Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Úrræði fyrir börn sem eiga við geðræn vandamál að stríða eða stefna eigin velferð í hættu - Bréf

Umboðsmaður barna sendi fyrir nokkru bréf til velferðarráðherra þar sem spurst er fyrir um fyrirætlanir ráðuneytisins varðandi úrræði fyrir börn sem eiga við geðræn vandamál að stríða eða stefna eigin velferð í hættu t.d. vegna vanlíðunar, hegðunarvandamála eða vímuefnaneyslu.

Bréf umboðsmanns barna er svohljóðandi:

Velferðarráðuneytið
b.t. Guðbjartar Hannessonar
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu
150 Reykjavík

Reykjavík, 20. september 2012

Efni: Tillögur Barnaverndarstofu um aðgerðir til að styrkja meðferð barna og unglinga

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af stöðu barna sem eiga við geðræn vandamál að stríða eða stefna eigin velferð í hættu t.d. vegna vanlíðunar, hegðunarvandamála eða vímuefnaneyslu. Af því tilefni hefur umboðsmaður margoft bent á brýna nauðsyn þess að tryggja að nægileg úrræði séu til staðar.

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns barna til Barnaverndarstofu um málefni barna með ofangreindan vanda fékk umboðsmaður sent afrit af meðfylgjandi tillögum og greinargerð um aðgerðir til að styrkja meðferðarmál barna og unglinga, sem Barnaverndarstofa sendi ráðuneytinu í bréfi, dags. 1. júlí 2011. Umboðsmaður barna óskar nú eftir upplýsingum um það hvort og þá hvaða vinna hefur átt sér stað innan ráðuneytisins til þess að bregðast við umræddum tillögum. Ef ráðuneytið hefur ekki í huga að bregðast við tillögum Barnaverndarstofu óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um hvernig fyrirhugað er að leysa vanda þessara barna.


Virðingarfyllst,
_____________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

Afrit:
Barnaverndarstofa
b.t. Braga Guðbrandssonar
Borgartúni 21
105 Reykjavík