hann fengið aðgang að gríðarlega miklum upplýsingum og valdið miklu tjóni.

  • Verum með fjölbreytt aðgangsorð, sem ekki er hægt að giska á. Notum t.d. ekki nöfn barna eða gæludýra, heimilisfang, símanúmer, kennitölu, afmælisdaga o.s.frv.
  • Kennum börnunum okkar mikilvægi aðgangsorða og nauðsyn þess að hafa stjórn á eigin upplýsingum.
  • Breytum aðgangsorðum reglulega og minnum börnin okkar á að gera það líka.
  • Ef það reynist erfitt að halda utan um öll aðgangsorðin er hægt að nýta sér forrit sem heldur utan um þau. Hægt er að velja milli smáforrita, sem eru gjaldfrjáls og örugg.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-14

Ræddu mikilvægi aðgangsorða við börnin þín og leyfðu þeim að giska á hvaða aðgangsorð eru algengust í heiminum.

Algeng aðgangsorð

Þetta eru algengustu aðgangsorðin?

  • Password

  • 12345

  • 1234567
  • Qwerty (bókstafirnir sem eru efst til vinstri á lyklaborðinu).

Upp

Skjátími

Foreldrar hafa oft áhyggjur af óhóflegum skjátíma barna og hafa margir farið þá leið að takmarka skjátíma við ákveðinn fjölda klukkutíma. Rannsóknir sýna þó að það sem er gert í skjátækjum skiptir meira máli en skjátíminn, þó svo að eðlilegt sé að einhverjar takmarkanir séu á honum.

Börn eru ekki bara að nota símana sína fyrir tölvuleiki og samfélagsmiðla, heldur eru þau líka að semja tónlist, búa til stuttmyndir og sinna heimanámi. Í stað þess að einblína aðeins á skjánotkun barna er betra að fjölskyldan í sameiningu setji sér eigin reglur um skjánotkun fjölskyldunnar, þar sem hugað er að þörfum barna fyrir hvíld, samverustundum með fjölskyldu og öðrum félagslegum samskiptum.

skjánotkun

Hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem geta verið vísbendingar um að of mikill skjátími sé að hafa neikvæð áhrif á börn:

  • Barnið hefur dregið sig úr félagslegum samskiptum annars staðar en á Netinu.
  • Hversdagslegir hlutir eru farnir að valda barninu kvíða og streitu.
  • Námsárangur fer versnandi og heimanámi er ekki sinnt.
  • Félagsfærni barns fer minnkandi og það á jafnvel erfitt með öll samskipti.
  • Barnið er ekki að fá nægan svefn eða næringu sem hefur neikvæð áhrif á líðan þess og heilsu.

Frekari upplýsingar...

Frekari upplýsingar er að finna í viðmiðum sem Embætti landlæknis, umboðsmaður barna, Barnaheill, Heilsugæslan, Heimili og skóli og SAFT gáfu út um skjánotkun barna og ungmenna.


Rannsóknir sýna að það sem er gert í skjátækjum skiptir meira máli en skjátíminn, þó svo að eðlilegt sé að einhverjar takmarkanir séu á honum.

Upp

Samfélagsmiðlar, smáforrit og leikir

Vinsælir samfélagsmiðlar, smáforrit og leikir – hvað þurfa foreldrar að vita?

Snapchat

Snapchat er smáforrit sem er vinsælt meðal barna og unglinga, en með því geta notendur með einföldum hætti sent skilaboð, ljósmyndir og myndskeið og breytt ljósmyndum með fjölbreyttum hætti. Ef móttakandi skilaboða tekur skjáskot af þeim er sendandanum tilkynnt um það.

Er Snapchat eingöngu til að senda skilaboð og myndir?

Með Snapchat er líka hægt að fara í leiki og spurningaleiki, fylgjast með fréttum, hringja myndsímtöl og fylgjast með staðsetningu vina.

Hvaða aldurstakmörk eru á Snapchat?

Samkvæmt notendaskilmálum Snapchat verða notendur að vera 13 ára að lágmarki. Notendur verða að gefa upp fæðingardag en Snapchat fer ekki fram á neina staðfestingu á því að um réttar upplýsingar sé að ræða.

Hvað er Snapstreak?

Svokallað Snapstreak er skrá yfir samskipti tveggja notenda á Snapchat, talið í dögum, en skráin hverfur ef engin skilaboð eru send í 24 klukkustundir. Mörgum börnum er annt um að halda í Snapstreak og líta á það sem táknmynd vináttu, en það getur því skapað þrýsting fyrir börn að vera í stöðugum samskiptum við aðra.

Hvað er Snapmap?

Með viðbótinni Snapmap er hægt að fylgjast með íþróttaviðburðum, hátíðahöldum og fréttum, en um leið fylgjast með því hvar „vinir“ á Snapchat eru staddir í rauntíma, Barn sem er notandi á Snapchat getur því verið að upplýsa alla „vini“ sína á Snapchat um hvar það er statt hverju sinni sem skapar augljósa hættu á óæskilegum samskiptum.

Hvað þarf að hafa í huga varðandi Snapchat:

  • Eftirlit með efni - Á Snapchat er meira eftirlit með efni en á mörgum samfélagsmiðlum og þar af leiðandi eru minni líkur á því að börn rekist á efni sem er ekki við hæfi þeirra.
    • Það þýðir þó ekki að útilokað sé að börn fái send óviðeigandi skilaboð eða ljósmyndir, eða annað óviðeigandi efni.
  • Líftími ljósmynda – Sendar ljósmyndir lifa skemur á Snapchat en á mörgum öðrum miðlum
    • Það getur skapað falskt öryggi hjá börnum, sem trúa því oft að engin leið sé fyrir aðra að nálgast ljósmyndir eða skilaboð milli tveggja notenda, sem gerir þau mögulega minna varkár í samskiptum.
    • Þó svo að sendandi fái tilkynningu um að móttakandinn hafi tekið skjáskot af skilaboðunum, þá kemur það ekki í veg fyrir að móttakandinn t.d. taki ljósmynd af skilaboðunum með öðru skjátæki og sendi áfram, án þess að sendandinn viti af því.
    • Í ljós hefur komið að Snapchat vistar allar sendar ljósmyndir miðlægt og því hverfa þær aldrei alveg.
  • Samskipti við ókunnuga – Á Snapchat þurfa notendur að búa yfir einhverjum upplýsingum um aðra notendur, t.d. símanúmer til að geta átt í samskiptum við þá.
    • Það getur þó skapað falskt öryggi þar sem tiltölulega auðvelt er að komast yfir upplýsingar af því tagi og oft er mikill þrýstingur á börn um að vera með sem flesta fylgjendur eða „vini“ á samfélagsmiðlum og því ekki víst að þau fari eftir fyrirmælum um að samþykkja eingöngu sem „vini“ einstaklinga sem þau þekkja í raunheimum.

Hvernig er hægt að tryggja öryggi barna á Snapchat?

Það mikilvægasta er að eiga samtal við barnið um netöryggi og jákvæð og eðlileg samskipti og að skoða og breyta friðhelgisstillingum í sameiningu.

  • Skoðið í sameiningu stillinguna Who can og hér má t.d. gera þessar breytingar:
    • Undir liðnum „Contact Me“ og „View My Story“ – er hægt að velja „My Friends“ í staðinn fyrir “Everyone“ til þess að takmarka aðgengi annarra.
    • Undir liðnum „See My Location“ er hægt að velja „Ghost Mode“ sem kemur í veg fyrir að aðrir notendur fái upplýsingar um staðsetningu barnsins hverju sinni.

Með því að hafna viðbótinni Quick Add er hægt að tryggja að Snapchat heiti barnsins birtist ekki á listum annarra notenda yfir þá sem þeir þekkja mögulega eða gætu haft áhuga á að fylgja. Þannig eru meiri líkur á því að barn eigi eingöngu í samskiptum við vini og þá sem þau raunverulega þekkja.

TikTok

TikTok er samfélagsmiðill þar sem notendur búa til og birta stutt myndbönd af sér oft að dansa eða syngja við vinsæla tónlist. Vinsældir miðilsins eru gífurlegar meðal barna og því er mikilvægt að foreldrar geri sér grein fyrir því að á bakvið miðilinn er fyrirtæki sem fylgist mjög vel með notendum sínum. 

Fram hefur komið að TikTok fylgist með og skráir IP-tölur notenda, heiti á þráðlausum netum sem notendur nýta hverju sinni, símanúmer tækjanna og GPS staðsetningu og margt fleira, en þær upplýsingar uppfærir forritið á 30 sekúndna fresti og safnar. Með því að gerast notandi á TikTok er líka verið að samþykkja aðgang forritsins að lyklaborði tækja notenda en þannig getur forritið fylgst með allri textanotkun þeirra.

Eins og áður hefur komið fram eru algóritmar ekki hlutlaus verkfæri, en á TikTok eru þeir mjög öflugir og fela m.a. í sér ríka ritskoðun auk þess sem mikil virkni þeirra gerir að verkum að notendur fá fljótt mikið af tilkynningum um efni sem er sambærilegt því sem þeir hafa áður horft á og haft gaman á, sem getur orðið til þess að notendur eyða meiri tíma á miðlinum og þar með aukast auglýsingatekjur TikTok, sem er auðvitað markmið fyrirtækisins. 

Öflugir algóritmar geta ýtt undir skoðanaskekkju með því að sýna notendum eingöngu efni sem þeir eru sammála eða með því að oftúlka það sem notendur aðhafast á miðlinum. Dæmi um það er notandi sem „lækar“ við brandara þar sem gert er grín að samkynhneigðum einstaklingi, en TikTok gæti í kjölfarið komið með tillögur til notandans um efni þar sem fjallað er um samkynhneigða á fordómafullan og hatursfullan hátt.

Aldurstakmörk

Börn undir 13 ára aldri eiga ekki að nota TikTok en mælt er með því að foreldrar nýti stillingarmöguleika til að bæta öryggi barna á aldrinum 13- 18 ára.

Takmarkanir á skjátíma í TikTok

Foreldrar geta takmarkað þann tíma sem börn eyða á TikTok með því að setja skjátíma þeirra í forritinu ákveðin takmörk, en þó ber að hafa í huga að þær takmarkanir eiga eingöngu við um forritið sjálft en ekki vefsíðuna.

  • Finndu stillinguna Me
  • Ýttu þar næst á … í efri horninu til hægri
  • Veldu Digital Wellbeing og Screen Time Management
  • Fylgdu síðan leiðbeiningunum til að stilla skjátímann

Sérútgáfa af TikTok fyrir börn

Með því að velja þessa útgáfu af TikTok eru minni líkur á því að börn rekist á efni sem er ekki við þeirra hæfi en það er þó ekki öruggt.

  • Finndu stillinguna Me
  • Ýttu þar næst á … í efri horninu til hægri
  • Veldu Digital Wellbeing og Restricted Mode
  • Fylgdu síðan leiðbeiningunum

Fjölskyldustillingar

Með fjölskyldustillingu geta foreldrar og börn haft sameiginlega stjórn á stillingum barnsins á TikTok. Meðal þess sem hægt er að stýra með þeirri stillingu er hámarkstími sem barn getur eytt á TikTok á sólarhring, að hverju barnið getur leitað og hvort notendanafn og síða barnsins er aðgengileg öðrum.

  • Finndu stillinguna Me
  • Ýttu þar næst á … í efri horninu til hægri
  • Veldu Family Pairing
  • Veldu Parent
  • Fylgdu síðan leiðbeiningunum

Hér eru nokkrar leiðir til þess að auka öryggi barna á TikTok

  • Friðhelgisstillingar. TikTok síður eru opnar nema stillingum sé breytt sérstaklega. Með því að loka TikTok síðu barnsins þarf að samþykkja sérstaklega fylgjendur og eingöngu samþykktir fylgjendur sjá þá efni frá barninu.
    1. Finndu stillinguna Me
    2. Ýttu þar næst á … í efri horninu til hægri
    3. Veldu Privacy 
    4. Loks velur þú Private Account.
  • Fylgjendur. Það getur verið ástæða til að fjarlægja notendur af lista yfir fylgjendur og jafnvel útiloka frá því að geta sent skilaboð eða sjá efni sem barnið hefur sett inn á síðuna.
    1. Finndu stillinguna Me 
    2. Ýttu þar næst á Followers 
    3. Finndu nafn þess sem þú vilt fjarlægja af lista yfir fylgjendur 
    4. Ýttu á … í efra horninu til hægri 
    5. Veldu Remove this follower
  • Athugasemdir. Með stillingum getur notandi takmarkað möguleika annarra á því að skilja eftir athugasemdir við myndbönd, hvort sem um er að ræða fylgjendur eða alla notendur TikTok, og það getur átt við um einstakt myndband eða öll myndbönd sem notandi hefur sett inn. Einnig er hægt að takmarka möguleika annarra notenda á að nota tiltekin orð í athugasemdum með lista af lykilorðum sem gera að verkum að athugasemd birtist ekki.
    1. Finndu stillinguna Me 
    2. Ýttu þar næst á … í efri horninu til hægri 
    3. Veldu Privacy 
    4. Loks velur þú Who can comment on your videos.
  • Stillingar fyrir móttöku skilaboða. Með friðhelgisstillingum má takmarka möguleika annarra á að senda barninu skilaboð.
    1. Finndu stillinguna Me
    2. Ýttu þar næst á … í efri horninu til hægri
    3. Veldu Privacy
    4. Loks velur þú Who can send me Direct Messages og valið milli valkostanna Everyone, Friends eða No one.
  • Takmörkun á dúettum. Meðal þess sem TikTok býður upp á er möguleikinn á því að búa til myndband með öðrum notendum, svokallaðir dúettar, en með stillingum er hægt að takmarka þann möguleika. 
    1. Finndu stillinguna Me 
    2. Ýttu þar næst á … í efri horninu til hægri 
    3. Veldu Privacy 
    4. Að lokum velur þú Who can Duet with your videos
  • Tilkynna um óæskilega hegðun annars notanda. Notendur geta tilkynnt um óæskileg samskipti eða óviðeigandi hegðun annars notenda með þessum hætti: 
    1. Finndu síðu notandans 
    2. Ýttu á … í efri horninu hægra megin
    3. Veldu Report og þá færðu nánari leiðbeiningar

Instagram

Instagram er afar vinsæll samfélagsmiðill með yfir 700 milljón notendur, sem deila fyrst og fremst ljósmyndum og myndböndum með öðrum, oft með myllumerki (#) sem einfaldar notendum að fylgjast með málefnum og einstaklingum sem þeir hafa áhuga á.

Friðhelgisstillingar á Instagram

Með friðhelgisstillingum á Instagram er hægt að hafa stjórn á því hvort efni sem notandi birtir á Instagram sé deilt með öllum notendum eða eingöngu þeim sem notandi hefur samþykkt sem fylgjendur.

  • Hvernig er hægt að gera Instagram síðu barnsins eingöngu aðgengileg fylgjendum þess:
    • Veldu Settings og síðan Privacy og loks Account Privacy.
  • Hvernig er hægt að gera Instagram síðu barnsins eingöngu aðgengileg fylgjendum þess:
    • Veldu Settings og síðan Privacy og loks Account Privacy
  • Hvernig á að hætta að vera fylgjandi tiltekins notanda á Instagram?
    • Farðu í notendastillingar, veldu Followers efst á skjánum, veldu síðan þá notendur sem um ræður og ýttu á Following hnappinn. Einnig er hægt að fara á síðu hvers og eins notenda og ýta þar á Following hnappinn.
  • Hvernig er hægt að takmarka möguleika annarra notenda á Instagram á því að merkja myndir og athugasemdir með notendanafni barnsins s.k. tags?
    • Tags: Veldu Settings og síðan Privacy og Tags en síðan er hægt að velja milli allra, fylgjenda.
    • Comments: Veldu Settings og síðan Privacy og CommentsHægt er að takmarka möguleika annarra notenda á því að merkja ljósmyndir með notendanafni annarra notenda með svokölluðum tags.
    • Activity status: Hægt er að fylgjast með því hvort tiltekinn notandi sé innskráður á miðilinn á svokölluðum activity status. Það getur skapað þrýsting á börn um að eiga í samskiptum, en þessa virkni má aftengja með því að velja Settings og Privacy og loks Activity Status en með því að afhaka við Show activity status.

Instagram Stories

  • Með þessari viðbót geta notendur birt myndbönd og/eða ljósmyndir fyrir fylgjendur í 24 klukkustundir, notendanöfn þeirra sem horfa eru sýnileg þeim sem birtir.
  • Instagram býður þó upp á þann möguleika að takmarka birtingu „Story“ við lista yfir tiltekna aðila sem notandi vill skilgreina sem nána vini eða Close friends.

Instagram Live: Með viðbótinni Live geta notendur Instagram verið með beint streymi af Instagram síðunni og, ef friðhelgisstillingar notenda takmarka ekki aðgengi annarra, getur hver sem er horft á streymið.

Instagram Direct: Á Instagram er einnig hægt að senda notendum einkaskilaboð en engin leið er til þess að loka fyrir þá virkni, sem þýðir að ókunnugir notendur, sem eru ekki á meðal fylgjenda barns, geta sent því skilaboð.

Takmarkanir á möguleikum annarra notenda á því að gera athugasemdir við færslur, ljósmyndir og myndbönd á Instagram:

  • Notandi getur valið að heimila ekki öðrum notendum að gera athugasemdir við færslur hans eða hennar á Instagram með því að velja Settings og síðan Privacy og loks Comments. Þar er hægt að velja milli ýmissa valkosta og einnig útiloka möguleika tiltekinna notenda á að setja athugasemdir við færslur með því að velja Block Comments og People.
  • Takmarkanir á athugasemdum: Notandi getur takmarkað möguleika annarra notenda á því að gera athugasemdir með tilteknum orðum eða orðatiltækjum með því að velja Settings og síðan Privacy og loks Comments. Þar er síðan hægt að velja Hide offensive comments eða velja ákveðin orða eða orðatiltæki sem birtast þá ekki í athugasemdum.
  • Takmarka má eða koma í veg fyrir möguleika annarra á því að merkja ljósmyndir með notendanafni annarra með svokölluðum tags, með því að velja Settings og síðan Privacy og loks Tags, en þar er hægt að velja hvort allir megi merkja myndir á þann hátt, eða bara fylgjendur eða koma í veg fyrir möguleika allra á því.

Ef notandi vill ekki sjá færslur tiltekins notenda birtast á Instagram er hægt að koma í veg fyrir það:

  • Fyrst þarf að velja notanda með því að slá nafn þeirra inn í leitardálknum. Veljið næst Following fyrir neðan notendaupplýsingar viðkomandi og síðan Mute og Mute post. Þetta er annað en að hætta að fylgja tilteknum notenda, en viðkomandi notandi sér ekki að þessi valkostur hafi verið nýttur.
  • Notandi getur takmarkað möguleika annarra notenda á samskiptum án þess þó að útiloka viðkomandi: Með því að velja Settings, Privacy og loks Restrict er hægt að takmarka möguleika tiltekins notanda á að t.d. gera athugasemdir við færslur.

Tilkynna færslur eða notendur

  • Instagram býður upp á möguleikann á því að tilkynna notendur eða tilteknar færslur eftir því hvort um er að ræða faldar auglýsingar eða óviðeigandi efni.
    • Til að tilkynna um færslur á síðu tiltekins notanda, veldu Report og veldu síðan viðeigandi valkost fyrir efni tilkynningar og fylgdu leiðbeiningum. Sá sem er tilkynntur fær ekki upplýsingar um hvaða notandi tilkynnti.

Lei-beiningar-fyrir-starfsmenn-sko-ula-fri-ustunda-i-u-ro-utta-og-to-umstundastarfs-barna-21

YouTube

Flestir foreldrar eru meðvitaðir um að á vefsíðunni YouTube og smáforritinu með sama heiti, er að finna mikið af efni sem er ekki við hæfi barna. Það er mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um að með örfáum flettingum á Youtube getur barn óvart lent á myndbandi með efni sem er ekki við hæfi barna, sem við fyrstu sýn getur litið út fyrir að vera barnaefni. Fyrirtækið YouTube hefur jafnframt verið sektað af bandarískum yfirvöldum fyrir að hafa safnað upplýsingum um börn án leyfis og nýtt í markaðsskyni.

YouTubeKids

  • Með smáforritinu er hægt að búa til aðgang fyrir hvert og eitt barn, í samræmi við aldur þess og þroska.
  • Í forritinu er hægt að takmarka tímann sem hver notandi hefur til að nota smáforritið hverju sinni.

Hvers konar efni er að finna á YouTubeKids?

Margir foreldrar hafa því nýtt smáforritið YouTubeKids þar sem er að finna sjónvarpsefni, tónlistarmyndbönd og fjölbreytt efni sem framleitt er af notendum síðunnar, fyrir börn. Foreldrar verða þó að vera vakandi fyrir því að þar leynist efni sem ekki er við hæfi barna.

Í forritinu er t.d. hægt að finna brot úr vinsælum sjónvarpsþáttum fyrir börn og jafnvel heila þætti, tónlistarmyndbönd og fræðslumyndbönd. Þá er þar einnig mikið af notendaframleiddu efni, eins og vinsæl myndbönd þar sem verið er að kynna ný leikföng.

Er YouTubeKids öruggt fyrir börn?

Eins og nafnið gefur til kynna er markhópurinn börn en foreldrar verða að vera meðvitaðir um þar er einnig að finna efni sem ekki er við hæfi barna.

Eru auglýsingar á YouTubeKids?

Sumum myndböndum á YouTubeKids fylgja auglýsingar. Í flestum tilvikum eru þær við hæfi barna en þó eru dæmi um annað.

Hvaða stillingar er hægt að nýta til að takmarka aðgengi barna að óæskilegu efni?

  • Hægt er að takmarka leit við efni, sem staðfest er að sé frá viðurkenndum framleiðendum og við hæfi barna, með því að velja „trusted channels“. Einnig er hægt m að takmarka áhorf í því sem er kallað „Collections“ við efni sem hefur starfsfólk YouTubeKids hefur yfirfarið og metið. Þá er hægt að nýta efnissíur til að stýra aðgangi barna að efni eftir aldri þeirra.
  • Þessar stillingar má finna undir „grown ups only“. Þar er hægt að skrá aðgangsorð og þar geta foreldrar sett takmarkanir á notendaaðgang barnsins
  • YouTubeKids býður upp á stillinguna „Approved Content Only“ þar sem foreldrar geta takmarkað aðganginn við tiltekin myndbönd og tiltekna framleiðendur efnis.

Fyrir hvaða aldur er YouTubeKids?

Samkvæmt skilmálum YouTubeKids er forritið fyrir börn sem eru fjögurra ára og eldri en til þess ber að líta að þar eru birtar auglýsingar og sá möguleiki er fyrir hendi að rekast á efni sem er ekki við hæfi barna. Því fer betur á að miða við hærri aldursmörk og tryggja að börn horfi ekki á efni þar eftirlitslaust. Efni á YouTubeKids fyrir eldri hópinn er miðað við börn á aldrinum 8-12 ára.

Hvaða óæskilega efni geta börn rekist á á YouTubeKids?

Dæmi eru um að myndbönd séu sett inn á YouTubeKids sem við fyrstu sýn líta út fyrir að vera fyrir börn en eru það ekki. Eitt dæmi um slíkt er það sem á ensku er kallað YouTubePoo“ og eru myndbönd sem sett eru fram á villandi hátt, t.d. með vinsælum persónum úr sjónvarpsefni fyrir börn, en efnið er síðan alls ekki við hæfi barna, og getur t.d. verið kynferðislegt, ofbeldisfullt eða vakið óhug hjá börnum.

Til baka

Tölvuleikir

Pexels-ron-lach-9783356

Roblox

Roblox er gagnvirkur leikjavettvangur þar sem börn geta skapað sinn eigin Roblox heim, spilað leiki sem aðrir notendur hafa hannað, ásamt því að skapa og koma á framfæri eigin leikjum. Leikmenn geta verið einir, en einnig spilað með öðrum. Í Roblox má nýta viðbætur, eins og möguleikann á því að búa til vinalista, senda öðrum leikmönnum skilaboð eða spjalla beint en ef leikmaður er skráður sem yngri en 13 ára er eingöngu hægt að nota tiltekin orð og orðatiltæki. Ef leikmaður er skráður eldri en 13 ára eru minni takmarkanir á spjallinu en blótsyrði og niðrandi orð birtast ekki.

Þar sem allt efni í Roblox er framleitt af notendum er ákveðin hætta á að þar sé að finna efni sem er ekki við hæfi barna en einnig er töluvert af auglýsingum á Roblox, t.d. þar sem notendur eru hvattir til þess að kaupa viðbætur við leikinn.

Aldurstakmörk á Roblox

Það eru engin aldurstakmörk á Roblox og þannig geta notendur á öllum aldri búið til hópa, farið í hópa, spjallað og átt í samskiptum við aðra. Ef skráður notandi er undir 13 ára aldri eru ákveðnar takmarkanir á því hvaða leiki er hægt að spila.

Friðhelgisstillingar

Með friðhelgisstillingum er hægt að takmarka samskipti barna á Roblox og hafa áhrif á þær tegundir leikja sem þau geta spilað. Ef um yngri börn er að ræða geta foreldrar búið til aðgang fyrir barnið, skráð eigið netfang og búið til aðgangsorð og þannig komið í veg fyrir að barn geti opnað á fleiri möguleika með því að breyta notendastillingum.

Spjallvefur Roblox

Um 150 milljónir manna um allan heim spila Roblox og því ljóst að þar geta leynst einstaklingar sem börnum stafar hætta af. Þá hættu má þó takmarka að einhverju leyti með friðhelgisstillingum en undir Privacy Settings er hægt að loka fyrir spjallmöguleikann og takmarka samskiptamöguleika við aðra vini.

Ákveðið eftirlit fer fram á spjallvef Roblox, annars vegar er rafrænt eftirlit, sem kemur í veg fyrir að blótsyrði og önnur óviðeigandi orð á ensku birtist, en einnig fylgjast starfsmenn með spjallinu og hafa eftirlit með því, en því eftirliti sinna örfáir starfsmenn og því ekki hægt að treysta því að það eftirlit sé virkt og fullnægjandi. Spjallvefurinn fyrir notendur yngri en 12 ára býður einnig upp á færri möguleika og þar er meira eftirlit. Það eru hins vegar dæmi um að einstaklingar hafi fundið leiðir fram hjá þessum takmörkunum og því er mikilvægt að foreldrar gangi úr skugga um að friðhelgisstillingar takmarki möguleika annarra notenda til að hafa samskipti við barnið en upplýsi einnig barnið um eftirfarandi atriði:

  • Bentu barninu á að samþykkja ekki skilaboð frá notendum sem það þekkir ekki annars staðar frá.
  • Upplýstu barnið um mikilvægi þess að gefa aldrei upp persónuupplýsingar, eins og fullt nafn, heimilisfang, aldur o.s.frv.
  • Bentu barninu á möguleikann á því að útiloka aðra notendur ef tilefni er til.
  • Kenndu barninu hvernig það á að bregðast við ef notandi hefur samband við barnið og biður það um að færa samskiptin yfir á annan vettvang.

Fortnite Battle Royale

Fortnite Battle Royale er vinsæll tölvuleikur sem samkvæmt aldursviðmiðum er fyrir notendur 12 ára og eldri. Í leiknum geta allt að 100 leikmenn barist upp á líf og dauða, þar til einn þeirra stendur eftir sem sigurvegari. Leikmenn byggja mannvirki, safna vopnum og birgðum

Þó svo að persónur leiksins séu teiknimyndapersónur í björtum litum er þetta ekki leikur við hæfi ungra barna þar sem ofbeldi er stór hluti leiksins, jafnvel þó svo að þar sé hvorki að sjá blóð né áverka sem minna á raunverulega slíka.

Strákur að spila tölvuleik

Að hverju ber að huga þegar börn spila Fortnite?

  • Samskipti í leiknum
    • Í Fortnite geta leikmenn spjallað, bæði með texta og tali, en með stillingum er hægt að takmarka eða útiloka möguleika barns í tölvuleiknum á spjalli og samskiptum við aðra leikmenn.
  • Keyptar viðbætur
    • Í Fortnite geta leikmenn keypt ýmsar viðbætur eins og búninga á persónur og betri og öflugri vopn, sem gott er að huga að, ef t.d. aðgangur að leiknum er tengdur kreditkorti foreldra.
  • Samfélag fjölþáttaleikja
    • Félagslegur þáttur svokallaðra fjölþáttaleikja (þar sem margir leikmenn spila samhliða og saman) hefur mikil og jafnvel ávanabindandi áhrif, enda upplifa leikmenn leikinn sem samfélag sem bíður upp á endalausa og fjölbreytta möguleika til skemmtunar og samskipta. Eðli slíkra leikja er þó þannig að félagslegur þrýstingur getur myndast þegar vinir barna vilja spila leikinn, jafnvel oft og lengi, og gerð er krafa til barns um að taka þátt. Ef vinir barns fá að spila og barn fær ekki að vera með, getur barn upplifað einangrun og útilokun.

Öryggisstillingar

Mikilvægt er að ræða við barnið og í sameiningu setja ramma í kringum tölvuleikjanotkun, þar sem barninu er veitt svigrúm til þátttöku í tölvuleikjum með vinum sínum, en tryggt er að óhófleg tölvuleikjanotkun hafi ekki neikvæð áhrif á heilsu og velferð barns.

Fortnite býður upp á ýmsa stillingarmöguleika sem miða að því að tryggja öryggi barna og stuðla að hóflegri notkun leiksins. Hafa ber þó í huga að þessar stillingar eiga eingöngu við um leikinn sjálfan og því þarf einnig að skoða öryggis- og friðhelgisstillingar á viðkomandi leikjavettvangi ef við á.

Við uppsetningu leiksins kemur upp valstika í hægra horninu, en þar er hægt að velja foreldrastýringu eða Parental Controls, mundu eftir að vista allar breytingar sem þú gerir á stillingum.

  • Byrjaðu á því að staðfesta netfang þitt og veldu síðan PIN-númer.
  • Í foreldrastillingum er síðan hægt að aftengja ýmsa virkni í leiknum:
    • Can See Mature Language - Með þessari stillingu birtast blótsyrði og annað óviðeigandi orðalag á ensku sem hjörtu í spjallinu. 
    • Can Accept Friend Requests Með þessari stillingu er hægt að koma í veg fyrir að barni berist vinabeiðnir frá ókunnugum. 
    • Non-Squad Members Can See Your Name - Með þessari stillingu er hægt að koma í veg fyrir að skjánafn leikmanns birtist leikmönnum sem ekki eru í sama hópi eða „Squad“. 
    • Can See Non-Squad Member Names - Með þessari stillingu birtast ekki skjánöfn leikmanna sem ekki eru í sama hópi og barnið. 
    • Voice Chat - Með þessari stillingu er hægt að útiloka raddspjall barns við aðra leikmenn. 
    • Text Chat - Með þessari stillingu er hægt að útiloka vefspjall barns við aðra leikmenn. 
    • Weekly Playtime Reports - Ef þessi möguleiki er valinn fær foreldri vikulegt yfirlit í tölvupósti yfir það hversu miklum tíma barn eyðir í leiknum. Ef þér finnst ástæða til að fylgjast með notkun barnsins með þessum hætti, þessu, ræddu það við barnið og fáðu samþykki þess fyrir því fyrir fram.

Call of Duty Warzone

Call of Duty Warzone er vinsæll tölvuleikur meðal barna, þar sem 150 leikmenn spila saman og berjast þar til aðeins einn stendur eftir. Vopn leikmanna minna á raunveruleg hergögn, eins og t.d. vélbyssur og handsprengjur.

  • Samkvæmt aldursviðmiðum er leikurinn ekki talinn við hæfi barna undir 18 ára aldri.
    • Ástæðan fyrir því er m.a. annars að ofbeldi, pyntingar, aftökur og hryðjuverk eru áberandi en því er m.a. beint að viðkvæmum og varnarlausum persónum í leiknum
    • Aldursviðmiðið byggir einnig á því að ofbeldið og afleiðingar þess eins og blóð og áverkar, birtast leikmönnum á afar raunverulegan hátt.

Leikurinn er ókeypis, en þó er mikið um auglýsingar fyrir keyptar viðbætur.

Stillingar

Í leikjatölvum og tækjum geta foreldrar valið Parental Controls þar sem hægt er að takmarka aðgengi að leiknum, með aðgangsorði í samræmi við aldursviðmið hans. En einnig er hægt að breyta stillingum í leiknum sjálfum til þess að takmarka upplifun leikmanns og möguleika á t.d. samskiptum við aðra leikmenn.

  • Undir stillingum sem flokkast undir General er hægt að breyta ýmsum stillingum sem áhrif hafa á leikinn.
    • Með því að afhaka við Dismemberment & Gore Effects er hægt að takmarka upplifun leikmanns af grófu ofbeldi.
    • Einnig er hægt að loka fyrir spjall möguleika í leiknum með því að afhaka við Text Chat
    • Í hljóðstillingum eða Audio er hægt að loka fyrir raddspjall við aðra leikmenn með því að afhaka við Voice Chat.
  • Hvernig á að tilkynna um óviðeigandi hegðun annarra leikmanna:
    • Ýttu á myndina af þér í efri vinstra horninu
    • Veldu Player History með því að ýta á myndina af skeiðklukkunni, þar á að birtast listi yfir þá sem hafa tekið þátt í leik með þér, ýttu á myndina af fallhlíf fyrir ofan listann, og veldu þann leikmann sem þú vilt tilkynna. Ýttu síðan á upphrópunarmerkið í efri horninu til hægri og veldu rétta tegund tilkynningar undir Report.

Minecraft

Minecraft er tölvuleikur þar sem leikmenn byggja mannvirki úr kubbum í þrívíðri veröld. Í leiknum eru endalausir möguleikar og þar geta notendur látið ímyndunaraflið og sköpunargáfu sína ráða.

Er Minecraft öruggt?

Í Minecraft eru fjölmargir möguleikar og því hægt að velja það sem hentar aldri og þroska barns.

  • Í leiknum er hægt að velja á milli þriggja stillinga: Adventure, Creative og Survival
  • Einnig er hægt að velja mismunandi erfiðleikastig: Peaceful, Easy, Normal og Hard.
  • Ef um yngri börn er að ræða er best að velja Creative sem gefur börnum alla þá möguleika sem í leiknum felast en með tilteknum takmörkunum á t.d. upplifunum af ofbeldi.
  • Með því að velja möguleikann Peaceful er ekki um nein samskipti við aðra að ræða.
  • Ef börn vilja spila með öðrum er hægt að takmarka það með því að þau spili eingöngu í svokölluðum realm sem eru hópar með að hámarki 10 leikmönnum sem fá boð um að taka þátt.

Aldurstakmörk á Minecraft

Það eru engin formleg aldursviðmið í Minecraft en með hliðsjón af eðli leikjanna er mælt með því að börn séu orðin að minnsta kosti 8 ára áður en þau fara að spila þar, að því gefnu að friðhelgisstillingar séu nýttar til að skapa þeim öruggara umhverfi í leiknum.

Twitch

Twitch er vettvangur fyrir beint myndstreymi sem fjallar að mestu leyti um spilun vinsælla tölvuleikja. Streymi í beinni útsendingu er alltaf með vefspjalli þar sem þeir sem eru að horfa geta spjallað saman, sett fram athugasemdir og svarað athugasemdum annarra.

  • Þar sem allt sem fram fer á Twitch er í beinni útsendingu, er erfitt að hafa stjórn á því sem þar er birt. Reglur Twitch segja til um að þeir sem streyma efni sem ekki er við hæfi barna eigi að merkja það sérstaklega, en þar sem ábyrgðin á því hvílir fyrst og fremst á þeim sem streyma efni, er ekki hægt að ganga að því vísu.
  • Þá eru margir að streyma í beinni spilun tölvuleikja sem í mörgum tilvikum eru ofbeldisfullir og alls ekki við hæfi barna undir 18 ára aldri.

Aldurstakmörk

Twitch er með 13 ára aldurstakmarki og Twitch gerir kröfu um að þátttaka barna undir 18 ára aldri sé samþykkt af foreldrum.

Stillingar fyrir vefspjall

Þar sem um er að ræða beint streymi og beint spjall er erfitt að hafa stjórn á því sem þar fer fram en með stillingum er hægt að koma í veg fyrir að áhorfanda birtist tiltekið efni eða niðrandi orðalag og blótsyrði með stillingum í svokallaðri automod virkni.

Einkaskilaboð

Á Twitch er hægt að senda öðrum notendum einkaskilaboð eða svokölluð Whisper. Hægt er að takmarka móttöku einkaskilaboða við lista yfir vini barnsins með því að ýta á valmynd í efra horninu til vinstri og velja Account Settings og síðan Security & Privacy og síðan velja valkostinn Block Whispers from Strangers.

Upp

Algengar skammstafanir

Hvað þýða allar þessar skammstafanir?

Í samskiptum barna og unglinga á Netinu er algengt að þau noti enskar skammstafanir en hér fyrir neðan má finna lista yfir nokkrar algengar slíkar.

  • #FBF Flash back Friday
  • #MCM Man crush Monday
  • #OOTD Outfit of the day
  • #TBT Throwback Thursday
  • #WBW Way back Wednesday
  • #WCW Woman crush Wednesday
  • 420 Cannabis neysla
  • 4RL For real
  • AMA Ask me anything
  • ASL Age/Sex/Location
  • ATM At the moment
  • Bestie Best Friend
  • BF/GF Boyfriend/Girlfriend
  • BFF Best Friends forever
  • F4F Follow for follow
  • BTW By the way
  • COD Call of Duty (tölvuleikur)
  • FML Fuck my life
  • FTW For the win
  • FWB Friends with benefits
  • G2G Got to go
  • GG Good game
  • GNOC Get naked on camera
  • GTFO Get the Fuck out
  • GTG Good to go
  • HBU How about you?
  • HML Hate my life
  • HMU Hit me up
  • NP No problem
  • HRU How are you
  • 100p 100%
  • IDC I don't care
  • IDK I don't know
  • IG Instagram
  • ILY I love you
  • J/K Just Kidding
  • L4L Like for like
  • L8R Later
  • Lawl Laughing out loud
  • Molly MDMA (ólöglegt vímuefni)
  • NBD No big deal
  • NP No problem
  • SMH Shaking my head
  • NVM Never mind
  • OTW On the way
  • PIR Parents in room
  • POV Point of view
  • RU Are you
  • STFU Shut the F*** up
  • TBH To be honest
  • TDTM Talk dirty to me
  • TTYL Talk to you later
  • WTGP Want to go private?
  • YOLO You only live once

UppTil baka á netið, samfélagsmiðlar og börn


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica