Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Skortur á reglum um lengda viðveru barna - Bréf

Umboðsmaður barna sendi nýlega bréf til menntamálaráðherra þar sem hann lýsir áhyggjum sínum yfir því að engar opinberar reglur eða viðmið taki á starfssemi frístundaheimila. Umboðsmaður barna telur að starfsemi frístundaheimila myndi styrkjast ef settar yrðu sérstakar opinberar reglur um rekstur og fagmennsku í lengdri viðveru þar sem svo mikill fjöldi barna dvelur daglega. Umboðsmanni þykir eðlilegt að gerð sé krafa um að starf frístundaheimila taki mið af þörfum, þroska og áhuga allra barna og að börnum með fötlun eða sérþarfir sé veittur nauðsynlegur stuðningur.

Bréfið er svohljóðandi:

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið
b.t. Katrínar Jakobsdóttur
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 3. desember 2012

Efni: Lengd viðvera barna

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af gæðum starfs, öryggi og aðbúnaði barna í lengdri viðveru utan daglegs kennslutíma, sbr. 33. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Í ákvæðinu segir einungis að sveitarstjórn geti boðið grunnskólanemendum upp á lengda viðveru utan daglegs kennslutíma og að heimilt sé að taka gjald fyrir þá þjónustu. Engar lýsingar eru á markmiðum starfsins eða hvernig tryggja eigi gæði þess. Þá telur umboðsmaður barna það umhugsunarefni að í nær öllum sveitarfélögum eru börn með fötlun eða sérþarfir í almennri lengdri viðveru en engar reglur eru til um það hvaða hæfniskröfur eru gerðar til starfsfólks til að mæta þörfum þessara barna.

Dvöl í lengdri viðveru er nú hluti af daglegu lífi fjölda barna og er algengt að yngstu börnin dvelji á frístundaheimilum í þrjá til fjóra klukkustundir á dag eftir að skóladegi lýkur. Það getur því skipt sköpum fyrir börnin að þessi tími sé nýttur á uppbyggilegan hátt. Umboðsmanni barna er kunnugt um að starfsemi frístundaheimila er víða til fyrirmyndar og metnaður starfsfólks mikill til að haga starfinu eftir þroska og áhuga barnanna.  Þar sem vel er að verki staðið getur dvöl í lengdri viðveru því stuðlað að sterkari félagslegri stöðu barna og jafnað þannig út það félagslega misrétti sem börn búa óneitanlega við. Umboðsmanni er því miður einnig kunnugt um dæmi þess að öryggi barna í lengdri viðveru sé ekki tryggt, að þau hafi ítrekað farið af frístundaheimilinu með eða án leyfis starfsfólks en án vitundar foreldra áður en vistunartíma lýkur, að börnum leiðist í frístundaheimilinu og að hávaði og agaleysi þreyti börnin.

Á meðan starfsemi grunnskóla er tryggilega bundin í lög, reglugerðir og aðalnámskrá er starfsemi frístundaheimila ólögbundin. Sveitarfélög hafa því frjálsar hendur um hvernig starfið er útfært, svo framarlega sem farið er að æskulýðslögum nr. 70/2007. Ólík viðmið eru því milli sveitarfélaga um fjölda barna á starfsmann, menntun og hæfniskröfur til starfsfólks og þjónustustig lengdrar viðveru barna. Dæmi eru um að sveitarfélög geri engar kröfur um menntun stjórnenda lengdrar viðveru eða fjölda barna á hvern starfsmann. Þá má gera ráð fyrir að ýmis konar viðbragðsáætlanir, s.s., hvernig skuli tekið á einelti eða agabrotum, hvernig skuli farið með trúnaðarupplýsingar o.fl. séu víða ekki til staðar. Skortur á opinberum reglum eða viðmiðum um starfið sjálft gerir það að verkum að erfitt er að hafa eftirlit með gæðum starfsins. Umboðsmaður barna vill vekja athygli á grein eftir Kolbrúnu Þ. Pálsdóttur og Valgerði Freyju Ágústsdóttur sem var birt 10. júní 2011 í Netlu – veftímariti um uppeldi og menntun undir heitinu „Gæði eða geymsla? Um frístundaheimili og skóladagvistun fyrir 6-9 ára börn á Íslandi“. Þar segir í lokaorðum:

Á Íslandi skortir skýra opinbera stefnu um tómstundaheimili, frístundaheimili, skóladagvistir, dægradvöl, frístund eða hvaðeina nafni sem dagvistun skólabarna er nefnd. Staða þessarar þjónustu í samfélaginu er því óljós og á reiki hvort þessi þjónusta sé innan eða utan skólakerfisins. Sú spurning vaknar hvort hið almenna viðhorf sé að hér sé fyrst og fremst um að ræða gæslu, þjónustu sem er hagkvæm fyrir foreldra og fyrir samfélagið en hafi lítið að gera með eiginlegt uppeldislegt hlutverk.

Umboðsmaður barna telur að starfsemi frístundaheimila myndi styrkjast ef settar yrðu sérstakar opinberar reglur um rekstur og fagmennsku í lengdri viðveru þar sem svo mikill fjöldi barna dvelur daglega. Umboðsmanni þykir eðlilegt að gerð sé krafa um að starf frístundaheimila taki mið af þörfum, þroska og áhuga allra barna og að börnum með fötlun eða sérþarfir sé veittur nauðsynlegur stuðningur.

Umboðsmaður barna vill vekja athygli mennta- og menningarmálaráðherra á ofangreindum atriðum og telur mikilvægt að ráðherra taki þessi málefni til skoðunar og hugi að því að tryggja börnum á frístundaheimilum öruggt og þroskavænlegt umhverfi í umsjá starfsfólks sem hafa þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins.

Ef nánari upplýsinga er óskað er velkomið að hafa samband í síma 552 8999 eða senda tölvupóst á netfangið ub@barn.is.

Virðingarfyllst,

_______________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna