10. júní 2022

Umræða um barnaþing á Alþingi

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra flutti munnlega skýrslu um niðurstöður barnaþings á Alþingi í gær, fimmtudaginn 9. júní. Í kjölfarið fóru fram umræður þar sem fjöldi þingmanna tók til máls. 

Í ræðu sinni fagnaði forsætisráðherra því hversu vel hefði tekist til með barnaþing og áréttaði mikilvægi barnaþings sem vettvangs fyrir börn til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þá hafi niðurstöður barnaþings veitt þingmönnum innblástur og gefið þeim hugmyndir sem þau geti unnið að í störfum sínum á Alþingi. Þannig geti niðurstöður barnaþings bæði haft bein og óbein áhrif innan þingsins. Forsætisráðherra vill að fastanefndir Alþingis kynni sér inntak skýrslunnar og að tekið verði mið af henni þegar verið er að vinna að málum sem hafa bein áhrif á börn og ungmenni. Hafði forsætisráðherra orð á því að þau gildi sem barnaþingmenn settu sér fyrir þingið séu til eftirbreytni, en þau voru að vera jákvæð, sýna hvert öðru virðingu og að hafa gaman.

Þingmenn tóku undir orð forsætisráðherra og lögðu áherslu á að aukið samráð verði haft við börn og að tillögur þeirra og ályktanir komi til framkvæmda.

Barnaþing var haldið annað sinn í Hörpu dagana 3. – 4. mars sl. Fjölbreyttur hópur barna alls staðar af landinu sótti þingið og sýndi þannig í verki að börn láta sig samfélagsleg málefni varða og vilja vera afl til breytinga. Í lögum um umboðsmann barna, nr. 83/1994, er kveðið á um að umboðsmaður barna skuli boða til þings um málefni barna annað hvert ár og skulu niðurstöður og ályktanir þingsins kynntar ríkisstjórn.

Fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna afhentu ráðherrum ríkisstjórnarinnar skýrslu með niðurstöðum barnaþings 27. maí sl. Í skýrslunni birtast helstu niðurstöður barnaþingsins en barnaþingmenn unnu í sameiningu að því að finna nýjar leiðir og lausnir á fjölbreyttum viðfangsefnum, í þetta sinn völdu barnaþingmenn að einblína á mannréttindi, menntun og umhverfis- og loftslagsmál. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica