3. október 2022

Börn fanga - hin þöglu fórnarlömb fangelsunar

Ný skýrsla umboðsmanns barna um greiningu á réttindum barna fanga og stöðu þeirra er komin út. 

Embætti umboðsmanns barna hefur það hlutverk að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Samkvæmt lögum um umboðsmann barna skal embættið afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila, sem leggja á til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar, í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Embættið hefur lagt sérstaka áherslu á hópa barna sem lítið hefur verið fjallað um í opinberri umræðu.

Í ár hefur embættið lagt áherslu á börn sem eiga foreldra í fangelsi, en liður í því er úttekt á réttindum og stöðu þessara barna, en úttektin mun liggja til grundvallar tillögum um aðgerðir sem miða að því að bæta stöðu þessa hóps. Leitað var samstarfs við þau Helga Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði og Ragnheiði Bragadóttur, prófessor í lögfræði um umsóknir í Nýsköpunarsjóði námsmanna og fengust tveir styrkir til verkefnisins síðastliðið vor.

Verkefnið unnu þau Lilja Katrín Ólafsdóttir, nýútskrifaður lögfræðingur frá Háskóla Íslands, og Daníel Guðjónsson, meistaranemi í afbrotafræði við háskólann í Lundi. Annars vegar er um að ræða úttekt á íslenskri löggjöf og framkvæmd, þar sem gerður er samanburður við hin Norðurlöndin og hins vegar er um að ræða rannsókn á reynslu og viðhorfum fanga sem eiga börn.

Ljóst er af niðurstöðum þessa verkefnis að börn sem eiga foreldra í fangelsum eru gleymdur hópur og það er von umboðsmanns barna að niðurstöður verkefnisins verði til þess að ráðist verði í þær úrbætur sem nauðsynlegar eru, til þess að tryggja þessum börnum nauðsynlegan stuðning og viðunandi aðstæður til heimsókna og umgengni við foreldra á meðan á afplánun stendur. 

Skýrslurnar má nálgast á hlekknum hér fyrir neðan.

Börn fanga - hin þöglu fórnarlömb fangelsunar - skýrsla


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica