7. júní 2022

Breyting á fargjöldum í strætó

Umboðsmaður barna fagnar þeirri ákvörðun meirihluta borgarstjórnar að gera strætóferðir gjaldfrjálsar fyrir börn í grunnskóla. En embættið hefur átt í ítrekuðum samskiptum við stjórn og framkvæmdarstjóra Strætó bs. vegna hækkunar á gjaldi fyrir árskort ungmenna.

Á síðustu misserum hefur umboðsmaður barna átt í ítrekuðum samskiptum við stjórn og framkvæmdastjóra Strætó bs., vegna hækkana á gjaldi fyrir árskort ungmenna. Þó nokkrar fjölskyldur leituðu til umboðsmanns barna og greindu frá því að umræddar gjaldskrárhækkanir hafi haft töluverð áhrif á fjárhag þeirra og takmarkað möguleika ungmenna á heimilum þeirra, til að stunda nám og tómstundastarf og eiga í félagslegum samskiptum við vini og jafnaldra. Þá hafa barnaþingmenn sem tóku þátt í barnaþingi einnig lagt mikla áherslu á að almenningssamgöngur verði gjaldfrjálsar fyrir börn og komu tillögur um slíkt fram á síðustu tveimur barnaþingum.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að nýr meirihluti borgarstjórnar hyggst setja málefni barna í forgang, en meðal þeirra aðgerða sem ráðast á í á kjörtímabilinu, er að gera strætóferðir gjaldfrjálsar fyrir öll börn á grunnskólaaldri. Umboðsmaður barna fagnar þessari áherslu og hvetur hinn nýja meirihluta borgarstjórnar til þess að ráðast í þetta verkefni sem allra fyrst, til þess að stuðla að jöfnum tækifærum fyrir öll börn á höfuðborgarsvæðinu, óháð búsetu eða fjárhagsstöðu heimila þeirra. 

Ítarefni: 

 

 

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica