19. ágúst 2022

Myndband frá gróðursetningu í Vinaskógi

Hér er skemmtilegt myndband frá gróðursetningu í Vinaskógi við Þingvelli fyrr í sumar. Markmið gróðursetningarinnar var að kolefnisjafna ferðir þátttakenda á barnaþing sem haldið var í mars á þessu ári og voru nemendur í Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi í aðalhlutverki.

Myndbandið frá gróðursetningunni í júní

https://youtu.be/cEOvt6NYmrg

Gróðursetningin var samstarfsverkefni umboðsmanns barna, Skógræktarfélags Íslands og Yrkju – sjóðs æskunnar til ræktunar landsins. Markmiðið var að kolefnisjafna ferðir þeirra barnaþingmanna sem komu lengst að og er í samræmi við áherslur barnaþingmanna á umhverfis- og loftlagsmál og umhverfisvæna samgöngumáta. 

Nemendur í Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi sáu um að gróðursetja trjáplönturnar með aðstoð frá starfsfólki Skógræktarfélags Íslands í rammíslensku sumarveðri, sudda og sól. Gróðursetningin gekk vel fyrir sig og gæddu nemendur sér að hressingu að henni lokinni. Auk þess var Sævar Helgi Bragason, oft nefndur Stjörnu-Sævar, með hugvekju um umhverfisvernd og náttúruvernd þar sem hann fjallaði meðal annars um mikilvægi þess að huga vel að umhverfinu með því að m.a endurnýta og endurvinna. Umboðsmaður barna þakkar nemendum og öðru starfsfólki kærlega fyrir aðstoðina og ánægjulega stund.

Um barnaþing

Í lögum um umboðsmann barna er kveðið á um að umboðsmaður barna boði til þings um málefni barna annað hvert ár. Barnaþing var fyrst haldið 19. og 20. nóvember 2019 og í annað sinn þann 3. – 4. mars 2022. Barnaþing er reglubundinn vettvangur fyrir börn til að láta í ljós skoðanir sínar og veitir stjórnvöldum tækifæri til að fylgja hugmyndum þeirra eftir og koma tillögum þeirra í framkvæmd. Verndari barnaþings er frú Vigdís Finnbogadóttir.


Um Vinaskóg

Vinaskógur var stofnaður í tilefni Landgræðsluátaksins árið 1990 en þáverandi forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, var verndari átaksins og átti hugmyndina að Vinaskógi. Að hennar ósk var hófst ræktun Vinaskógar sem staðar þar sem forseti Íslands gæti komið með erlenda þjóðhöfðingja, til að í sameiningu gróðursetja tré í nafni vináttu og friðar. Fjöldi erlendra þjóðhöfðingja hafa gróðursett tré í skóginum með forseta Íslands, en sá fyrsti var Elísabet önnur Englandsdrottning, árið 1990. Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með gróðursetningu og umhirðu skógarins.


 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica