6. febrúar 2018

Viðmið vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum

Í tilefni af alþjóðlegum netöryggisdegi 2018 gefa umboðsmaður barna, Barnaheill, Fjölmiðlanefnd, Heimili og skóli, Unicef og SAFT út viðmið vegna umfjölunar um börn á samfélagsmiðlum.

Börn eiga rétt á því að njóta friðhelgi einkalífs, eins og allir. Friðhelgi einkalífs felur meðal annars í sér rétt til þess að ráða yfir lífi sínu og líkama og til þess að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Forsjá foreldra takmarkar hins vegar í ákveðnum tilvikum friðhelgi einkalífs barna, þar sem foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum og þurfa að taka sumar ákvarðanir fyrir þeirra hönd, í samræmi við aldur og þroska barnanna. Foreldrar þurfa þó samt sem áður að virða einkalíf barna sinna og fara varlega í að birta opinberlega myndir eða upplýsingar um börn sín, t.d. á facebook eða í öðrum miðlum. Þetta á sérstaklega við um myndir eða upplýsingar sem mögulega geta verið viðkvæmar fyrir barnið eða ætla má að barnið kæri sig ekki um að aðrir hafi vitneskju um. Í þessu sambandi þarf að huga að því hvort það sé líklegt að barnið sé sátt við það að þessar upplýsingar eða myndir verði til það sem eftir er, því eins og við vitum þá geta upplýsingar sem eru settar á netið fylgt einstaklingum til framtíðar.

Mikilvægt er að við setjum okkur í spor barnanna og birtum ekki myndir af þeim eða upplýsingar um þau sem við myndum sjálf ekki vilja að myndu birtast af okkur eða um okkur. Á þetta til dæmis við um myndir sem sýnir barn í viðkvæmum aðstæðum. En jafnvel þó að við sjálf hefðum ekkert á móti myndbirtingu eða birtingu tiltekinna upplýsinga um okkur þarf ekkert endilega að börnin verði sátt við þetta mat foreldra sinna þegar fram í sækir.

Í samræmi við þennan rétt og í tilefni af alþjóðlegum netöryggisdegi 2018 gefa umboðsmaður barna, Barnaheill, Fjölmiðlanefnd, Heimili og skóli, Unicef og SAFT út viðmið vegna umfjölunar um börn á samfélagsmiðlum. Við hvetjum foreldra og aðra aðstandendur barna að hafa þessi viðmið í huga næst þegar kemur að því að deila efni á facebook. 

Viðmið vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum (pdf)


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica