5. október 2020

Skýrsla til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna

Í febrúar á þessu ári skilaði umboðsmaður barna skýrslu til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem settar eru fram ábendingar um aðgerðir sem stjórnvöld verða að grípa til og sem miða að áframhaldandi innleiðingu Barnasáttmálans, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. 

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að verulega þurfi að efla þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku opinberra aðila og að tryggja þurfi að við mótun stefnu og töku ákvarðana í málum barna sé ávallt byggt á vönduðum og áreiðanlegum tölfræðiupplýsingum og öðrum gögnum sem varpað geta ljósi á stöðu barna.

Í skýrslunni kemur einnig fram að bæta þurfi verulega aðgengi barna að heilbrigðisþjónustu, en það á ekki síst við um geðheilbrigðisþjónustu, þar sem stytta þarf biðlista og fjölga úrræðum. Þá leggur umboðsmaður barna einnig áherslu á að bæta þurfi aðgengi barna að opinberum stofnunum, m.a. með fræðslu til starfsfólks stofnana um Barnasáttmálann og þau réttindi barna sem þar er fjallað um, ekki síst rétt barna til þátttöku. Í skýrslunni er einnig fjallað um tiltekna hópa barna sem huga þarf sérstaklega að, en þar má nefna fötluð börn, hinsegin börn og börn af erlendum uppruna.

Börn þurfa betri fræðslu um andlega heilsu og þurfa að geta leitað til einhvers um leið og þeim líður illa, til þess að fá aðstoð. Börnum sem líður mjög illa þurfa að geta fengið aðstoð sérfræðinga um leið og ekki lenda á biðlista.

Í síðustu viku átti umboðsmaður barna ásamt fulltrúum félagasamtaka fund með barnaréttarnefndinni þar sem umboðsmaður fjallaði um skýrsluna og svaraði spurningum nefndarinnar. Fundurinn er liður í upplýsingaöflun barnaréttarnefndarinnar sem vinnur nú að mati á árangri íslenskra stjórnvalda í innleiðingu Barnasáttmálans. Þeirri vinnu lýkur á næsta ári þegar nefndin mun setja fram lokatilmæli sín um þær aðgerðir sem ríkið þarf að ráðast í til þess að uppfylla skyldur sínar sem aðildarríki Barnasáttmálans.

Skýrslan til barnaréttarnefndarinnar er birt hér fyrir neðan á ensku en einnig fylgir stytt útgáfa á íslensku á auðlesnu máli þannig að börn geti kynnt sér helstu atriði hennar.

 Supplementary report from the Ombudsman for children in Iceland (skýrslan á ensku)

Skýrslan á auðlesnu máli - stytt útgáfa


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica