Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Börn foreldra á leigumarkaði

Mynd af húsi á hólUmboðsmaður barna hefur áhyggjur af aðstæðum barna í fjölskyldum sem búa á leigumarkaði. Skortur er á leiguhúsnæði og öryggi leigjenda yfirleitt ekki mikið. Þessar aðstæður geta haft neikvæð áhrif á börn. Umboðsmaður barna þakkar Samtökum leigjenda fyrir að vekja athygli á aðstæðum fólks á leigumarkaði og hvaða áhrif þær geta haft á hagsmuni barna.

Umboðsmanni barna barst í vor bréf frá Samtökum leigjenda þar sem óskað er eftir áliti umboðsmanns á því hvort og hvernig sveitarfélög og ríki séu að brjóta á 27. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna annars vegar og 5. gr. húsnæðislaga hins vegar. Til þess að ræða málið nánar ákvað umboðsmaður að bjóða fulltrúum samtakanna á fund, sem var haldinn í lok apríl. Á fundinum óskuðu samtökin eftir því að fá skriflegt álit frá umboðsmanni. Nú hefur umboðsmaður barna sent Samtökum leigjenda svar. Þar kemur þetta fram:

...

Eins og fram kemur í bréfi ykkar tryggir 27. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013, börnum meðal annars rétt til viðunandi lífsskilyrða, þar á meðal húsnæðis. Sá réttur er einnig tryggður í 1. mgr. 11. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, en þar kemur fram að sérhver maður eigi rétt til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis og sífellt batnandi lífsskilyrða. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi hefur gefið út almennt álit þar sem hún útskýrir nánar hvað felst í réttindum til viðunandi húsnæðis. Þar kemur meðal annars fram að rétturinn felur ekki einungis í sér grundvallarrétt til húsaskjóls heldur eiga allir rétt á því að búa við öryggi, frið og reisn. Sérstaklega er tekið fram að kostnaður vegna húsnæðis megi ekki vera það hár að hann komi í veg fyrir að einstaklingur geti uppfyllt aðrar grundvallarþarfir sínar. Þá verður að tryggja lágmarksgæði húsnæðis, íbúðarhæfi og staðsetningu sem tryggir aðgang að vinnu og nauðsynlegri þjónustu.

Samkvæmt framangreindu áliti eiga allir hópar samfélagsins að hafa aðgang að viðeigandi húsnæði, en þó ber að veita ákveðnum hópum forgang. Á það meðal annars við um börn. Má í því sambandi einnig benda á 3. gr. Barnasáttmálans og 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 þar sem fram kemur að það sem er börnum fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Þá er réttur barna til þess að búa við þroskavænleg skilyrði sérstaklega tryggður í 6. gr. Barnasáttmálans og 1. mgr. 1. gr. barnalaga. Sérstaða barna er ennfremur áréttuð í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem fram kemur að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ákvæðið leggur þá skyldu á ríkið að tryggja velferð barna með öllum tiltækum ráðum.

Eins og fram kemur í 2. mgr. 27. gr. Barnasáttmálans bera foreldrar höfuðábyrgð á því að sjá barni fyrir þeim lífsskilyrðum sem eru því nauðsynlegar til að komast til þroska, í samræmi við getu sína og fjárhagsaðstæður. Hins vegar er ríkinu skylt að veita foreldrum og öðrum sem ábyrgir eru fyrir uppeldi barns aðstoð til að neyta þessa réttar. Eru þar stuðningsúrræði vegna húsnæðis sérstaklega nefnd. Ríkinu er því skylt skv. alþjóðalögum að tryggja foreldrum þá aðstoð sem þeir þurfa til þess að geta tryggt barni sínu öruggt og gott húsnæði.

Lög um húsnæðismál nr. 44/1998 voru sett í þeim tilgangi að stuðla að því að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Með  5. gr. laganna er sveitarstjórnum falið það verkefni að leysa húsnæðisþörf þess fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Um skyldur sveitarfélaga til þess að tryggja framboð á íbúðarhúsnæði er ennfremur fjallað í 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, en þar kemur fram að sveitarstjórnir skuli tryggja framboð af húsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að réttindi barna séu ekki nægilega tryggð þegar kemur að húsnæðismálum hér á landi. Ljóst er að margir hafa ekki tök á því að kaupa húsnæði eða hafa jafnvel misst húsnæði sitt vegna fjárhagsvanda. Vegna skorts á leiguhúsnæði er leiguverð víða það hátt að erfitt er fyrir fjölskyldur að ráða við kostnaðinn. Eru því einhver dæmi um að fólk búi við aðstæður sem geta ekki talist viðunandi og stefna jafnvel heilsu barna í hættu. Þá er leigumarkaðurinn ótryggur, þannig að mörg börn búa ekki við það öryggi og þann stöðugleika sem þau eiga rétt, sbr. meðal annars 27. gr. Barnasáttmálans og 11. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Mörg dæmi eru um að fólk á leigumarkaði þurfi ítrekað að flytja milli hverfa eða sveitarfélaga. Slíkt getur haft verulega neikvæð áhrif á líðan og velferð barna, sem þurfa þá að skipta oft um skóla, missa tengsl við vini o.s.frv.

Umboðsmaður barna telur brýnt að bæta húsnæðismálin hér á landi, meðal annars með því að styrkja stöðu foreldra á leigumarkaði. Yfirvöldum ber að setja hagsmuni barna í forgang og sjá til þess öll börn og fjölskyldur þeirra hafi tök á því að búa við aðstæður þar sem öryggi, stöðugleiki og velferð þeirra eru tryggð. Umboðsmaður hefur þegar rætt þessi mál á fundi með félags- og húsnæðismálaráðherra og mun halda áfram að koma þessum ábendingum á framfæri þegar tækifæri gefast.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna