23. nóvember 2023

Skýrsla um stöðu barna

Skýrsla um stöðu barna hefur verið lögð fram í tengslum við barnaþing þar sem m.a. er fjallað um stöðu og þróun málefna barna á helstu sviðum samfélagsins. 

Samkvæmt lögum um umboðsmann barna, nr. 83/1994, ber umboðsmanni að leggja fram skýrslu við upphaf barnaþings um stöðu barna. Skýrslan var birt á heimasíðu embættisins föstudaginn 17. nóvember þegar barnaþing hófst. Í skýrslunni skal meðal annars fjallað um stöðu og þróun málefna  barna á helstu sviðum samfélagsins, þar á meðal með hliðsjón af Barnasáttmálanum.

Í skýrslunni er fjallað um stöðu barna út frá þeim verkefnum og greiningum á réttindum barna sem umboðsmaður barna hefur unnið að á síðustu misserum og lúta að innleiðingu Barnasáttmálans og stöðu viðkvæmra hópa barna í íslensku samfélagi. Í skýrslunni má meðal annars finna kafla um mat á áhrifum á börn og umfjöllun um nýjar leiðbeiningar til stjórnvalda um hvernig slíkt mat eigi að fara fram. Þá er sérstakur kafli sem fjallar um bið eftir þjónustu með skýringarmyndum um þróunina hjá nokkrum stofnunum. Í kafla um kvörtunarleiðir og barnvæna réttarvörslu er gerð grein fyrir réttindagæslu umboðsmanns barna, sem er tímabundið verkefni sem embættið hefur sinnt og einnig umfjöllun um valfrjálsa bókun við Barnasáttmálann um sjálfstæða kæruleið til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og barnvæna réttarvörslu. 

Í kafla um netið, samfélagsmiðla og börn er fjallað um könnun sem embættið gerði varðandi reglur um símanotkun í grunnskólum og er stuttlega gerð grein fyrir leiðbeiningum sem embættið vann ásamt Persónuvernd og Fjölmiðlanefnd um persónuvernd barna. Að lokum er, í kafla um lýðræðislega þátttöku barna, fjallað um þátttöku barna, einkum út frá barnaþingi og ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Skýrsluna er að finna á vef umboðsmanns barna ásamt barnvænni útgáfu. 

Skýrslur barnaþings


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica