4. maí 2020

Þátttaka barna í stefnumótun og ákvörðunum

Á vormánuðum 2019 undirrituðu félags- og barnamálaráðherra og umboðsmaður barna, samkomulag um aukið samstarf í málefnum barna. Með samkomulaginu tók embætti umboðsmanns barna að sér að móta tillögur um breytt verklag um þátttöku barna sem settar eru fram í þessari skýrslu sem skilað var til ráðuneytisins í desember 2019.

Í skýrslunni er fjallað um mikilvægi aukinnar þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku samkvæmt Barnasáttmálanum, gerð grein fyrir þekktum aðferðum á þessu sviði og loks settar fram tillögur um leiðir að aukinni þátttöku barna. Í vinnu umboðsmanns barna var litið til verklags og aðferða hjá ýmsum ríkjum og rannsókna fræðikonunnar Dr. Laura Lundy um þátttöku barna. Lundy hefur greint kjarna 12. gr. Barnasáttmálans í fjóra meginþætti, sem þurfa að vera til staðar í virku og raunverulegu samráði við börn. Þessi atriði eru: Vettvangur, að skapa þurfi vettvang þar sem börn eru örugg og fá að taka þátt. Rödd, að börn fái nauðsynlegar upplýsingar og stuðning til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, Áheyrn, að hlustað sé á það sem börn hafa fram að færa og Áhrif, að tekið sé mark á skoðunum barna þannig að þau fái að hafa raunveruleg áhrif í öllum málum sem varða þau.

Tillögurnar sem settar eru fram í skýrslunni eru ætlaðar stefnumótandi aðilum, framkvæmdaraðilum þjónustu, og þeim sem taka ákvarðanir sem varða börn, hvort sem er innan ráðuneyta, stofnana eða sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir því að tillögurnar nýtist jafnframt öðrum aðilum sem bjóða börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu eða stuðning. 

Skýrsla um þátttöku barna í stefnumótun og ákvörðunum (pdf).

Skýrsla um þátttöku barna í stefnumótun og ákvörðunum (á issuu.com)Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica