9. september 2013

„Ekki mögulegt“ að koma á fót úrræði fyrir börn með alvarlegan vímuefna- og afbrotavanda

Í svarbréfi velferðarráðuneytisins við fyrirspurn umboðsmanns barna segir að með hliðsjón af aðstæðum í ríkisfjármálum er ekki mögulegt að koma á fót stofnun sem sameini bráðavistun og meðferð vegna alvarlegrar vímefnaneyslu og afbrotahegðunar. Umboðsmaður telur því íslenska ríkið brjóta skyldur sínar samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að þessu leyti.

Umboðsmaður barna hefur lengi haft verulegar áhyggjur af stöðu barna sem stefna eigin velferð í hættu t.d. vegna afbrota, hegðunarvandamála eða vímuefnaneyslu. Úrræði fyrir þessi börn skortir sárlega. Nýtt meðferðarúrræði er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að búið er að lögfesta Barnasáttmálann, sbr. lög nr. 19/2013.  Samkvæmt c-lið 37. gr. sáttmálans er ekki heimilt að vista börn sem brjóta af sér í fangelsum með fullorðnum föngum, eins og því miður hefur tíðkast hér á landi. Þarf því að koma á fót meðferðarheimili þar sem börn sem hafa hlotið fangelsisdóm geta afplánað refsingu sína. Slíkt meðferðarheimili gæti einnig nýst börnum með alvarlegan hegðunar- eða vímuefnavanda.

Í september 2012 sendi umboðsmaður barna bréf til velferðarráðuneytisins og benti á brýna nauðsyn þess bæta stöðu barna með ofangreindan vanda. Í bréfinu óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um það hvort og þá hvernig fyrirhugað væri að bregðast við skorti á úrræðum fyrir börn með alvarlegan hegðunar- eða vímuefnavanda. Þar sem ekkert svar hafði borist ítrekaði umboðsmaður fyrirspurn sína í júlí 2013. Hinn 26. ágúst sama ár barst svar frá ráðuneytinu.

Í svari ráðuneytisins  er vísað til bréfs Barnaverndarstofu til umboðsmanns barna, dags. 22. febrúar 2013, þar sem er að finna ítarleg svör við fyrirspurnum umboðsmanns sem voru af sama meiði og fyrirspurnin til ráðuneytisins. Ennfremur segir í bréfi ráðuneytisins að tillaga hafi komið frá Barnaverndarstofu um að opnað yrði nýtt meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu sem sameini bráðavistun og meðferð vegna alvarlegrar vímuefnaneyslu og afbrotahegðunar. Hins vegar telur ráðuneytið ljóst að með hliðsjón af aðstæðum í ríkisfjármálum undanfarinna ára og um þessar mundir sé ekki mögulegt að koma slíkri stofnun á fót. Þá segir að ávallt sé unnið að því að þjónusta þá unglinga sem hafa mikla þjónustuþörf vegna vímuefnavanda og afbrotahegðunar með dvöl á Stuðlum og Háholti, með MST þjónustu inn á heimili barna og heilbrigðisþjónustu á vegum BUGL. Að lokum var tekið fram að skipuð hafi verið nefnd um samhæfða þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir til að koma á reglubundnu samstarfi ríkis og sveitarfélaga um að veita börnum þessum, sem hafa mikla umönnunar- og þjónustuþörf, nauðsynlega þjónustu.

Umboðsmaður barna hefur sent ráðuneytinu bréf þar sem hann þakkar fyrir hreinskilin svör en lýsir um leið vonbrigðum sínum með að ekki sé stefnt að því að koma á fót úrræði fyrir börn með alvarlegan hegðunar- eða vímuefnavanda. Framkvæmdin undanfarin ár hefur sýnt að þau úrræði sem eru nú þegar til staðar og ráðuneytið vísar til duga ekki til. Umboðsmaður telur því íslenska ríkið brjóta skyldur sínar samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að þessu leyti.  Í þessu sambandi má einnig benda á að svar ráðuneytisins gengur þvert á framkvæmdaáætlun í barnavernd sem samþykkt var á Alþingi í mars 2013. Í áætluninni segir að stefnt skuli að því að vinna að efla þjónustu og verklag með nýrri meðferðarstofnun fyrir unglinga í alvarlegum vímuefna- og afbrotavanda. Umsögn umboðsmanns barna um umrædda tillögu má sjá hér

Umboðsmaður barna skorar á velferðarráðuneytið til þess að endurskoða þá afstöðu sem fram kemur í fyrrnefndu svari. Aðstæður í ríkisfjármálum geta ekki réttlætt brot á grundvallarréttindum barna. Í því sambandi er rétt að benda á að ríkinu er skylt að veita hagsmunum barna forgang þegar teknar eru ákvarðanir um úthlutun fjármuna, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans um að það sem er barni fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica