22. október 2020

Staða á innleiðingu Barnasáttmálans

Salvör Nordal, umboðsmaður barna átti fund í dag með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, þar sem hún kynnti skýrslu embættisins með niðurstöðum könnunar um innleiðingu Barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum. 

Könnunin var send til allra ráðuneyta og ríkisstofnana í vor og alls bárust svör frá 132 stofnunum af þeim 155 sem könnunin náði til. Markmið verkefnisins var að fá yfirlit yfir þekkingu og vitund starfsmanna stofnana um Barnasáttmálann og að afla upplýsinga um stöðu á innleiðingu hans og er þetta í fyrsta skipti sem slík könnun er gerð.

Könnunin er liður í því lögbundna verkefni embættisins að fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans og því að hann sé virtur. Mikilvægur þáttur í innleiðingu Barnasáttmálans er að tryggja að hann sé með markvissum og kerfisbundnum hætti hafður að leiðarljósi við alla stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku sem varðar börn. Þekking á sáttmálanum og réttindum þeim sem þar er kveðið á um er grundvallarforsenda þess. Gert er ráð fyrir því að sambærileg könnun verði framkvæmd með reglubundnum hætti til að fylgjast með framþróuninni.

Af niðurstöðum könnunarinnar má ráða að mikinn áhuga er að finna meðal stofnana og ráðuneyta um að taka næstu skref í innleiðingu Barnasáttmálans. Könnunin virðist hafa vakið fulltrúa stofnana til umhugsunar um þá þætti sem snúa beinlínis að börnum eða varða þau með öðrum hætti. Þá hefur könnunin orðið hvati að umræðum hjá stofnunum um frekari aðgerðir sem miða að innleiðingu sáttmálans og aukinni þátttöku barna sem er afar jákvætt. Þá hyggst embætti umboðsmanns barna bregðast við ákalli stofnana um fræðslu og leiðbeiningar sem gera þeim kleift að stíga skref í átt að innleiðingu. Í undirbúningi er því námskeið fyrir starfsfólk stofnana og ráðuneyta að norrænni fyrirmynd sem haldið verður á næsta ári.

Embætti umboðsmaður barna er ávallt reiðubúið til samráðs og samstarfs um undirbúning og frammvæmd aðgerða um barnvænt aðgengi, samráð við börn og þátttöku þeirra í stefnumótun og ákvarðanatöku. 

Staða á innleiðingu Barnasáttmálans - niðurstöður könnunar meðal ríkisstofnana 2020.Niðurstöður á einföldu máli

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Salvör Nordal


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica