21. janúar 2016

Börn sem líða efnislegan skort

Umboðsmaður barna skorar á stjórnvöld að nýta þær upplýsingar sem fram koma í nýútkominni skýrslu UNICEF um börn sem líða efnislegan skort og greina þær nánar, þannig hægt verði að bæta stöðu þeirra barna sem líða skort hér á landi

Fullordinn HjalparÍ gær, 20. janúar 2016, gaf UNICEF á Íslandi út skýrsluna Réttindi barna á Íslandi: Börn sem líða efnislegan skort. Í skýrslunni er efnislegur skortur meðal barna á Íslandi greindur með ýmsum hætti og kemur meðal annars í ljós að rúmlega 9% barna á Íslandi líða skort og þar af 2,4% verulegan skort. Hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni hér á vef UNICEF. Þar er einnig að finna sérstakt mælaborð, sem hægt er að nota til þess að greina upplýsingarnar nánar.

Umboðsmaður barna þakkar UNICEF fyrir frumkvæðið og þessa þörfu skýrslu. Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi og er mikilvægt að brugðist verði rétt við. Til dæmis kemur í ljós að börn foreldra sem eru á leigumarkaði eru líklegri en önnur börn til þess að líða skort, en umboðsmaður hefur lengi haft áhyggjur af aðstæðum barna í þeirri stöðu (sjá til dæmis álit frá september 2014).

Umboðsmaður barna skorar á stjórnvöld að nýta þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni og greina þær nánar, þannig hægt verði að bæta stöðu þeirra barna sem líða skort hér á landi. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem hefur eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans, hefur ítrekað bent á að það skorti heildstætt kerfi um söfnun, vinnslu og greiningu gagna um stöðu barna hér á landi. Slík gagnasöfnun er forsenda þess að raunverulega sé hægt að vinna að auknu jafnræði meðal barna á Íslandi. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica