2. október 2025

Bið barna eftir þjónustu, nýjar tölur

Umboðsmaður barna birtir nú í áttunda sinn upplýsingar um bið barna eftir þjónustu

Löng bið eftir þjónustu við börn hefur verið viðvarandi vandamál til margra ára. Með það að markmiði að varpa ljósi á raunverulega stöðu barna hefur umboðsmaður barna, frá því í desember 2021, staðið fyrir reglulegri upplýsingaöflun um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu hjá tilteknum aðilum.

Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barna- og fjölskyldustofa, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsumiðstöð barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna- og unglingageðdeild LSH, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilsuskóli Barnaspítalans og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Þar að auki birtir embættið nú í fyrsta skipti upplýsingar um bið eftir sálfræðiþjónustu hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Það eru heilbrigðisstofnanir Norðurlands, Suðurlands, Vesturlands, Suðurnesja, Austurlands og Vestfjarða.

Umboðsmaður barna starfar samkvæmt lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 og hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi barna. Liður í því er að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila. Hluti af þeirri vinnu er að gera aðgengilegar á einum stað upplýsingar um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu hverju sinni. Upplýsingarnar eru uppfærðar á sex mánaða fresti til að fylgjast með þróuninni og er þetta í áttunda skiptið sem þær eru birtar.

Dæmi um niðurstöður frá því í september 2025:

  • Hjá Geðheilsumiðstöð barna bíða 2498 börn og 2211 börn hafa beðið lengur en þrjá mánuði. Börnum sem bíða eftir þjónustu hjá Geðheilsumiðstöð barna hefur fjölgað töluvert frá því umboðsmaður barna kallaði fyrst eftir upplýsingum um bið barna eftir þjónustu í desember 2021 en þá biðu 738 börn.
  • Hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð bíða 717 börn eftir greiningu og 674 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Þeim börnum sem bíða eftir þjónustu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar hefur fjölgað frá því í desember 2021. Þá biðu 326 börn og af þeim höfðu 320 beðið í þrjá mánuði eða lengur.
  • Birt eru tvö dæmi barna sem bíða eftir frumgreiningu vegna gruns um ADHD. Miðað við upplýsingar frá foreldrum og að því gefnu að biðtími haldist nær óbreyttur má gera ráð fyrir 3,5 og 4,5 ára bið eftir greiningu.
  • Það bíða 478 börn eftir sálfræðiþjónustu hjá heilsugæslum á landinu öllu. Þar af hafa 323 börn beðið lengur en 3 mánuði.
  • Bið eftir þjónustu göngudeildar BUGL hefur lengst aðeins frá því í febrúar og fleiri börn bíða. Í byrjun september biðu 35 börn eftir þjónustu göngudeildar BUGL og meðalbiðtími var 1,9 mánuður. Í febrúar biðu 16 börn og meðalbiðtími var 1, 6 mánuður.
  • Aðeins 8 börn bíða eftir þjónustu MST teymis en á sama tíma fyrir ári biðu 24 börn. Meðalbiðtími eru 51,6 dagar en í september 2024 var meðalbiðtími 89 dagar.
  • Þann 31. ágúst beið ekkert barn eftir þjónustu Stuðla og aðeins eitt barn eftir að komast inn á Blönduhlíð annars vegar og Bjargey hins vegar.

Það er von umboðsmanns barna að birting þessara upplýsinga muni varpa ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvatning til aðgerða og úrbóta. Söfnun og birting upplýsinganna er jafnframt liður í því hlutverki umboðsmanns að stuðla að frekari innleiðingu Barnasáttmálans.

Að mati umboðsmanns barna þurfa stjórnvöld að grípa til aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir að börn þurfi að bíða eftir þjónustu sem þau þarfnast og eiga rétt á. Það er til að mynda ótækt að biðtími barna eftir heilbrigðisþjónustu samræmist ekki þeim almennu viðmiðum sem embætti landlæknis hefur sett um biðtíma en samkvæmt þeim á skoðun hjá sérfræðingi að fara fram innan 30 daga frá því að beiðni er lögð fram og meðferð að fara fram innan 90 daga frá greiningu. Þá er ljóst að ef lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna eiga að ná markmiðum um snemmtækan stuðning þarf að koma í veg fyrir að langir biðlistar myndist eftir þjónustu. Samkvæmt 24. gr. Barnasáttmálans eiga börn rétt á að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja og ber aðildarríkjum sáttmálans að kappkosta við að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu. Þá ber jafnframt að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þess að ná eðlilegum þroska, sbr. 6. gr. Barnasáttmálans.

Snemmtæk íhlutun og samþætt þjónusta í þágu farsældar barna 

Börn eiga rétt á að þörfum þeirra sé mætt hvort sem formleg greining liggur fyrir eða ekki. Þá gera farsældarlögin ráð fyrir því að einstaklingsbundinn stuðningur sé veittur í samræmi við frummat á þörfum barns og formleg greining sé ekki forsenda stuðnings. Sá réttur dregur hins vegar ekki úr mikilvægi þess að börn fái nauðsynlega greiningu án þess að þurfa að bíða eftir henni í lengri tíma, enda er rétt greining forsenda þess að börn fái viðeigandi meðferð og stuðning. Þá er ekki aðeins bið eftir greiningu, það er einnig bið eftir meðferð og þjálfun t.d. hjá sálfræðingum og talmeinafræðingum.

Bið eftir skimun og frumgreiningu

Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um að upplýsingar um bið eftir þjónustu hjá m.a. Ráðgjafar- og greiningarstöð og Geðheilsumiðstöð barna varpi aðeins ljósi á hluta þess tíma sem börn þurfi að bíða eftir greiningu vegna m.a. gruns um ADHD og einhverfu. Áður en börn fara á biðlista hjá áðurnefndum aðilum hafa börnin þurft að bíða eftir skimun og frumgreiningu. Til þess að ná að birta heildarbiðtíma fékk umboðsmaður leyfi til þess að birta sögu tveggja barna sem bíða nú eftir frumgreiningu.

Bið barna eftir frumgreiningu vegna gruns um ADHD

Umboðsmaður barna fær reglulega erindi frá foreldrum barna sem bíða eftir þjónustu, þar á meðal greiningu vegna gruns um ADHD. Með það að markmiði að varpa ljósi á heildarbiðtíma fékk umboðsmaður leyfi til þess að byggja raunveruleg dæmi á stöðu tveggja barna. Dæmin byggja á upplýsingum frá foreldrum þeirra. Umboðsmaður barna óskaði eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg um bið barna eftir frumgreiningu í Reykjavík en fékk þau svör að ekki væri hægt að draga þær upplýsingar út eftir því hvort grunur væri um einhverfu eða ADHD.

Dæmi um barn sem bíður eftir frumgreiningu vegna gruns um ADHD hjá Austurmiðstöð

Árið 2023 var Anna 9 ára og í 4. bekk í grunnskóla. Anna var farin að eiga mjög erfitt með að læra og einbeita sér í skólanum. Þessir erfiðleikar voru farnir að hafa mikil áhrif á hennar líðan og sjálfsmynd. Í janúar 2023 var óskað eftir skimun vegna gruns um ADHD. Foreldrar Önnu fengu viðtal vegna skimunar í byrjun mars 2023. Í lok mars 2023 fengu Anna og foreldrar hennar þær upplýsingar að þörf væri á frumgreiningu. Foreldrum Önnu hefur verið tjáð að hún muni ekki komast að í frumgreiningu hjá Austurmiðstöð fyrr en í fyrsta lagi vorið 2026. Þá verður Anna að klára 7. bekk. Ef niðurstaða frumgreiningar verður að Anna þurfi að fara í greiningu mun hún fara á biðlista hjá Geðheilsumiðstöð barna. Í september 2025 var meðalbiðtími hjá Geðheilsumiðstöð vegna gruns um ADHD 12.7 mánuðir. Að óbreyttu mun Anna þess vegna ekki vera komin með greiningu fyrr en í júní 2027. Þá verður Anna að klára 8. bekk. Anna þarf í heildina að bíða í fjögur og hálft ár eftir greiningu vegna gruns um ADHD.


Dæmi um barn sem bíður eftir frumgreiningu vegna gruns um ADHD hjá Suðurmiðstöð

Símon er 5 ára og mun byrja í skóla haustið 2026. Hann á erfitt með að halda athygli, fylgja fyrirmælum og truflast auðveldlega af utanaðkomandi áreiti. Fagaðilar hafa mælt með að hann fari í greiningu en Símon hefur verið í talþjálfun, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Foreldrar hans hafa fengið þær upplýsingar að bið eftir greiningu vegna gruns um ADHD hjá Suðurmiðstöð séu 16 mánuðir. Þegar frumgreining liggur fyrir tekur við bið hjá Geðheilsumiðstöð barna og foreldrar Símonar hafa fengið þær upplýsingar að hann muni þurfa að bíða í 24 mánuði eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöð. Þá hefur þeim einnig verið tjáð að ekki sé hægt að vísa beiðni til Geðheilsumiðstöðvar fyrr en hann verði orðinn 7 ára. Að óbreytu má því gera ráð fyrir að Símon þurfi að bíða í um 3,5 ár eftir greiningu á ADHD, þá er viðbúið að biðin verði enn lengri ef beiðni verður ekki send til Geðheilsumiðstöðvar fyrr en hann nær 7 ára aldri.


Nýjar upplýsingar og samanburður

Upplýsingar um bið barna eftir þjónustu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Til og með 30. júní 2025 höfðu 40 börn stöðu brotaþola í kynferðisbrotamáli og 110 börn í ofbeldisbrotamáli. Þá höfðu 12 börn stöðu sakbornings í kynferðisbrotamáli og 122 börn í ofbeldisbrotamáli. Það er mikið áhyggjuefni hversu mörg börn hafa haft stöðu sakbornings í ofbeldismáli það sem af er ári. Til samanburðar má nefna að allt árið 2024 höfðu 150 börn stöðu sakbornings í ofbeldisbrotamáli. Umboðsmaður barna hefur áður vakið athygli á því að ofbeldisbrotamálum þar sem börn hafa haft stöðu sakbornings hafi fjölgað nokkuð jafnt og þétt á seinustu árum en árið 2015 höfðu 74 börn stöðu sakbornings í ofbeldisbrotamáli. Þetta er alvarleg þróun og það er mikilvægt að stjórnvöld greini hvaða orsakir liggi þessari aukningu til grundvallar til þess að hægt sé að grípa til viðeigandi mótvægisaðgerða. Við allar tölur frá lögreglunni þarf að gera fyrirvara þar sem um er að ræða bráðabirgðatölur sem geta tekið breytingum aftur í tímann.

Barna- og fjölskyldustofa

Upplýsingar um bið barna eftir úrræðum á vegum BOFS eru frá 31. ágúst 2025.

MST - Það biðu 8 börn eftir þjónustu MST teymis og meðalbiðtími var 51,6 dagur. Þá hafi 1 barn beðið lengur en þrjá mánuði.

MST er meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda.

Stuðlar – Ekkert barn beið eftir þjónustu meðferðardeildar Stuðla né neyðarvistun. Þó er meðalbiðtími sagður 15 dagar hjá meðferðardeild.

Stuðlar eru meðferðarstöð fyrir börn og unglinga frá 12 til 18 ára, Stuðlar skiptast í tvær deildir, neyðarvistun og meðferðardeild.

BlönduhlíðÞað beið 1 barn eftir að komast í meðferð í Blönduhlíð, meðalbiðtími var 64 dagar og ekkert barn hafði beðið lengur en þrjá mánuði.

Blönduhlíð er meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga sem rekið er á Vogi.

Bjargey - Það beið 1 barn eftir plássi á Bjargey og meðalbiðtími var 21 dagur.

Bjargey er langtímameðferðarheimili sem er ætlað stúlkum og kynsegin. Meginmarkmið meðferðarheimilisins er einkum að veita sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika og vímuefnaneyslu.

Styrkt fóstur - Það biðu 8 börn eftir því að komast í styrkt fóstur og meðalbiðtími var 111 dagar, 4 börn hafði beðið lengur en þrjá mánuði.

Styrkt fóstur er þegar þörf er fyrir sérstaka umönnun og þjálfun barns á fósturheimili í takmarkaðan tíma, að hámarki tvö ár. Gjarnan er um að ræða börn sem eiga við íþyngjandi tilfinninga- og hegðunarvanda að etja sem ekki hefur tekist að vinna bug á með öðrum og vægari hætti.

SÓK – Það beið 1 barn eftir sálfræðiþjónustu hjá Barna- og fjölskyldustofu vegna óviðeigandi kynhegðunar. Meðalbiðtími voru 42 dagar og eitt barn hafði beðið lengur en 3 mánuði.

SÓK-meðferð er sálfræðiþjónusta fyrir börn sem þurfa á aðstoð að halda vegna óviðeigandi eða skaðlegrar kynhegðunar. Barnaverndarþjónustur sveitarfélaga geta vísað áfram í úrræðið.

Barnahús

Þann 31. ágúst 2025 biðu 25 börn eftir meðferð í Barnahúsi. Þau brot sem börnin hafa orðið fyrir eru flokkuð eftir alvarleika í flokka 1 og 2, meðalbiðtími í flokki 1 var 98 dagar og 52 dagar í flokki 2. Þá höfðu 16 börn beðið lengur en þrjá mánuði.

Ráðgjafar- og greiningarstöð

Þann 18. september sl. biðu 419 börn á leikskólaaldri eftir greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð, meðalbiðtími var 25,7 mánuðir og 395 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Jafnframt biðu 298 börn í grunn- og framhaldsskólum eftir greiningu. Meðalbiðtími í þeim hópi var 21 mánuður og 279 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Í heildina biðu því 717 börn og 674 höfðu beðið lengur en 3 mánuði.

Þeim börnum sem bíða eftir þjónustu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar hefur fjölgað þó nokkuð frá því umboðsmaður kallaði fyrst eftir þessum upplýsingum í desember 2021. Þá biðu 226 börn hjá sviði yngri barna (0-6 ára), meðalbiðtími var 19 mánuðir og 100 börn hjá sviði eldri barna (6-18 ára) þar sem meðalbiðtími var 13 mánuðir.

Hlutverk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar sem leitt geta til fötlunar síðar á ævinni fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra.

Geðheilsumiðstöð barna

Þann 9. september biðu 2498 börn hjá Geðheilsumiðstöð barna og 2211 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Þar af biðu 750 börn eftir athugun vegna gruns um einhverfu og meðalbiðtími var 19,3 mánuðir. Þá biðu 1697 börn eftir athugun vegna gruns um ADHD með eða án einhverfu og 1560 af þeim höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Börnum sem bíða eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna hefur fjölgað töluvert frá því umboðsmaður barna kallaði fyrst eftir upplýsingum um bið barna eftir þjónustu í desember 2021 en þá biðu 738 börn.

Geðheilsumiðstöð barna (GMB) veitir 2. stigs heilbrigðisþjónustu á landsvísu fyrir börn að 18 ára aldri. Miðstöðin sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga.

Barna- og unglingageðdeild (BUGL)

Þann 19. september biðu 35 börn eftir þjónustu göngudeildar BUGL. Meðalbiðtími var 1,9 mánuður og sjö börn höfði beðið lengur en þrjá mánuði. Þar að auki biðu 3 börn eftir átröskunarmeðferð göngudeildar, engin bið var eftir meðferð þar.

Göngudeild barna- og unglingageðdeildar veitir börnum og unglingum að 18 ára aldri þjónustu vegna geð- og þroskaraskana.

Heilsuskólinn

Þann 19. september beið 81 barn eftir að komast að hjá Heilsuskólanum. Meðalbiðtími var 9,7 mánuður og 50 börn höfðu beðið lengur en 3 mánuði.

Heilsuskóli Barnaspítalans þjónar öllu landinu og aðstoðar börn og fjölskyldur þeirra sem eru 2,5 staðalfrávikum fyrir ofan meðalkúrfu í BMI eða börn sem hafa verið með mikla þyngdaraukningu á stuttum tíma. Í Heilsuskólanum eru fjölskyldum kenndar aðferðir til að takast á við þyngdarstjórnun og viðhalda breytingum ásamt því að bæta lífsgæði til lengri tíma. Leitast er við að hvetja börnin áfram með styðjandi hætti ásamt því að veita ráðgjöf um mataræði og hreyfingu.

Sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum

Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum veita börnum meðferð vegna hegðunar- og tilfinningavanda ásamt því að veita foreldrum þeirra ráðgjöf. Um er að ræða 1. línu sálfræðiþjónustu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Um miðjan september biðu 195 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og meðalbiðtími var 149 dagar. Þá höfðu 138 börn beðið lengur en þrjá mánuði. Tekist hefur að vinna nokkuð niður biðlista hjá Heilsugæslunni en í ágúst 2022 biðu 618 börn og 486 höfðu beðið í þrjá mánuði eða lengur.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Um mánaðarmótin ágúst - september sl. biðu 113 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá HSN, meðalbiðtími var 119 dagar og 72 börn höfðu þá beðið lengur en 3 mánuði. Biðtími hjá HSN hefur lengst á seinustu árum. Þann 13. september 2024 beið 41 barn, þau börn sem biðu lengst þurftu að bíða í um 100 daga og tæplega 15 börn höfðu beðið lengur en þrjá mánuði.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Þann 15. september sl. biðu 106 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá HSU. Meðalbiðtími var 2 til 12 mánuðir. HSU sinnir 9 stöðvum sem eru staðsettar frá Þorlákshöfn að Höfn. Á sumum stöðvum er styttri bið eftir sálfræðiþjónustu en í Árborg sem er fjölmennasta svæðið er biðtíminn lengstur.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands

Þann 15. september biðu 20 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá HVE. Meðalbiðtími var 135 dagar og 6 börn höfðu beðið lengur en 3 mánuði.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Þann 15. september biðu 15 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá HSS. Meðalbiðtími var 120 dagar og 7 börn höfðu beðið lengur en 3 mánuði.

Heilbrigðisstofnun Austurlands

Þann 15. september biðu 25 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá HSA. Meðalbiðtími var 150 dagar og 17 börn höfðu beðið lengur en 3 mánuði.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Þann 15. september biðu 4 börn eftir þjónustu sálfræðings hjá HVEST. Meðalbiðtími var 28-70 dagar og ekkert barn hafði beðið lengur en 3 mánuði.

Born

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu

Í september sl. biðu 390 mál meðferðar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli barnalaga og hjúskaparlaga. Þessi mál varða hagsmuni 464 barna og af þeim hafa 218 börn beðið lengur en 3 mánuði. Í upplýsingum frá sýslumanni kemur fram að ómögulegt sé að veita svör um meðalbiðtíma þar sem biðtími mála er mjög misjafn, m.a. eftir málategundum. Þannig eru sum mál tekin til afgreiðslu innan nokkurra daga en önnur þurfa að bíða. Það mál sem hefur beðið lengst var móttekið hjá embættinu þann 18. febrúar 2025. Þá hefur fjöldi mála þar sem börn eiga í hlut og beðið er sáttameðferðar hjá sýslumönnum á öllu landinu aukist og bíða nú 160 mál en þau voru 102 í september 2023 og 58 í febrúar það sama ár. Þessi 160 mál varða hagsmuni 203 barna og af þeim hafa 57 börn beðið lengur en þrjá mánuði. Meðalbiðtími eftir sáttameðferð eru 6 mánuðir, þetta á aðeins við um þau mál sem njóta ekki forgangs s.s. dagsektarmál, aðfararmál o.fl.

Það biðu 5 mál meðferðar sem stofnað var til á grundvelli ætleiðingalaga. Meðalbiðtími er 5,5 mánuðir, hér er um að ræða meðalbiðtíma sem málin hafa þegar beðið. Elsta málið hefur beðið í átta mánuði. Þess má vænta að málin komi öll til afgreiðslu fljótlega, þannig að meðalbiðtími þeirra verði sá sem er tilgreindur.

Þá bíða 14 önnur mál sérfræðinga sem stofnað hefur verið til á grundvelli barnalaga nr. 76/2003, málin varða hagsmuni 17 barna og meðalbiðtími er 4 mánuðir. Af þessum 17 börnum hafa mál 3 barna beðið lengur en þrjá mánuði.

Samkvæmt 74. gr. barnalaga nr. 76/2003 getur sýslumaður óskað eftir því við sérfræðing að taka viðtal við barn og gera um það skýrslu. 5 slík mál biðu meðferðar í september, fjöldi barna í þessum málum er 6 og meðalbiðtími 2 mánuðir. Eitt barn hefur þurft að bíða lengur en 3 mánuði. Hér er um að ræða mál alls landsins.

Á fjölskyldusviði embættisins eru meðal annars meðhöndluð erindi foreldra er varða framfærslu barna, umgengni, sambúðarslit, skilnað, skipta búsetu, forsjá, lögheimili eða utanlandsferð. Við meðferð þessara mála kann að reyna á sáttameðferð, ráðgjöf og fleiri úrræði samkvæmt barnalögum. Þá eru meðhöndluð þar mál á grundvelli ættleiðingarlaga og lögræðislaga. Börnin sjálf eru ekki aðilar þessara mála, í merkingu stjórnsýslulaga, en málin varða hagsmuni þeirra.

Talmeinafræðingar

Sjúkratryggingar Íslands gerðu úttekt á stöðu barna sem biðu eftir þjónustu talmeinafræðinga í desember 2021 en þá voru 3.701 barn skráð á biðlista, þar af voru 947 börn skráð á fleiri en einum stað. Flest börn á biðlistum höfðu beðið í 0 – 6 mánuði (eða um 30%) en um 11% höfðu beðið lengur en 2 ár. Engar haldbærar upplýsingar liggja fyrir um hvernig þróunin hefur verið frá árinu 2021 þar sem biðlistar og kerfi eru ekki samræmd. Að mati umboðsmanns barna ber stjórnvöldum að grípa til aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir að börn þurfi að bíða eftir þjónustu talmeinafræðinga. Þar til því markmiði verður náð ber stjórnvöldum að sjá til þess að hægt sé að nálgast upplýsingar með reglubundnum hætti um það hversu mörg börn séu á biðlistum eftir þessari þjónustu. Slík upplýsingaöflun er grundvallarforsenda þess að hægt sé að leggja mat á stöðuna hverju sinni og grípa til viðeigandi aðgerða.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica