14. september 2022

Bið barna eftir þjónustu - fréttatilkynning

 Umboðsmaður barna hefur staðið fyrir upplýsingaöflun um fjölda barna sem bíða eftir þjónustu hjá ýmsum aðilum. 

Umboðsmaður barna hefur staðið fyrir upplýsingaöflun um fjölda barna sem bíða eftir þjónustu hjá ýmsum aðilum. Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barna og fjölskyldustofa, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsumiðstöð barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna og unglingageðdeild LSH, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og Heilsuskóli Barnaspítala hringsins.

Umboðsmaður barna starfar samkvæmt lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 og hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi barna. Liður í því er að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila. Tilgangurinn með upplýsingaöfluninni er að gefa raunhæfa mynd af stöðunni hverju sinni.

Umboðsmaður barna safnaði fyrst saman upplýsingum í árslok 2021 og hefur embættið nú aflað upplýsinga í annað sinn frá sömu aðilum, ásamt því að bæta við upplýsingum frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, Heilsuskóla Barnaspítalans og upplýsingum um heildarfjölda barna sem bíða eftir þjónustu talmeinafræðinga frá Sjúkratryggingum Íslands.

Nýjar upplýsingar um bið eftir þjónustu.

Eldri tölur frá desember 2021

Samanburður

Þegar bornar eru saman upplýsingar frá síðustu upplýsingaöflun og upplýsingum frá lok árs 2021 má sjá að meðalbiðtími eftir þjónustu á göngudeild, transteymi og átröskunarteymi Barna og unglingageðdeildar LSH hefur styst, enda var mikið álag á deildunum eftir covid.

Þá var fjöldi barna sem brotaþolar óvenju hár árið 2021, bæði í ofbeldismálum og kynferðisbrotamálum. Skýringar á því má m.a. rekja til mikillar fjölgunar mála sem vörðuðu kynferðilsegar myndsendingar (sexting).

Fjöldi barna sem bíða eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar og greiningarstöð hefur aukist á báðum sviðum, (yngra barna svið 0 -5 ára börn og eldra barna svið 6 – 18 ára börn) en tilvísanir til stofnunarinnar voru óvenju margar á seinasta ári. Hins vegar hefur meðalbiðtími í mánuðum styst úr 19 mánuðum í 16,2 mánuði á sviði yngri barna. Biðtími á sviði eldri barna hefur hins vegar aukist úr 12 -14 mánuðum í 15 mánuði. Samtals eru 393 börn á bið eftir þverfaglegri greiningu.

Fjöldi barna á bið hjá Geðheilsumiðstöð barna (áður Þroska- og hegðunarstöð) hefur aukist úr 738 í 830 börn en meðalbiðtími er enn sá sami, eða 12 – 14 mánuðir eftir ADHD greiningum en bið eftir einhverfugreiningu er 22 – 24 mánuðir að meðaltali.

Fjöldi mála sem bíða meðferðar Sýslumannsins á Höfuðborgarsvæðinu á grundvelli barnalaga og hjúskaparlaga hefur aukist en veigamesta skýringin á því er sú að færri lögfræðingar voru við störf á sviðinu það sem af er árinu 2022 heldur en árið 2021. Nýverið var bætt við tveimur lögfræðingum og áætlað er að ná niður fjölda mála sem bíða meðferðar. Þá hefur fjöldi mála og barna sem bíða eftir sáttameðferð hjá sýslumönnum um land allt minnkað umtalsvert eða úr 144 börnum í 9 börn og meðalbiðtími eftir sáttameðferð stendur nú í núlli og hefur minnkað úr 2,5 mánuðum frá upplýsingaöflun frá lok árs 2021.

Nýir samstarfsaðilar

Heilsuskólinn

Heilsuskóli Barnaspítalans þjónar öllu landinu og aðstoðar börn og fjölskyldur þeirra sem eru 2,5 staðalfrávikum fyrir ofan meðalkúrfu í BMI eða börn sem hafa verið með mikla þyngdaraukningu á stuttum tíma. Í Heilsuskólanum eru fjölskyldum kenndar aðferðir til að takast á við þyngdarstjórnun og viðhalda breytingum ásamt því að bæta lífsgæði til lengri tíma. Leitast er við að hvetja börnin áfram með styðjandi hætti ásamt því að veita ráðgjöf um mataræði og hreyfingu.

Meðalbiðtími barna í mánuðum eftir þjónustu frá Heilsuskólanum er 17 mánuðir og eins og stendur eru samtals 110 börn sem bíða eftir þjónustunni. Fjöldinn sem tekinn hefur verið inn undanfarin 4 skólaár í Heilsuskólann er í kringum 75 börn.

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík, Mosfellsbær, Kópavogur, Hafnafjörður, Garðabær og Seltjarnarnes) tók saman biðtíma hjá börnum eftir sálfræðiþjónustu á heilsugæslunum. Sálfræðingar á heilsugæslustöðvum veita börnum meðferð vegna hegðunar- og tilfinningavanda ásamt því að veita foreldrum þeirra ráðgjöf og þarf læknir á heilsugæslustöð að senda tilvísun til sálfræðings til nánara mats ásamt því að upplýsa um áætlaðan biðtíma.

Meðalbiðtími barna eftir því að komast að hjá sálfræðingi er 168 dagar og samtals eru 618 börn á bið eftir slíkri þjónustu á Höfuðborgarsvæðinu.

Biðlistar hjá talmeinafræðingum

Sjúkratryggingar Íslands gerðu nýverið úttekt á stöðu barna á biðlistum hjá talmeinafræðingum af beiðni heilbrigðisráðuneytisins. Slíkir biðlistar eru ekki samræmdir og því erfitt að meta raunverulega stöðu hverju sinni og er það ekki gert með reglubundnum hætti. Sjúkratryggingar fengu innsendar upplýsingar frá öllum talmeinafræðingum á landinu til að meta stöðuna í desember 2021 og eru tölur um stöðu barna sem bíða eftir þjónustu talmeinafræðings frá þeim tíma. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að birta tölurnar þrátt fyrir að þær séu frá lok síðasta árs til að gefa tilfinningu fyrir stöðunni sem skapast hefur í málefnum barna sem þurfa á þjónustu talmeinafræðinga að halda.

Alls voru 3.701 barn skráð á biðlista hjá talmeinafræðingum í desember 2021. Þar af voru 947 skráð á fleiri en einum stað. Flest börn á biðlistum höfðu beðið í 0 – 6 mánuði (eða um 30%) en um 11% höfðu verið á biðlista lengur en 2 ár. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica