Réttur barna til einkalífs
Þann 7. maí sl., birtist grein umboðsmanns barna í Noregi um rétt barna til einkalífs, greinin fylgir hér á eftir í lauslegri íslenskri þýðingu.
Foreldrar hafa ákvörðunarrétt í lífi barna sinna sem grundvallast á umönnunarskyldu þeirra og rétti til að haga uppeldi barna sinna á þann hátt sem þau kjósa. Kveðið er á um rétt og skyldu foreldra í ákvæðum Barnasáttmálans og barnalaga. Það þýðir þó ekki að foreldrar eigi ótakmarkaðan rétt á því að birta myndir og aðrar upplýsingar um eigin börn. Stjórnarskráin og 16. gr. Barnasáttmálans tryggir rétt barna til einkalífs og persónulegrar friðhelgi. Foreldrar verða að virða rétt barna til einkalífs sem eykst með aldri og þroska.
Hvers vegna er einkalíf barna mikilvægt? Um er að ræða réttinn til að fá sjálfur að ákveða hvað aðrir fá að vita um þig. Það er barnið sjálft sem á að ákveða hvað það vill vera í opinbera rýminu. Þegar upplýsingar um barn eru settar á netið, án þess að barn vilji það, hefur það afleiðingar um leið. Það getur jafnframt haft afleiðingar til lengri tíma og slíkar birtingar verða þá hluti af framtíð barna.
Umboðsmaður barna í Noregi er á þeirri skoðun að auka þurfi þekkingu foreldra og annarra fullorðinna á rétti barna til einkalífs og að virða þurfi skoðanir barna. Barnasáttmálinn tryggir börnum rétt til að tjá sig um mál sem þau varðar. Rannsóknir og fjölmiðlaumfjöllun sýna þó að enn er langt í land. Í rannsókninni EU Kids Online kom fram að eitt af þremur börnum sögðu foreldra hafa birt myndir af þeim á netinu án leyfis þeirra. Tæplega eitt af hverjum fimm börnum höfðu beðið foreldrana um að fjarlægja eitthvað sem þau birt á netinu.
Við þurfum nánari afmörkun á því hvað foreldrar mega setja á netið um börn. Því er nýlegur dómur sem kveðinn var upp gegn móður sem birti viðkvæmar persónuupplýsingar um sjö ára barn sitt á Facebook afar mikilvægur. Tilkynning um málið barst frá barnaverndarstarfsmanni. Þessi dómur getur orðið til þess að afmarka hvað er löglegt og hvað ekki í þessum efnum. Börnin sjálf hafa þó litla möguleika á því að kæra slík mál. Það er því mikilvægt að skýra ábyrgð fullorðinna. Umboðsmaður barna í Noregi telur að ríkisstjórnin þurfi að tryggja fræðslu til barna og fullorðinna um rétt barna til einkalífs.
Umboðsmaður barna hér á landi tekur eindregið undir sjónarmið norska umboðsmannsins og ítrekar mikilvægi þess að foreldrar og aðrir aðstandendur barna hugsi sig um áður en birtar eru upplýsingar sem tengjast börnum opinberlega eða á samfélagsmiðlum. Barn á alltaf rétt á að tjá sig um málefni sem það varðar og ber að taka tillit til skoðana barnsins eftir aldri og þroska þess.
Norskur dómur um myndbirtingar foreldris á facebook
Nýlega féll dómur í Noregi (lagmannsretten i Hålogaland) í máli móður sem birti ýmsar upplýsingar um sjö ára dóttur hennar á facebook. Í málinu komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að móðirin hafi, með því að birta bréf frá barnaverndarnefnd, þar sem fram komu viðkvæmar persónuupplýsingar um barnið, og ljósmyndir og hreyfimyndir af barninu grátandi og í viðkvæmri stöðu, brotið gegn rétti barnsins til einkalífs. Í dóminum reyndi á það hvort forsjá barns feli í sér rétt foreldris til að samþykkja opinbera birtingu á upplýsingum af þessu tagi fyrir hönd barna.
Í dómnum segir: Að sjö ára barn sýni ekki neikvæð viðbrögð við opinberri umfjöllun af þessu tagi, útilokar ekki neikvæð viðbrögð á seinni stigum, t.d. á unglingsárum. Þá segir jafnframt í dómnum: Að foreldri, eins og í þessu tilviki, birti opinberlega upplýsingar um barnið, sem hlutlægt séð, eru afar persónulegar og viðkvæmar, fellur óhjákvæmilega utan ramma forsjár. Eins og saksóknari hefur bent á, myndi gagnstæð niðurstaða fela í sér að barn væri án verndar gegn ótilhlýðilegri opinberri birtingu foreldra á viðkvæmum persónuupplýsingum um barn.
Var móðirin dæmd til sektargreiðslu að upphæð 12.000 norskra króna en hún hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar í Noregi.
Hér má finna umfjöllun um dóminn á heimasíðu Fjölmiðlanefndar.
Viðmið vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum og við opinbera umfjöllun
Hér má finna viðmið vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum.
Einnig má hér finna viðmið um opinbera umfjöllun um börn sem geta nýst fjölmiðlum og öðrum þegar þeir fjalla opinberlega um málefni sem snúa að börnum eða tengjast börnum á einhvern hátt.
Umboðsmaður barna, Barnaheill, Fjölmiðlanefnd, Heimili og skóli, Unicef og SAFT standa að báðum viðmiðunum.
Upplýsingabæklingur Persónuverndar fyrir foreldra, forsjáraðila og þeirra sem vinna með börnum
Að lokum má nefna að Persónuvernd hefur gefið út upplýsingabækling um persónuvernd barna fyrir foreldra, forsjáraðila og þeirra sem vinna með börnum. Einnig er að finna annað efni um persónuvernd barna á vef Persónuverndar.