10. febrúar 2022

Barnaþing haldið í mars

Barnaþingi sem halda átti dagana 18. - 19. nóvember síðastliðinn hefur verið fundið ný dagsetning. Þingið verður haldið í Silfurbergi í Hörpu 3.- 4. mars næstkomandi.

Barnaþing verður haldið í Silfurbergi í Hörpu dagana 3.- 4 mars en því var frestað í nóvember síðastliðnum vegna Covid. Þingið hefst fimmtudaginn 3. mars með hátíðardagskrá kl. 15. Á hátíðardagskránni verður boðið upp á lifandi dagskrá með virkri þátttöku barna og fullorðinna. Þann 4. mars fara svo fram umræður með þjóðfundarfyrirkomulagi, þar sem börnin munu hefja umræðuna um morguninn á vinnuborðum en strax eftir hádegi mæta fullorðnir boðsgestir til að taka þátt í áframhaldandi umræðu um þau umfjöllunarefni sem börnin hafa valið. Rúmlega 170 börn á aldrinum 11-15 ára höfðu skráð sig á þingið í nóvember s.l. og standa vonir til að flest þeirra komist á barnaþingið í mars. Verndari barnaþings er Vigdís Finnbogadóttir.

Þegar börn eru kölluð til samráðs skiptir miklu að búið sé svo um hnútana að þau geti raunverulega sagt það sem þeim finnst, að hlustað sé á skoðanir þeirra og tekið mark á þeim.

Barnaþing er nú haldið í annað sinn en samkvæmt lögum um umboðsmann barna er honum ætlað að halda þing um málefni barna á tveggja ára fresti og bjóða til þingsins alþingismönnum, fulltrúum sveitarfélaga, stofnana, félagasamtaka og atvinnulífsins. Í aðdraganda þessa barnaþings hafa barnaþingmenn valið þrjá málaflokka sem þau hyggjast leggja áherslu á, sem eru mannréttindi, umhverfismál og menntun. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica