30. september 2014

Drög að viðmiðum fyrir mat á gæðum frístundastarfs

Starfshópur um innra og ytra mat frístundastarfs óskaði eftir umsögn um drög að viðmiðum fyrir mat á gæðum frístundastarfs í tölvupósti dags. 21. ágúst. Umsögn sína um drögin sendi umboðsmaður barna í tölvupósti dags. 30. september 2014.

Starfshópur um innra og ytra mat frístundastarfs óskaði eftir umsögn um drög að viðmiðum fyrir mat á gæðum frístundastarfs í tölvupósti dags. 21. ágúst. Umsögn sína um drögin sendi umboðsmaður barna í tölvupósti dags. 30. september 2014.

Umsögn umboðsmanns barna

UB:1409/4.1.1

Komið þið sælar Sigrún og Björk

Vísað er í tölvupóst frá ykkur dags. 21. ágúst sl. Umboðsmaður barna þakkar fyrir tækifærið til að koma með umsögn eða ábendingar um drög að viðmiðum fyrir mat á gæðum frístundastarfs í Reykjavík.

Umboðsmaður hefur undanfarin ár haft áhyggjur af gæðum frístundastarfs, sérstaklega lengdrar viðveru/frístundaheimila, sjá t.d. bréf um það hér. Því  fagnar hann þessu framtaki Reykjavíkurborgar enda eru viðmið um gæði forsenda þess að hægt sé að meta starfið og bæta.

Umboðsmanni er kunnugt um að í menntamálaráðuneytinu stendur nú yfir vinna við að breyta 33. gr. grunnskólalaga og kveða nánar á um frístunda- og félagsstarf. Í nýlegri umsögn sinni til starfshópsins sem vinnur að þeim breytingum sagði umboðsmaður að honum finndist eðlilegt að í frístunda- og félagsstarfi myndu gilda ákvæði grunnskólalaga og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra, eftir því sem við á. Á það til dæmis við um öryggi og velferð nemenda, skólahúsnæði og aðbúnað, réttindi nemenda, skyldur starfsfólks, réttindi nemenda með sérþarfir, tilkynningarskyldu og ráðningarbann á grundvelli sakarvottorðs. Sem dæmi má nefna að reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum og öryggishandbókin þegar hún kemur út (skv. 8. gr. reglugerðar 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða) ættu að gilda líka fyrir frístundaheimilin að mati umboðsmanns.

Því miður hefur ekki unnnist tími til að fara vandlega yfir drögin en eftir stutta yfirferð er það skoðun umboðsmanns að í drögunum sé vel hugað að réttindum barna. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá sérstaka kafla um rétt barna til virkrar þátttöku og lýðræðis, mannréttindi og margbreytileika sem og velferð og líðan barna.

Umboðsmaður barna er líka ánægður með að í kafla 2.1 segir: „Umhverfi barna og starfsfólks er öruggt, heilnæmt og vistvænt og vinnuaðstaða góð“. Hvað varðar öryggi barna á útisvæði frístundaheimila vill umboðsmaður samt benda á að það væri hægt að nota það sem viðmið um gæðastarf að farið sé að ákvæðum reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002, sjá nánar hér á vef Umhverfisstofnunar.

Í skjalinu er vísað í gátlista um skipulag húsnæðis og efniviðs. Umboðsmaður þekkir ekki þann gátlista og tókst ekki að finna hann í fljótu bragði á netinu. E.t.v. væri gott að láta gátlistann fylgja sem viðauka eða tilgreina hvar hann er að finna.

Að lokum vill umboðsmaður benda á nýútkomna handbók sem ber titilinn Kennsluumhverfið – hlúum að rödd og hlustun. Í seinni hluta ritsins er fjallað um inniloft, hávaða og úrræði til að draga úr skaðsemi hávaða í umhverfi barna. Vel gæti verið að punktar úr ritinu gætu nýst sem viðmið um gæðastarf.

Að öðru leyti hefur umboðsmaður ekki frekari athugasemdir og óskar starfshópnum alls hins besta.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica