19. nóvember 2020

Dagur mannréttinda barna - málþing í streymi

Í tilefni af degi mannréttinda barna sem er þann 20. nóvember mun umboðsmaður barna standa fyrir málþingi um þátttöku og áhrif barna í samfélaginu. Málþingið ber heitið „Áhrif barna: Tækifæri, leiðir og framkvæmd."

 

Þrjú erindi verða í streyminu auk þess sem innlegg frá ungmennum úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna verður aðgengileg á síðu viðburðarins og síðu embættisins á facebook .

Streymt verður á facebook síðu viðburðarins.

Dagskrá málþingsins

Eiður Welding og Anna Ingibjargardóttir, ungmenni úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna stýra streyminu.

Upptaka frá málþinginu

Marta Magnúsdóttir: Vinnuskóli - Væri ekki bara best að spyrja ungmennin?

Vinnuskólar sveitarfélaga eru í flestum tilvikum fyrsta reynsla barna af vinnumarkaði og því nauðsynlegt að þessi fyrsta reynsla sé jákvæð og uppbyggjandi. Marta kynnir hér afrakstur vinnu við handbók fyrir vinnuskóla sem unnin var í sumar. Í handbókinni eru dæmi um einföld og notendavæn verkfæri sem flokkstjórar og skólastjórar vinnuskóla geta notað meðal annars til að veita ungmennum vinnuskólans tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri til að þróa og bæta starfið.

Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir: "Ekkert um okkur án okkar": Samráð við börn í íslenskri stjórnsýslu. Greining útfrá þátttökulíkani Laura Lundy.

Vigdís kynnir meistararitgerð sína sem fjallar um samráð við börn í íslenskri stjórnsýslu. Horft er til reynslu barna sem tekið hafa þátt í samráði á vegum stjórnsýslunnar og rýnt í skipulag, virkni og áhrif ungmennaráða á Íslandi. Framkvæmd var rýnihóparannsókn um samráð barna við stjórnvöld og spurningakönnun varðandi stöðu ungmennaráða var send á öll sveitarfélög landsins. Líkan fræðikonunnar Laura Lundy (2007) var leiðarljós í greiningu ritgerðarinnar en Lundy er einn helsti sérfræðingur heims í samfélagslegri þátttöku barna.

Guðjón Þór Jósefsson: Þátttaka barna í stefnumótun og ákvarðanatöku: Ágrip af reynslu annarra ríkja.

Erindið fjallar um ýmsar aðgerðir sem önnur ríki, einkum í Evrópu, hafa gripið til í því skyni að tryggja börnum rétt til þátttöku í stefnumótun og ákvarðanatöku í málum sem þau varða. Þar að auki verður gerð grein fyrir þeim leiðum og aðferðum sem ríki hafa valið við að tryggja þátttöku barna. Loks verður tæpt á þeim skilyrðum sem þátttaka barna þarf að uppfylla til að teljast áhrifarík og uppbyggileg með hliðsjón af reynslu annarra ríkja.

Þá flytja erindi þau Ölöf Vala og Ísak Hugi Einarsson, ungmenni úr ráðgjafarhópi umboðsmanns, en það verður aðgengilegt á síðu viðburðarins og facebook síðu embættisins á föstudaginn. Í erindi sínu fjalla þau meðal annars um upplifun ungs fólks af Covid-19 og áhrifin sem þau takmörk sem sett hafa verið í samfélaginu hafa haft á þau. 

Erindi Ísaks Huga

Isak-Hugi_radgjafarhopur

Erindi Ólafar Völu

Olof-Vala_radgjafarhopur


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica